Mál nr. 41/2003
Þriðjudaginn, 6. júlí 2004
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Ósk Ingvarsdóttir læknir og Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur.
Þann 2. júní 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 22. maí 2003.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags.20. maí 2003 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Kæranda var eftir framlagningu gagna um nám einnig synjað um greiðslu fæðingarstyrks.
Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:
„Þannig er mál með vexti að ég fór í byrjun feb. 03 niðrí Tryggingastofnun ríkisins til að fá umsókn um fæðingarorlof. Þar var kona sem afgreiddi mig, hún sýndi mér hvaða gögn ég þyrfti að koma með og hvað ég þyrfti að fylla út osfrv.
Ég vissi að þessari 18 mán. reglu og því barnið (B) er fæddur 4. okt. 01 spurði ég konuna hvort það væri í lagi útaf 18 mán. reglunni að ég tæki fríið í apr. næstkomandi því það myndi henta mér betur útaf vinnunni. Hún hugsaði sig um og fór eitthvað fram og kom svo til baka „jú jú það er allt í lagi“. Svo ég treysti því. Ég hélt allavegana að þeir sem myndu starfa við þetta þekktu þetta betur en ég. Síðan skila ég þessum gögnum inn með góða samvisku og tek fríið í apr. síðastliðnum og þann 20. maí fæ ég bréf um synjun útaf 18 mán. reglunni. Svo ég bið ykkur um að koma þessu í gegn fyrir mig.“
Með bréfi, dags. 14. apríl 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 28. apríl 2004. Í greinargerðinni segir:
„Kærandi sótti með umsókn, dags. 13. febrúar, sem móttekin var 28. mars 2003, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í einn mánuð frá 1. apríl 2003. Umsókn hans var vegna barns, sem fætt er 4. október 2001.
Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. ffl., sbr. 1. mgr. 1. gr. ffl., eiga foreldrar á innlendum vinnumarkaði rétt til fæðingarorlofs. Fellur réttur til fæðingarorlofs niður er barnið nær 18 mánaða aldri.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 1. mgr. 1. gr. ffl., öðlast foreldrar á innlendum vinnumarkaði rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.
Við afgreiðslu umsóknar kæranda kom í ljós að hann uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hann samkvæmt framlögðum gögnum hafði ekki verið á vinnumarkaði í apríl og maí 2001. Var honum því sent bréf, dags. 7. maí 2003, þar sem fram kom að honum væri synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.
Vert er að hafa í huga að hefði kærandi uppfyllt skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. Hefði engu að síður ekki verið heimilt að greiða honum úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hann óskaði eftir að vera í fæðingarorlofi í apríl 2003. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. ffl. átti hann rétt á að vera í fæðingarorlofi fyrstu 3 dagana í apríl 2003 þar sem barn hans varð 18 mánaða 4. apríl, en samkvæmt 2. mgr. 10. gr. er óheimilt að taka fæðingarorlof skemur en viku í senn.
Eftir synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði lagði kærandi fram gögn um skólavist sína og námsframvindu að því er virðist í því skyni að sýna fram á rétt sinn á fæðingarstyrk námsmanna.
Varðandi rétt kæranda á greiðslu fæðingarstyrks er þess fyrst að geta að réttur til fæðingarstyrks fellur niður er barnið nær 18 mánaða aldri, sbr. 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. ffl., á sama hátt og réttur til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
Varðandi hugsanlegan rétt kæranda á greiðslu fæðingarstyrks fyrstu 3 daga aprílmánaðar 2003 þá bera gögn málsins með sér, bæði umsóknin sjálf og framlögð faðernisviðurkenning, að móðir fer ein með forsjá barnsins sem málið varðar. Af þeim sökum átti kærandi ekki rétt á fæðingarstyrk, því samkvæmt 4. mgr. 18. gr. og 4. mgr. 19. gr. ffl. er réttur foreldris til fæðingarstyrks bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldrinu þegar greiðsla fæðingarstyrks hefst.
Enn fremur skal á það bent að af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins hefur það verið gert að skilyrði fæðingarstyrks að sá sem styrkinn fær greiddan leggi niður launuð störf það tímabil sem styrkurinn er greiddur fyrir, Af staðgreiðsluskrá RSK verður ekki annað ráðið en að kærandi hafi verið við störf í apríl 2003, því þó laun hafi ekki verið færð á hann þann mánuð voru í maí 2003 færð á hann tvöföld laun miðað við næstu mánuði á undan og eftir. Af þessum sökum verður að draga verulega í efa þá fulllyrðingu í kæru kæranda um að hann hafi verið í fríi í apríl 2003.
Eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan var samkvæmt 1. mgr. 8. gr. ffl. óheimilt að greiða kæranda úr Fæðingarorlofssjóði eftir 3. apríl 2003 og jafnframt óheimilt samkvæmt 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. ffl. að greiða honum fæðingarstyrk eftir það tímamark. Ekki er unnt að byggja á fullyrðingum kæranda í kæru, um að hann hafi í byrjun febrúar 2003 leitað til Tryggingastofnunar ríkisins og m.a. spurst fyrir um hvort það væri í lagi vegna 18 mánaða reglunnar að hann tæki fríið í apríl 2003 og hafi hann fengið það svar að það væri í lagi. Ekki er hægt staðreyna hvaða upplýsingar honum voru veittar og hefur kærandi ekkert lagt fram til sönnunar þessum fullyrðingum sínum. Auk þess sem ekki verður séð að veittar upplýsingar, réttar eða rangar, hafi áhrif á réttindi kæranda til greiðslna þar sem réttindi og skilyrði þeirra séu bundin í lögum og lagatúlkun.
Með vísan til alls framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði/fæðingarstyrk.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. apríl 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust nefndinni.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði svo og greiðslu fæðingarstyrks.
Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð vegna þess að beðið var eftir því að kærandi skilaði inn gögnum vegna málsins.
Krafa um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verður eigi byggð á því að foreldri hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það fellur hinsvegar utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan bótarétt þeirra sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar.
Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Barn kæranda er fætt 4. október 2001. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ekki samfellt í sex mánuði á vinnumarkaði fyrir fæðingu barnsins. Þegar af þeirri ástæðu uppfyllir hann ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.
Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. ffl. er réttur foreldris utan vinnumarkaðar til fæðingarstyrks bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá með hinu foreldri þess þegar greiðsla fæðingarstyrks hefst. Réttur foreldris til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanns er bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar greiðsla fæðingarstyrks hefst sbr. 4. mgr. 19. gr. ffl.
Samkvæmt gögnum málsins fer kærandi ekki með forsjá barnsins né er um sameiginlega forsjá barnsins að ræða, með hliðsjón af því á hann ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu í fæðingarorlofi er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Ósk Ingvarsdóttir