Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2018 - Úrskurður

Mál nr. 9/2018

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

íslenska ríkinu

 

Sjúkratryggingar. Valdsvið. Frávísun.

Máli kæranda var vísað frá kærunefnd jafnréttismála þar sem erindi hennar fullnægði ekki lagaskilyrðum til að kærunefndin tæki það til efnislegrar meðferðar og kvæði upp úrskurð samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008, sbr. 2. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 220/2017.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 8. febrúar 2019 er tekið fyrir mál nr. 9/2018 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, móttekinni 17. desember 2018, kærði A, ákvörðun um upphafstíma sjúkratryggingar hennar á Íslandi samkvæmt lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Kærandi fer fram á að því verði beint til ríkisins á grundvelli laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að þeim reglum sem gildi um sjúkratryggingar á sex mánaða biðtíma verði breytt þannig að konur og karlar sem fái dvalarleyfi á grundvelli sambúðar við íslenskan ríkisborgara og barnsföður eða barnsmóður sitji við sama borð að því er varði „sjálfsagt heilsufarsöryggi“.

    MÁLAVEXTIR OG MÁLSMEÐFERÐ

  3. Kærandi, sem er rússneskur ríkisborgari, flutti til Íslands 4. janúar 2018 og var þá þunguð. Áður en kæra barst kærunefnd jafnréttismála hafði hún óskað eftir því við Sjúkratryggingar Íslands að hún fengi undanþágu frá sex mánaða búsetuskilyrði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar til þess að teljast sjúkratryggð hér á landi vegna kostnaðar tengdum þungun hennar. Þeirri beiðni var hafnað og upphafstími sjúkratryggingar kæranda á Íslandi því ákvarðaður frá 4. júlí 2018. Kærandi kærði þá niðurstöðu til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru móttekinni 6. ágúst 2018. Með úrskurði, dagsettum 7. nóvember 2018, staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands. Úrskurðarnefndin lagði til grundvallar að ekki væru frekari heimildir í lögum eða reglugerð fyrir Sjúkratryggingar Íslands til að „víkja frá skýru ákvæði 1. mgr. 10. gr. laga [nr. 112/2008 um sjúkratryggingar] og veita ótryggðum einstaklingi sjúkratryggingu á meðan biðtíma stendur jafnvel þótt tryggingarrétturinn væri eingöngu takmarkaður við nánar tilgreinda sjúkraþjónustu, s.s. tengda þungun“. Nefndin bætti því við að varðandi meint brot vátryggingafélags á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þá félli það utan valdsviðs úrskurðarnefndar velferðarmála að fjalla um slíkan ágreining. Kærandi gæti aftur á móti leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála teldi hún að ákvæði laga nr. 10/2008 hefðu verið brotin.
  4. Í framhaldi af þessu sendi kærandi fyrrnefnt erindi sitt til kærunefndar jafnréttismála.
  5. Í erindi sínu fer kærandi fram á að kærunefnd jafnréttismála „beini því til ríkisins á grundvelli laga nr. 10/2008 að breyta þeim reglum sem gilda um sjúkratryggingar á sex mánaða biðtíma“ í því skyni að jafna stöðu kvenna og karla. Í erindinu lýsir kærandi því afdráttarlaust að erindi hennar beinist ekki að því vátryggingafélagi sem selt hefði henni tryggingu á áðurnefndu sex mánaða tímabili. Þess í stað telji kærandi að íslenska ríkið sé „gerandinn“ í málinu. Í þeim efnum ritar hún að ekki sé vefengt að málsmeðferð Sjúkratrygginga Íslands hafi verið í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og hefðir sem lúti að framkvæmd sjúkratryggingamála. Vandinn felist aftur á móti í því að umrædd framkvæmd feli í sér mismunun á grundvelli kynferðis, sem sé ólögleg. Því þurfi að breyta lögum um sjúkratryggingar, reglum og hefðum í stjórnsýsluframkvæmd.
  6. Með erindi, dagsettu 21. desember 2018, fór kærunefnd jafnréttismála þess á leit við kæranda að hún skýrði nánar að hvaða aðila á vettvangi íslenska ríkisins kæran beindist gegn, til dæmis hvort kröfunni væri beint gegn löggjafanum, heilbrigðisráðherra eða tiltekinni undirstofnun í stjórnsýslunni.
  7. Með svari, sendu með tölvupósti 2. janúar 2019, tjáði kærandi nefndinni að hún teldi sér ekki unnt að gera nánari grein fyrir því að hverjum kæran beinist. Kærandi sé enda ólöglærð og hafi takmarkaða þekkingu á innviðum íslenskrar stjórnsýslu. Þá fái hún heldur ekki séð að það þurfi að liggja fyrir hver sé besta leiðin til þess að leiðrétta tiltekna birtingarmynd kynjamisréttis áður en hægt sé að taka afstöðu til þess hvort um kynjamisrétti sé að ræða í skilningi íslenskra laga.
  8. Kærandi tekur jafnframt fram í svari sínu að hún vilji fyrst og fremst fá úrlausn sinna mála og vísar til þess að umtalsverður kostnaður hafi fallið á hana vegna mæðraeftirlits á biðtíma. Þá bendir hún á að hefði íslenski ríkisborgarinn verið móðirin en sá áritunarskyldi í sambúðinni faðirinn hefði íslenska ríkið borið kostnaðinn. Þetta sé kjarni málsins. Óviðunandi sé að búa við hættu á persónulegu gjaldþroti í gegnum alla meðgönguna. Þá sé það ekki íslenska ríkinu sæmandi að bjóða móður upp á slíkt þegar faðir í sömu stöðu þurfi ekki að glíma við þennan vanda og þegar landslög geri þá kröfu að kynjunum sé gert jafn hátt undir höfði.

    NIÐURSTAÐA

  9. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Nánar er fjallað um réttarstöðu málsaðila við málsmeðferð fyrir nefndinni í 4. til 7. mgr. 5. gr. laganna. Þar er til dæmis fjallað ítarlega um bindandi áhrif úrskurða nefndarinnar fyrir viðkomandi málsaðila og hvernig við þurfi að bregðast ef málsaðilar vilja ekki una við niðurstöðuna og bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla.
  10. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 112/2008 segir að sjúkratryggður sé sá sem búsettur sé á Íslandi og hafi verið það að minnsta kosti síðustu sex mánuðina áður en bóta sé óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Jafnframt kemur fram í ákvæðinu að með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laganna er ráðherra heimilt að setja reglugerð þar sem kveðið verði á um undanþágur frá sex mánaða búsetuskilyrðinu. Sú heimild hefur verið nýtt með gildandi reglugerð nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá. Í 8. gr. reglugerðarinnar er að finna heimild til að veita undanþágu í tilvikum sem rakin eru í fimm stafliðum, en þær taka meðal annars til skyndilegra sjúkdómstilfella og nýrnabilunar. Ekkert umræddra tilvika beinist að sjúkdómum eða heilsufari karla fremur en kvenna. Verður því hvorki séð að 1. mgr. 10. gr. laga nr. 112/2008 né 8. gr. reglugerðar nr. 463/1999 geri greinarmun á einstaklingum á grundvelli kynferðis þeirra með beinum eða óbeinum hætti.
  11. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur þegar slegið því föstu að stjórnsýslumeðferð Sjúkratrygginga Íslands hafi samræmst lögum nr. 112/2008 og reglugerð nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá. Enda þótt kærunefnd jafnréttismála sé samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla falið að úrskurða um það hvort ákvæði laganna hafi verið brotin, þá endurskoðar kærunefndin ekki úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála um gildi ákvarðana Sjúkratrygginga Íslands sem byggjast á túlkun laga nr. 112/2008 og reglugerðar nr. 463/1999.
  12. Málatilbúnaður kæranda er, eins og áður segir, afdráttarlaus um að kvörtunin beinist ekki að hinu ónefnda vátryggingafélagi sem seldi henni þá tryggingu sem gilti á sex mánaða biðtíma eftir opinberri sjúkratryggingu. Þess í stað er byggt á því að íslenska ríkið sé „gerandinn“ í málinu.
  13. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 220/2017 um málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála skulu erindi sem berast nefndinni lögð fram á næsta fundi eftir að þau eru móttekin. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. skal nefndin taka til athugunar hvort erindi fullnægi lagaskilyrðum til að hljóta nánari athugun og meðferð. Sé svo ekki leiðir það til frávísunar málsins án kröfu. Jafnframt skal nefndin athuga hvort ágallar séu á erindum að öðru leyti. Sé málatilbúnaði svo áfátt er málinu vísað frá nefndinni við svo búið með úrskurði. Þá er kveðið á um það í 1. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar að skorti á að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn um efnisatriði kæru eða að mál eigi undir valdsvið nefndarinnar, eða leiði önnur lagaskilyrði til slíkrar niðurstöðu þá skuli vísa málinu frá.
  14. Eins og áður segir fer kærandi fram á að kærunefnd jafnréttismála beini því til ríkisins að breyta lögum, reglum og hefðum í stjórnsýsluframkvæmd án þess að kærandi beini erindi sínu gegn afmörkuðum aðila á vettvangi ríkisins. Réttarágreiningi milli málsaðila í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 er þannig ekki til að dreifa. Réttarstaða kæranda gagnvart Sjúkratryggingum Íslands samkvæmt lögum nr. 112/2008 og reglugerð nr. 463/1999 hefur þegar sætt bindandi lögskýringu á stjórnsýslustigi af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála. Verður sá úrskurður um túlkun umræddra laga og reglugerðar ekki endurskoðaður af kærunefnd jafnréttismála. Vera kann að kærandi eða eftir atvikum barn hennar kunni að njóta tiltekinna réttinda samkvæmt d-lið 2. mgr. 24. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögfestur var með 2. gr. laga nr. 19/2013 um sama efni, en samkvæmt 1. mgr. 24. gr. samningsins er kveðið á um að aðildarríki hans viðurkenni rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, þar á meðal til læknismeðferðar. Það væri fremur á færi umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvort úrskurðanefnd velferðarmála hafi tekið nægt tilllit til laga nr. 19/2013 við afgreiðslu máls hennar. Loks fellur það utan valdsviðs kærunefndar jafnréttismála að leggja fyrir löggjafarvaldið að breyta lögum.
  15. Að öllu framangreindu virtu fullnægir erindi kæranda ekki lagaskilyrðum til að kærunefnd jafnréttismála taki það til efnislegrar meðferðar og kveði upp úrskurð samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008, sbr. 2. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 220/2017. Ber því að vísa málinu frá kærunefnd jafnréttismála.

 

 

 

 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

         Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Arnaldur Hjartarson

 

Björn L. Bergsson

 

Þórey S. Þórðardóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta