Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 15/2003

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 15/2003

   

A

gegn

Ríkisútvarpinu

     

---------------------------------------------------

    

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 24. ágúst 2004 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 14. nóvember 2003, sem barst kærunefnd jafnréttismála 18. nóvember sama ár, óskaði B hrl. eftir því, fyrir hönd A, að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning Ríkisútvarpsins í starf dagskrárgerðar- og fréttamanns við svæðisútvarpið D bryti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Kærunni fylgdu greinargerð lögmanns kæranda, dags. 14. nóvember 2003, og greinargerð kæranda, dagsett sama dag, auk eftirtalinna gagna:

  1. Auglýsing í fréttablaðinu E frá 3. júlí 2003;
  2. Starfsumsókn kæranda, dags. 7. júlí 2003;
  3. Bréf kæranda, dags. 8. september 2003, með ósk um rökstuðning;
  4. Svarbréf Ríkisútvarpsins, dags. 10. september 2003;
  5. Samantekt kæranda yfir fjölmiðlastörf hennar;
  6. Samantekt kæranda yfir fjölmiðlastörf hennar, sundurliðað eftir árum;
  7. Yfirlit kæranda yfir útvarpsviðtöl í þættinum MM;
  8. Starfsferilskrá kæranda;
  9. Ljósrit af prófskírteinum kæranda;
  10. Tölvubréf F, dags. 24. júní 2003;
  11. Ljósrit meðmælendabréfs G, fréttamanns, dags. 15. september 2003;
  12. Sýnishorn vinnu, grein úr tímaritinu H;
  13. Sýnishorn vinnu, sérblað fréttablaðsins E um þjóðlendumál.

 

Kæran var kynnt Ríkisútvarpinu með bréfi, dags. 18. nóvember 2003, og óskað eftir afstöðu þess til málsins. Í greinargerð sem I hdl. sendi kærunefnd jafnréttismála, fyrir hönd Ríkisútvarpsins, dags. 12. desember 2003, er gerð grein fyrir afstöðu þess til málsins, en greinargerðinni fylgdu eftirfarandi gögn:

  1. Auglýsing um starf dagskrárgerðar- og fréttamanns við svæðisútvarpið D, birt í Morgunblaðinu 29. júní 2003, í Textavarpi, á heimasíðu RÚV og í auglýsingum Útvarpsins;
  2. Bréf J og F til útvarpsstjóra, dags. 19. ágúst 2003;
  3. Fundargerð útvarpsráðs, dags. 2. september 2003;
  4. Bréf útvarpsstjóra til kæranda, dags. 10. september 2003;
  5. Blað með einkunnagjöf matsmanna um umsækjendur;
  6. Starfsumsókn K, dags. 10. júlí 2003;
  7. Yfirlit yfir verktakagreiðslur ríkisútvarpsins til kæranda.

 

Kæranda var kynnt greinargerð Ríkisútvarpsins ásamt fylgigögnum með bréfi, dags. 2. febrúar 2004, og gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri.

Kærunefnd jafnréttismála óskaði eftir afritum prófskírteina þess sem ráðinn var í starfið og bárust þau með bréfi, dags. 4. febrúar 2004.

Frekari athugasemdir kæranda bárust 23. febrúar 2004 með bréfi lögmanns kæranda, ásamt athugasemdum kæranda, dags. 19. febrúar 2004, sem hann gerði við greinargerð Ríkisútvarpsins, dags. 12. desember 2003.

Þessi gögn frá kæranda voru kynnt Ríkisútvarpinu með bréfi, dags. 27. febrúar 2004, þar sem óskað var eftir frekari upplýsingum, auk þess sem því var gefinn kostur á að taka afstöðu til nánar tiltekinna atriða sem fram komu í greinargerð kæranda.

Með bréfi, dags. 25. mars 2004, barst greinargerð Ríkisútvarpsins, ásamt afriti af skipuriti þess og lýsingu á verklagi og tækjabúnaði Ríkisútvarpsins á L. Með bréfi, dags. 3. maí 2004, var kæranda sent til kynningar afrit af greinargerð Ríkisútvarpsins.

Með bréfi mótteknu þann 25. maí 2004 kom kærandi frekari athugasemdum á framfæri við kærunefndina. Bréf kæranda var sent Ríkisútvarpinu til kynningar með bréfi, dags. 26. maí 2004. Frekari athugasemdir hafa ekki borist.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

      

II.

Málavextir

Starf dagskrárgerðar- og fréttamanns við svæðisútvarpið D var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu hinn 29. júní 2003 og fréttablaðinu E, útgefnu 3. júlí 2003, og víðar. Fram kom í auglýsingunni að gert væri ráð fyrir því að dagskrárgerðar- og fréttamaður við svæðisútvarpið D annaðist einnig dagskrárgerð og fréttaöflun fyrir landsrásir Útvarpsins. Í auglýsingunni kom fram að leitað væri að hugmyndaríkum starfsmanni með góða hæfileika til fréttaöflunar og tæknivinnu fyrir útvarp. Gerðar voru þær menntunar- og hæfniskröfur að umsækjendur hefðu háskólapróf eða umtalsverða reynslu í frétta- eða blaðamennsku, góða rödd og gott vald á íslensku máli. Þá kom fram í auglýsingunni að umsækjendur myndu gangast undir sérstakt hæfnispróf sem haldið yrði um miðjan júlí.

Umsækjendur um starfið voru tíu, en þrír drógu umsóknir sínar til baka. Fimm umsækjendur komu í viðtal hjá Ríkisútvarpinu, þrír karlar og tvær konur og var kærandi önnur þeirra. Ríkisútvarpið fól tveimur starfsmönnum sínum, þeim J, framkvæmdastjóra Útvarpsins og F, dagskrárstjóra Rásar 2, að meta hæfni umsækjenda og komu framangreindir fimm umsækjendur í viðtöl þann 15. ágúst 2003. Umsækjendum voru gefnar einkunnir fyrir fimm matsþætti, þ.e. menntun, reynslu í útvarpi, reynslu í fréttum, fréttamannapróf og tæknivinnu. Sá sem ráðinn var í starfið og kærandi hlutu flest stig eftir þessu mati. Kærandi hlaut stigafjöldann 5+ og sá sem ráðinn var fékk stigafjöldann 6+. Kærandi og sá sem ráðinn var í starfið voru jöfn að stigum í fjórum matsþáttum, menntun, reynslu í útvarpi, reynslu í fréttum og fréttamannaprófi. Sá sem ráðinn var í starfið fékk hins vegar hærri einkunn fyrir matsþáttinn tæknivinnu.

Með bréfi J til útvarpsstjóra, dags. 19. ágúst 2003, tilkynnti hún fyrir sína hönd og F, að þau mæltu með karlmanni úr hópi umsækjenda í starfið. Útvarpsráð hefur umsagnarskyldu um ráðningu dagskrárgerðar- og fréttamanna hjá Ríkisútvarpinu og voru umsóknir um starfið og framangreint meðmælabréf lagt fyrir fund útvarpsráðs 2. september 2003. Við atkvæðagreiðslu þar fékk karlinn sex atkvæði af sjö og var að því búnu ráðinn í starfið.

Með bréfi, dags. 8. september 2003, óskaði kærandi eftir rökstuðningi útvarpsstjóra fyrir ráðningunni og skriflegum samanburði á hæfni hennar og þess sem fékk starfið. Rökstuðningur útvarpsstjóra barst kæranda með bréfi, dagsettu 10. september 2003. Þar kemur fram að sá sem ráðinn var í starfið væri hæfasti umsækjandinn. Hann uppfylli mjög vel menntunarkröfur sem gerðar eru og hafi staðist sérstakt fréttamannapróf Ríkisútvarpsins. Hann hafi einnig reynslu af störfum fyrir fréttamiðla í landshlutanum og þekki þar vel til. Þá kemur fram að í auglýsingu hafi verið tekið fram að leitað væri eftir hugmyndaríkum starfsmanni með góða hæfileika til fréttaöflunar og tæknivinnu fyrir útvarp. Þar sem starfsmaðurinn við svæðisútvarpið D verði einn að störfum sé mikil áhersla lögð á þann þátt sem varði tæknivinnu, meðal annars sem víðtækasta þekkingu á tölvubúnaði og hæfni til að nýta hann við upptöku dagskrárefnis, úrvinnslu og útsendingar.

     

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að Ríkisútvarpið hafi með ráðningu karlmanns í starf dagskrárgerðar- og fréttamanns við svæðisútvarpið D, um mánaðamótin ágúst-september 2003, brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Meginmarkmið jafnréttislaga sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, sbr. 1. gr. jafnréttislaga. Þetta meginmarkmið laganna og önnur ákvæði þeirra leggi þær skyldur á atvinnurekendur að sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, sbr. 13. gr. sömu laga. Hafi Hæstiréttur ítrekað áréttað að lög þessi yrðu þýðingarlítil nema sá skilningur sé í þau lagður að veita beri konu starf, sé hún að minnsta kosti jafnhæf karlmanni sem hún keppi við, að því er varðar menntun og annað sem máli skiptir, og ef á starfssviðinu séu fáar konur. Þessar meginreglur beri að leggja til grundvallar við úrlausn máls þessa.

Kærandi heldur því fram að gögn þessa máls sýni glöggt að hún hafi að minnsta kosti sambærilega og ef eitthvað er meiri og hagnýtari menntun en sá sem ráðinn var í starfið. Kærandi kveðst einnig hafa umtalsvert lengri starfsreynslu við útvarp en hann, hún hafi sinnt svæðisútvarpssendingum í átta mánuði á móti einum mánuði þess sem ráðinn var, auk þess sem kærandi hafi unnið í verktöku fyrir Ríkisútvarpið í fimm og hálft ár við fjölbreytt verkefni. Hún hafi einnig lengri og samfelldari reynslu af fréttamennsku en sá sem ráðinn var og vísar þar til vinnu sinnar fyrir Ríkisútvarpið við fjölbreytt viðfangsefni í fimm og hálft ár, átta mánaða starf hjá svæðisútvarpinu D og ríflega tveggja ára samfellt starf hjá fréttablaðinu E auk fjölda sértækra verkefna fyrir einstaka fréttamiðla svo sem tímaritið H, M og fleiri rit.

Kærandi gagnrýnir ferilskrá þess sem ráðinn var, þar sem engin gögn fylgi þar sem fram komi í hversu langan tíma á hverju ári hann hafi sinnt hverju starfi fyrir sig né heldur í hvaða starfshlutfalli.

Kærandi gerir athugasemdir við forsendur og niðurstöður hæfnismats sem J og F sáu um. Þar hafi verið metnir aðrir hæfnisþættir en kynntir voru í auglýsingu um starfið. Helstu rök Ríkisútvarpsins fyrir því að sá sem ráðinn var hafi verið talinn hæfari séu þau að hann hafi mun meiri kunnáttu í tölvu- og hugbúnaði en kærandi. Ekki hafi verið auglýst eftir þekkingu á því sviði heldur eftir góðum hæfileikum til tæknivinnu sem sé sitt hvað. Þá byggir kærandi á því að hún hafi fullnægjandi tæknikunnáttu til starfsins, og vísar þar til langrar starfsreynslu sinnar fyrir Ríkisútvarpið sem hafi verið áfallalaus. Að auki hafi hún hafi lokið háskólaprófi frá háskólanum N með lokaverkefni sem fjallaði um nýtingarmöguleika tölva í grunnskólum auk þess sem kæranda hafi í nokkur sumur verið falið að sjá um tölvuvinnslu allra gíróseðla og orlofs hjá O. Þá hafi hvergi komið fram í auglýsingu um starfið að leggja ætti háskólapróf og reynslu við frétta- og blaðamennsku að jöfnu eins haldið sé fram af hálfu Ríkisútvarpsins. Við hæfnismat hljóti að vera horft til beggja þátta og ef saman fari háskólapróf og umtalsverð starfsreynsla beri að taka tillit til þess við hæfnismat og það eigi að vega þyngra en háskólapróf eitt og sér.

Þá kemur fram af hálfu kæranda að aðeins fjórar konur starfi sem dagskrárgerðar- og fréttamenn við svæðisstöðvar Ríkisútvarpsins en átta karlmenn. Þá staðreynd beri að leggja til grundvallar en ekki hlutfall karla og kvenna við óskyld störf hjá Ríkisútvarpinu. Fyrir liggi að allir stjórnendur og langflestir starfsmenn svæðisútvarpa Ríkisútvarpsins eru karlmenn og meirihluti yfirmanna Ríkisútvarpsins.

Fram hefur komið af hálfu kæranda að námsferill hennar sé svofelldur: Stúdentspróf frá menntaskólanum P af náttúrufræðibraut vorið 1980, búfræðipróf frá bændaskólanum R vorið 1981, B.Ed. próf frá háskólanum N vorið 1984, 11 einingar í hagnýtri fjölmiðlun við háskólann S haustið 1999 auk fjölmargra námskeiða sem kærandi hefur sótt, meðal annars nokkur tölvunámskeið, bókhaldsnám, barnavernd, Lions Quest, grunnnám í ítölsku og grísku auk dönskunámskeiðs fyrir íslenska kennara í fjarnámi við danskan háskóla.

 

Kærandi hefur tilgreint starfsferil sinn með eftirfarandi hætti:

1984–1985, tölvari hjá T og hafði þar umsjón með tölvuvinnslu, pöntunum og bókhaldi.

1984–1986, umsjón með fjárhags- og viðskiptabókhaldi hjá U.

1985–1992, grunnskólakennari við unglingadeildir í grunnskólanum V.

1992–1993, kennari við unglingadeildir grunnskólans X.

1994–1999, grunnskólakennari við unglingadeildir grunnskólans Y.

1993–1995, framkvæmdastjóri og einn stofnenda handverkshússins Z.

1994– umsjón með fjárhags- og viðskiptabókhaldi Þ ehf. á L.

1996, kosningastjóri forsetaframboðs Æ í landshlutanum Ö.

1998– fréttaritari og dagskrárgerðarmaður Ríkisútvarpsins í landshlutanum Ö.

1999, yfirumsjónarmaður og fréttamaður í átta mánuði hjá Útvarpi landshlutans Ö þegar byrjað var á útsendingum svæðisútvarpsins D í verktöku þeirra.

2000–2002, blaðamaður hjá fréttablaðinu E.

2003, framkvæmdastjóri menningarhátíðar á L „AA“.

Að auki kemur fram í umsókn kæranda að hún hafi fjölbreytta starfsreynslu frá sumarstörfum og með námi.

 

Kærandi telur að það blasi við að hún sé hæfari en sá umsækjandi sem útvarpsstjóri réð sem dagskrárgerðar- og fréttamann við svæðisútvarpið D. Ríkisútvarpið hafi ekki með fullnægjandi hætti bent á sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var sem réttlæta ráðningu hans, né heldur hafi komið fram að sérstakir ágallar væru á kæranda sem komið hafi í veg fyrir að hún væri ráðin í starfið. Verði því að telja löglíkur fyrir því að ástæður útvarpsstjóra fyrir ráðningunni séu ekki haldbærar og sé því um að ræða skýrt brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Hafi útvarpsstjóri bersýnilega farið út fyrir þau valdmörk sem honum eru sniðin með því að hafa með ráðningu í starf dagskrárgerðar- og fréttamanns brotið jafnréttislög og ekki gætt þeirra viðmiða sem gera verði kröfu til að höfð séu í heiðri við slíka ákvörðun.

 

IV.

Sjónarmið Ríkisútvarpsins

Á því er byggt af hálfu Ríkisútvarpsins að almennt verði að ætla þeim sem ræður í starf talsvert svigrúm til að velja þau viðmið sem leggja eigi til grundvallar við ráðningu og ákveða innbyrðis vægi þeirra.

Í hinu auglýsta starfi dagskrárgerðar- og fréttamanns hjá svæðisútvarpinu D felist að starfsmaður sé einn að störfum. Hann sinni einn fréttaöflun og efnisvali í útsendingar og sjái einn um alla tækni- og hljóðvinnslu. Hann þurfi að geta ráðið fram úr ýmsum algengnum tæknilegum vandamálum sem upp geti komið við hljóðvinnslu og útsendingu.

Ríkisútvarpið hafi í starfsauglýsingunni lagt áherslu á hæfileika til fréttaöflunar og tæknivinnu fyrir útvarp. Starfið sé þess eðlis að fréttaöflun og tæknivinna séu jafnmikilvægir þættir í starfinu og geti hvorugur þátturinn án hins verið, eigi starfsmaðurinn að geta unnið einn að störfum sínum fyrir svæðisútvarpið D. Þegar velja verði milli hæfra einstaklinga verði að meta hæfni sérhvers þeirra til að takast á við þau verkefni sem einkenna viðkomandi starf. Þannig hafi verið ljóst að til að umsækjendur gætu komið til álita í starfið þyrftu þeir að leggja fram gögn og sýna fram á þekkingu og reynslu á þeim sviðum sem tilgreind voru í auglýsingunni. Ríkisútvarpið hafi falið J, framkvæmdastjóra Útvarpsins og F, dagskrárstjóra Rásar 2, að meta hæfni umsækjenda. Við matið hafi verið lagðir til grundvallar fimm matsþættir: Menntun umsækjenda, reynsla í útvarpi, reynsla í fréttum, fréttamannapróf og kunnátta á tölvu- og hugbúnað og reynsla af tæknivinnu.

Af hálfu Ríkisútvarpsins er byggt á því að í viðtölum við fimm tilgreinda umsækjendur hafi hæfni þeirra verið metin til stiga og lagður saman stigafjöldi úr framangreindum matsþáttum. Heildarstigafjöldi hvers umsækjanda fyrir sig hafi svo verið borinn saman. Kærandi og sá sem ráðinn var hafi fengið hæstu einkunn umsækjenda, en þó hafi sá sem ráðinn var fengið hærri einkunn fyrir matsþáttinn tæknivinnu, en þau hafi verið jöfn að öðru leyti. Af þeim sökum hafi hann verið talinn hæfasti umsækjandinn og á því hafi ráðningin byggst.

Samkvæmt gögnum málsins er námsferill þess sem ráðinn var svofelldur: Stúdentspróf af máladeild menntaskólans BB 1990, nám við stjórnmálafræðiskor háskólann S á árunum 1991–1992, B.Sc. Business Administration í maí 2002 frá háskólanum DD.

 

Sá sem starfið hlaut tilgreinir starfsferil sinn með eftirfarandi hætti:

2003

Fréttablaðið E, almenn blaðamennska og fleira.

Útvarp landshlutans Ö, umsjón með svæðisútvarpi. Fréttir, viðtöl og fleira.

2002–2003

Verslunin EE – Rekstrarstjóri.

2002,

Kennsla í félagsfræði og fjölmiðlafræði við fjölbrautaskólann FF á L.

Fræðslunet í landshlutanum Ö.

Verkefnisstjóri vegna viku símenntunar.

1999–2001

Verslunin EE. Sumarstarf á námsárum, verslunarstjóri.

Fréttablaðið E. Fréttaskrif og uppsetning í hlutastarfi.

1997–1998

GG. Sölu- og markaðsmál fyrir útvarpsstöðvar og bíóhús.

1996–1997

HH. Sölu- og markaðsmál fyrir auglýsingar í Símaskrá.

Ritstjóri ritsins Ö.

1993–1998

II ehf. – Auglýsingastjóri, auglýsingagerð, fréttaskrif og uppsetning blaða og tímarita, svo sem fréttablaðið E, ritsins Ö og ritið JJ. Hlutastarf um tíma.

Dagblaðið KK – Fréttaritarastörf.

 

Ríkisútvarpið mótmælir því að við ráðninguna hafi verið brotin lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Byggt er á því að af samanburði á þekkingu kæranda og þess sem ráðinn var á tölvum og hugbúnaði hafi komið í ljós að sá er ráðinn var í starfið hafi yfirgripsmeiri þekkingu og reynslu af notkun hugbúnaðar og tölvutækni en kærandi. Þá er byggt á því af hálfu Ríkisútvarpsins að til þess að hægt væri að meta þennan þátt, þyrftu umsækjendur að leggja fram gögn og sýna fram á þekkingu og reynslu á þeim sviðum sem tilgreind hafi verið í auglýsingu um starfið. Við samanburð á þekkingu umsækjenda hafi verið stuðst við þau gögn og upplýsingar sem fyrir lágu, auk þess sem fram hafi komið í viðtölum milli matsmanna Ríkisútvarpsins og kæranda og þess sem ráðinn var, að verulegur munur hafi verið milli þeirra varðandi yfirsýn og skilning á tölvum og hugbúnaði. Af þessum sökum hafi sá sem ráðinn var verið talinn hæfasti umsækjandinn um stöðuna og því eigi forgangsregla jafnréttislaga ekki við mál þetta.

Í greinargerð Ríkisútvarpsins kemur þar að auki fram að starfið sé sambærilegt og þau störf sem unnin séu á svæðisútvörpum og í aðalstöðvum Ríkisútvarpsins. Á svæðisútvörpum starfi 12 dagskrárgerðar- og fréttamenn, átta karlar og fjórar konur, fréttamenn í Reykjavík séu þrettán karlar og átta konur og dagskrárgerðarmenn í Reykjavík séu 10 karlar og 15 konur. Af því megi ráða að hlutfall kynja í störfum dagskrárgerðar- og fréttamanna hjá Ríkisútvarpinu sé nokkuð jafnt.

 

V.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis, skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Af hálfu kæranda er þess farið á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kanni og taki afstöðu til þess hvort Ríkisútvarpið hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, með ráðningu í starf dagskrárgerðar- og fréttamanns við svæðisútvarpið D.

Samkvæmt 6. mgr. 9. gr. laga um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, ræður útvarpsstjóri starfsfólk dagskrár, eins og það er orðað í lögunum, að fengnum tillögum útvarpsráðs. Starf dagskrárgerðar- og fréttamanns við svæðisútvarpið D var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 29. júní 2003 og í fréttablaðinu E 3. júlí 2003. Í auglýsingunni kom fram að starfsmaðurinn myndi annast dagskrárgerð og fréttaöflun fyrir landsrásir Útvarpsins. Í auglýsingu um starfið var tekið fram að leitað væri að hugmyndaríkum starfsmanni með góða hæfileika til fréttaöflunar og tæknivinnu fyrir útvarp, auk þess sem gerðar voru kröfur um að umsækjendur hefðu háskólapróf eða umtalsverða reynslu í frétta- eða blaðamennsku, góða rödd og gott vald á íslensku máli. Í auglýsingunni var tekið fram að umsækjendur myndu gangast undir sérstakt hæfnispróf.

Umsækjendur um þá stöðu sem hér er til umfjöllunar voru tíu, en þrír þeirra drógu umsóknir sínar til baka. Fimm umsækjendur komu í viðtal, þrír karlar og tvær konur. Í umsögn F og J, dags. 19. ágúst 2003, var mælt með karlmanni í starfið og samþykkti útvarpsráð á fundi sínum, 2. september 2003, að mæla með honum og var hann ráðinn til starfans í framhaldi af því.

Lagðar hafa verið fram upplýsingar um menntun og starfsferil kæranda og þess sem ráðinn var. Ekki eru efni til að bera saman starfshæfni annarra en kæranda og þess sem ráðinn var, en samanburður á starfshæfni þeirra er óhjákvæmilegur svo leysa megi úr því álitaefni hvort brotið hafi verið gegn 24. gr. laga nr. 96/2000.

Kærandi lauk stúdentsprófi frá menntaskólanum P vorið 1980, búfræðiprófi frá bændaskólanum R vorið 1981 og B.Ed.-prófi frá háskólanum N vorið 1984. Þá lauk kærandi 11 einingum í hagnýtri fjölmiðlun við háskólann S haustið 1999. Að auki hefur kærandi sóst eftir endurmenntun og tilgreindi hún í umsókn um starfið nokkur námskeið, svo sem tölvunámskeið, bókhaldsnámskeið, námskeið um barnaverndarmál, Lions Quest, grunnnám í ítölsku og grísku, auk þess sem kærandi sat dönskunámskeið fyrir íslenska kennara í fjarnámi við danskan háskóla.

Kærandi starfaði 1984–1985 við tölvuvinnslu hjá T, og hafði árin 1984–1986 umsjón með fjárhags- og viðskiptabókhaldi hjá U. Árin 1985–1999 starfaði kærandi sem grunnskólakennari. Árin 1993–1995 var hún framkvæmdastjóri handverkshússins Z og hefur frá árinu 1994 haft umsjón með fjárhags- og viðskiptabókhaldi Þ ehf. á L. Árið 1996 var hún kosningastjóri forsetaframboðs Æ í landshlutanum Ö og frá árinu 1998 hefur kærandi verið fréttaritari og dagskrárgerðarmaður Ríkisútvarpsins í landshlutanum Ö, þar af var hún á árinu 1999 um átta mánaða skeið yfirumsjónarmaður og fréttamaður hjá Útvarpi landshlutans Ö, þegar hafnar voru útsendingar hjá svæðisútvarpinu D. Árin 2000–2003 starfaði kærandi sem blaðamaður hjá fréttablaðinu E og var árið 2003 framkvæmdastjóri menningarhátíðarinnar, AA. Að auki tilgreindi kærandi í umsókn um starfið fjölbreytt sumarstörf og störf með námi. Þá kom fram í umsókn kæranda að hún hefði verið valin trúnaðarmaður á vinnustað, hún hefði setið í stjórn stéttarfélagsins LL.

Sá sem starfið hlaut lauk stúdentsprófi frá menntaskólanum BB árið 1990. Árin 1991 til 1992 stundaði hann nám við stjórnmálafræðiskor háskólann S. Árin 1999 til 2001 stundaði hann nám við háskólann DD. og lauk því námi með B.Sc.-gráðu í Business Administration í maí 2002.

Árin 1993–1998 starfaði hann hjá II ehf., sem auglýsingastjóri, við auglýsingagerð, fréttaskrif, uppsetningu blaða og tímarita, m.a. fyrir fréttablaðið E, ritið Ö og ritið JJ, þar af um tíma í hlutastarfi. Þá var hann ritstjóri ritsins Ö árin 1996–1997, ásamt því að starfa við sölu og markaðsmál fyrir HH. Árin 1997–1998 starfaði hann hjá GG þar sem hann sinnti meðal annars sölu- og markaðsmálum fyrir útvarpsstöðvar og bíóhús. Árin 1999–2001 var hann verslunarstjóri í versluninni EE í sumarstarfi með námi auk þess sem hann sinnti fréttaskrifum og uppsetningum fyrir fréttablaðið E í hlutastarfi á sama tíma. Á árinu 2002 kenndi hann félagsfræði og fjölmiðlafræði við fjölbrautaskólann FF á L, og var verkefnisstjóri viku símenntunar fyrir Fræðslunet landshlutans Ö. Árin 2002–2003 var hann rekstrarstjóri í versluninni EE, og frá árinu 2003 blaðamaður á fréttablaðinu E auk þess sem hann starfaði hjá Útvarpi landshlutans Ö, þar sem hann hafði umsjón með svæðisútvarpi sem m.a. fólst í öflun frétta og í viðtölum.

Í umsókn þess sem starfið hlaut kemur fram að hann búi yfir almennri og sértækri tölvukunnáttu, auk reynslu af uppsetningu tölva og tölvukerfa, heimasíðugerð og meðferð hugbúnaðar, html, auk þekkingar af notkun hugbúnaðar frá Microsoft, og grafískra forrita. Þá hefur hann starfað að félagsmálum, m.a. verið í stjórn NN í fjögur ár, formaður utanríkisnefndar og ritstjóri, og varaformaður OO í Evrópu frá 1999. Þá var hann á námsárum í Bandaríkjunum í stjórn PP.

Kærandi og sá sem starfið hlaut hafa lokið háskólanámi og uppfylla þannig bæði þær kröfur sem gerðar voru um háskólanám.

Bæði kærandi og sá sem starfið hlaut eiga einnig að baki starfsreynslu við fjölmiðlun. Sá sem starfið hlaut hefur starfað nokkuð að blaðaskrifum, einkum fyrir tímarit í landshlutanum Ö, átta ár í hlutastarfi, en um tveggja ára skeið að aðalstarfi, þar af annað árið sem ritstjóri ritsins Ö, auk þess sem hann hefur starfað við útvarp um hálfs árs skeið. Kærandi hefur starfað í fimm og hálft ár sem fréttaritari og dagskrárgerðarmaður fyrir Ríkisútvarpið í landshlutanum Ö, þar af um átta mánaða skeið árið 1999 sem yfirumsjónarmaður og fréttaritari Útvarps landshlutans Ö. Þá starfaði kærandi um ríflega tveggja ára skeið sem blaðamaður við fréttablaðið E. Starfsreynsla beggja við fjölmiðlun er því talsverð. Ekki standa rök til að hrófla við því mati Ríkisútvarpsins að telja reynslu þeirra á því sviði fullnægjandi.

Fram hefur komið að í viðtölum starfsmanna Ríkisútvarpsins við kæranda og þann sem ráðinn var, að verulegur munur hafi verið milli þeirra varðandi yfirsýn og skilning á tölvum og hugbúnaði, kæranda í óhag. Þrátt fyrir að kærandi hafi um árabil starfað við útvarp, m.a. Ríkisútvarpið og hafi þannig reynslu af slíkum störfum þykja ekki efni til þess að hrófla við mati Ríkisútvarpsins í þessum efnum, sem byggði öðrum þræði á upplýsingum sem fram komu í fyrrgreindum viðtölum.

Að öllu þessu virtu verður að telja menntun, starfsreynslu og þekkingu umsækjenda sambærilega og verður að áliti kærunefndarinnar ekki gert upp á milli þeirra.

Lög um jafna stöðu kvenna og karla, nr. 96/2000, leggja þá skyldu á atvinnurekendur að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Hjá Ríkisútvarpinu starfa sem dagskrárgerðar- og fréttamenn 31 karl og 27 konur. Er þannig jafnræði með kynjunum þegar litið er á stofnunina sem heild. Svæðisútvarpið D er ekki sjálfstæð stofnun, heldur deild innan Ríkisútvarpsins. Ákvarðanir um ráðningu dagskrárgerðar- og fréttamanna þar eru teknar af útvarpsstjóra. Því er ekki hægt að líta á svæðisútvörpin sem svo sjálfstæðar deildir innan Ríkisútvarpsins að stofnuninni hafi borið skylda til að gæta að kynjahlutföllum dagskrárgerðar- og fréttamanna við svæðisútvörpin sérstaklega, sbr. 13. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Að áliti kærunefndar jafnréttismála er jafnræði milli kynjanna hjá Ríkisútvarpinu hvað þá stöðu snertir sem hér er til umfjöllunar. Þá þykir hæfni kæranda og þess sem ráðinn var ámóta. Við þessar aðstæður hvílir ekki á öðrum en kæranda að leiða líkur að því að bein eða óbein mismunun á grundvelli kynferðis umsækjenda hafi ráðið því hver ráðinn var í stöðuna. Að áliti kærunefndar hafa líkur ekki verið leiddar að slíkri mismunun. Ríkisútvarpið verður því ekki talið hafa brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 við ráðningu í starf dagskrárgerðar- og fréttamanns við svæðisútvarpið D.

 

 

Björn L. Bergsson

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta