Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 62/2017B Úrskurður 26. janúar 2018

Mál nr. 62/2017 B Eiginnafn: Zion

Hinn 26. janúar 2018 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 62/2017 B:

Með bréfi dagsettu 15. nóvember 2017 fer xxx fram á endurupptöku úrskurðar mannanafnanefndar frá 27. október 2017 í máli nr. 62/2017 þar sem eiginnafninu Zion var hafnað. Beiðnin er studd nokkrum röksemdum og verður öllum liðum röksemdafærslu úrskurðarbeiðanda svarað í þeirri röð sem þeir koma fram:

Í fyrsta lagi er bent á að stafurinn sé notaður í nokkrum erlendum sérnöfnum, t.d. Zóphanías.

Í íslensku nútímastafrófi eru 32 stafir: a, á, b, d, ð, e, é, f, g, h, i, í, j, k, l, m, n, o, ó, p, r, s, t, u, ú, v, x, y, ý, þ, æ, ö (sjá ritreglur Stafsetningarorðabókar 2006:675). Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, segir í greininni Hvers vegna voru stafirnir c, q, z og w felldir úr íslenzka stafrófinu (sjá: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=69528): „Eðlilegast er að líta svo á að með hugtakinu íslenska stafrófið sé átt við mengi stafa sem þarf til að rita íslensk orð eftir íslenskum stafsetningarreglum. Að minnsta kosti frá 1929 (auglýsing frá kennslumálaráðherra) hafa gilt reglur um frágang íslensks ritmáls án c q w og síðan 1974 hefur ekki heldur verið þörf á z til að rita íslensk orð rétt samkvæmt íslenskum ritreglum. Til þess þarf ekki nema 32 bókstafi á okkar tímum.“ Hann segir einnig: „Í öllu ritmáli í heiminum geta hins vegar auðvitað komið fyrir alls konar stafir og tákn við sérstakar aðstæður án þess að það tilheyri í sjálfu sér stafrófi viðkomandi ritmáls. Þegar Danir rita nafn Þórðar þurfa þeir Þ og ó og ð en engum dytti í hug að halda því fram að Þ og ó og ð séu stafir í danska stafrófinu.“ Að lokum segir hann: „Ef skilgreina ætti aukalegu stafina c q w z sem hluta íslenska stafrófsins er því vandséð hvers vegna fjölmargir aðrir stafir (til dæmis ë, ø, å, ä, ñ, č, õ, ł, ž, ç, ć o.s.frv. o.s.frv....) yrðu ekki líka hafðir með.“

Í tilvikum þar sem mannanafnanefnd hefur leyft nöfn sem innihalda stafi sem ekki eru í íslenska stafrófinu, sbr. nöfnin Christian, Cecil, Franz, Fritz o.s.frv., þá er það vegna þess að þau hafa unnið sér hefð í íslensku og byggist mat á því við vinnureglur mannanafnanefndar sem samþykktar voru 19. janúar 2015 og eldri gerðir reglnanna. Af þessu leiðir að þessar röksemdir úrskurðarbeiðanda eru ekki til þess fallnar að ástæða sé til að taka málið upp á ný.

Í öðru lagi segist úrskurðarbeiðandi ekki hafa fundið neins staðar reglur um að ekki mætti rita i á undan o í ósamsettum orðum. Því er til að svara að í íslensku kemur upphaflegt stutt sérhljóð (t.d. i) ekki fyrir í hljóðgapi á undan öðru sérhljóði. Af þessu leiðir að þessar röksemdir úrskurðarbeiðanda eru ekki til þess fallnar að ástæða sé til að taka málið upp á ný.

Í þriðja lagi segir úrskurðarbeiðandi að nafnið Zion komi fyrir í biblíunni en sé í íslensku biblíunni ritað Síon. Hér skiptir máli ritmálshefð í íslensku. Ekki hefur skapast þar hefð fyrir ritun með z, sbr. til hliðsjónar dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. október 2017 (E–2782/2016) (Zoe). Af þessu leiðir að þessar röksemdir úrskurðarbeiðanda eru ekki til þess fallnar að ástæða sé til að taka málið upp á ný.

Að öðru leyti verður til þess að líta að um rétt aðila máls til endurupptöku fer eftir ákvæðum 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða óskráðum reglum stjórnsýsluréttar um endurupptöku.

Ekkert er fram komið sem bendir til þess að úrskurður mannanafnanefndar í máli 62/2017 um eiginnafnið Zion hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik né að hann hafi byggst á atvikum sem hafa breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Skilyrði til endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru því ekki fyrir hendi.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann mannanafnanefnd eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Skylda til slíks veltur þó, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Ekkert er fram komið um að slíkur ágalli hafi verið á fyrri úrskurði nefndarinnar.

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið er beiðni um endurupptöku úrskurðar frá 27. október 2017 í máli nr. 62/2017 hafnað.

Úrskurðarorð:

Beiðni um endurupptöku úrskurðar frá 27. október 2017 í máli nr. 62/2017 er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta