Hoppa yfir valmynd

Nr. 314/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 314/2018

Fimmtudaginn 15. nóvember 2018

A

gegn

Mosfellsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. september 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Mosfellsbæjar frá 4. september 2018 á umsókn hans um fjárhagsaðstoð.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 31. júlí 2018, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð hjá Mosfellsbæ fyrir ágústmánuð 2018. Umsókn kæranda var tekin fyrir á trúnaðarmálafundi fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar þann 17. ágúst 2018 og var synjað með vísan til 2., 4. og 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar sem tók málið fyrir á fundi þann 4. september 2018 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 6. september 2018. Með bréfi, dags. 10. september 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Mosfellsbæjar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Mosfellsbæjar barst með bréfi, dags. 17. september 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. september 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda 25. september 2018 og voru þær sendar Mosfellsbæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki. Þann 23. október 2018 óskaði úrskurðarnefndin eftir afriti af umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð og barst hún 2. nóvember 2018.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að þau hjónin hafi bæði sótt um húsaleigustuðning og fjárhagsaðstoð frá Mosfellsbæ þar sem þau hafi neyðst til að flýja land vegna ákveðinna atburða. Þau hafi fengið lélega þjónustu frá sveitarfélaginu frá því í apríl/maí og ekki fengið nein svör að viti. Vegna atburðanna séu þau föst erlendis og að verða peningalaus.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að þau séu með lögheimili í Mosfellsbæ og leigi þar húsnæði. Þau séu ekki flutt úr landi heldur séu þau [...] erlendis. Þeirra mál sé sérstakt og því hafi þau talið að þau myndu fá aðstoð, hvort sem hún væri í formi láns eða styrks.

III.  Sjónarmið Mosfellsbæjar

Í greinargerð Mosfellsbæjar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð hafi verið synjað á trúnaðarmálafundi þann 17. ágúst 2018 með vísan til 2. mgr. 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ sem kveði á um aðstoð til þeirra sem eigi lögheimili í sveitarfélaginu. Í 4. gr. reglnanna komi fram að lögheimili manns sé sá staður þar sem hann hafi fasta búsetu, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili. Kærandi hafi flutt af landi brott í maí 2018 og hafi því ekki haft fasta búsetu í Mosfellsbæ í rúma fjóra mánuði þegar umsóknin hafi verið tekin fyrir í ágúst 2018. Þá var þess getið að í 2. tölul. 7. gr. reglna sveitarfélagsins komi fram að hafi umsækjandi ekki fengið að skrá sig á vinnumiðlun vegna þess að hann hafi ekki verið í virkri atvinnuleit eigi hann ekki rétt á fjárhagsaðstoð. Þá segi í sama lið að umsækjandi teljist ekki í virkri atvinnuleit ef hann dveljist erlendis. Í greinargerðinni er einnig vísað til þess að fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar hafi staðfest synjun trúnaðarmálafundar þar sem kærandi hafi hvorki framvísað staðfestingu vinnumiðlunar um að hann væri í virkri atvinnuleit, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. reglna sveitarfélagsins, né hafi hann framvísað læknisvottorði er staðfesti óvinnufærni, sbr. 4. tölul. Þá geti hann ekki komið til viðtals við félagsráðgjafa, sbr. 7. tölul., þar sem hann dveljist ásamt fjölskyldu sinni erlendis.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Mosfellsbæjar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2018.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð var fyrst synjað á trúnaðarmálafundi fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar þann 17. ágúst 2018, með vísan til 2., 4. og 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ en þar eru talin upp nauðsynleg fylgigögn umsóknar. Kemur það fram í bréfi, dagsettu sama dag. Kærandi skaut málinu til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar sem staðfesti fyrri bókun trúnaðarmálafundar. Í greinargerð Mosfellsbæjar vegna kærumálsins er hins vegar vísað til þess að umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð hafi verið synjað með vísan til 2. mgr. 1. gr. reglnanna þar sem fram komi að fjárhagsaðstoð skuli veitt þeim sem eigi lögheimili í Mosfellsbæ. Kærandi hafi flutt af landi brott í maí 2018 og hafi því ekki haft fasta búsetu í Mosfellsbæ í rúma fjóra mánuði þegar umsóknin hafi verið tekin fyrir í ágúst 2018. Virðist það hafa verið ráðandi þáttur í niðurstöðu sveitarfélagsins. Ljóst er að ósamræmi er því á milli hinnar kærðu ákvörðunar og því sem fram hefur komið af hálfu sveitarfélagsins og telur úrskurðarnefndin ástæðu til að gera athugasemd við það.

Í 18. gr. reglna sveitarfélagsins er kveðið á um rökstuðning synjunar. Þar segir meðal annars að umsækjanda sem sé synjað um fjárhagsaðstoð skuli svarað skriflega, þar sem forsendur synjunar séu rökstuddar ásamt tilvitnunum í viðeigandi greinar fjárhagsaðstoðarreglna. Að mati úrskurðarnefndarinnar gætti Mosfellsbær ekki að þeirri skyldu sinni og beinir úrskurðarnefndin því til sveitarfélagsins að haga málsmeðferð sinni vegna umsókna um fjárhagsaðstoð framvegis í samræmi við reglur þar að lútandi. Við úrlausn málsins verður tekið mið af rökstuðningi sveitarfélagsins í greinargerð til úrskurðarnefndarinnar. 

Í 12. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að sveitarfélag skuli veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Í 1. mgr. 13. gr. laganna kemur fram að með íbúa sveitarfélags sé í lögunum átt við hvern þann sem lögheimili á í viðkomandi sveitarfélagi. Það er meginregla samkvæmt lögum nr. 21/1990 um lögheimili að skráð lögheimili sé sá staður þar sem viðkomandi hefur fasta búsetu samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum sem koma fram í 1. gr. laganna. Óumdeilt er að kærandi átti lögheimili í sveitarfélaginu þegar hann sótti um fjárhagsaðstoð. Mosfellsbæ var því óheimilt að synja umsókn kæranda á þeim grundvelli að dvalarstaður hans væri ekki hér á landi. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Mosfellsbæjar frá 4. september 2018 um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta