Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 157/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 157/2017

Mánudaginn 8. maí 2017

A
gegn
Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. apríl 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs frá 25. apríl 2017.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsóknum, dags. 25. júlí 2016, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og fæðingarstyrk vegna væntanlegrar barnsfæðingar X 2016. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 5. ágúst 2016, var kæranda synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en tilkynnt að hún ætti þess í stað rétt á fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar. Með tölvupósti 24. apríl 2017 tilkynnti kærandi Fæðingarorlofssjóði að hún hefði verið í vinnu frá 1. nóvember 2016 og hygðist því sækja um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði.

Með tölvupósti 25. apríl 2017 tilkynnti Fæðingarorlofssjóður kæranda að ef hún hygðist sækja um sem launþegi bæri henni að leggja fram umsókn um fæðingarorlof, tilkynningu um fæðingarorlof, tvo nýjustu launaseðla og staðfestingu á tæknifrjóvgun.

Kærandi kærði framangreinda ákvörðun Fæðingarorlofssjóð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, dags. 25. apríl 2017. Kærandi krefst þess að Fæðingarorlofssjóður falli frá þeirri kröfu að hjón, sem gengist hafa undir tæknifrjóvgun samkvæmt íslenskum lögum, séu skyldug til þess að senda inn staðfestingu á því. Kærandi vísar til 2. og 3. mgr. 6. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 10., 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs frá 25. apríl 2017 um að kæranda beri að leggja fram staðfestingu á tæknifrjóvgun.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Ákvarðanir sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í málinu þar sem málið er til lykta leitt, þ.e. svokallaðar formákvarðanir, verða því ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt tölvupósti Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. apríl 2017, var kæranda gefinn kostur á að leggja fram gögn vegna umsóknar hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt gögnum málsins hafði Fæðingarorlofssjóður því ekki tekið endanlega ákvörðun í máli kæranda þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Að því virtu og í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Með vísan til framangreinds er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta