Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2008

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

  

í málinu nr. 3/2008

 

Ákvörðunartaka: Þvottaaðstaða í bílageymslu.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 28. janúar 2008, beindu A og B, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið X nr. 36, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 11. febrúar 2008, athugasemdir álitsbeiðenda, dags. 15. febrúar 2008, viðbótargögn gagnaðila, dags. 18. febrúar 2008, og athugasemdir gagnaðila, dags. 27. febrúar 2008, lögð fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar föstudaginn 11. apríl 2008.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða 20 íbúða fjöleignarhús við X nr. 36. Ágreiningur er um þvottaaðstöðu í bílakjallara.

 

Kröfur álitsbeiðanda eru:

  1. Að gagnaðila verði gert að fjarlægja þvottaaðstöðu í austasta hluta bílakjallarans eða fyrir aftan einkastæði álitsbeiðenda.
  2. Að leynileg kosning á húsfundi 23. janúar 2008 þar sem 2/3 hlutar íbúa nægðu til samþykkis verði gerð ógild.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að bílakjallari sé með sameiginlegri innkeyrslu við X nr. 38 og sameiginlegt bílastæði og lóð. Um sameiginleg málefni húsanna sjá báðar hússtjórnir og nefnist þá lóðarfélag X nr. 36 og 38. Fram kemur í álitsbeiðni að bílakjallari sé undir lóðinni framan við húsin og sé innangengt úr honum. Einkabílastæði fylgi öllum íbúðum sérmerkt og þinglýst í samningi sem séreign í bílakjallaranum. Flutt hafi verið í húsið og það afhent 15. desember 2006. Húsin tvö nefnist Y, nr. 36, og Z, nr. 38.

Fram kemur í álitsbeiðni að meðalaldur íbúa sé frekar hár þar sem íbúðirnar séu mjög þægilegar og enginn þurfi að sjá um neitt varðandi sameign, svo sem að slá lóð, þrif eða losun rusls. Þó sé ekkert aldurstakmark íbúa eins og sé í sumum fjöleignarhúsum. Álitsbeiðendur séu með þeim yngri í húsinu, en flestir séu 60 ára og eldri. Auk þess búi þar hjón með lítið barn og stálpaða unglinga, enda sé teiknuð vagnageymsla í geymslurými.

Benda álitsbeiðendur á að hvergi komi fram í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, kaupsamningi eða á teikningum að nein þvottaaðstaða eigi að vera í bílakjallaranum. Á stimpluðum teikningum sé ekki sýnd neysluvatnslögn í bílakjallara, einungis í geymslum undir húsinu sjálfu. Álitsbeiðendur hafi sent bréf til gagnaðila, dags. 7. og 17. mars 2007, þar sem þeir hafi óskað eftir að skoðuð yrði einhver önnur leið sem sátt væri um og kæmi ekki niður á einstökum eigendum. Þegar álitsbeiðendum hafi verið sagt frá því að til stæði að hafa þarna þvottaaðstöðu hafi þeir spurt eiganda R sem hafi selt þeim íbúðina hvort þetta væri rétt. Hann hafi sagt álitsbeiðendum að hann hafi látið setja vatnslögn og ljós á sinn kostnað vegna óska einhverra kaupenda í húsinu um bílaþvottaaðstöðu þar eð ekki hafi verið gert ráð fyrir henni.

Greina álitsbeiðendur frá því að búið sé að halda nokkra húsfundi en mál þeirra hafi ekki verið tekið fyrir fyrr en 23. janúar 2008. Seljandi hússins búi sjálfur á efstu hæð þess. Álitsbeiðendur hafi álitið að bréf þeirra yrðu lesin upp eða frá sagt á húsfundi til málefnalegrar umræðu um lausn sem sátt væri um. Á haustmánuðum hafi álitsbeiðendur gefist upp á að bíða eftir að viðkomandi mál þeirra yrði rætt og seljandi hússins hafi tekið að sér að reyna að gera eitthvað í málinu. Hann hafi reynt á húsfundi 27. nóvember 2007 að koma á umræðum um þvottaaðstöðuna og lagt til að sett yrði upp færanleg þvottaslanga svo hver og einn gæti þvegið fyrir aftan eða í sínu stæði. Gagnaðili hafi strax sagt að málið væri í sínum höndum og komið þannig í veg fyrir að rætt yrði frekar um það á þeim fundi. Í framhaldi af því hafi seljandi hússins keypt slöngu á hjólum sem hann leggi sjálfur til og tengi bílkústinn á hana og taki niður hina sem föst hafi verið við þvottaaðstöðuna fyrir aftan stæði álitsbeiðenda. Álitsbeiðendur hafi sett upp miða við þvottaaðstöðuna þar sem þeir hafi beðið fólk vinsamlega um að þvo ekki þarna, málið væri í höndum stjórnar. Þetta hafi álitsbeiðendur gert til að reyna að ýta við því að málið yrði tekið fyrir á húsfundi og rætt.

Þá kemur fram í álitsbeiðni að 10. janúar 2008 hafi komið bréf frá gagnaðila með staðfestingu um móttöku bréfa álitsbeiðenda og um að á næstu dögum yrði boðað til húsfundar þar sem leggja ætti fram tvær tillögur og kjósa ætti um þvottaaðstöðuna og ljúka þannig málinu endanlega. Meðfylgjandi hafi verið svarbréf, dags. 15. mars 2007, sem annar álitsbeiðanda hafi lesið hjá formanni í mars, eða á milli þessara tveggja bréfa sem álitsbeiðandinn hafi skrifað stjórninni 7. og 17. mars sama ár. Fram komi í því bréfi að álitsbeiðendum hafi verið boðið að skipta um stæði ef það leysti málið. Þeim hafi verið boðið stæðið til afnota en ekki til að því yrði þinglýst og yrði þannig þeirra eign. Því hafi álitsbeiðendur ekki viljað una vegna þess að ef sá sem sé eigandi þess stæðis selur lendi álitsbeiðendur aftur í sömu aðstæðum. Einnig hafi álitsbeiðendur bent formanni húsfélags á að slíkt væri ekki lausn að þeirra mati vegna þess að þetta kæmi samt sem áður niður á einstökum eigendum.

Álitsbeiðendur hafi sent gagnaðila bréf, dags. 13. janúar 2008, þar sem þeir hafi bent á 19., 30., 31., 41. og 42. gr. fjöleignarhúsalaganna. Þar komi meðal annars fram að sé um verulegar breytingar á hagnýtingu sameignar að ræða þurfi samþykki allra íbúa. Álitsbeiðendur telji svo vera þar sem enginn aðstaða hafi átt að vera samkvæmt teikningum eða kaupsamningi. Einnig komi fram í lögunum að sameiginlegt húsnæði eigi ekki að nota til annars en það sé ætlað.

Hvað varði kröfu álitsbeiðenda um að fjarlægja beri þvottaaðstöðuna benda þeir á að hvorki á samþykktum teikningum, í kaupsamningi né skiptayfirlýsingu komi fram að í sameiginlegum bílakjallara eigi að vera bílaþvottaaðstaða. Engin neysluvatnslögn sé teiknuð í bílakjallaranum, einungis í geymslurými undir sjálfu húsinu. Vísa álitsbeiðendur í 35. gr. laga nr. 26/1994 þar sem fram komi að eigendum og öðrum afnotahöfum sé óheimilt að nota sameiginlegt húsrými eða lóð til annars en það sé ætlað. Í 1. gr. húsreglna komi fram að sameiginlegt húsrými eigi ekki að nota til annars en það sé ætlað. Eins gæti það rýrt sölumöguleika íbúðar að þvottaaðstaðan sé þannig að hún hindri aðkomu að einkastæði sem fylgi íbúð.

 

Þá telja álitsbeiðendur að um verulegar breytingar á hagnýtingu sameignar eigi við í þessu tilfelli og vísa til 19. gr. laga um fjöleignarhús, 26/1994, þar sem fram komi að sameign fjöleignarhúss verði ekki ráðstafað af húsfélagi með samningi nema allir eigendur séu því samþykkir. Sama gildi um verulegar breytingar á sameign eða hagnýtingu hennar. Það sé mjög ólíkt og mikil breyting að hafa óhindraða aðkomu að þurru/hreinu einkabílastæði eða hvort allir íbúar þvoi bíla sína þar meira og minna sem hindri þá eðlilegan aðgang að þinglýstu einkastæði. Einnig hvort aðkoma að stæðinu sé meira og minna blaut með tilheyrandi óþrifum. Einnig komi fram í 35. gr. laga nr. 26/1994 að eigendum sé skylt að ganga vel og þrifalega um sameiginlegt húsrými og gæta þess sérstaklega í umgengni sinni að valda ekki öðrum í húsinu óþægindum eða ónæði. Í 30. gr. sömu laga komi fram að sé um framkvæmdir að ræða sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu þá verði ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki ef um sé að ræða verulega breytingu á sameign. Einnig vísa álitsbeiðendur til 31. gr. laganna þar sem fram komi að reglum 30. gr. skuli beita eftir því sem við eigi um breytingar á hagnýtingu sameignar eða hluta hennar enda þótt ekki sé um framkvæmdir að tefla, sbr. einnig 19. gr.

Varðandi seinni kröfu álitsbeiðenda benda þeir á að á húsfundi 23. janúar 2008 sem boðað hafi verið til og kosið hafi verið í leynilegri kosningu um tvær tillögur um þvottaaðstöðu hafi einungis verið sagt frá því að álitsbeiðendum hafi verið boðnar ýmsar leiðir til úrlausna en þeir hafnað þeim öllum. Síðan hafi átt að ganga til kosninga. Álitsbeiðendur hafi óskað eftir að fá að segja frá sinni hlið og lesið bréf sitt þar sem þeir hafi beðið um umræður um málið. Einnig hafi álitsbeiðendur bent á að þau bílastæðaskipti sem þeim hafi verið boðin hafi ekki átt að vera varanleg eða þinglýst og þess vegna hafi þeir hafnað þeim og sagt að þau leystu ekkert því þá lenti þetta bara á öðrum. Það hafi verið eins og allir væru búnir að taka afstöðu því engin hafi spurt að neinu né lagt nokkuð til. Síðan hafi farið fram leynileg kosning á fyrri tillögunni þar sem 2/3 hafi nægt til að samþykkja. Álitsbeiðendur hafi látið bóka að þeir teldu að skv. 41. gr. laga nr. 26/1994 þyrfti samþykki allra íbúa hússins, sbr. 7. tölul. A, þar sem segir: „Verulegar breytingar á hagnýtingu og afnotum sameignar, sbr. 31. gr.“ Álitsbeiðendur hafi átt von á að bréf þeirra frá 7. og 17. mars 2007 yrðu annaðhvort lesin eða sagt frá þeirri ósk þeirra að málið mætti leysa einhvern veginn þannig að sátt næðist. Kosningin hafi farið þannig að 19 atkvæði hafi verið greidd og 16 hafi samþykkt en 3 hafnað fyrri tillögunni svo hin hafi ekki verið borin upp. Utanaðkomandi fundastjóri hafi verið fenginn af gagnaðila til að stýra fundinum. Álitsbeiðendur hafi frétt daginn eftir fundinn að stjórnarmaður hafi afhent fundarboðið persónulega og rætt þeirra hlið á málinu við aðra íbúa hússins. Kannski hafi það verið þess vegna sem lýðræðislegar umræður á fundinum hafi verið óþarfar fyrir kosninguna.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að það sé ágreiningslaust að ekki komi fram á teikningum hússins þvottaaðstaða í bílakjallara, en húsbyggjandi hafi látið á eigin kostnað leggja vatnslögn á austurvegg bílakjallara í báðum húsunum X nr. 36 og 38. Auk þess hafi verið bætt við lýsingu í sameigninni á báðum húsunum þar sem fyrirhuguð þvottaaðstaða sé. Um þessa framkvæmd húsbyggjanda hafi ríkt almenn ánægja meðal húseigenda. Húseigendum hafi þótt þetta mikil hlunnindi að geta þvegið bíla sína innanhúss þegar ekki væri aðstaða til að þvo þá utanhúss vegna veðurs.

Bendir gagnaðili á að eins og fram komi á teikningu af bílakjallara sé breidd bílakjallarans í X nr. 36 17,2 m innanmál og séu þar tvö bílastæði um 5 metrar að lengd hvort þeirra við hvorn útvegg og sameiginlegt rými á milli bílastæðanna því 7,2 metrar. Hafi húsbyggjanda sjálfsagt fundist vera nægjanlegt rými fyrir þvottaaðstöðu í hinu sameiginlega rými milli bílastæðanna.

Kemur fram í greinargerð gagnaðila að strax á fyrstu dögum eftir að flutt hafi verið í húsin X nr. 36 og 38 hafi verið farið að nota þvottaaðstöðu í bílakjallara X nr. 38 sem sé alveg sambærileg við aðstöðuna í nr. 36. Hafi þvottaaðstaðan í nr. 38 verið notuð til þessa dags við mikla ánægju allra íbúa hússins og athugasemdalaust frá hendi þeirra fjögurra íbúa sem eiga bílastæði næst þvottaaðstöðunni. Þvottakústur hafi verið tengdur við krana í X nr. 36 í byrjun marsmánaðar 2007, enda hafi margir af íbúum hússins óskað ákveðið eftir því. Nokkrum dögum síðar hafi komið bréf, dags. 7. mars 2007, þar sem þvottaaðstöðunni hafi verið mótmælt harðlega og þess krafist að kústurinn yrði tekinn niður hið allra fyrsta.

Gagnaðili hafi samþykkt á fundi að fela einum stjórnarmanna að ræða málin við álitsbeiðendur og skoða lausn á því. Ein hugmynd hafi verið að athuga hvort álitsbeiðendur vildu skipta um bílastæði, en því hafi þá alfarið verið hafnað. Það hafi verið skoðun gagnaðila að ágreiningurinn gæti ekki verið það alvarlegur að ekki mætti tengja þvottakústinn, enda borist um það ósk frá fjölda íbúa X nr. 36 og engin andstaða varðandi framkvæmdina nema frá álitsbeiðendum og athugasemdalaust frá hendi hinna þriggja íbúanna sem eiga bílastæði næst þvottaaðstöðunni.

Þá hafi gagnaðili ritað álitsbeiðendum bréf, dags. 15. mars 2007, þar sem reynt hafi verið að skýra þessa framkvæmd. Hafi meðal annars verið vísað til 34. og 35. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Einnig hafi verið hvatt til þess að íbúar X nr. 36 geti, með því að taka sanngjarnt tillit til annarra íbúa hússins, notið þeirra hlunninda sem fyrir hendi séu með bílaþvottaaðstöðu í bílakjallaranum. Áður en stjórnarformanni hafi gefist færi á að sýna stjórnarmönnum bréfið og áður en það yrði sent álitsbeiðendum hafi annar þeirra komið til viðræðna við stjórnarformann. Því hafi stjórnarformaður lesið þar fyrir hann bréf það sem fyrirhugað hafi verið að senda þeim. Strax daginn eftir hafi komið annað bréf til gagnaðila og hafi þá verið sýnilegt að ekki hafi verið um að ræða samkomulag á grundvelli þess sem fram kom í fyrirhuguðu bréfi stjórnarformanns. Hann hafi því ekki séð ástæðu til að senda bréfið að sinni. Gagnaðili hafi svo kannað á næstu mánuðum ýmsa möguleika til ásættanlegrar lausnar á málinu án árangurs.

Tekur gagnaðili fram að þvottaðstaðan í X nr. 36 hafi verið notuð þrátt fyrir bréf álitsbeiðenda og ekki sé vitað um nema eitt tilfelli þar sem sá sem hafi verið að þvo bíl sinn hafi þurft að hætta þvotti um stund meðan álitsbeiðandi krafðist að fá óhindraða aðkomu að stæði sínu. Visst uppihald hafi þó verið á nýtingu þvottaaðstöðunnar af ýmsum ástæðum og síðustu vikurnar hafi aðstaðan ekki verið notuð vegna eindreginna óska álitsbeiðenda.

Þegar sýnt hafi verið að ekki yrði hægt að ná samstöðu um þvottaaðstöðuna hafi gagnaðili sent bréf til álitsbeiðenda þar sem greint hafi verið frá samþykki stjórnarinnar þess efnis að boða skyldi til fundar í húsfélaginu og leggja þar fram tvær tillögur til að fá niðurstöðu í málinu. Vegna orða sem fram koma í álitsbeiðni, þess efnis að stjórnarmenn hefðu afhent fundarboðið persónulega, þá sé því mótmælt, enda rangt. Fundarboðið hafi verið sett í bréfakassa hverrar íbúðar með löglegum fyrirvara. Hægt sé að fá staðfestingu á þessu frá öllum íbúum hússins. Það megi aftur á móti segja að mál þetta hafi verið oft til umræðu meðal íbúa hússins og verið rætt mikið milli íbúa eftir að fundarboðið hafi borist.

Niðurstaða húsfundarins hafi verið að sú tillaga sem lengra gekk hafi verið samþykkt með 16 atkvæðum gegn 3 og því hafi sú tillaga sem skemmra gekk ekki fengið afgreiðslu. Að loknum fundi húsfélagsins hafi gagnaðili samþykkt að tengja þvottakústinn aftur við krana þannig að íbúum hússins gæfist kostur á að þrífa bíla sína að vild. Jafnframt hafi verið hengd upp auglýsing frá stjórn húsfélagsins um umgengnisreglur vegna bílaþvottaaðstöðu í X nr. 36.

Að lokum fer gagnaðili fram á að niðurstaða húsfélagsfundar 23. janúar 2008, þar sem mættir voru eigendur eða fulltrúar eigenda 92,62% af eigendum hússins, og tillaga nr. 1 hafi verið samþykkt með 84,2% atkvæða þeirra sem mættir voru á fundinum og 82,4% eignarhluta íbúa, sé staðfest, enda sé hér um að ræða framkvæmd sem feli í sér óverulega breytingu á hagnýtingu sameignar, sbr. 4. tölul. B-liðar 41. gr. Jafnframt að sú aðstaða sem samþykkt hafi verið að koma upp, samkvæmt samþykkt húsfélagsfundarins, fái að nýtast húseigendum í X nr. 36 um ókomna tíð.

 

Í athugasemdum álitsbeiðenda kemur fram að í greinargerð gagnaðila hafi komið fram að stjórnin hafi kannað ýmsa möguleika til viðunandi lausnar á málinu án árangurs. Álitsbeiðendur taka fram að þær lausnir hafi ekki verið bornar undir þá, enda hafi þeir aldrei verið kallaðir fyrir til að ræða neinar lausnir. Aðeins sú lausn sem áður kom fram að skipta við álitsbeiðendur um stæði sem þeir hafi hafnað eins og áður segir á þeim forsendum að það hafi ekki átt að þinglýsa því stæði á álitsbeiðendur.

Benda álitsbeiðendur á að það séu þeir sem verði fyrir hindrun að sínu stæði en ekki gagnaðili og þess vegna viti þeir betur hvenær íbúar hafi þurft að færa bíla sína þegar þeir hafi þurft að komast í sitt stæði.

Varðandi það sem gagnaðili nefndi um að stjórnarmenn hafi ekki afhent fundarboð til eigenda þá vilja álitsbeiðendur koma því á framfæri að einungis hafi verið sagt frá því að álitsbeiðendur hafi frétt daginn eftir fundinn að einn stjórnarmaður hafi afhent og rætt efni fundarboðsins við aðra íbúa hússins. Þetta hafi álitsbeiðendum verið sagt og fóru rétt með það sem þeir hafi heyrt en ekki velt sér upp úr því hvort fundarboðið hafi verið afhent persónulega eða ekki. Aðalmálið sé að í greinargerð gagnaðila komi fram að málið hafi verið oft til umræðu meðal íbúa hússins og hafi verið mikið rætt milli íbúa eftir að fundarboðið hafi borist.

 

III. Forsendur

Samkvæmt ákvæði 57. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er hlutverk og tilgangur húsfélaga aðallega að sjá um varðveislu, viðhald, endurbætur og rekstur sameignarinnar þannig að hún fái sem best þjónað sameiginlegum þörfum eigenda og stuðla að og framfylgja því með samþykktum, reglum og ákvörðunum að hagnýting hússins, bæði séreigna og sameignar, sé ávallt með eðlilegum hætti og þannig að verðgildi eigna haldist. Í 4. tölul. 13. gr. laganna er kveðið á um að meðal helstu skyldna eigenda í fjöleignarhúsum sé að virða rétt og hagsmuni annarra eigenda við hagnýtingu sameignar.

Ákvarðanir um breytingar á sameign þarf að taka á sameiginlegum vettvangi eigenda, þ.e. á húsfundi, og fer það eftir eðli og umfangi ákvörðunarinnar hve mikinn meirihluta þarf til samþykktar. Sé þannig um byggingu, endurbætur eða framkvæmdir að ræða sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu, þá verður ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, ef um er að ræða verulega breytingu á sameign, þ.á m. útliti hússins, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 26/1994 og 6. tölul. A-liðar 41. gr. Sé um að ræða framkvæmdir sem hafa í för með sér breytingar á sameign, utan húss eða innan, sem þó geta ekki talist verulegar, þá nægir að 2/3 hlutar eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, séu því meðmæltir, sbr. 2. mgr. 30. gr., sbr. einnig 3. tölul. B-liðar 41. gr. laganna. Til smávægilegra breytinga og endurnýjana nægir þó alltaf samþykki einfalds meirihluta miðað við eignarhluta, sbr. 3. mgr. 30. gr., sbr. einnig D-lið 41. gr. Samkvæmt 31. gr. skal einnig beita reglum 30. gr., eftir því sem við á, um breytingar á hagnýtingu sameignar eða hluta hennar, enda þótt ekki sé um framkvæmdir að tefla, sbr. einnig 19. gr.

Af meðfylgjandi teikningu af bílageymslu í kjallara hússins sést að þar er ekki gert ráð fyrir þvottaaðstöðu.

Á húsfundi 23. janúar 2008 var samþykkt tillaga stjórnar húsfélagsins með 84,2% eignarhluta um að komið verði upp aðstöðu til að þvo bíla eigenda í sameiginlegu rými í austurenda bílakjallara hússins. Einnig kom fram í tillögunni, sem hafði verið kynnt í fundarboði, að sú krafa væri gerð á þá sem þvo bíla sína að gengið sé þrifalega um og óhreinindi hreinsuð af gólfi að þvotti loknum. Óheimilt verði að nota tjöruhreinsi á gólfinu. Þá gildi almennt sú meginregla að þvottaaðstaðan sé ekki notuð þegar veður leyfir þvott á bílum á bílaþvottastöðum í bænum. Taldi gagnaðili að umrætt hlutfall eignarhluta nægði til að samþykkja tillöguna þar sem framkvæmdin feli í sér óverulega breytingu á hagnýtingu sameignar, sbr. 4. tölul. B-liðar 41. gr.

Kærunefnd telur að þótt umrædd þvottaaðstaða valdi óverulegri röskun og teldist alla jafna ekki framkvæmd sem útheimti aukinn meirihluta eða samþykki allra þá sé hún hins vegar verulega truflandi og íþyngjandi fyrir notanda þessa bílastæðis. Telur því kærunefnd að samþykki allra þurfi fyrir henni, sbr. 31. gr., sbr. 7. tölul. A-liðar 41. gr., sbr. grunnrök 1. mgr. 27. gr., sem að breyttu breytanda nær yfir tilvik þetta. Í áliti kærunefndar er engin afstaða tekin til þess hvort yfir höfuð sé heimilt vegna fyrirmæla annarra laga að vera með þvottaaðstöðu í bílakjallara án sérstaks búnaðar eða leyfis.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að samþykkt húsfundar 23. janúar 2008 um þvottaaðstöðu í bílakjallara sé ógild svo að fjarlægja beri þvottaaðstöðuna.

  

Reykjavík, 11. apríl 2008

 

Valtýr Sigurðsson

Karl Axelsson

Pálmi R. Pálmason




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta