Mál nr. 449/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 449/2022
Miðvikudaginn 2. nóvember 2022
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 8. september 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. september 2022, um að synja umsókn fyrirtækisins um ráðningarstyrk.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Þann 1. og 7. september 2022 sótti kærandi um styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna ráðningar tiltekins starfsmanns til fyrirtækisins. Umsókn kæranda var synjað með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 7. september 2022, á þeirri forsendu að starfsmaðurinn hefði unnið hjá fyrirtækinu á síðastliðnum 12 mánuðum.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. september 2022. Með bréfi, dags. 14. september 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 11. október 2022. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 14. október 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. október 2022. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að A hafi sótt um ráðningarstyrk til að auðvelda atvinnurekendum að ráða starfsfólk og fjölga atvinnutækifærum þeirra sem séu án atvinnu eftir Covid-19. Umsókninni hafi verið synjað vegna þess að viðkomandi starfskraftur sem skrifstofan hafi óskað eftir hafi samkvæmt starfsmanni Vinnumálastofnunar sinnt sama starfi síðustu 12 mánuði. Sú fullyrðing haldi því miður ekki þar sem reksturinn hafi farið mjög illa á tímabili Covid-19 eins og svo margar ferðaskrifstofur hafi upplifað.
A hafi í Covid-19 ekki verið rekin að fullu sem ferðaskrifstofa. Markaðssvæði hennar sé aðallega Asía sem hafi verið lokuð fyrir ferðamönnum og/eða verið með þannig Covid-19 kröfur að skipulagðar hópferðir þangað hafi ekki verið mögulegar. Síðustu ferðir hafi verið farnar árið 2019 með heimkomu gesta í febrúar og mars árið 2020 þegar allt hafi lokast vegna Covid-19. Það sjáist greinilega á rekstartölum fyrirtækisins síðustu þriggja ára og fyrirtækið hafi þurft að lækka laun starfsmanna og segja upp starfsmönnum árið 2020. Fyrirtækið hafi sótt um ráðningarstyrk vegna þess að viðkomandi starfsmaður hafi verið í viðtali hjá starfsmanni Vinnumálastofnunar 4. maí 2022 en þar hafi starfsmaðurinn upplýst og hvatt viðkomandi til að hafa samband við atvinnurekendur og segja þeim að honum fylgdi styrkur frá Vinnumálastofnun. Viðkomandi hafi talið að hann ætti ekki þennan rétt, þ.e. styrkinn, fyrr en eftir 1. júní en starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi fullyrt að viðkomandi hefði haft þennan rétt frá 1. febrúar 2022. Starfsmaðurinn sem um ræði hafi verið atvinnulaus síðan haustið 2020. Á árinu 2021 hafi hann verið skipstjóri á B vegna strandveiða og við veiðar á byggðarkvóta frá 6. apríl til 31. október 2021. Eins og öllum eigi að vera ljóst geti starfsmaður á sjó á strandveiðum ekki verið bókari og ferðaráðgjafi á sama tíma en það sé það starf sem fyrirtækið vilji ráða í. Einnig beri að geta þess að viðkomandi hafi verið atvinnulaus frá 31. október 2021 fyrir utan verktakavinnu í 17 daga á tímabilinu 7. júní til 29. ágúst 2022.
A óski eftir að viðkomandi verði ráðinn strax í sama starf eins og upprunalega hafi staðið til, eða eigi síðar en 1. október 2022 til að sinna og undirbúa hópferðir til Asíu fyrir haustið 2023.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að í maí [2022] hafi C, fyrir hönd A, óskað eftir styrk frá Vinnumálastofnun til að ráða atvinnuleitanda til starfa. Um sé að ræða ráðningarstyrk á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020. Kærandi hafi í kjölfarið auglýst starf á vefsvæði Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi auglýst eftir ferðaráðgjafa og starfið hafi verið auglýst sem ,,starf án staðsetningar“. Umsóknarfrestur hafi verið til og með [1. júní 2022]. Í framhaldinu hafi verið óskað eftir ráðningarstyrk með D. Atvinnuleitandi hafi áður starfað hjá kæranda og síðast þegið laun frá fyrirtækinu í október 2021 samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins. Auk þess hafi D stofnað fyrirtækið A og C sé maki hans og skráður tengiliður fyrirtækisins. Fyrirtækið sé skráð að E sem sé jafnframt lögheimili D og C.
Umsókn kæranda um ráðningarstyrk hafi verið synjað þann 3. júní 2022. Kærandi hafi fengið tilkynningu þess efnis að D uppfyllti ekki skilyrði ráðningarstyrks, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þá hafi kæranda einnig verið tilkynnt að skilyrði fyrir greiðslu ráðningarstyrks væru meðal annars að ráðning viðkomandi atvinnuleitanda fæli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka og að viðkomandi atvinnuleitandi hafi ekki sinnt sama starfi hjá hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum á síðastliðnum 12 mánuðum. Þann 1. júní 2022, 1. september 2022 og 7. september 2022 hafi kærandi aftur sótt um ráðningarstyrk með D og þá hafi kærandi auglýst eftir ferðaráðgjafa/bókara. Umsókn kæranda hafi verið hafnað á sama grundvelli og ákvörðun stofnunarinnar, dags. 3. júní 2022.
Þann 4. maí 2022 hafi D mætt á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar þar sem hann hafi sagt að atvinnuleit sín gengi hægt og sagst vera ferðaráðgjafi. Þá hafi hann einnig sagst hafa verið á strandveiðum en ekki vera viss hvort hann hefði heilsu í það vegna aldurs og meiðsla í hendi. Hann hafi spurt út í ráðningarstyrk og hvort unnt væri að greiða með honum, þ.e. hvort hann gæti sjálfur haft samband við fyrirtæki varðandi styrkinn. Þá hafi hann sagst vera að horfa á störf án staðsetningar tengd ferðaþjónustu.
Þann 27. maí 2022 hafi ráðgjafi Vinnumálastofnunar hringt í D í kjölfar beiðni þess efnis. Í símtalinu hafi hann verið að kanna hvort starf sem hann sjálfur hefði verið að skrá fyrir hönd A hefði skilað sér til stofnunarinnar. Þá hafi komið í ljós að kærandi hafi skráð sama starfið tvisvar sinnum, þ.e. á eigin kennitölu og einnig á fyrirtækið A. Umsóknin sem hann hafi skráð á eigin kennitölu hafi verið gerð óvirk í framhaldinu. Vert sé að benda á að hann sjálfur sé sá atvinnuleitandi sem óskað sé eftir ráðningarstyrk með í öllum umsóknum A.
Ákvarðanir stofnunarinnar hafi verið kærðar þann 1. og 8. september 2022. Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Þá gildi lög nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir um vinnumiðlun og skipulag úrræða til að auka vinnufærni atvinnuleitanda.
Mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna því að gera samning um ráðningarstyrk með D til A. Í reglugerð nr. 918/2020 séu settar nánari reglur um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Reglugerðin sé sett samkvæmt heimild í 62. og 64. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og 5. mgr. 12. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir, að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálstofnunar.
Í 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020 sé fjallað um vinnumarkaðsúrræðið ,,ráðning með styrk“. Í úrræðinu felist að Vinnumálastofnun sé heimilt að gera samning við fyrirtæki, stofnun eða frjáls félagasamtök um ráðningu atvinnuleitanda, sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, í starfsþjálfun hjá fyrirtækinu, stofnuninni eða félagasamtökunum, enda teljist ráðningin vinnumarkaðsúrræði samkvæmt b-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Markmiðið sé að atvinnuleitandinn fái tækifæri til að þjálfa sig í þeirri starfsgrein sem fyrirtækið, stofnunin eða félagasamtökin starfi innan til að auka hæfni sína til slíkra starfa á vinnumarkaði, enda sé hann reiðubúinn að ráða sig til framtíðarstarfa innan starfsgreinarinnar. Í ákvæðinu sé mælt fyrir um nokkur skilyrði sem atvinnuleitandi og atvinnurekandi þurfi að uppfylla. Skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli samnings samkvæmt 1. mgr. séu meðal annars:
- að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í a.m.k. þrjá mánuði eftir atvinnumissi,
- að ráðning viðkomandi atvinnuleitanda feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka og að viðkomandi atvinnuleitandi hafi ekki sinnt sama starfi hjá hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum á sl. 12 mánuðum,
- að hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök hafi a.m.k. einn starfsmann á launaskrá áður en til ráðningar viðkomandi atvinnuleitanda kemur,
- að hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök hafi síðastliðna sex mánuði ekki sagt starfsmönnum upp störfum sem gegnt höfðu því starfi sem fyrirhugað er að ráða viðkomandi atvinnuleitanda til að gegna,
- að hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök séu í skilum hvað varðar launatengd gjöld og opinber gjöld, svo sem iðgjöld og mótframlag í lífeyrissjóð, stéttarfélagsgjöld og tryggingagjald.
Í ljósi framangreindra skilyrða sé það afstaða Vinnumálastofnunar að ekki sé heimilt að veita kæranda styrk á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020 þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði b. liðar 9. gr. reglugerðarinnar. Ljóst sé að D sé stofnandi fyrirtækisins og fyrrum starfsmaður A. Samkvæmt fyrirtækjaskrá sé fyrirtækið skráð á börn D og C, með heimilisfesti á lögheimili þeirra. Af gögnum málsins verði ekki betur séð en að D sé starfandi hjá A. Einnig bendi stofnunin á að í apríl 2021 hafi D, fyrir hönd A, óskað eftir ráðningarstyrk frá Vinnumálastofnun til að ráða atvinnuleitanda til starfa. Kærandi hafi í kjölfarið auglýst starf á vefsvæði Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi auglýst eftir ferðaráðgjafa. D hafi verið skráður tengiliður fyrirtækisins. Í framhaldinu hafi verið óskað eftir ráðningarstyrk með C. Sú umsókn hafi verið samþykkt og kærandi hafi þegið ráðningarstyrk með C frá 1. maí 2021 til 31. október 2021. Ekki verði betur séð en að hjónin óski til skiptis eftir ráðningarstyrk fyrir fyrirtækið með hvort öðru. Auk þess verði séð af Fésbókarsíðu D að hann sé starfsmaður fyrirtækisins, sbr. meðfylgjandi gögn málsins. Einnig árétti stofnunin að þegar óskað hafi verið eftir gögnum vegna ráðningarstyrks hafi netfang D verið notað varðandi vefskil hjá Ríkisskattstjóra.
Vinnumálastofnun fallist ekki á að fyrirtæki geti fengið ráðningarstyrk frá stofnuninni til að ráða starfsfólk sem þegar starfi hjá fyrirtækinu, enda þurfi ráðning viðkomandi atvinnuleitanda að fela í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka. Auk þess sem viðkomandi atvinnuleitandi hafi ekki sinnt sama starfi hjá hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum á síðastliðnum 12 mánuðum. Samningur um ráðningarstyrk væri í slíkum tilfellum í beinu ósamræmi við skilyrði og tilgang 9. gr. reglugerðarinnar.
Með vísan til þess sem að framan greini telji Vinnumálastofnun að hafna beri kröfum kæranda. Þá sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið að hafna ráðningu með styrk til A á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um ráðningarstyrk samkvæmt reglugerð nr. 918/2020 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 62. gr. laga laganna er kveðið á um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna einstaklinga. Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. greiðast styrkir á grundvelli reglugerðar sem ráðherra setur.
Samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020 er Vinnumálastofnun heimilt að gera samning við fyrirtæki, stofnun eða frjáls félagasamtök um ráðningu atvinnuleitanda sem tryggður er innan atvinnuleysistryggingakerfisins, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Markmiðið er að atvinnuleitandinn fái tækifæri til að þjálfa sig í þeirri starfsgrein sem fyrirtækið, stofnunin eða félagasamtökin starfa innan til að auka hæfni sína til slíkra starfa á vinnumarkaði, enda sé hann reiðubúinn að ráða sig til framtíðarstarfa innan starfsgreinarinnar.
Samkvæmt 5. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar eru skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli samnings samkvæmt 1. mgr. meðal annars:
- að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í a.m.k. þrjá mánuði eftir atvinnumissi,
- að ráðning viðkomandi atvinnuleitanda feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka og að viðkomandi atvinnuleitandi hafi ekki sinnt sama starfi hjá hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum á sl. 12 mánuðum,
- að hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök hafi a.m.k. einn starfsmann á launaskrá áður en til ráðningar viðkomandi atvinnuleitanda kemur,
- að hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök hafi síðastliðna sex mánuði ekki sagt starfsmönnum upp störfum sem gegnt höfðu því starfi sem fyrirhugað er að ráða viðkomandi atvinnuleitanda til að gegna,
- að hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök séu í skilum hvað varðar launatengd gjöld og opinber gjöld, svo sem iðgjöld og mótframlag í lífeyrissjóð, stéttarfélagsgjöld og tryggingagjald.
Umsókn kæranda var synjað á grundvelli b. liðar 5. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar en óskað var eftir ráðningarstyrk vegna ráðningar D til fyrirtækisins.
Af gögnum málsins er ljóst að D er einn af stofnendum fyrirtækisins og er það skráð með heimilisfesti á lögheimili hans. Í apríl 2021 kom D fram fyrir hönd fyrirtækisins í tengslum við umsókn um ráðningarstyrk og hann fékk síðast greidd laun frá fyrirtækinu í október 2021. Þau gögn sem Vinnumálastofnun hefur lagt fram benda einnig til þess að hann hafi auglýst ferðir sem fyrirtækið bauð upp á, að minnsta kosti frá janúar 2022. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að D hafi verið störf hjá fyrirtækinu og að einhverju leyti í forsvari fyrir það á síðastliðnum 12 mánuðum.
Samkvæmt skýru ákvæði reglugerðar nr. 918/2020 þarf ráðning atvinnuleitanda að fela í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis. Með vísan til þess er að framan greinir er það skilyrði ekki uppfyllt í máli þessu að mati úrskurðarnefndarinnar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. september 2022, um að synja umsókn A, um ráðningarstyrk, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir