Hoppa yfir valmynd

Nr. 275/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 275/2019

Mánudaginn 30. september 2019

 

A

gegn

Félagsmálanefnd B

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 5. júlí 2019, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Félagsmálanefndar B frá 4. júní 2019 vegna umgengni við D.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul. Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Suðurlands X sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. X. Stúlkan lýtur hún forsjá Félagsmálanefndar B og hefur verið í fóstri hjá [...] frá því í X, fyrst tímabundnu fóstri í X mánuði en eftir það í varanlegu fóstri. Kærandi þessa máls er móðir stúlkunnar.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá X eru atvik þessa máls rakin. Fram kemur að afskipti félagsmálanefndarinnar hafi hafist í X vegna tilkynningar um [...]. Stúlkan hafi þá verið X mánaða gömul. Frá þeim tíma og til ársins X hafi verið reynt að auka foreldrahæfni kæranda með ýmsum úrræðum. Tvisvar hafi verið unnið forsjárhæfismat vegna kæranda og hafi það verið niðurstaða þeirra mata að forsjárhæfni kæranda væri verulega/alvarlega skert. Að mati héraðsdóms lá fyrir að daglegri umönnun og uppeldi barnsins hafi verið alvarlega ábótavant í höndum kæranda. Stúlkan væri í brýnni þörf fyrir stöðugleika í umhverfi sínu og þyrfti öruggar uppeldisaðstæður og örvun og utanumhald vegna [...]. Að mati dómsins skorti kæranda verulega innsæi við þarfir stúlkunnar og gæti kærandi ekki sinnt þörfum barnsins án eftirlits og stuðnings barnaverndaryfirvalda, en kærandi hafi ítrekað hafnað afskiptum barnaverndar. Taldi dómurinn að það samræmdist hagsmunum barnsins best að kærandi yrði svipt forsjá. Umgengni stúlkunnar við kæranda hefur frá X verið fyrsta helgi hvers mánaðar, frá föstudegi til sunnudags. Faðir hefur einnig haft umgengni við stúlkuna eina helgi í mánuði.

Í hinum kærða úrskurði Félagsmálanefndar B frá 4. júní 2019 kemur fram að kærandi hafi með bréfi X óskað eftir að stúlkan færi aftur í umsjá kæranda á ný, en ef ekki yrði fallist á það, að umgengni stúlkunnar yrði aukin verulega. Félagsmálanefndin hafi hins vegar talið að það væri í samræmi við hagsmuni stúlkunnar að minnka umgengni þannig að henni yrði háttað líkt og lagt hafi verið til í umgengnissamningi sem lagður hafi verið fyrir kæranda X 2019, þ.e. fyrstu helgina í öðrum hvorum mánuði.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„A, fær umgengni við D, fyrstu helgi annars hvers mánaðar frá 17:00 á föstudegi til kl. 17:00 á sunnudegi. Móðir mun því eiga umgengni við barn eftirtaldar dagsetningar á árinu 2019:

  • D til D
  • D til D
  • D til D

A skal sækja D á fósturheimili við upphaf umgengni og skila henni þangað aftur þegar umgengni er lokið. Óboðað eftirlit getur verið á heimili A á meðan umgengni stendur.

A hefur heimild til þess að sækja viðburði í lífi stúlkunnar s.s. [...] o.fl. í samráði starfsmann barnaverndar.“

 

II.  Sjónarmið kærenda

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að ákvörðun á umgengni kæranda við dóttur sína verði aukin frá því sem áður var. Umgengni hafi áður verið eina helgi í mánuði, frá föstudegi til sunnudags, en kærandi krefst þess að umgengnin vari lengur í hvert sinn eða að umgengnin fari fram með reglulegra millibili. Til vara krefst kærandi þess að umgengni verði óbreytt. Kærandi gerir ekki athugasemdir við þann hluta í úrskurði félagsmálanefndar er lýtur að umgengni á sérstökum viðburðum í lífi stúlkunnar og óboðuðu eftirliti í umgengni.

Kærandi telji ekki ástæðu til þess að reifa ítarlega málavexti umfram það sem komi fram í hinum kærða úrskurði, að öðru leyti en nauðsynlegt sé til rökstuðnings málsástæðna. Kærandi mótmælir þó staðhæfingum um slæm áhrif umgengninnar á stúlkuna og um óstöðugleika í lífi sínu.

Í stuttu máli varði málið umgengni kæranda við dóttur sína sem sé X ára en stúlkan sé í varanlegu fóstri. Umgengni hafi farið fram fyrstu helgi hvers mánaðar, frá föstudegi til sunnudags, frá því að kærandi var svipt forsjá með dómi Héraðsdóms Suðurlands, dags. X, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands nr. X.

Lögmaður kæranda hafi sent beiðni til Barnaverndar B, dags. X, f.h. kæranda um endurskoðun ráðstafana, sbr. 34. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), ásamt beiðni um aukna umgengni kæranda við dóttur sína. Í kjölfarið bókaði félagsmálanefnd X að þau teldu hagsmuni barnsins ekki standa til þess að fara á ný í umsjá kæranda og fól nefndin félagsráðgjafa barnaverndar að kanna afstöðu allra aðila málsins til aukinnar umgengni og meta hvað þjóni best hagsmunum barnsins í því tilliti. Það hafi verið mat barnaverndar að rétt væri að minnka umgengni kæranda við stúlkuna í eina helgi í öðrum hvoum mánuði, frá föstudegi til sunnudags, og að óboðað eftirlit yrði viðhaft við umgengni ef ástæða væri til. Þar sem samkomulag hafi ekki tekist um umgengni hafi málið verið lagt fyrir félagsmálanefnd B til úrskurðar. Félagsmálanefnd hafi fallist á tillögur barnaverndar um að minnka umgengni mæðgnanna.

Kærandi telur forsendur félagsmálanefndar fyrir skertri umgengni ómálefnalegar en hún telur aukna umgengni samræmast betur hagsmunum dóttur sinnar. Kærandi telur að engin rök séu fyrir því að minnka umgengni úr því sem áður var þar sem engin breyting hafi orðið á högum hennar eða dóttur hennar sem leiði til þess að skert umgengni sé nauðsynleg. Þá telur kærandi að gögn málsins renni ekki styrkum stoðum undir það að nauðsynlegt sé að minnka umgengni eða að umgengnin eins og hún hefur verið valdi óstöðugleika í lífi stúlkunnar. Kærandi telur að í ljósi vilja stúlkunnar, hversu vel umgengni hefur gengið og vegna bættrar stöðu sinnar í dag sé full ástæða til þess að auka umgengni. Kröfur sínar styðji kærandi að meginstefnu við eftirfarandi málsástæður:

Það sem er barni fyrir bestu

Við úrlausn þessa máls verði, líkt og endranær í barnaverndarmálum, að hafa að leiðarljósi það sem sé stúlkunni fyrir bestu en samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skal það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir og dómstólar gera ráðstafanir sem varða börn. Einnig skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi samkvæmt 1. mgr. 4. gr. bvl.

Kærandi telji að ákvörðun um umgengni hafi mjög viðhlutamikil áhrif á framtíðarhagsmuni stúlkunnar. Kærandi telur af þeim ástæðum sem nú verði raktar að hinn kærði úrskurður sé ekki í samræmi við hagsmuni dóttur sinnar og að það sé henni fyrir bestu að hafa ríkari umgengi við sig.

Kærandi telji einnig að við mat á því hvaða umgengni sé best fyrir hagsmuni stúlkunnar verði einnig að líta til líðanar og aðstæðna dóttur sinnar fósturheimilinu. Stúlkan hafi tjáð kæranda frá vanlíðan á fósturheimilinu og jafnframt má sjá líðan stúlkunnar í talsmannsskýrslu hennar, dags. X 2019. Þar lýsi stúlkan því að henni líði ekki nægilega vel á fósturheimilinu. Þar segi stúlkan frá vanlíðan yfir [...]. Að sama skapi lýsi stúlkan því hvernig hún fái hlýju og huggun frá kæranda. Því telji kærandi að það gefi stúlkunni mikið að komast í reglulega umgengni við sig þar sem henni líður vel og þar sem hún upplifi sig örugga og að hún fá þá hlýju og umhyggju sem henni er nauðsynleg. Þá hafi að mati kæranda reynslan af umgengni í máli þessu sýnt að mikil umgengni stúlkunnar við kæranda stuðli að góðri líðan hennar og sé því henni fyrir bestu.

Vilji barns og tengsl

Það sé grundvallaratriði í barnaverndarmálum að taka beri tillit til vilja barns, eftir því sem unnt er, sbr. 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 63. gr. a. bvl. Réttur barns til þess að hafa áhrif í öllum málum er sig varða, sé einnig lögfestur í 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Það sé ljóst af framkvæmd að vilji barns sé það sjónarmið sem vegur einna þyngst þegar ákvörðun er tekin um atriði er varða barnið, sérstaklega þegar um stálpuð börn er að ræða. Einnig hafi tengsl barns við foreldri almennt umtalsvert vægi við úrlausn barnaverndarmáls. Kærandi telji að þessum sjónarmiðum hafi ekki verið veitt nægt vægi við meðferð málsins hjá félagsmálanefnd.

Frá fæðingu stúlkunnar og þar til stúlkan hafi fyrst verið vistuð utan heimilis var stúlkan [hjá] kæranda. Frá því að stúlkan fór í fóstur hafi jafnframt verið óvenju mikil umgengni hjá þeim mæðgum miðað við það sem tíðkast almennt í varanlegu fóstri. Vegna þessa séu tengsl þeirra á milli bæði djúp og sterk. Almennt séð sé markmið með umgengni í barnaverndarmálum að barn þekki uppruna sinn. Þetta horfir þó nokkuð öðruvísi við í þessu máli vegna þeirra miklu samskipta sem hafa verið á milli þeirra mæðgna. Markmið með umgengni á milli mæðgnanna sem hér um ræðir sé ekki síst til að viðhalda þeim sterku tengslum sem nú séu til staðar. Kærandi telji nauðsynlegt að þessi tengsl þeirra mæðgna séu höfð að leiðarljósi við úrlausn þessa máls og því sé rýmri umgengni betur til þess fallin að styrkja og viðhalda þeim tengslum, en kærandi óttast að það tengslarof sem kunni að hljótast af skertri umgengni gæti valdið stúlkunni vanlíðan. 

Kærandi telur að veita verði vilja barnsins, sem sé nú X ára, umtalsvert vægi við úrlausn þessa máls, sér í lagi vegna þess hve einbeittur og skýr hann sé. Stúlkan hafi oft tjáð kæranda að hún vilji umgangast hana meira og jafnvel fá að flytja til hennar og vegna þessa hafi kærandi í upphafi óskað eftir aukinni umgengni. Þá vilji kærandi taka fram að það sé ekki rétt sem fram komi í hinum kærða úrskurði að hún segi ítrekað við stúlkuna að hún muni flytja aftur til hennar og að hún skapi þannig vonir og væntingar sem hún geti ekki staðið við, en raunin sé hins vegar sú að stúlkan tjáir kæranda ítrekað að hún vilji flytja aftur til kæranda. Þá sé ljóst af skýrslu talsmanns, dags. X 2019, að stúlkunni líði vel hjá kæranda, hún hlakki til að fara til hennar og að hjá kæranda fái hún þá hlýju og nánd sem henni sé nauðsynleg.

Kærandi telur að vegna aldurs stúlkunnar verði að veita vilja hennar mikið vægi við úrlausn þessa máls og einnig að verði að hafa það markmið fyrir augum við ákvörðun á umgengni að styrkja og efla tengsl stúlkunnar við sig. Kærandi telji að þar sem sú umgengni sem hún hafi lagt til sé í betra samræmi við vilja stúlkunnar og tengsl þeirra og hún sé því til þess fallin að þjóna hagsmunum hennar betur. Kærandi telur að það sé andstætt hagsmunum barnsins að ganga gegn vilja hennar í máli þessu.

 

Stöðugleiki og staða móður í dag

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. bvl. sé það grundvallarmarkmið í öllu barnaverndarstarfi að stuðla að stöðugleika í uppvexti barns. Kærandi telji sérstaklega mikilvægt að stuðla að sem mestum stöðugleika í lífi stúlkunnar, ekki síst vegna þeirra erfiðleika og sérþarfa sem barnið hefur glímt við. 

Í samantekt Barnaverndar B og í hinum kærða úrskurði virðist á því byggt að stöðugleikasjónarmið standi til þess að minnka umgengni kæranda við stúlkuna. Vísað sé til þess að stúlkan hafi þörf fyrir góða rútínu og að hún upplifi öryggi þegar hlutirnir séu í föstum skorðum. Þá sé vísað til þess að nokkur óstöðugleiki sé á lífi kæranda og í því skyni er vísað til þess að hún [...].

Kærandi telur að af stöðugleikasjónarmiðum leiði að betra sé fyrir stúlkuna að hafa reglulegri umgengni við sig því að á þann hátt verði umgengnin reglubundinn þáttur í daglegu lífi stúlkunnar. Kærandi hafni því að aukin umgengni sé til þess fallin að valda raski á lífi stúlkunnar. Kærandi telur að gögn málsins renni ekki styrkum stoðum undir þær staðhæfingar að umgengnin eins og hún sé í dag valdi raski á lífi stúlkunnar. Virðist sú ályktun fyrst og fremst vera reist á frásögum fósturforeldra sem varla geta talist hlutlausir í máli þessu og hefur því frásögn þeirra ein og sér lítið vægi sem sönnun um atvik málsins. Til þess að stuðla að stöðugleika í lífi stúlkunnar telur kærandi að tíðari umgengni þjóni hagsmunum hennar betur. Kærandi telur að fátíðari umgengni valdi frekar spennu í tengslum við umgengni og sé því til þess fallin að valda tilfinningalegu raski á lífi hennar. Þá telji kærandi að það hafi slæm áhrif á hegðun og líðan stúlkunnar að hafa svo litla umgengni við sig þegar vilji hennar standi til þess að umgengni sé aukin. Kærandi telji því samræmast mun betur hagsmunum stúlkunnar að umgengni verði reglubundinn þáttur í lífi hennar og telur hún aukna umgengni til þess fallna að stuðla að stöðugleika í lífi stúlkunnar, bæði í ytri aðstæðum sem og tilfinningalega.

Þá hafni kærandi staðhæfingum um að óstöðugleiki sé á lífi hennar í dag. Í hinum kærða úrskurði sé því til stuðnings vísað til [...]. Kærandi hafnar því að [...] leiði til þess að rétt sé að minnka umgengni eða að óstöðugleiki sé á lífi hennar í dag. Um sé að ræða [...] ekki að hafa áhrif á ákvörðun á umgengni hennar við stúlkuna í dag. Einnig veki kærandi athygli á því að [...] og því sé ekki um að ræða viðvarandi ástand eða ástand sem sé enn til staðar í dag, [...]. Þá megi leiða af skýrslu talsmanns að stúlkan hafi ekki haft slæma upplifun [...]. Það sé því ljóst að [...] hafi ekki haft áhrif á dóttur kæranda og að hún [...]. Raunin sé sú að frá því að dómur um forsjársviptingu féll hefur kærandi unnið þrotlaust í sínum málum og bætt hag sinn, forsjárhæfni og andlega og líkamlega líðan umtalsvert. Hún sé meðal annars í stöðugri vinnu og búi í góðu húsnæði fyrir þær mæðgur. Þá reyni hún markvisst að hafa reglu á daglegri rútínu barnsins þegar umgengni á sér stað, til að mynda með því að hafa reglu á svefni hennar og með því að [...]. Kærandi telji að ekki hafi verið tekið nægt tillit til bættrar stöðu hennar í dag við úrlausn málsins hjá félagsmálanefnd en að mati kæranda sé bætt staða hennar til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á upplifun stúlkunnar af umgengni. Einnig leiði það til þess að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að stúlkunni sé vel sinnt og að hún sé örugg í umsjá kæranda þar sem kærandi hafi alla burði til þess að sinna þörfum stúlkunnar í umgengni og bjóða henni upp á stöðugar og öruggar uppeldisaðstæður þegar hún sé í umgengni við sig.

Þá veki kærandi jafnframt athygli á því að nú standa yfir málaferli þar sem hún krefst þess að fá forsjá stúlkunnar aftur. Verði úrslit þess máls henni í hag þá muni stúlkan fara aftur varanlega í umsjá hennar. Vegna þessa telur kærandi ekki gott fyrir stúlkuna að umgengni sé skert nú þegar óvíst sé um framtíðardvalarstað stúlkunnar. Kærandi telji það því leiða til óþarflega mikils óstöðugleika í lífi stúlkunnar að skerða umgengni nú ef hún skyldi fara aftur í umsjá kæranda þegar niðurstaða í forsjármáli liggur fyrir. Réttara væri að endurskoða tillögu Barnaverndar B um skerta umgengni þegar niðurstaða forsjármálsins liggur fyrir.

Meðalhóf

Loks telji kærandi úrskurð félagsmálanefndar brjóta í bága við meðalhófsreglu barnaverndarlaga, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl., og til hliðsjónar 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en af ákvæðunum leiðir að tillagan verður að vera til þess fallin að ná því markmiði sem að er stefnt, vægasta úrræði beitt og úrræðinu auk þess beitt í hófi.

Mat félagsmálanefndar á því að skerða þurfi umgengni sé meðal annars reist á sjónarmiðum um óstöðugleika í lífi kæranda með vísan til [...]. Að mati kæranda samræmist það ekki meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar að skerða umgengni vegna þessa, ekki síst þar sem [...]. Sé það mat félagsmálanefndar að [...] væri betur í samræmi við meðalhófsreglu að hafa umgengni með óbreyttum hætti en að viðhafa óboðað eftirlit með umgengni til þess að hægt sé að tryggja stöðugleika og öruggar aðstæður fyrir stúlkuna í umgengni. Að mati kæranda sé gengið of langt með því að skerða umgengni og gengur sú málsmeðferð gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Málshraði

Barnaverndaryfirvöld eru bundin af málshraðareglu, sbr. 2. mgr. 41. gr. bvl., 9. gr. stjórnsýslulaga og 38. gr. bvl. Í því felst að ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er. Þessi regla sé sérstaklega mikilvæg í barnaverndarmálum þar sem almennt standa hagsmunir barna til þess að fá úrlausn sinna mála án óþarfa dráttar. Líkt og að framan var rakið sendi lögmaður, fyrir hönd kæranda, beiðni um aukna umgengni þann X. Umgengnismálið hafi þó ekki átt að taka fyrir fyrr en X 2019 en því hafi verið frestað til X að beiðni kæranda til þess að hún ætti raunhæfan möguleika á að nýta andmælarétt sinn. Engu að síðar hafi liðiðX mánuðir frá því að kærandi óskaði eftir aukinni umgengni þar til leggja átti málið fyrir félagsmálanefnd. Þessi dráttur á málinu sé í senn óútskýrður, óþarfur og felur í sér skýrt brot á málshraðareglu stjórnsýsluréttar.

 

III.  Sjónarmið Félagsmálanefnd B

Í greinargerð Félagsmálanefndar B til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. júlí 2019, kemur fram að ekki sé tilefni til að fallast á kröfur kæranda, enda sé það í samræmi við hagsmuni barnsins að hinn kærði úrskurður standi óraskaður með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar. Umgengni stúlkunnar við kæranda hafi verið ákveðin fyrstu helgi, annars hvors mánaðar frá kl. 17:00 á föstudegi til kl. 17:00 á sunnudegi.

Málavextir séu í stuttu máli þeir að kærandi hafi verið svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms E í máli nr. X sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. X. Barnið hafi verið samfellt vistað í fóstri  á vegum félagsmálanefndar frá því í X hjá [...].

Frá því að kærandi hafi verið svipt forsjá stúlkunnar hafi hún verið í mjög ríflegri umgengni við stúlkuna eða eina helgi í hverjum mánuði. Það sama eigi við um föður stúlkunnar sem hafi jafnframt verið í umgengni við hana eina helgi í hverjum mánuði. Barnið hafi því verið í umgengni við annað foreldri, aðra hvora helgi. Almennt hefur verið talið að hæfileg umgengni barna við forsjársvipt foreldri sé tvisvar til fjórum sinnum á ári.

Þegar krafa kæranda um aukna umgengni hafi komið fram komu fósturforeldrar í viðtal hjá starfsmanni barnaverndar. Í viðtalinu hafi komið fram að þau teldu umgengni við foreldra of mikla með tilliti til hagsmuna barnsins. Þau hafi upplýst að barnið hefði mikla þörf fyrir að hafa daglegt líf í föstum skorðum og rútínu en að þeirra mati hafði svo mikil umgengni ekki góð áhrif á líðan barnsins. Þau töldu barnið vera aðlagast aðstæðum á fósturheimilinu á ný eftir umgengnishelgi við foreldri þegar að næstu umgengnishelgi kæmi. Þá hafi kærandi ítrekað vakið vonir hjá barninu um að það færi alfarið í umsjá hennar á ný, án þess að geta staðið við það, sem hafi mjög neikvæð áhrif á líðan barnsins. Barnið hafi einnig lýst skorti á reglum á heimili móður þar sem hún búi við frjálsræði og því hafi skapast togstreita á milli barnsins og fósturforeldra eftir umgengnishelgar þar sem barnið fari í umgengni við kæranda.

Það sé mat félagsmálanefndar að almennt megi telja að það fyrirkomulag, sem hafi verið á umgengni barnsins við foreldra, hafi ekki verið í samræmi við hagsmuni barnsins, enda þurfa börn að búa við stöðugleika í sínu daglega lífi en umgengni skal, sbr. 74. gr. bvl., vera í samræmi við hag barnsins og þarfir þess. Umgengni sú sem ákveðin hafi verið með úrskurði félagsmálanefndar sé rífleg ef litið sé til þess sem almennt sé talið hæfileg umgengni barns við forsjársvipt foreldri, enda líti félagsmálanefnd þá til þeirra sérstöku aðstæðna sem liggja fyrir í máli þessu, til að mynda tengsla barnsins við foreldra sína.

Í forsendum í úrskurði sínum líti félagsmálanefnd einnig til nýrrar tilkynningar frá F og gagna frá [...] þegar tekin hafi verið ákvörðun um að minnka umgengni en í kæru mótmæli móðir því að [...]. Samkvæmt gögnum frá [...] og F virðist [...]. Að þessum aðstæðum virtum hafi nefndin einnig talið nauðsynlegt að boða óboðað eftirlit á heimili kæranda á meðan barnið væri í umgengni.

Kærandi hafi ekki óskað sérstaklega eftir að fá að vera viðstödd sérstaka viðburði í lífi barnsins áður en andmæli hennar komu fram, svo sem [...] og svo framvegis en félagsmálanefnd taldi ekkert því til fyrirstöðu að kæranda væri heimilað að vera viðstödd slíka viðburði, hefði hún áhuga á því.

Varðandi það sem kærandi taki fram í kæru sinni um þau málaferli sem standa yfir vegna forsjár barnsins þá sé rétt að upplýsa að málið sé til meðferðar hjá Héraðsdómi E en matsmaður hafi verið dómkvaddur til þess að meta forsjárhæfni kæranda og muni hann að öllum líkindum ljúka vinnu sinni í X. Það sé því ljóst að niðurstaða héraðsdóms mun ekki liggja fyrir fyrr en í fyrsta lagi X og sé þá óvíst hvort málið hljóti meðferð hjá Landsrétti og Hæstarétti í framhaldi. Félagsmálanefnd telji ófært að bíða með breytingar á umgengni svo lengi en það væri í ósamræmi við hag og þarfir barnsins.

Varðandi athugasemdir við málshraða hjá barnavernd hafi erindi kæranda verið tekið til vinnslu hjá félagsmálanefnd við fyrsta tækifæri eftir að það barst. Félagsmálanefnd hafi falið starfsmanni nefndarinnar að rannsaka málið, rætt hafi verið alla aðila og óskað eftir nýjum gögnum sem voru nokkurn tíma að berast, en enn hafi ekki borist gögn frá öllum þeim aðilum sem óskað hafi verið gagna frá. Félagsmálanefnd telji því að dráttur á vinnslu málsins hafi ekki verið verulegur en málsmeðferðartíminn skýrist af því að rannsókn málsins tók lengri tíma en búist hafi verið við.

 

IV.  Sjónarmið fósturforeldra barnanna

Í viðtali starfsmanns barnaverndar við fósturforeldra barnsins X 2019 kom fram að það væri þeirra vilji að stúlkan myndi halda tengslum sínum við móður og föður en þau telji umgengnina of mikla með tilliti til hagsmuna barnsins. Þau segi að stúlkan hafi mikla þörf fyrir góða rútínu og að hún sé örugg þegar hlutirnir séu í föstum skorðum. Stúlkan hafi undanfarin ár farið í umgengni til móður fyrstu helgi hvers mánaðar og umgengni við föður þriðju helgi hvers mánaðar. Að mati fósturforeldra sé stúlkan að komast í rútínu á ný eftir umgengni þegar komið sé að næstu umgengnishelgi. Þau telja hagsmuni stúlkunnar felast í því að dregið verði úr umgengni og að það sé nóg fyrir hana að eiga umgengni við foreldri eina helgi í mánuði.

 

V. Sjónarmið barnsins

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var afstaða barnsins til breyttrar umgengni við kæranda ekki könnuð.

 

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er fædd X og er því X ára gömul. Hún er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrunum, G og H.

Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms E frá X sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands. Samkvæmt gögnum málsins óskaði kærandi með bréfi X eftir því að stúlkan færi aftur í hennar umsjá en til vara að umgengni yrði aukin verulega. Félagsmálanefnd B hafi hins vegar talið það vera í samræmi við hagsmuni stúlkunnar að minnka umgengni við kæranda. Með hinum kærða úrskurði frá 4. júní 2019 var því ákveðið að umgengni stúlkunnar við móður sína yrði fyrstu helgi annars hvors mánaðar í stað fyrstu helgi hvers mánaðar. Þá var ákveðið óboðað eftirlit á meðan umgengni stendur.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að nýr umgengnissamningur hafi verið lagður fyrir kæranda X 2019. Í þeim samningi hafi verið gert ráð fyrir að umgengni við móður yrði minnkuð en kærandi hafi hafnað þeim samningi og samkomulag hafi ekki náðst um umgengni. Félagsmálanefnd B hafi því tekið málið til úrskurðar í samræmi við 74. gr. bvl.

Kæranda var veittur andmælaréttur vegna fyrirliggjandi umgengnistillögu og bárust andmæli 4. júní 2019 þar sem þess var krafist að Félagsmálanefnd B myndi hafna tillögu Barnaverndar B og úrskurðað yrði um aukna umgengni móður við stúlkuna þannig að umgengni vari lengur og fari fram með reglulegra millibili. Í andmælum kæranda kom fram að hún teldi tillögu barnaverndar ganga gegn hagsmunum og vilja stúlkunnar. Kærandi benti á að engar breytingar hafi orðið á hennar högum eða dóttur sinnar sem eigi að leiða til þess að skerða eigi umgengni. Kærandi telji að í ljósi velgengni, bættrar stöðu hennar og vilja stúlkunnar sé ástæða til þess að auka umgengni, enda séu tengsl milli þeirra mæðgna bæði djúp og sterk. Bent sé á að staða þessa máls sé óvenjuleg þar sem umgengni hafi verið óvenjulega mikil miðað við að stúlkan sé í varanlegu fóstri. Kærandi bendi á að út frá sjónarmiðum um stöðugleika sé það í samræmi við hagsmuni stúlkunnar að umgengni sé sem reglubundnastur þáttur í daglegu lífi  stúlkunnar.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd hennar.

 

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Ákvæðið er nánari útfærsla á meginreglu barnaverndarstarfs þess efnis að barnaverndaryfirvöld skuli í störfum sínum taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til, sbr. 2. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt framangreindu ber barnaverndaryfirvöldum að leita eftir sjónarmiðum barnsins við meðferð máls og taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins.

 

Samkvæmt gögnum málsins kannaði hvorki Barnavernd B né Félagsmálanefnd B hver væri afstaða stúlkunnar til breyttrar umgengni. Í málinu liggja ekki fyrir nein gögn sem sýna fram á hver sjónarmið stúlkunnar voru um að draga mikið úr umgengni hennar við kæranda. Stúlkunni var ekki skipaður talsmaður í því skyni að afla upplýsinga um afstöðu hennar, sbr. 3. mgr. 46. gr. bvl., en samkvæmt 31. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd er hlutverk talsmanns að ræða við barnið og koma á framfæri sjónarmiðum þess. Því hefur afstaða stúlkunnar, sem er X ára gömul, til þeirrar ráðstöfunar sem gripið var til með hinum kærða úrskurði ekki verið könnuð með fullnægjandi hætti. Félagsmálanefnd ber samkvæmt framangreindum lagaákvæðum að meta hvort þörf er á að skipa barni talsmann. Úrskurðarnefndin telur að þörf hafi verið á því í máli þessu í þeim tilgangi að afla með fullnægjandi hætti upplýsinga um afstöðu stúlkunnar til efnis og framkvæmdar þeirrar umgengni sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði.

 

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Sama regla kemur fram í 1. mgr. 41. gr. bvl., en þar segir að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Það fer eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga barnaverndarnefnd beri að afla um viðkomandi mál til þess að rannsókn teljist fullnægjandi. Með vísan til þess, sem að framan greinir um skyldu Félagsmálanefndarinnar til að afla upplýsinga um afstöðu barnsins áður en ákvörðun var tekin í málinu, verður að telja að rannsókn málsins hafi að því leyti verið ábótavant, sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Eins og málið liggur fyrir og þegar hefur komið fram verður jafnframt að telja að barnaverndarnefndinni hafi borið að skipa barninu talsmann við meðferð þessa máls samkvæmt 2. og 3. mgr. 46. gr. bvl. og 31. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004.

 

Vegna þessa ágalla á málsmeðferð verður að telja ákvörðunina, sem tekin var með hinum kærða úrskurði, ólögmæta. Ber með vísan til þess að fella hann úr gildi, sem leiðir til þess að taka þarf ákvörðun að nýju að gættum viðeigandi málsmeðferðarreglum, en samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl., sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015, getur úrskurðarnefnd velferðarmála vísað málinu til barnaverndarnefndar til meðferðar að nýju. 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Félagsmálanefndar X frá 4. júní 2019 um umgengni D við A, er felldur úr gildi og er málinu vísað til félagsmálanefndarinnar til meðferðar að nýju.

 

 

Kári Gunndórsson

Björn Jóhannesson                                                   Guðfinna Eydal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta