Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 467/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 467/2023

Föstudaginn 1. desember 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. september 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. september 2023, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 9. júní 2023 og var umsókn hans samþykkt 21. ágúst 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. september 2023, voru greiðslur til kæranda stöðvaðar á þeirri forsendu að hann væri ekki búsettur á Íslandi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. september 2023. Með bréfi, dags. 6. október 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 23. október 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. október 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hann hafi haft samband við Vinnumálastofnun fyrir nokkrum mánuðum til þess að kanna rétt til atvinnuleysisbóta ef hann myndi flytja erlendis. Kæranda hafi þá einungis verið sagt að hann þyrfti að vera búinn að vera á bótum hjá Vinnumálastofnun í þrjá mánuði eða lengur. Engar upplýsingar hafi verið veittar um U2 vottorð. Ekkert hafi orðið af flutningi fyrr 10. september 2023, um tveimur vikum fyrir hina kærðu ákvörðun. Kærandi hafi sent Vinnumálastofnun á Suðurlandi póst þann 7. september sem hafi ekki skilað sér. Þar sé kærandi að óska eftir leiðbeiningum og hafi tilkynnt um flutning erlendis. Kærandi hafi ekki fengið svar þar sem pósturinn hafi ekki skilað sér og svo hafi hann haft aftur samband eftir að umsókn hans hafi verið sett í bið. Þá sé kæranda tilkynnt að hann þurfi að skila inn U2 vottorði þremur vikum fyrir flutninga. Fyrst þá hafi kærandi heyrt af því en hann hafi flutt út með innan við tveggja vikna fyrirvara. Nú hafi Vinnumálastofnun synjað umsókn kæranda og því engin leið fyrir hann að skila inn vottorði með þá von um að þetta verði endurhugsað. Kærandi sé fluttur úr landi með þrjú börn og tekjur eiginkonu hans nægi ekki til að halda öllu á floti. Kærandi geti ekki byrjað að sækja um vinnur fyrr en hann fái kennitölu sem taki tvær til þrjár vikur í viðbót og því sjái þau fram á mikla klemmu með þessu. Kærandi óski eftir að málið verði endurskoðað með það í huga að honum hafi ekki borist allar upplýsingar til að byrja með. Það hafi orðið til þess að kærandi hafi ekki haft hugmynd um U2 vottorð sem þurfi að skila inn og hafi því ekki kynnt sér það nánar. Kærandi hafi haldið að eina sem þyrfti að uppfylla væri að vera á bótum hjá Vinnumálastofnun í þrjá mánuði fyrir flutning.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 9. júní 2023. Umsókn kæranda hafi verið synjað vegna ófullnægjandi gagna þann 12. júlí 2023. Eftir að umbeðin gögn hafi borist frá kæranda hafi umsókn verið samþykkt þann 21. ágúst 2023. Með erindi, dags. 19. september 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli hans væri hann með lögheimili erlendis. Kæranda hafi verið tjáð að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinuleysistrygginga væri að vera búsettur á Íslandi og stofnunin hafi óskað eftir skýringum kæranda. Þann 19. september 2023 hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda. Kærandi hafa sagst hafa flutt til Danmerkur þann 10. september 2023. Þá hafi hann einnig tekið fram að hann teldi sig hafa sent póst 8. september með upplýsingum um þessa flutninga og að hann þyrfti einnig að „fá að sækja um U2 vottorð vegna flutninganna.“ Með skýringum hafi kærandi sent brottfararspjald annars aðila en sín sjálfs, dags. 10. september 2023. Með erindi, dags. 20. september 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að af frekari greiðslum atvinnuleysisbóta yrði ekki þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði c. liðar 1. mgr. 13. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi kveðist aldrei hafa fengið upplýsingar um U2 vottorð eða leiðbeiningar um búferlaflutninga aðrar en að hann „þyrfti að vera búinn að vera á bótum [...] í 3 mánuði eða lengur“ ef til flutninga kæmi erlendis.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði þess að launamaður teljist tryggður samkvæmt lögunum. Þá sé í 1. mgr. 18. gr. sömu laga að finna hin almennu skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum sé að vera búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi, sbr. c. lið 1. mgr. 13. gr. og c. lið 1. mgr. 18. gr. laganna.

Fyrir liggi og óumdeilt sé að kærandi sé búsettur og staddur, ásamt því að vera með skráð lögheimili í Danmörku. Kærandi uppfylli því ekki almenn skilyrði atvinnuleysistrygginga, sbr. c. lið 1. mgr. 13. gr. og c. lið 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Í 42. gr. laganna sé kveðið á um atvinnuleit í öðru aðildarríki en á grundvelli þessi ákvæðis gefi Vinnumálastofnun út svokölluð U2-vottorð. Í 1. mgr. 42. gr. sé kveðið á um að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur samkvæmt VII. kafla laganna til þess sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og sé í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, uppfylli hann þau skilyrði sem talin séu upp í fjórum stafliðum við ákvæðið. Ákvæði þessi feli í sér einu undantekninguna á framangreindum búsetuskilyrðum laganna. Í 45. gr. laganna sé kveðið á um umsókn um greiðslur atvinnuleysisbóta vegna atvinnuleitar í öðru aðildarríki. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Sá sem vill nýta sér rétt sinn skv. 42. gr. skal sækja um að atvinnuleysisbætur verði greiddar meðan hann er í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum til Vinnumálastofnunar á þar til gerðum eyðublöðum fyrir brottfarardag. Ef umsækjandi er yngri en 18 ára skal foreldri eða forráðamaður hans samþykkja umsóknina með undirritun sinni.“

Fyrir liggi að kærandi hafi verið búsettur í Danmörku að eign sögn frá 10. ágúst 2023 og með lögheimili skráð þar frá 10. september 2023. Ljóst sé að kærandi hafi ekki sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta vegna atvinnuleitar í öðru aðildarríki fyrir brottfarardag til Danmerkur líkt og áskilið sé samkvæmt 45. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta og því hafi borið að synja um frekari greiðslur honum til handa vegna flutnings af landi brott. Sú niðurstaða leiði af c. lið 1. mgr. 13. gr. og c. lið 1. mgr. 18. gr. Jafnframt sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði greiðslu atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun vegna atvinnuleitar í Danmörku, sbr. 45. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á þeirri forsendu að hann væri ekki búsettur á Íslandi.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi, sbr. c. liður 1. mgr. 13. gr. Í VIII. kafla laganna er að finna undanþágu frá framangreindu ákvæði en þar er fjallað um atvinnuleit eða atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

Í 42. gr. laga nr. 54/2006 segir að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda sem sé í atvinnuleit í öðru EES-ríki, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í 4. mgr. 42. gr. kemur fram að Vinnumálastofnun gefi út viðeigandi vottorð til staðfestingar á rétti hins tryggða samkvæmt ákvæðinu.

Í 45. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um umsókn um greiðslur atvinnuleysisbóta vegna atvinnuleitar í öðru aðildarríki. Þar kemur fram að sá sem vilji nýta rétt sinn samkvæmt 42. gr. skuli sækja um að atvinnuleysisbætur verði greiddar meðan hann sé í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum til Vinnumálastofnunar á þar til gerðum eyðublöðum fyrir brottfarardag.

Óumdeilt er að kærandi flutti af landi brott 10. september 2023. Þá er óumdeilt að kærandi sótti ekki um svokallað U2-vottorð fyrir brottför en hann hefur vísað til þess að hafa sent Vinnumálastofnun tölvupóst 7. september 2023 með ósk um leiðbeiningar vegna flutningsins en sá tölvupóstur virðist ekki hafa skilað sér til stofnunarinnar. Þá hefur kærandi gert athugasemd við skort á leiðbeiningum frá Vinnumálastofnun vegna reglna um atvinnuleysisbætur í útlöndum.

Þann 9. júní 2023 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Kæranda var greint frá því að hann þyrfti að upplýsa um allar breytingar á persónulegum högum inni á „Mínum síðum“. Kæranda var einnig bent á að ítarlegri upplýsingar um réttindi hans og skyldur væri að finna undir „Hvað þarftu að vita“ á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Undir þeim lið er meðal annars að finna upplýsingar um atvinnuleit í Evrópu og flutning bótaréttar. Þar kemur meðal annars fram að afgreiðsla U2-umsókna taki þrjár til fjórar vikur og vísað til nánari upplýsinga á heimasíðunni undir „Atvinnuleysisbætur og útlönd“. Þar kemur skýrt fram að sækja þurfi um U2-vottorð þremur vikum fyrir brottför og að umsækjandi verði að vera staddur á Íslandi alveg fram að útgefnum brottfarardegi sem fram komi á U2-umsókninni. Þá er tekið fram að sótt sé um í gegnum „Mínar síður“. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita að nauðsynlegt væri að sækja sérstaklega um heimild til atvinnuleitar í útlöndum með þar til gerðum hætti.

Þar sem kærandi hefur verið búsettur erlendis frá 10. september 2023 er ljóst að hann uppfyllir ekki almenn skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um að vera tryggður samkvæmt lögunum. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans er því staðfest.

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. september 2023, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta