Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 84/2003

Þriðjudaginn, 1. júní 2004

   

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

   

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 4. desember 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 26. nóvember 2003.

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 28. október 2003 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Undirritaður óskar hér með eftir að nefndin úrskurði um réttmæti ákvörðunar fæðingarorlofssjóðs um reiknað fæðingarorlof mitt hjá fæðingarorlofssjóði sbr. hjálögð bréf þar um.

Undirritaður óskaði eftir fæðingarorlofi úr sjóðnum, í fyrstu atrennu frá 27/10-30/11 2003. Vinnu minni er þannig háttað að ég er í launavinnu þar sem ég tek fullt leyfi frá vinnu umrætt tímabil. Hef einnig tekjur af eigin atvinnurekstri þar sem mun minnka vinnu mína um ½ frá því sem áður var. Reiknað endurgjald hefur breytilegt eftir vinnuframlagi hvers tíma en fyrir nóvember 2003 er það kr. B.-

Athugasemdir mínar við reiknað fæðingarorlof lúta að þrem þáttum í afgreiðslu sjóðsins:

1               Launatölur

Geri athugasemdir við launatölur sem ekki eru réttar í bréfi fæðingarorlofssjóðs. Sjá hjálagt excel skjal sem inniheldur greidd laun frá vinnuveitanda og reiknuð laun frá eigin atvinnurekstri. Athuga að laun eru miðuð við þann mánuð þegar tekna var aflað. Í útreikningi fæðingarorlofssjóðs er m.a. miðað við útborgunardag í stað tekjumánaðar.

2               Viðmiðunarmánuði

Í reikningum fæðingarorlofs er miðað við greidd laun 1. hvers mánaðar frá ágúst 2002-júlí 2003 í stað tekjumánaða undanfarinna 12 mánaða fyrir töku orlofs. Óska eftir því að þetta verði leiðrétt í samræmi við hjálagða excel skrá (bláir stólpar).

3               Reikniaðferð fæðingarorlofs

Í umsókn minni um fæðingarorlof var tekið fram að ég myndi verða í fullu leyfi frá launavinnu en myndi stunda 50% vinnu við eigin atvinnurekstur. Tekið er tillit til þessa í afgreiðslu sjóðsins en á alls óviðunandi hátt, þar sem reiknisleg aðferðafræði er ekki samhljóða í niðurstöðum fæðingarorlofssjóðs.

Fæðingarorlofssjóður leggur til grundvallar heildartekjur mínar af launavinnu og eigin atvinnurekstri sem grundvöll fyrir fæðingarorlofslaunum. Þ.e. að 100% vinna gefi kr. D.- á mánuði að meðaltali. Að baki þessari upphæð liggja tekjur sem koma að 89,9% frá launagreiðanda og 16,1% frá eigin atvinnurekstri. Þá upphæð sem mér þá bæri ef ég stundaði enga vinnu meðan á orlofi stæði væri 80% af þessari mánaðarupphæð. Í bréfi sjóðsins er þessi upphæð kr. E.-.

Í afgreiðslu fæðingarorlofssjóðs komist þið að þeirri niðurstöðu að 50% starfshlutfall mitt við eigin atvinnurekstur meðan á fæðingarorlofi standi sé hins vegar 23% og er þá miðað við viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um reiknuð laun sérfræðinga í fullu starfi kr. F.-. Því er 80% fæðingarorlof mitt skert sem því nemur og reiknað sem 77% af reiknuðu fæðingarorlofi. Við þetta geri ég alvarlegar athugasemdir þar sem með þessari reikniaðferð er verið að ofreikna vægi launa frá eigin atvinnustarfsemi á kostnað launa frá launagreiðanda í þessu tilviki og vikið frá þeim reiknigrunni fæðingarorlofssjóðs um forsendur viðmiðunartekna minna þ.e. að 100% vinna gefi D.- kr. á mánuði að meðaltali í laun. Tel rétt, til samræmis sé gætt, að reiknireglan eigi að vera sú að við ofangreint 50% starf við eigin atvinnurekstur dragist helmingur af 16,1%, sem er heildarhlutfall launa frá eigin atvinnustarfsemi, eða 8,0%, frá og fæðingarorlof verði því 92% af fæðingarorlofi í stað 77% með fyrri reikniaðferð fæðingarorlofssjóðs.“

    

Með bréfi, dags. 4. desember 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 22. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er afgreiðsla á umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi gerir athugasemdir við launatölur sem notaðar eru við útreikning greiðslna til hans, þá mánuði sem mynda viðmiðunartímabil útreiknings og þá aðferð sem notuð er við útreikning greiðslna.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Launatölur þær sem notaðar eru við útreikning greiðslna eru sóttar í staðgreiðsluskrá RSK, sbr. 3. mgr. 15. gr. ffl. Af launaseðlum sem kærandi hefur lagt fram má sjá að laun hans frá Fjársýslu ríkisins eru greidd fyrirfram og var sú staðreynd höfð til hliðsjónar við útreikning greiðslna. Ekki verður séð að ágreiningur sé um tekjur frá G sf. í þessu sambandi.

Varðandi viðmiðunartímabil útreiknings var litið til 12 mánaða tímabils sem lauk tveimur almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barna kæranda. Börnin eru fædd 24. október 2003 og viðmiðunartímabilið er því frá 1. ágúst 2002 til loka júlímánaðar 2003. Þessi framkvæmd byggir á áðurnefndu ákvæði 2. mgr. 13. gr. ffl. svo og athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til ffl. og hefur verið staðfest af úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála, t.d. í máli nr. 21/2001 og 42/2001.

Sú aðferð sem notuð var við útreikning greiðslna byggir á 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir að þegar meta eigi starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skuli fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir. Kærandi raðast samkvæmt viðmiðunarreglunum í flokk A-3 með F kr. mánaðarlaun. Samkvæmt staðgreiðsluupplýsingum voru meðaltekjur hans af eigin atvinnurekstri fyrstu átta mánuði ársins 2003 (þeir mánuðir sem upplýsingar lágu fyrir um í staðgreiðsluskrá RSK þegar umsókn var afgreidd) H kr. sem jafngildir því að starfshlutfall hafi verið 46%. Þar sem kærandi hugðist leggja niður öll störf önnur en helming sjálfstæða atvinnurekstrarins og með hliðsjón af því að starf og fæðingarorlof getur ekki farið upp fyrir 100% alls, varð að líta svo á að hann yrði í 23% starfi og 77% fæðingarorlofi. Voru greiðslur til hans reiknaðar út miðað við þessar forsendur.“

   

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. janúar 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 1. febrúar 2004, þar segir m.a.:

„   1.   Í greinargerð TR er því haldið fram að launatölur séu fyrirfram greidd laun. Svo er ekki nema að hluta. Föst mánaðarlaun eru greidd fyrirfram en aðrar launagreiðslur, sem eru stærri hluti launa, er greiddur eftir á eða 1-2 mánuðum að jafnaði.

2.      Í 5. málsgrein greinargerðar TR er vikið að megin ágreiningsmálinu í umræddri kæru. Þar kemur ekkert nýtt fram frá hendi TR en bréfritari víkur sér þar undan að svara því misræmi sem kemur fram í upphaflegri reikniaðferð Tr. Þar er gert ráð fyrir að ef ég færi í fullt orlof væri starf mitt bæði frá eigin atvinnurekstri og launavinnu lagt til grundvallar sem 100% starf. Þetta gæfi skv. útreikningi TR launatekjur kr. D.- á mánuði að meðaltali og þar með orlofsgreiðslur kr. E.- á mánuði sem er 80% af fyrrgreindri upphæð. Á hinn bóginn er verið að ofreikna vægi launa frá eigin atvinnustarfsemi á kostnað launa frá launagreiðanda þegar kemur að því að meta 50% starfshlutfall mitt við eigin atvinnurekstur.“

    

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skal nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil, sbr. 3. mgr. 13. gr. ffl. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof að miða skuli við almanaksmánuði við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Börn kæranda fæddust 24. október 2003. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi frá ágúst 2002 til og með júlí 2003 sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um breytingu á því tímabili.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. ffl. skal útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi byggja á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar. Leggja skal til grundvallar upplýsingar úr framangreindum skrám með hliðsjón af framangreindu tólf mánaða viðmiðunartímabili sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þ.e. frá ágúst 2002 til og með júlí 2003.

Við útreikning Tryggingastofnunar ríkisins á heildarlaunum kæranda er miðað við að laun séu greidd fyrirfram. Í athugasemdum kæranda segir að föst mánaðarlaun séu greidd fyrirfram en aðrar launagreiðslur, sem séu stærri hluti launa séu greiddar eftir á. Framlagðir launaseðilar kæranda staðfestir að svo sé. Hins vegar nægja fyrirliggjandi gögn ekki til að staðfesta hver sé sundurliðun launagreiðslna á 12 mánaða viðmiðunartímabilinu. Að svo stöddu eru því ekki efni til endurskoðunar á útreikningi heildarlauna af þessum sökum á viðmiðunartímabilinu.

Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 skal mánaðarleg greiðsla til foreldris sem hefur bæði verið starfsmaður og sjálfstætt starfandi nema 80% af meðaltali heildartekna á tímabilinu, sbr. 2. og 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar, sbr. og 2. og 3. mgr. 13. gr. ffl. Í 7. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar segir að ætli foreldri að haga fæðingarorlofi á þann veg að það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, með samkomulagi við vinnuveitanda, skuli greiðslur úr Fæðingaorlofssjóði nema 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem svara til þess starfshlutfalls sem fæðingarorlofið telst til.

Kærandi sækir um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði tímabilið 27. október 2003 til 30. nóvember sama ár vegna fæðingarorlofs frá starfi á J og 50% orlofs vegna eigin atvinnureksturs. Heildarlaun sem samsvara því starfshlutfalli sem fæðingarorlofið tekur til eru því að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála laun frá J og 50% launa frá G sf. vegna sjálfstæðs atvinnureksturs kæranda. Skal greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði á því tímabili sem kæran varðar nema 80% af meðaltali þeirra heildarlauna, sbr. 4. og 7. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Heildarlaun frá G sf. á viðmiðunartímabilinu eru K kr. eða L kr. í meðallaun á mánuði. Samkvæmt því eru laun frá G sf. 16,10% heildarlauna kæranda. Skal útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miða við 92% af meðaltali heildarlauna, sbr. 7. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Samkvæmt því er hafnað forsendum útreiknings Tryggingastofnunar ríkisins sem byggir á 77% starfshlutfalli.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um viðmiðunartímabilið er staðfest. Ákvörðun Tryggingastofnun ríkisins varðandi greiðslu til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Greiða ber kæranda úr Fæðingarorlofssjóði miðað við 92% af meðaltali heildarlauna.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um viðmiðunartímabilið er staðfest. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Greiða ber kæranda úr Fæðingarolofssjóði miðað við 92% af meðaltali heildarlauna.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta