Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 428/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 428/2017

Fimmtudaginn 18. janúar 2018

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 16. nóvember 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, sem tilkynnt var með bréfi 6. nóvember 2017, þar sem umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 21. nóvember 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 27. nóvember 2017. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi sama dag og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1954 og 1956. Þau eiga ekki fasteign og hafa aðsetur í C. Ráðstöfunartekjur kærenda nema 795.948 krónum á mánuði.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína meðal annars til ábyrgðarskuldbindinga, veikinda og tekjulækkunar.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru skuldir kærenda 54.894.481 króna. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun barst umboðsmanni skuldara 13. október 2017. Umsókninni var synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 6. nóvember 2017 með vísan til e- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Þess er krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun verði hrundið og umsókn kærenda verði tekin til afgreiðslu.

Umboðsmaður skuldara vísi til e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem segi að heimilt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að samþykkja hana þar sem skuldari hafi efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti, eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Kærendum virðist umboðsmaður líta fram hjá efni málsins heldur byggi ákvörðun sína á skráningu skjala hjá opinberum aðilum þrátt fyrir að fyrirliggjandi upplýsingar gefi annað til kynna. Í því sambandi sé ítrekað að ekki hafi verið um raunverulega eignatilfærslu að ræða þegar C hafi verið fært yfir á nafn kæranda B X. desember 2014. Móðir hennar, D, hafi verið skráður eigandi C en D hafi keypt C vegna samkomulags við Landsbankann hf. um skuldauppgjör. Þá sé það óumdeilt að Landsbankinn hf. hafi fengið umsamda fjárhæð greidda frá D. Vegna aðstæðna í fjölskyldunni hafi D þó óskað eftir því að C væri ekki skráð á hennar nafn. Þess vegna hafi það verið skráð til baka á nafn kæranda B sem hafi gefið út veðtryggingabréf að jafnvirði þeirrar fjárhæðar sem D hafði greitt í því skyni að tryggja skaðleysi hennar við nafnbreytinguna.

C sem sé að fasteignamati 7.850.000 krónur, hafi verið afsalað til E ehf. X. febrúar 2017. Á C hvíli framangreint veðtryggingarbréf sem samkomulag sé um að félagið taki að sér að standa skil á. Veðtryggingarskjalinu hafi verið ætlað að tryggja tilkall D til C, eða jafngildi þeirrar fjárhæðar sem hún hefði greitt Landsbankanum hf., óháð því hver væri skráður eigandi C hverju sinni. Sá gjörningur að þriðji aðili tæki við framangreindri skuld gagnvart D gegn afsali á C geri fjárhagsstöðu kærenda betri þar sem reynt sé að tryggja efnd á skuld sem stofnað hafi verið til löngu fyrir þann tíma sem vísað sé til í ákvörðun umboðsmanns og talinn forsenda riftunar að hans mati. Þess megi geta að E ehf. sé í eigu F ehf. en það félag sé ótengt kærendum. Stjórn félagsins endurspegli það eignarhald.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að samþykkja hana þar sem skuldari hafi með ámælisverðum hætti látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar. Umboðsmaður skuldara virðist túlka gerðir kærenda á þann veg að þau hafi með ámælisverðum hætti reynt að koma sér undan því að standa við skuldbindingar sínar. Í þessu sambandi sé rétt að minna á að kærendur hafi unnið að skuldauppgjöri við fjármálastofnanir og aðra sem hafi átt á þau kröfur, allt til loka ársins 2012, en þá hafi fullnaðaruppgjöri átt að vera lokið. Kærendur hafi meðal annars notið lögmannsaðstoðar í því sambandi og beri tölvupóstsamskipti á milli lögmannsins og kærenda það með sér að uppgjöri hafi verið lokið. Eftir skuldauppgjörið hafi kærendur verið eignalaus og talið sig geta vænst þess að framtíðartekjur þeirra dygðu til þess að standa undir þeim skuldum sem eftir hafi staðið. Eins og umboðsmanni skuldara hafi verið gerð grein fyrir hafi Landsbankinn hf. talið sig óbundinn af því samkomulagi sem gert hafi verið. Bankinn hafi leitast við að sækja að nýju verðmæti, sem hann hafi fengið afhent, vegna sömu skulda og hann hafi fengið gerðar upp. Sé litið til efnis málsins sé ljóst að kærendur hafi ekki látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar heldur boðist til að greiða Landsbankanum hf. ígildi þóknunar sem svaraði líklegum málskostnaði í því skyni að knýja bankann til að standa við gerðan samning. Kærendur hafi þannig gengið lengra en eðlilegt megi teljast til að losna undan því fargi sem vanefndir og yfirburðir bankans leggi þeim á herðar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge.

Í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Í 1. mgr. 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.) sé kveðið á um að krefjast megi riftunar á gjafagerningi, ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag, nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna.

Af fyrirliggjandi gögnum verði ráðið að kærandi B hafi átt 50% hlut í fasteigninni að C, þar til nauðungarsöluafsal hafi verið gefið út til móður hennar, D, X nóvember 2012. Samkvæmt nauðungarsöluafsalinu hafi D greitt 13.500.000 króna fyrir eignina við nauðungarsöluna. Mánuði síðar, X desember 2012, hafi D afsalað eigninni til kæranda B.

Þann X febrúar 2017 hafi kærandi B svo afsalað fasteigninni til E ehf. Engum kaupsamningi hafi verið þinglýst í tengslum við þau viðskipti. Samkvæmt ársreikningi E ehf. vegna reikningsársins 2016 hafi G, sonur kærenda, verið framkvæmdastjóri félagsins. Í sama ársreikningi hafi eigendur félagsins verið tilgreindir G og H ehf. Kærendur hafi átt alla hluti í H ehf. samkvæmt ársreikningi H ehf. vegna reikningsársins 2016.

Í tölvupósti 24. október 2017 greini kærendur frá því að D, móðir kæranda B, hafi keypti C við nauðungarsölu. Mánuði síðar hafi D gefið út afsal fyrir eigninni til kæranda B en ástæðan fyrir því hafi að sögn kærenda verið sú að „...D óskaði eftir því að C væri ekki skráður á hennar nafn.“ Þá hafi kærendur lagt fram skjal sem beri heitið „Veðtryggingarbréf“ sem sé dagsett sama dag og fyrrnefnt afsal. Skjalið sé undirritað af kæranda B og fyrrgreindri D og vottað af kæranda A og G syni kærenda.

Í skjalinu segi: „ Veðtryggingarbréf. Undirritaður útgefandi: B, [....]

Gjörir kunnugt: Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuld ofangreinds útgefanda við D, [....], vegna kaupa D á C, [....] á uppboði, en samkomulag var um að skrá áfram á nafn útgefanda með formlegu afsali. Tryggingarfjárhæðin nemur uppboðsfjárhæð 13.500.000 kr. [....]. Veðtryggingarbréfinu má þinglýsa á framangreinda eign, [....].“

Skjalinu hafi ekki verið þinglýst á eignina í tengslum við kaupin.

Frestdagur sé 16. október 2017, þ.e. sá dagur er umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt því hafi ráðstöfun kæranda B á fasteigninni X. febrúar 2017, til E ehf., átt sér stað um sjö mánuðum fyrir frestdag.

Landsbankinn hf. hafi birt greiðsluáskoranir fyrir kæranda B X mars 2016 og árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá henni X. september 2017. Greiðsluáskoranir hafi verið birtar kæranda A X mars 2016 og árangurslaus fjárnám hafi verið gerð hjá honum X mars 2017 og X september 2017. Þá hafi skuldir kærenda við Landsbankann hf., sem nú nemi samtals um 32.000.000 króna, verið í vanskilum um árabil. Ljóst sé að kærendur hafi bæði verið ógjaldfær þegar C hafi verið ráðstafað.

Kærendur hafi hvorki sýnt fram á né haldið því fram að E ehf. hafi greitt kaupverð vegna C. Þannig verði að leggja til grundvallar að þau hafi ekkert fengið greitt fyrir C. Því sé byggt á því að tilgreind ráðstöfun hafi verið gjafagerningur. Þá sé ljóst að engin veðbönd hafi hvílt á eigninni þegar henni hafi verið ráðstafað. Fasteignamat ársins 2017 vegna eignarinnar hafi verið 7.850.000 krónur og verði því að telja að ráðstöfunin hafi valdið búi kærenda verulegu fjártjóni.

Af fyrrnefndu „Veðtryggingarbréfi“ frá X desember 2012 virðist mega ráða að D, móðir kæranda B, hafi keypt eignina að C á nauðungarsölu fyrir hönd kæranda B og lánað kærandanum kaupverðið, sbr. eftirfarandi orðalag skjalsins : „... til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuld ofangreinds útgefanda við D, [....], vegna kaupa D á C, [...] á uppboði.“

Ekki verði séð að ofangreind atriði breyti neinu um að ráðstöfun nefndrar fasteignar til E ehf. sé riftanleg ráðstöfun við gjaldþrotaskipti, sbr. umfjöllun hér að ofan, á grundvelli 1. mgr. 131. gr. gþl. Þyki í því sambandi rétt að benda á að tilgreint veðtryggingarbréf frá X desember 2012 hafi ekki verið móttekið til þinglýsingar fyrr en X október 2017. Þá hafi bréfinu verið þinglýst um átta mánuðum eftir að kærendur hafi ráðstafað eigninni til E ehf. án þess að greiðsla kæmi fyrir eignina.

Kærendur hafi haldið því fram að þau hafi náð fullnaðaruppgjöri við Landsbankann hf. um skuldir sínar við bankann. Það sé þeirra skoðun að þetta atriði skipti mestu við mat á því hvort samþykkja eigi umsókn þeirra um greiðsluaðlögun. Fyrirliggjandi gögn sýni þó að skuldir kærenda séu ekki niðurfallnar en fjárnám hafi síðast verið gerð til innheimtu þeirra í september 2017. Þá sé ljóst að kærendur hafi um langt skeið átt í viðræðum við bankann um kröfurnar, nú síðast í febrúar á þessu ári. Samkvæmt þessu verði ekki byggt á öðru í málinu en að skuldir kærenda við Landsbankann hf. séu enn til staðar og hafi verið til staðar þegar ráðstöfun fasteignarinnar að C hafi átt sér stað X febrúar 2017.

Samkvæmt því sem hér hefur komið fram sé það mat umboðsmanns skuldara að ráðstöfun fasteignarinnar að C til E ehf. sé riftanleg ráðstöfun við gjaldþrotaskipti á grundvelli 1. mgr. 131. gr. gþl.

Að því er varði f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. virðist megintilgangurinn með ráðstöfun eignarinnar að C hafa verið sá að koma í veg fyrir að eignin eða söluandvirði hennar rynni til greiðslu á skuldum kærenda. Að mati umboðsmanns verður samkvæmt því að telja að þau hafi með ámælisverðum hætti látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eins og þeim hafi frekast verið unnt.

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að í kæru komi fram að félagið E ehf. sé nú í eigu F ehf. Kærendur hafi engin gögn lagt fram til stuðnings þessari fullyrðingu. Samkvæmt nýjasta ársreikningi E ehf. og skýrslu Credit Info um eigendur félagsins, sem sótt hafi verið 2. nóvember 2017, sé félagið í eigu sonar kærenda og H ehf. sem sé félag í eigu kærenda.

Í kæru komi einnig fram að samkomulag sé um að E ehf. greiði af skuld annars kærenda við móður sína. Ekki verði heldur séð að kærendur hafi lagt fram nein gögn til stuðnings þessari fullyrðingu. Fyrirliggjandi gögn, þ.e. fyrrgreint tryggingarbréf sem þinglýst hafi verið á C hinn X október 2017, gefi til kynna að annar kærenda sé enn skuldari að tilgreindri skuld og að E ehf. hafi í tengslum við þinglýsingu bréfsins í lok október 2017 samþykkt að veita lánsveð í eigninni að C sem félagið hafi fengið að gjöf frá kærendum X febrúar 2017.

Það sé mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að samþykkja umsókn kærenda um greiðsluaðlögun og hafi umsókninni því verið synjað á grundvelli, e- og f- liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna, sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun, fer umboðsmaður fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á e- og f-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Regla e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vísar um efni sitt til riftunarreglna gjaldþrotaréttar en þær eru í XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.). Þau sjónarmið sem þar eru að baki varða jafnræði kröfuhafa en eitt af skilyrðum riftunar er að möguleiki kröfuhafa á fullnustu á kröfum sínum aukist við endurgreiðslu í kjölfar riftunar. Með öðrum orðum þarf hin riftanlega ráðstöfun að hafa orðið þrotabúi (hér kröfuhöfum kæranda) til tjóns.

Að því er varðar mál þetta kemur 131. gr. gþl. til skoðunar, en hún varðar gjafagerninga. Samkvæmt 2. mgr. 131. gr. gþl. má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildir einnig um gjafir til nákominna sem hafa verið afhentar sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag. Í þessu tilviki verður að miða við að frestdagur sé sá dagur sem umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram sem var 13. október 2017. Þá er skilgreint í 3. gr. gþl. hverjir teljist nákomnir í skilningi laganna en í 4. tl. 3. gr. kemur fram að til nákominna teljist maður og félag eða stofnun sem hann eða maður honum nákominn eigi verulegan hluta í.

Almennt er frjálst að gefa verðmæti í sinni eigu. Löggjafinn hefur þó sett því takmarkanir þegar gjöf er að einhverju leyti eða öllu á kostnað kröfuhafa gefandans. Ein þessara takmarkana er 131. gr. gþl. Meðal þeirra skilyrða sem þurfa að vera uppfyllt er að gjöfin skerði eignir skuldarans og auðgi móttakandann. Einnig skiptir máli á hvaða tíma ráðstöfunin er gerð og getur þá jafnframt þurft að taka mið af gjaldfærni skuldarans á þeim tíma er verðmæti er afhent.

Kærandi B var, ásamt föður sínum, eigandi eignarinnar að C. Eignin var seld nauðungarsölu á uppboði X ágúst 2012. Kaupandi var D, móðir kæranda B, en hún greiddi 13.500.000 krónur fyrir eignina. Uppboðsafsal var gefið út X nóvember 2012 en D afsalaði eigninni aftur til kæranda B X desember 2012. Í afsalinu kemur fram að kaupverð hafi þegar verið greitt. Afsalinu var svo þinglýst X desember 2012. Kærandi B afsalaði eigninni síðan til E ehf. fjóru og hálfu ári síðar, eða X febrúar 2017, og var afsalinu þinglýst X febrúar 2017. Í afsalinu er ekki greint frá fjárhæð kaupverðs en þar kemur fram að kaupverð hafi þegar verið greitt. Kærendur hafa ekki gefið upplýsingar um fjárhæð kaupverðs og engin gögn liggja fyrir í málinu um það. Í kæru þeirra 13. nóvember 2017 segir þó að samkomulag sé um að félagið standi skil á veðtryggingarbréfi sem hvíli á eigninni og skuld samkvæmt því bréfi. Þarna virðast kærendur vísa til skjals sem þau hafa lagt fram sem ber heitið „Veðtryggingarbréf“ en skjalið er dagsett X desember 2012. Útgefandi skjalsins er kærandi B en þar segir: „Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuld ofangreinds útgefanda við D, vegna kaupa D á C á uppboði, en samkomulag var um að skrá áfram á nafni útgefanda með formlegu afsali. Tryggingarupphæðin nemur uppboðsfjárhæð eða 13.500.000, þrettán og hálf milljón krónur.“ Skjali þessu var ekki þinglýst á eignina í tilefni afsalsins en í skjalinu kemur fram að veðtryggingarbréfinu megi þinglýsa á framangreinda eign, C. Ekki hefur verið lagt fram skuldaskjal til staðfestingar á því að um raunverulega skuld hafi verið að ræða á milli kæranda B og móður hennar og á fyrirliggjandi skattframtölum hafa kærendur ekki talið fram skuld við D. Þegar kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 13. október 2017, eða átta mánuðum eftir að eigninni var afsalað til E ehf., var eignin veðbandalaus andstætt því sem kærendur hafa greint frá.

Samkvæmt ofangreindu liggja ekki fyrir gögn þess efnis að kærandi B hafi fengið endurgjald fyrir eignina að C er hún afsalaði henni til E ehf. X febrúar 2017 en samkvæmt gögnum málsins var hún eigandi eignarinnar á þeim tíma. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að um hafi verið að ræða gjafagerning í skilningi 131. gr. gþl.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum 31. desember 2016 voru eigendur E ehf. tveir. Annar þeirra var sonur kærenda en hinn var H ehf. Hvor um sig átti 50% hlut í E ehf. á þeim tíma. Kærendur stofnuðu H ehf. árið 1982 og í lok árs 2016 áttu þau hvort um sig 50% í félaginu. Samkvæmt gögnum málsins töldu þau hlutafjáreign sína í félaginu fram til skatts. Í október 2017, er kærendur sóttu um greiðsluaðlögun, voru þau bæði prókúruhafar H ehf. Einnig var kærandi B stjórnarmaður og framkvæmdastjóri í félaginu og kærandi A stjórnarmaður. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að telja að félagið E ehf. hafi verið nákomið kærendum í skilningi gþl. er nefndri fasteign var afsalað til félagsins.

Vangeta skuldara til að standa við skuldbindingar sínar getur bæði stafað af því að skuldir hans eru meiri en eignir og af ógreiðslufærni. Síðarnefnda hugtakið veit að framtíðinni, þ.e. hvort skuldari muni geta staðið í skilum þegar kröfur á hendur honum falla í gjalddaga og hvort telja megi að greiðsluerfiðleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma. Á árinu 2017 voru gerð árangurslaus fjárnám hjá báðum kærendum, annars vegar í mars og september hjá kæranda A og hins vegar í september hjá kæranda B. Kærendur voru jafnframt skráð á vanskilaskrá vegna greiðsluáskorana í mars 2016. Þykir því ljóst að kærendur voru ógjaldfær á þessum tíma. Þá liggur fyrir að samkvæmt skattframtali þeirra árið 2017 vegna tekna ársins 2016 voru skuldir þeirra 63.454.942 krónur en eignir 14.961.170 krónur í lok árs 2016. Skuldir umfram eignir voru því tæpar 48.500.000 krónur.

Þegar allt framangreint er virt telur úrskurðarnefndin að afsal fyrrnefndrar fasteignar til E ehf. hafi verið riftanlegt sem gjafagerningur í skilningi 131. gr. gþl., enda hafi verið um að ræða gjöf til nákomins aðila á þeim tíma er kærendur voru ógjaldfær, átta mánuðum fyrir frestdag. Því er fallist á mat umboðsmanns skuldara um að háttsemi kærenda hafi verið í andstöðu við e-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Þá byggir umboðsmaður skuldara á því að með fyrrgreindum gjafagerningi hafi kærendur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim framast var unnt í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. segir um 2. mgr. 6. gr. lge. að þær ástæður sem taldar eru upp í 2. mgr. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Samkvæmt því á regla f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. við um þau tilvik er skuldari greiðir ekki af skuldbindingum sínum þrátt fyrir að geta það að einhverju leyti. Greiðslugeta er fyrir hendi til dæmis þegar skuldari hefur laun eða aðrar tekjur sem eru hærri en mánaðarlegur framfærslukostnaður þannig að hann á fjármuni aflögu til að greiða af skuldum sínum. Greiðslugeta telst einnig vera fyrir hendi þegar skuldari á eignir sem hann getur selt og notað andvirði þeirra til að greiða skuldir. Ráðstöfun eignar með gjafagerningi fellur að mati úrskurðarnefndarinnar ekki hér undir, enda á e-liður 2. mgr. 6. gr. lge. við um slík tilvik. Með vísan til þessa telur úrskurðarnefndin að umboðsmaður skuldara hafi vísað til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. án þess að fyrir því væru viðhlítandi lagarök.

Í ljósi alls þessa, sem hér greinir, telur úrskurðarnefnd velferðarmála að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta