Hoppa yfir valmynd

Nr. 11/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. janúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 11/2021

Í stjórnsýslumáli nr. KNU20110037

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

Þann 16. nóvember 2020 barst kærunefnd útlendingamála kæra einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. október 2020, um að synja umsókn hans um dvalarskírteini fyrir útlending sem ekki er EES- eða EFTA-borgari á grundvelli hjúskapar með EES- eða EFTA-borgara.

Fyrrgreind ákvörðun Útlendingastofnunar er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í ákvæði 7. gr. kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar sé heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Samkvæmt gögnum málsins var þáverandi umboðsmanni kæranda tilkynnt um ákvörðun Útlendingastofnunar þann 30. október 2020. Þann 16. nóvember 2020 barst kærunefnd tilkynning um kæru á ákvörðun Útlendingastofnunar. Er samkvæmt framansögðu ljóst að kærufresturinn, sem var til 14. nóvember 2020, var liðinn þegar kæran barst.

Þar sem kæran barst að liðnum kærufresti var umboðsmanni kæranda, með tölvupósti kærunefndar dags. 18. nóvember 2020, veitt tækifæri til að gera grein fyrir ástæðum þess að kæran barst ekki fyrr, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Athugasemdir umboðsmanns kæranda bárust kærunefnd þann 24. nóvember 2020 ásamt fylgigögnum.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga, er kveðið á um réttaráhrif þess þegar kæra berst æðra stjórnvaldi að liðnum kærufresti. Þar segir í 1. mgr.:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er því að finna tvær undantekningarreglur frá þeirri meginreglu laganna að kærumáli skuli vísað frá æðra stjórnvaldi ef kæra berst að liðnum kærufresti. Í athugasemdum við einstakar greinar í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um ákvæðið að í fyrsta lagi sé gerð undantekning þegar afsakanlegt er að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Hér geti t.a.m. fallið undir ef stjórnvald lætur hjá líða að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða hefur veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi má taka mál til meðferðar ef veigamiklar ástæður mæla með því. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar er m.a. litið til hagsmuna aðila máls og hvort mál hafi fordæmisgildi.

Ákvörðun Útlendingastofnunar var send til þáverandi umboðsmanns kæranda með ábyrgðarpósti og var afhending bókuð þann 30. október 2020. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var, í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og hvert kærandi skyldi beina kæru. Líkt og áður hefur komið fram barst kærunefnd ekki kæra frá kæranda fyrr en þann 16. nóvember sl. en 15 daga kærufrestur rann út þann 14. nóvember 2020.

Í skýringum umboðsmanns kæranda á því hvers vegna kæra barst of seint kemur fram að kærandi hafi lýst vantrausti í garð fyrri lögmanna sinna þar sem honum hafi fundist málefnum hans hafa verið sinnt illa og af áhugaleysi. Þá hafi tungumálaörðugleikar leitt til þess að hann hafi ekki fengið nógu góðar leiðbeiningar varðandi beiðnir og kröfur sem hefðu komið frá Útlendingastofnun í máli hans sem hafi haft ráðandi áhrif á að umsókn hans haf verið hafnað. Kærandi hafi sjálfur fengið hina kærðu ákvörðun afhenta þann 16. nóvember 2020. Vísar kærandi til framlagðra tölvupóstsamskipta sinna við þáverandi umboðsmann sinn. Þann 10. nóvember 2020 hafi kærandi sent tölvupóst á þáverandi umboðsmann sinn og spurst fyrir um málið sitt og fengið þau svör frá lögmanni þar að Útlendingastofnun væri enn að vinna í málum hans og að hann fengi að vita um leið og stofnunin hefði samband við lögmennina. Miðað við upplýsingar málsins sé ljóst að þá þegar hafi lögmaður hjá lögmannsstofunni móttekið ákvörðun Útlendingastofnunar 10 dögum áður en ekki haft fyrir því að upplýsa viðkomandi samstarfsmenn né kæranda sjálfan um móttökuna. Með vísan til framangreinds er þess óskað að kæranda verði veitt leyfi til að leggja fram kæru vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli hans skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Þegar aðili stjórnsýslumáls hefur falið umboðsmanni að koma fram fyrir sína hönd við rekstur máls ber stjórnvaldi almennt að snúa sér til umboðsmanns með atriði er lúta að málsmeðferð og rekstri málsins. Í því felst m.a. að stjórnvaldinu ber að birta umboðsmanni ákvörðun í málinu leiði ekki annað af lögum og verður stjórnvaldsákvörðun bindandi fyrir aðila máls þegar hún er komin til umboðsmanns hans.

Fyrirliggjandi í gögnum málsins er undirritað umboð, dags. 6. janúar 2020, þar sem fram kemur að kærandi veiti tilgreindum lögmönnum og lögmannsstofu fullt og ótakmarkað umboð til að gæta hagsmuna sinna gagnvart Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála, innanríkisráðuneytinu, lögreglu og öðrum stjórnvöldum. Kemur fram að kærandi veiti umboð til að afla og taka við gögnum og fjármunum, annast öll nauðsynleg samskipti fyrir sína hönd og fara með sín mál að öðru leyti sem nauðsynlegt kunni að reynast, þ.m.t. að höfða mál. Í samræmi við framangreint umboð var Útlendingastofnun í samskiptum við umrædda lögmenn við málsmeðferð dvalarumsóknar kæranda, þ. á m. vegna frekari gagnaöflunar. Þá var ákvörðun Útlendingastofnunar skv. upplýsingum frá Póstinum afhent á skrifstofu framangreindrar lögmannsstofu þann 30. október 2020 en kæra var ekki lögð fram í málinu af þeirra hálfu innan kærufrests.

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar telur kærunefnd að þær athugasemdir sem færðar hafa verið fram leiði ekki til þess að afsakanlegt geti talist að kæra hafi ekki borist fyrr. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekki verði talið að taka beri kæruna til meðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Þá hefur kærunefnd farið yfir gögn málsins, þ.m.t. ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda. Að mati nefndarinnar verður hvorki séð af gögnum málsins að um slíkt fordæmisgefandi mál sé að ræða né að hagsmunir kæranda eða almannahagsmunir krefjist þess að málið verði tekið til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að vísa beri kæru þessari frá nefndinni.

 

Úrskurðarorð

Kæru kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað frá kærunefnd útlendingamála.

The Immigration Appeals Board dismisses the appellant‘s appeal of the decision of the Directorate of Immigration.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Sandra Hlíf Ocares                                          Gunnar Páll Baldvinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta