Hoppa yfir valmynd

Nr. 333/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 4. júlí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 333/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19050021 og KNU19050020

Kæra [...],

[...]

og barns þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. maí 2019 kærðu einstaklingar er kveðast heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir K) og [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 17. apríl 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kærenda og barns þeirra, [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Þess er aðallega krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á Íslandi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og 3. mgr. 36. gr. laganna, sbr. 42. gr. sömu laga. Til vara er gerð krafa um að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka málin til meðferðar að nýju.

Einnig er gerð krafa um að kærunefnd útlendingamála sameini mál kærenda og kjördóttur þeirra, [...] (hér eftir B), að sögn [...], vegna sérstakra tengsla með vísan til 45. gr. laga um útlendinga, sbr. 10. og 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin).

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins kom M fyrst hingað til lands í febrúar 2018, þá í atvinnuleit. Þá hafi K og A sameinast honum hér á landi þann 4. júlí 2018. Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 30. október 2018. Við leit að fingraförum þeirra í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að þau höfðu m.a. verið skráð í grunninn af yfirvöldum á Ítalíu. Þann 12. nóvember sl. var upplýsingabeiðni beint til ítalskra yfirvalda, sbr. 34. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í svari frá ítölskum yfirvöldum, dags. 17. desember 2018, kom fram að kærendum hefði verið veitt alþjóðleg vernd á Ítalíu. Kærendur komu til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. dagana 12. og 13. febrúar 2019, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 17. apríl 2019 að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum þann 24. apríl og 7. maí 2019 og kærðu þau ákvarðanirnar þann 9. maí 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda barst kærunefnd þann 20. maí 2019, ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd frekari upplýsingar frá talsmanni kærenda þann 27. júní sl. og gögn frá Útlendingastofnun þann 28. júní og 1. júlí sl. Gögnin voru kynnt kærendum dagana 28. júní og 2. júlí og bárust andmæli kærenda þar um dagana 2. og 3. júlí sl.

Kærendur óskuðu eftir því í greinargerð að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málanna. Taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kærendum kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kom fram að kærendum hefði verið veitt alþjóðleg vernd á Ítalíu. Umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kærenda til Ítalíu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefðu kærendur ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsóknir kærenda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendum var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Ítalíu.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barnsins A kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum foreldra hans, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, barnaverndarlaga nr. 80/2002 og laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 10. gr. þeirra, að hagsmunum hans væri ekki stefnt í hættu fylgdi hann foreldrum sínum til Ítalíu.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur m.a. fram að M hafi komið hingað til lands í febrúar 2018. Þann 6. desember sl. hafi kærendur og kjördóttir þeirra, B, farið fram á að vinnsla mála þeirra yrði sameinuð en Útlendingastofnun hafi hafnað beiðninni í tvígang, dagana 8. og 31. janúar sl. M hafi hitt kjördóttur sína, B og kjörson sinn (hér eftir C), hér á landi en ekki vitað af þeim hér fyrr en hann hafi komið í febrúar 2018. Að sögn kærenda hafi C yfirgefið Ísland þann 12. febrúar sl.

K og M kveða að þau hafi gengið í hjúskap í [...] þann 3. janúar 2009 en þetta sé þriðja hjónaband M. Áður hafi hann verið giftur móður C og síðar móður B. Móðir B hafi látist árið 2007 og faðir hennar 2009. Af umfjöllun kærenda í greinargerð verður ráðið að M hafi þá ættleitt B og C. M hafi lagt á flótta frá [...] árið 2011 og fengið dvalarleyfi á Ítalíu árið 2012. Í kjölfarið hafi hann óskað eftir fjölskyldusameiningu við eiginkonu sína, kjörbörn og foreldra. Hann hafi þá fengið aðstoð vinar síns til að koma fjölskyldunni til Ítalíu. Þegar M hafi ekki getað greitt vini sínum uppgefna upphæð hafi sá síðarnefndi sent kjörbörnin til Svíþjóðar og komið í veg fyrir að M hefði samband við þau. Hann hefði því ekki getað hitt börnin sín aftur en hafi hitt K við upphaf árs 2016.

Kærendur gera athugasemdir við að verða send aftur til Ítalíu. M kveður að hann hafi misst alla von á Ítalíu, þar hafi hann ekki haft fastan samastað heldur búið hér og þar, í kirkju, hjá vinum, á götunni og hjá Rauða krossinum. Það hafi reynst erfitt einkum eftir fæðingu A. M hafi leitað aðstoðar yfirvalda en lítil viðbrögð fengið. Þá hafi fjölskyldan tímabundið fengið inni hjá presti. M kveður að hann hafi, árið 2011, orðið vitni að skotárás af hendi hóps í flóttamannabúðunum sem hann hafi dvalið í og liðið eins og hann hafi verið í [...]. Hann hafi lagt sig fram um að koma á framfæri kvörtunum vegna aðbúnaðar í búðunum en mætt viðbragðsleysi og hótunum um skerta þjónustu. Þá hafi M ekki fengið almennilega vinnu, aðeins tilfallandi svört störf. M kveður að hann hafi haft rétt á heilbrigðisþjónustu að lögum en þegar hann hafi leitað eftir slíkri þjónustu hafi hann verið spurður hvort hann væri með vinnu. Þar sem hann hafi ekki verið skattgreiðandi hafi hann ekki fengið þjónustu. Kveður M að staða umsækjenda um alþjóðlega vernd sé betri en staða flóttamanna. Flóttamenn þurfi að yfirgefa flóttamannabúðirnar og séu þá án húsnæðis, atvinnu og tengslanets og tali auk þess ekki tungumálið. Kveður M að það sé verulegt vandamál að geta ekki tjáð sig eða skilið tungumálið.

K kveður að hún hafi komið ein til Ítalíu árið 2016 og fundið M með aðstoð lögreglu. Eftir að hún hafi fengið heimild til dvalar þar árið 2017 hafi fjölskyldan búið á götunni í nokkra daga, allt þar til þau hafi fengið inni hjá vini M. Kveður K að hún hafi ekki fengið framfærslu frá yfirvöldum á Ítalíu, húsnæði eða aðra aðstoð. Kveður K að hún hafi fengið heilbrigðisaðstoð meðan umsókn hennar um alþjóðlega vernd hafi verið til meðferðar. K hafi þá upplifað sinnuleysi stjórnvalda gagnvart beiðnum þeirra um aðstoð sem fordóma eða mismunun. Sem dæmi hafi hún farið á spítala og heyrt talað niður til þeirra, s.s. að þau lyktuðu illa. Það hafi verið mjög slæm tilfinning.

M kveður að hann eigi við [...] vandamál að stríða vegna þess sem hann hafi gengið í gegnum og eigi erfitt með svefn. Hann hafi þá fengið [...] og glími við vandamál í [...]. Hafi hann þurft að leita sér læknisaðstoðar hér á landi en viti ekki hvað ami að og hafi þurft að hætta læknismeðferð vegna kostnaðar. Þá hafi ýmislegt angrað hann andlega og hann [...]. Hann hafi upplifað atburði sem hafi haft áhrif á andlega heilsu hans, þ. á m. morð á bróður hans, ofbeldi og mótlæti á Ítalíu. Þá hafi hann verið þvingaður til að ganga í [...] í heimaríki sínu.

Kveður K að hún glími við streitu, [...], einbeitingarskort, minnisleysi og erfiðleika við tjáskipti. Þá sé hún með [...] og eigi erfitt með að anda. Vítamínforði hennar sé ekki góður og hún sé þreytt. Hún hafi þá upplifað atburði sem hafi haft áhrif á heilsufar hennar en treysti sér ekki til að tala um þá. K hafi verið gift áður en fyrri eiginmaður hennar hafi farið til Afganistan í viðskiptaerindum og aldrei snúið aftur. Fljótlega eftir að gengið hafi verið frá hjúskaparstöðu hennar sem ekkju hafi hún gifst M. Nú sé fyrri eiginmaður K kominn í leitirnar og vilji fá hana aftur. Því vilji K alls ekki fara til [...] en hún hafi verið gift fyrrum eiginmanni sínum [...].

Í greinargerð kærenda kemur þá fram að líkamlegt heilsufar A sé gott en hann sé ekki enn farinn að tala, nærist ekki vel og hafi fáa til að leika sér við.

Kærendur gera ýmsar athugasemdir við málsmeðferð og ákvarðanir Útlendingastofnunar. Að mati kærenda verði ekki séð að einstaklingsbundnar aðstæður þeirra hafi verið rannsakaðar. Þá gera kærendur athugasemd við þá niðurstöðu stofnunarinnar að vafi leiki á auðkenni þeirra. Enn fremur sé endursögn í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli M af frásögn hans um endurfundi með kjörbörnum sínum hér á landi ekki í samræmi við framburð hans í viðtali hjá stofnuninni. Gera kærendur jafnframt athugasemdir við trúverðugleikamat stofnunarinnar að því er varði tengsl þeirra við kjörbörn sín, en þau hafi lagt fram gögn og skilríki til stuðnings þeim framburði. Þá hafi stofnunin vísað í yfirlýsingar og gögn sem ekki hafi verið lögð fram við málsmeðferðina eða kynnt kærendum. Kærendur og B séu í sama búsetuúrræði hér á landi á grundvelli þess að þau séu fjölskylda. Þrátt fyrir synjun á sameiningu málanna hafi Útlendingastofnun engu að síður farið frjálslega með upplýsingar um einkamál B í ákvörðunum í máli kærenda. Þá hafi Útlendingstofnun ekki listað upp í ákvörðunum sínum öll gögn sem kærendur hafi lagt fram. Að mati kærenda sé þá í sumum tilvikum um að ræða rangfærslur í ákvörðunum stofnunarinnar og geri þau því kröfu um ógildingu og nýja málsmeðferð.

Kærendur gera þá kröfu um sameiningu mála sinna og B með vísan til sérstakra tengsla og 10. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, enda hafi þau lagt fram skriflega beiðni þar um í samræmi við áskilnað ákvæðisins. Kærendur hafi m.a. lagt fram gögn frá ítölskum yfirvöldum sem sýni fram á að þau séu kjörforeldrar B. Í því sambandi vísa kærendur til 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, g-liðar 2. gr., 3. mgr. 7. gr. og 1. og 2. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, 14. og 15. liðar inngangsorða hennar og tilmæla Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Þá rekja kærendur í greinargerð sinni erfiðar aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd á Ítalíu og vísa þar um til ýmissa skýrslna og gagna stofnana og frjálsra félagasamtaka, þ. á m. nýjustu skýrslna mannréttindasamtakanna Human Rights Watch og bandaríska utanríkisráðuneytisins um mannréttindi á Ítalíu. Kærendur byggja enn fremur á hagsmunum barns síns, A, og vísa í því sambandi m.a. til upplýsinga frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, athugasemdar Barnaréttarnefndarinnar nr. 14 og 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr 25. gr. laga um útlendinga. Kærendur kveða enn fremur að þau teljist til einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings kröfu um efnismeðferð á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, vísa kærendur m.a. til lögskýringargagna að baki ákvæðinu, laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga og lögskýringargagna að baki breytingarlögunum. Þá gera kærendur athugasemd við beitingu stjórnvalda á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, einkum 32. gr. a reglugerðarinnar. Kærendur setji spurningamerki við lagastoð reglugerðarinnar og þá séu viðmið sem sett séu fram í reglugerðinni nefnd í dæmaskyni en ekki sem tæmandi talning á þáttum sem taka beri til skoðunar við mat á sérstökum ástæðum. Kærendur byggja á því að þau séu í viðkvæmri stöðu. M sé þolandi andlegs og líkamlegs ofbeldis og hafi upplifað sorg vegna ástvinamissis og aðskilnaðar frá fjölskyldu sinni. Þá hafi honum verið [...] og [...] vegna [...], [...] og að öllum líkindum [...] eða [...]. Hann hafi jafnframt verið greindur með [...] og fengið [...] vegna þess. K sé þolandi nauðungarhjónabands, m.ö.o. [...], [...] og ofbeldis- og líflátshótana. Hún glími enn fremur við [...]. Þá sé A í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna ungs aldurs síns.

Kærendur hafi lýst erfiðum flótta frá [...] og ömurlegum aðstæðum á Ítalíu, andlegri og líkamlegri vanlíðan og vonleysi. Þau hafi átt erfitt uppdráttar á Ítalíu, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga, m.a. vegna kerfislægra fordóma og alvarlegrar mismununar sem þrífist gagnvart flóttafólki þar. Endursending til Ítalíu yrði afar þungbær fyrir kærendur og óljóst hverjar afleiðingarnar yrðu á andlega og líkamlega heilsu þeirra. Þá hafi kærendur reynt að sækja um félagslegt húsnæði á Ítalíu en ekki haft erindi sem erfiði. Í þessu sambandi vísa kærendur til úrskurða kærunefndar útlendingamála nr. 393/2018 og 110/2019.

Þá byggja kærendur kröfu sína um efnismeðferð á grundvallarreglunni um non-refoulement, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi vísa kærendur til 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, 33. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Til stuðnings varakröfu sinni um ógildingu ákvarðana Útlendingastofnunar vísa kærendur til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærendur telji að ekki hafi farið fram viðhlítandi einstaklingsbundið mat í málum þeirra, þ. á m. að því er varði heilsufar, í samræmi við áskilnað 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Vísa þau í því sambandi jafnframt til 6. tölul. 3. gr. laganna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Réttarstaða barns kærenda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skal það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málanna, þ. á m. viðtöl við K og M hjá Útlendingastofnun. Það er mat nefndarinnar, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að ekki séu forsendur til annars en að ætla að hagsmunum A sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða A verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Barnið A er í fylgd foreldra sinna og verður því tekin afstaða til mála fjölskyldunnar í einum úrskurði.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málanna hefur kærendum og barni þeirra, A, verið veitt alþjóðleg vernd á Ítalíu og hefur K gilt dvalarleyfi þar í landi til 7. ágúst 2022 og M til 21. febrúar 2022. Að mati kærunefndar felur sú vernd sem kærendur njóta á Ítalíu í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Sem fyrr segir krefjast kærendur þess að mál þeirra og kjördóttur þeirra, B, verði sameinuð á grundvelli 10. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, enda hafi skrifleg beiðni þar um verið lögð fram í samræmi við áskilnað greinarinnar. Í því sambandi vísa kærendur jafnframt til 3. mgr. 7. gr. og 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Fyrir liggur að mál kærenda falla ekki undir Dyflinnarreglugerðina, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þar sem þeim hefur verið veitt alþjóðleg vernd á Ítalíu líkt og rakið er hér að ofan, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um lagarök kærenda er snúa að beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kærenda

Kærendur eru hjón með eitt ólögráða barn á sínu framfæri sem er á [...] aldursári. Í framlögðum komunótum K frá Göngudeild sóttvarna, dags. frá 27. nóvember 2018 til 24. febrúar 2019, kemur m.a. fram að hún sé hraustleg en hafi sagst finna fyrir þreytu og [...] í [...]. Í viðtölum K hjá Útlendingastofnun, dags. 12. nóvember 2018 og 12. febrúar 2019, kemur m.a. fram að hún glími við [...], [...], minnisleysi og vítamínskort. Þá hafi hún glímt við [...]. Í greinargerð kemur m.a. fram að K sé þolandi nauðungarhjónabands og [...]. Í framlögðum komunótum M frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Göngudeild sóttvarna, dags. frá 4. mars 2018 til 25. febrúar 2019, kemur m.a. fram að hann sé hraustlegur en hafi sagst glíma við slappleika, [...], svefnörðugleika, streitu, [...], [...] og önnur [...] vandamál sem hann hafi [...]. Þá hafi hann kvaðst glíma við [...] og [...] vegna þess en við rannsóknir hafi ekkert óeðlilegt komið í ljós. Í viðtölum M hjá Útlendingastofnun, dags. 12. nóvember 2018 og 13. febrúar 2019, kemur m.a. fram að hann hafi upplifað ýmis áföll í heimaríki. Hann sé „[...]“ og þurfi að [...]. Þá telji hann sig glíma við vandamál í [...] og [...]. Framlögð heilsufarsgögn bera með sér að M hafi undirgengist fjölda rannsókna, þ. á m. [...], [...] og [...], en ekkert óeðlilegt hafi fundist, sbr. framlagðan samskiptaseðil frá 12. mars 2018. Kærendur hafa ekki lagt fram heilsufarsgögn að því er varða A, en í framangreindum viðtölum við K og M hjá Útlendingastofnun kemur m.a. fram að A borði ekki vel og sé seinn til máls en sé líkamlega heilsuhraustur.

Í ljósi gagna málsins, þ. á m. fyrirliggjandi heilsufarsgagna, er það mat kærunefndar að staða kærenda sé ekki þess eðlis að þau teljist hafa sérþarfir sem taka þurfi tillit til við meðferð málanna, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður á Ítalíu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður á Ítalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

• Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2018 (European Asylum Support Office, 24. júní 2019);

• Asylum Information Database. Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, apríl 2019);

• Italy 2018 Human Rights Report (United States Department of State, 13. mars 2019);• World Report 2019 – European Union (Human Rights Watch, 17. janúar 2019);

• Mutual Trust Is Still Not Enough – The situation of persons with special reception needs transferred to Italy under the Dublin III Regulation (Danish Refugee Council og Swiss Refugee Council, 12. desember 2018);

• Freedom in the World 2018 – Italy (Freedom House, 5. apríl 2018);

• Amnesty International Report 2017/18 - Italy (Amnesty International, 22. febrúar 2018);

• Integration of Refugees in Greece, Hungary and Italy: Comparative Analysis (European Parliament, desember 2017);

• The Journey of Hope: Education for Refugee and Unaccompanied Children in Italy (Education International Research, 31. maí 2017);

• Concluding observations of the Committee on the Elimination of Racial Discrimination (UN Committee on the Elimination of Racial Discrimination, 17. febrúar 2017);

• Reception conditions in Italy. Report of the current situation of asylum seekers and beneficiaries of protection, in particular Dublin returnees (Swiss Refugee Council, ágúst 2016);

• ECRI Report on Italy (European Commission against Racism and Intolerance, 7. júní 2016);

• Information note, Dublin transfers post-Tarakhel: Update on European case law and practice (Elena, European legal network on asylum, október 2015);

• Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights’ Compilation Report – Universal Periodic Review: Italy (UNHCR, mars 2014);

• UNHCR Recommendations on Important Aspects of Refugee Protection in Italy (UNHCR, júlí 2013);

• Upplýsingar af vefsíðu OSCE Office for Democratic Institutions and Human Rights (http://hatecrime.osce.org/italy) og

• Upplýsingar af vefsíðu ítalska flóttamannaráðsins (í. Consiglio Italiano per I Rifugiati http://www.cir-onlus.org/en/).

Samkvæmt ofangreindum gögnum eru dvalarleyfi einstaklinga með réttarstöðu flóttamanns gefin út til fimm ára í senn. Einstaklingar með réttarstöðu flóttamanns fá flóttamannavegabréf (í. documenti di viaggio) með fimm ára gildistíma. Einstaklingar með alþjóðlega vernd geta sótt um fjölskyldusameiningu og þurfa ekki að sýna fram á viðhlítandi húsnæði og lágmarksframfærslu, öfugt við aðra ríkisborgara þriðju ríkja. Unnt er að endurnýja dvalarleyfin að fimm árum liðnum en biðtími eftir slíkri endurnýjun getur verið langur. Þá geta einstaklingar sem hafa dvalið á Ítalíu í fimm ár sótt um ótímabundið dvalarleyfi á Ítalíu, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Einstaklingar með réttarstöðu flóttamanns geta öðlast ríkisborgararétt að fimm árum liðnum.

Í skýrslu Asylum Information Database kemur m.a. fram að húsnæðisaðstoð við einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar á Ítalíu sé af skornum skammti. Ítölsk yfirvöld reka þó búsetuúrræðin SIPROIMI (e. System for the Protection of Beneficiaries of International Protection and Unaccompanied Foreign Minors) sem eru nánast eingöngu ætluð handhöfum alþjóðlegrar verndar og fylgdarlausum börnum. Þegar einstaklingar hafa fengið inngöngu í SIPROIMI úrræði mega þeir dvelja þar í sex mánuði. Aftur á móti eru ekki nógu mörg SIPROIMI úrræði til að mæta þeim fjölda sem hefur fengið alþjóðlega vernd. Í framangreindum skýrslum kemur jafnframt fram að sambærileg félagsleg húsnæðisúrræði á vegum sveitarfélaga séu aðgengileg einstaklingum sem njóta alþjóðlegrar verndar og ítölskum ríkisborgurum, þó að einhver dæmi séu um að sveitarfélög geri kröfu um búsetu á Ítalíu í tiltekinn tíma til að öðlast rétt til aðgangs að slíkum úrræðum.

Þá kemur fram í framangreindum skýrslum að einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar og hafa dvalarleyfi á Ítalíu hafa sama rétt til atvinnuþátttöku og ítalskir ríkisborgarar. Hins vegar sé atvinnuleysi mikið og eigi útlendingar oft í erfiðleikum með að finna atvinnu við hæfi. Einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar á Ítalíu eiga almennt sama rétt og ítalskir ríkisborgar til velferðarþjónustu sem er m.a. veitt af tryggingastofnun ríkisins (í. Istituto Nazionale della Previdenza Sociale/INPS) og sveitarfélögum. Búseta á tilteknu svæði er ekki skilyrði fyrir félagslegri þjónustu, en í einhverjum tilvikum er gerð krafa um búsetu á Ítalíu í ákveðinn tíma, t.a.m. er tiltekin aðstoð við framfærslu eingöngu veitt einstaklingum sem hafa búið í tíu ár á Ítalíu.

Í framangreindum gögnum kemur fram að einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eiga sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu að því gefnu að þeir hafi skráð sig inn í heilbrigðiskerfið. Slík skráning er háð því að umsækjandi hafi skráð lögheimili sem eðli máls samkvæmt getur verið hindrun fyrir einstaklinga sem eru án fastrar búsetu. Í ofangreindri skýrslu Asylum Information Database kemur fram að skráning í heilbrigðiskerfið gildi jafn lengi og dvalarleyfi einstaklings og falli ekki sjálfkrafa úr gildi á meðan á málsmeðferð endurnýjunar dvalarleyfisins standi. Í framkvæmd geti þó einstaklingar með útrunnin dvalarleyfi átt í erfiðleikum með að nálgast heilbrigðisþjónustu. Einstaklingar þurfa almennt að greiða hluta þess kostnaðar sem fellur til vegna heilbrigðisþjónustu sem þeir nýta sér en frá því eru þó undantekningar, t.d. í þeim tilvikum þegar einstaklingar eru utan vinnumarkaðar og án annarrar framfærslu.

Í skýrslu Asylum Information Database kemur þó fram að mismunandi túlkun á reglum um greiðsluþátttöku sjúklinga hafi leitt til þess að í sumum sveitarfélögum hafi verið gerð krafa um að einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar en eru utan vinnumarkaðar greiði kostnað við heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt framangreindum heimildum eru því ýmsar aðgangshindranir til staðar þegar kemur að heilbrigðiskerfinu á Ítalíu. Í skýrslu Asylum Information Database og skýrslu samtakanna Education International kemur m.a. fram að ítölsk lög kveða á um skólaskyldu til 16 ára aldurs. Skólaskyldan nær jafnt til ítalskra barna sem og erlendra. Erlend börn, 16 ára og yngri, sem stödd eru á Ítalíu eiga því sama rétt til menntunar án endurgjalds og aðgangs að menntastofnunum og ítölsk börn, sama hver staða þeirra er í samfélaginu. Þá eiga erlend börn rétt á sérstakri aðstoð hafi þau sérþarfir og jafnframt bjóða sumir skólar upp á sérstakt undirbúningsnámskeið til að aðstoða erlenda nemendur við að aðlagast skólanum. Þegar erlend börn leggja fram umsókn um skólavist er krafist sömu upplýsinga um barnið og hjá ítölskum börnum og skortur á framlagningu gagna á ekki að koma í veg fyrir að barn sé skráð í skólann. Tilfelli þekkjast þar sem starfsmönnum viðkomandi menntastofnunar er ókunnugt um lagalegan rétt erlendra barna til menntunar. Þá þekkist einnig tregða af hálfu starfsmanna sumra menntastofnana að skrá mikinn fjölda erlendra nemenda við skólann. Synjun starfsmanna viðkomandi menntastofnunar við að skrá erlend börn í skólann er hægt að kæra til yfirvalda sem fara með menntamálefni (e. provincial educational authority).

Af framangreindum skýrslum verður ráðið að fordómar í garð fólks af erlendum uppruna sé vandamál á Ítalíu en ítölsk yfirvöld hafi gripið til aðgerða til að sporna við kynþáttafordómum og mismunun á grundvelli kynþáttar, m.a. með lagasetningu. Í kjölfar athugasemda alþjóðlegra eftirlitsnefnda, stofnana og frjálsra félagasamtaka hafa ítölsk stjórnvöld tekið mikilvæg skref í þá átt að vinna gegn kynþáttafordómum, mismunun á grundvelli kynþáttar og hatursglæpum, þ. á m. með aðgerðaráætlun gegn kynþáttahyggju (e. National Action Plan against Racism, Xenophobia and Intolerance). Þá hefur rannsóknum og ákærum fjölgað í málum er varða mismunun, hatursorðræðu og hatursglæpi á grundvelli kynþáttar og þjóðernis. Framangreindar skýrslur bera enn fremur með sér að almenningur á Ítalíu geti leitað sér aðstoðar ítalskra löggæsluyfirvalda vegna ofbeldisbrota og hótana.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstólinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016.

Í ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013 kemur m.a. fram að það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni við frávísun eða brottvísun frá aðildarríki nái ekki alvarleikastigi 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þá verði greinin ekki túlkuð þannig að í henni felist skylda aðildarríkja til að sjá einstaklingum sem njóta alþjóðlegrar verndar fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum. Dómstóllinn áréttaði jafnframt að einstaklingur sem stendur til að vísa brott geti ekki gert kröfu um áframhaldandi dvöl í ríki í því skyni að njóta þar heilbrigðis- eða félagsþjónustu. Veruleg skerðing lífsgæða sé ekki nægjanleg til að valda broti á 3. gr. mannréttindasáttmálans nema sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður mæltu gegn endursendingu.

Í ljósi framangreinds tekur kærunefnd ekki undir þá málsástæðu kærenda að aðstæður þeirra á Ítalíu, m.a. varðandi húsnæði, félagslega þjónustu og aðbúnað, séu þess eðlis að flutningur þeirra þangað myndi fela í sér brot á grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar á Ítalíu er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsókna kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem kærendur njóta alþjóðlegrar verndar á Ítalíu telur kærunefnd að tryggt sé að þau verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Kærunefnd leggur þann skilning í kröfugerð kærenda að þau telji sig hafa sérstök tengsl við Ísland, í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, vegna tengsla sinna við B sem hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi.

Lög um útlendinga veita ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig hugtakið sérstök tengsl skv. 2. mgr. 36. gr. skuli túlkað í framkvæmd. Við túlkun ákvæðisins telur kærunefnd að líta verði til athugasemda sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þannig að leggja verði til grundvallar að ákvæðinu sé ætlað að taka m.a. til þeirra tilvika þegar umsækjendur eiga ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu aftur sendir til. Þetta geti einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuríki, svo sem vegna fyrri dvalar. Þá gera athugasemdirnar í frumvarpi og ákvæði 32. gr. b reglugerðar um útlendinga ráð fyrir því að fyrri dvöl umsækjanda hér á landi geti leitt til þess að um sérstök tengsl séu að ræða. Jafnframt sé ljóst að þau tengsl sem ákvæðið vísar til geta verið fjarlægari en þau nánu fjölskyldutengsl sem Dyflinnarreglugerðin mælir fyrir um. Meðal þess sem líta verði til við matið á því hvort umsækjandi hafi sérstök tengsl við landið sé hversu rík tengslin séu hér á landi.

Samkvæmt framansögðu getur komið til skoðunar hvort kærandi hafi sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þegar hann á ættingja hér á landi. Kærunefnd telur að leggja skuli til grundvallar að ef umsækjandi um alþjóðlega vernd á sannanlega ættingja hér á landi, sem hefur heimild til dvalar hér, sem hann hefur raunveruleg og sérstök tengsl við hér á landi en ekki í viðtökuríki, geti umsókn hans verið tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli þess að umsækjandi hafi sérstök tengsl við landið.

Ljóst er að B er einungis stödd hér á landi í tengslum við umsókn sína um alþjóðlega vernd líkt og kærendur sjálfir. Að mati kærunefndar verður því talið ljóst að kærendur hafa ekki slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að þau fái hér vernd, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er ekkert annað í gögnum málsins sem bendir til þess, að mati kærunefndar, að kærendur hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærendur bera þá fyrir sig erfiðum aðstæðum á Ítalíu. Kemur framangreind frásögn kærenda að mestu leyti heim og saman við heimildir um aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd á Ítalíu sem kærunefnd hefur kynnt sér, þ.e. hvað varðar erfitt aðgengi að vinnumarkaðnum, félagslegu húsnæði og framfærslu frá yfirvöldum.

Að mati kærunefndar gefa framlögð heilsufarsgögn kærenda ekki til kynna bráð heilsufarsvandamál og þá gefa gögn málsins, þ. á m. viðtöl við kærendur, til kynna að A sé almennt heilsuhraustur. Af framangreindum gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað einstaklinga með alþjóðlega vernd á Ítalíu má ráða að þeir eigi rétt á heilbrigðisþjónustu, að því gefnu að þeir skrái sig inn í heilbrigðiskerfið. Þó svo að mikið álag sé á innviðum þjónustu fyrir einstaklinga með alþjóðlega vernd á Ítalíu telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í landinu, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærendur geti leitað viðhlítandi heilbrigðisþjónustu fyrir sig og barn sitt þar í landi. Það er því mat kærunefndar að heilsufar kærenda eða barns þeirra sé ekki með þeim hætti að þau teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð sé aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá er það mat nefndarinnar að ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kærenda eða barns þeirra er varðar heilsufar þeirra sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Þrátt fyrir ýmsar aðgangshindranir að félagslega kerfinu og húsnæðis- og vinnumarkaðnum njóta kærendur sömu réttinda þar um og ítalskir ríkisborgarar. Það er því mat kærunefndar að gögn málsins beri ekki með sér að kærendur eða barn þeirra muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að þau geti af sömu ástæðu vænst þess að staða þeirra verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki í skilningi 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma fram sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi. Þá segir að við mat á hagsmunum barns skuli meðal annars að líta til þess hvort flutningur til viðtökuríkis hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast.

Svo sem fram hefur komið eru kærendur handhafar alþjóðlegrar verndar á Ítalíu og hafa þau gilt dvalarleyfi þar í landi til ársins 2022. Þá hafi þau dvalið á Ítalíu í nokkurn tíma og komu hingað til lands í sameiningu. Kærunefnd er kunnugt um dæmi þess að feður hafi verið aðskildir frá fjölskyldum sínum og þeim úthlutað gistirými meðal karlmanna í móttökumiðstöðvum, í þeim tilvikum þegar einstaklingar eru enn í hæliskerfinu. Umrædd gögn endurspegla aðstæður barnafjölskyldna sem enn eru með umsóknir um alþjóðlega vernd til meðferðar en kærunefnd fær ekki séð á fyrirliggjandi gögnum að hætta sé á aðskilnaði fjölskyldna sem þegar njóta alþjóðlegrar verndar á Ítalíu. Það er því mat kærunefndar, á grundvelli framangreindra upplýsinga um aðstæður á Ítalíu og gagna málsins að flutningur kærenda þangað muni ekki hafa í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist.

Að öðru leyti og með vísan til niðurstöðu í málum kærenda og umfjöllunar um aðstæður barna með alþjóðlega vernd á Ítalíu er það mat kærunefndar að flutningur fjölskyldunnar til Ítalíu samrýmist hagsmunum barnsins þegar litið er m.a. til öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn barns kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga enda er það niðurstaða nefndarinnar að það sé ekki andstætt réttindum barns kærenda að umsókn þess verði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi.

Vegna athugasemdar kærenda í greinargerð verður tekið fram að kærunefnd telur aðstæður þeirra ekki sambærilegar aðstæðum sem fjallað var um í úrskurðum kærunefndar útlendingamála nr. 393/2018 og 110/2019, m.a. þar sem um var að ræða annað viðtökuríki.

Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kærenda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kærenda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstök tengsl eða sérstakar ástæður sem mæli með því að mál þeirra verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á tengslum kærenda við landið og einstaklingsbundnum aðstæðum þeirra að öðru leyti.

Þá á síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki við í málum kærenda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi, en þau lögðu fram umsóknir sínar þann 30. október 2018.

Enn fremur telur kærunefnd ljóst að 45. gr. laga um útlendinga komi ekki til skoðunar í máli þessu, enda eru hvorki kærendur né B handhafar alþjóðlegrar verndar hér á landi.

Athugasemdir kærenda við ákvarðanir Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gera kærendur ýmsar athugasemdir við málsmeðferð og ákvarðanir Útlendingastofnunar, einkum með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærendur telji m.a. að ekki hafi farið fram einstaklingsbundið mat í málum þeirra, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Þá hafi stofnunin vísað í yfirlýsingar og gögn sem hafi ekki verið lögð fram við málsmeðferðina eða kynnt kærendum. Kærendur geri því kröfu um ógildingu ákvarðananna og nýja málsmeðferð.

Aðspurð um téðar yfirlýsingar og gögn sem kærendur hefðu ekki fengið aðgang að við málsmeðferðina kváðu kærendur að m.a. hefði verið um að ræða gögn frá flugstöðvardeild Lögreglunnar á Suðurnesjum, sem hefðu haft þýðingu við trúverðugleikamat í máli þeirra. Þá hefðu kærendur ekki fengið aðgang að gögnum frá Svíþjóð um aldur B, sem hefðu haft þýðingu við ákvörðun stofnunarinnar um að sameina ekki mál þeirra. Enn fremur væri ekki að finna meðal gagna málsins samskipti milli Útlendingastofnunar og ítalskra stjórnvalda um málefni fjölskyldunnar og óljóst væri, að mati kærenda, hvort stofnunin væri í ákvörðunum sínum að vísa almennt til ástands á Ítalíu eða gagna um rannsókn á aðstæðum fjölskyldunnar.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er málið varða. Líkt og fram kemur í lögskýringargögnum að baki ákvæðinu er regla þessi forsenda þess að málsaðili geti tjáð sig um málefni svo að fullt gagn sé að.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Það leiðir af fyrirmælum 13. gr. stjórnsýslulaga að hafi nýjar upplýsingar bæst við í máli án þess að aðila sé kunnugt um það ber stjórnvaldi að hafa frumkvæði að því að kynna aðila slíkar upplýsingar og gefa honum kost á að tjá sig um þær, ef um er að ræða upplýsingar sem eru aðila í óhag og ætla má að muni hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Samkvæmt niðurlagi 13. gr. stjórnsýslulaga er ekki skylt að gefa aðila kost á að tjá sig ef afstaða hans og rök fyrir henni liggja fyrir í gögnum málsins eða slíkt sé augljóslega óþarft. Framangreindar undantekningar frá andmælarétti ber almennt að skýra þröngt.

Af gögnum málsins verður ráðið að Útlendingastofnun hafi m.a. aflað upplýsinga frá lögreglu, sem kærendum hafi verið ókunnugt um að hefðu bæst við mál þeirra. Að mati kærunefndar er ljóst að framangreindar upplýsingar hafi verið kærendum í óhag og haft þýðingu við trúverðugleikamat stofnunarinnar. Bar stofnuninni því að upplýsa kærendur um að gögnin hefðu bæst við málin, áður en ákvarðanir voru teknar í þeim, og gefa þeim færi á að lýsa afstöðu sinni til þeirra. Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að meðferð málsins hjá Útlendingastofnun hafi ekki verið í samræmi við 13. gr. og 15. gr. stjórnsýslulaga að þessu leyti.

Hvað varðar gögn frá Svíþjóð um upplýsingar um skráðan aldur B þar er ljóst, að mati kærunefndar, að þau hafi ekki haft þýðingu að því er varðar kröfu kærenda um sameininingu málanna, enda falli mál kærenda ekki undir Dyflinnarreglugerðina, líkt og áður hefur verið rakið. Þá verður, að mati kærunefndar, talið ljóst að gögn frá Ítalíu sem Útlendingastofnun vísar til séu almennar skýrslur og gögn um aðstæður þar sem kærendur hafi jafnframt aðgang að.

Kærunefnd hefur nú veitt kærendum aðgang að gögnum um upplýsingar frá lögreglu sem nefndinni bárust frá Útlendingastofnun. Þá hefur kærunefnd farið yfir hinar kærðu ákvarðanir og málsmeðferð Útlendingastofnunar. Nefndin hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun en horft fram hjá téðum gögnum frá sænskum yfirvöldum og flugstöðvardeild Lögreglunnar á Suðurnesjum, þ. á m. að því er varðar trúverðugleikamat, enda hafa umrædd gögn ekki þýðingu við úrlausn þessa máls. Að mati kærunefndar hefur því verið bætt úr þeim annmarka sem var á meðferð málanna hjá Útlendingastofnun. Þá er það mat kærunefndar að lagt hafi verið einstaklingsbundið mat á umsóknir kærenda í samræmi við lagaáskilnað þar um. Gerir kærunefnd ekki athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar að öðru leyti.

Frávísun

Samkvæmt gögnum málsins kom M hingað til lands í febrúar 2018 en K og A þann 4. júlí 2018 og sóttu þau um alþjóðlega vernd þann 30. október 2018. Eins og að framan greinir hefur umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kærendum því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar.

Athygli kærenda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                    Hilmar Magnússon


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta