Mál nr. 18/2007. Úrskurður kærunefndar útboðsmála: Gróco gegn Ríkiskaupum.
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 4. febrúar 2008
í máli nr. 18/2007:
Gróco ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Með bréfi, dags. 10. desember 2007, kærði Gróco ehf. þá ákvörðun Ríkiskaupa að taka tilboði Lyru ehf. í útboði nr. 14354 – Blóðkornateljarar fyrir LSH. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:
„Í ljósi þess hve mikið ber á milli tilboða Gróco ehf. og Lyru ehf. má ætla að það sé öllum aðilum til hagsbóta að innkaupaferlið verði stöðvað á meðan beðið er eftir rökstuðningi kaupanda og viðbrögðum umbjóðanda Gróco ehf. Þess er því farið á leit við kærunefnd útboðsmála að stöðva innkaupaferlið samkv. 96. laga nr. 84/2007 þar til ljóst er hvaða forsendur lágu að baki vali kaupanda.“
Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Með bréfi kærða, dags. 17. desember 2007, krafðist kærði þess að kröfu kæranda yrði hafnað.
Með bréfi kæranda, dags. 17. desember 2007, bætti kærandi við kröfu um að ákvörðun kærða um val á tilboði yrði felld úr gildi en gerði áskilnað um frekari rökstuðning að fengnum frekari gögnum. Með bréfi kæranda, dags. 28. desember 2007, rökstuddi kærandi kröfur og málsástæður sínar frekar en þá hafði kæranda borist rökstuðningur kærða fyrir hinni kærðu ákvörðun. Með bréfi, dags. 21. janúar 2008, barst greinargerð kærða. Með bréfi, dags. 24. janúar 2008, bárust viðbrögð kæranda við greinargerð kærða en þar var auk þess gerð krafa um að nefndin gæfi álit á skaðabótaskyldu kærða.
Með ákvörðun, dags. 17. desember 2007, stöðvaði kærunefnd útboðsmála gerð samnings í kjölfar útboðs Ríkiskaupa nr. 14354 – Blóðkornateljarar fyrir LSH.
I.
Hinn 22. ágúst 2007 auglýsti kærði útboð nr. 14354 – Blóðkornateljarar fyrir LSH. Í 1.2.7. gr. útboðsins sagði að tilboð yrðu metin samkvæmt stigamatskerfi sem skiptist í 7 matsliði. Í greininni sagði einnig að tilboðum yrði vísað frá ef þau fengju undir 7,5 í einkunn í einhverjum matslið.
Hinn 7. desember 2007 tilkynnti kærði að tekið hefði verið tilboði Lyru ehf. í útboðinu þar sem tilboðið væri „hagstæðast fyrir kaupanda samkvæmt matslíkani útboðslýsingar“. Frekari rökstuðningur fylgdi ekki tilkynningunni. Hinn 14. desember 2007 sendi kærði nýja tilkynningu og tók fram að 10 daga frestur samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007, byrjaði að líða frá þeim degi. Hinn 17. desember 2007 barst kæranda rökstuðningur kærða fyrir ákvörðun um val á tilboði.
II.
Kærandi byggir á því að upprunaleg tilkynning kærða um val á tilboði hafi ekki verið í samræmi við 1. mgr. 75. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, enda hafi þar ekki verið upplýsingar um kosti og eiginleika þess tilboð sem kaupandi valdi.
Kærandi segir mat kærða á matsliðnum „almennar tæknilegar kröfur“ hafi verið rangt. Segir kærandi að við matið hafi ranglega verið miðað við að tæki kæranda noti ljósfræðimælingar í öllum talningum, en hið rétta sé að tækið sem kærandi bauð noti einnig viðnámsmælingar.
Kærandi segir mat kærða á matsliðnum „notkunarhaganleiki og notendavænleiki“ hafi einnig verið rangt. Í þeim matslið hafi kærði tekið fram að tækið sem kærandi bauð hafi notað 200 uL örsýni við mælingar sem valdi vandræðum vegna rannsókna á fyrirburum og nýburum. Kærandi segir að tækið sem var valið noti eins örsýni við mælingar og að tækin séu sambærileg að miklu leyti en tækið sem kærandi bauð bjóði upp á meiri möguleika. Þá hafi kærði einnig sagt að tæki kæranda telji ekki frumur í öðrum líkamsvessum. Kærandi segir þetta rangt og að í tilboðsgögnum hafi komið fram að tækið muni telja frumur í öðrum líkamsvessum eftir að aðferð tækisins til þess yrði vottuð í janúar 2008. Kærði hafi gert ráð fyrir að aðferð kæranda gefi eitraðan úrgang en það segir kærandi að sé rangt eins og komið hafi fram í tilboðsgögnum. Kærði miðaði við að talningarhraði fyrir deili- og netfrumutalningu væri aðeins 60 sýni/klst., sem væri töluvert undir kröfum útboðslýsingar um a.m.k. 100 sýni/klst. Kærandi segir þetta reyndar rétt ef miðað sé við „manual mode“ en hins vegar telji tækið 120 sýni/klst. í „auto mode“. Að lokum miði kærði við að daglegt viðhald sé 30 mínútur en kærandi segir viðhaldið taka 20 mínútur og að með „automatic mode“ megi nota nætur til viðhalds.
Kærandi segir kærða hafa metið tilboð kæranda ógilt þar sem það hafi fengið undir lágmarkseinkuninni 7,5 í matsþættinum „notkunarhaganleiki og notendavænleiki“. Kærandi telur að einkunnagjöf kærða hafi verið röng og að tilboð kæranda hafi í raun verið gilt og einnig hagstæðast samkvæmt reikniformúlu útboðsgagna.
III.
Kærði viðurkennir að tilkynning, dags. 7. desember 2007, hafi verið haldin ágalla en telur að tilkynning sín, dags. 14. desember 2007, hafi uppfyllt skilyrði 1. mgr. 75. gr. laga nr. 84/2007.
Kærði byggir á því að mat samkvæmt matsliðnum „almennar tæknilegar kröfur“ hafi verið rétt. Segir kærði að bestu tækin á markaði í dag noti bæði ljósfræðimælingar og viðnámsmælingar. Þar sem tæki kæranda styðjist við viðnámsmælingar í öllum tegundum talninga sé það augljóslega ekki komið eins langt í þróun talninga með ljósfræðimælingum.
Kærði byggir einnig á því að mat samkvæmt matsliðnum „notendahaganleiki og notendavænleiki“ hafi verið rétt. Kærði segir að fullyrðingar kæranda um stærð örsýna í tæki kæranda sé röng og vísar þar til upplýsinga um slíkar stærðir úr tilboðsgögnum kæranda sjálfs. Þá segir kærði að ef tekið yrði mið af því að tæki kæranda gæti talið frumur úr öðrum líkamsvessum frá og með janúar 2008 hefði það falið í sér brot á jafnræði bjóðenda o.þ.m. brot á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup. Kærði stendur við það að aðferð tækis kæranda gefi eitraðan útgang og vísar þar til upplýsinga úr tilboðsgögnum kæranda. Kærði ítrekar mat á talningarhraða tækis kæranda. Kærði viðurkennir að mat á daglegu viðhaldi hafi verið rangt en niðurstaðan hafi hins vegar verið byggð á upplýsingum frá fulltrúa kæranda. Þá bendir kærði á að þrátt fyrir það sé daglegt viðhald í tæki kæranda töluvert lengra en í því tilboði sem varð fyrir valinu og bendir á að gert sé ráð fyrir að tækin verði í notkun allan sólarhringinn.
Með bréfi, dags. 24. janúar 2008, segir kærandi að hann geri „ekki athugasemdir við athugasemdir Ríkiskaupa frá 21. jan.“ en ítrekar að tilkynningin, dags. 7. desember 2007, hafi verið í andstöðu við lög nr. 84/2007. Þar sem rökstuðningur fyrir mati kærða er studdur við upplýsingar úr tilboðsgögnum og kærandi fellst á útskýringarnar telur kærunefnd útboðsmála að mat kærða á tilboðum hafi ekki verið ólögmætt.
Kærunefnd útboðsmála hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu með stöðvunarákvörðun, dags. 17. desember 2007, að tilkynning kærða um val tilboðs fullnægði ekki 1. mgr. 75. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup. Eins og atvikum í máli þessu er háttað telur kærunefnd útboðsmála að ófullnægjandi tilkynning leiði ein og sér ekki til þess að fella beri úr gildi ákvörðun um val á tilboði.
Með bréfi kæranda, dags. 24. janúar 2008, var fyrst gerð krafa um að kærunefnd útboðsmála gæfi álit á skaðabótaskyldu kærða. Umrætt bréf voru síðustu gögn málsins og þriðja bréf kæranda í málinu en kærði hafði sent rökstuðning fyrir ákvörðuninni hinn 17. desember 2007 og auk þess sent tvö bréf vegna málsins. Kærunefnd útboðsmála telur að kærandi hafi í allra síðasta lagi mátti vita um þá ákvörðun sem hann taldi brjóta gegn réttindum sínumhinn 17. desember 2007.Engar ástæður réttlæta að þessi krafa hafi ekki verið gerð fyrr og verður því að vísa henni frá þar sem kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 var liðinn þegar hún var sett fram.
Úrskurðarorð:
Krafa kæranda, Gróco ehf., um að felld verði úr gildi ákvörðun kærða, Ríkiskaupa, um val á tilboði í kjölfar útboðs Ríkiskaupa nr. 14354 – Blóðkornateljarar fyrir LSH, er hafnað.
Krafa kæranda, Gróco ehf., um að kærunefnd útboðsmála gefi álit á skaðabótaskyldu kærða, Ríkiskaupa, er vísað frá.
Reykjavík, 4. febrúar 2008.
Páll Sigurðsson
Sigfús Jónsson
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, 4. febrúar 2008.