Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/1996

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 9/1996

A
gegn
Héraðsnefnd Þingeyinga

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála mánudaginn 21. apríl 1997 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 22. nóvember 1996 fór A þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort héraðsnefnd Þingeyinga hefði með ráðningu B í starf framkvæmdastjóra héraðsnefndar Þingeyinga brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga, lög nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá héraðsnefnd Þingeyinga um:

  1. Afstöðu hennar til erindisins.

  2. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um starfið.

  3. Menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var ásamt upplýsingum um hvaða sérstaka hæfileika umfram kæranda hann hefði til að bera, sbr. 8. gr. jafnréttislaga.

  4. Hlutfall kynja í öðrum stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá héraðsnefnd Þingeyinga

  5. Annað það er héraðsnefnd teldi að skipt gæti máli við mat á því hvort jafnréttislög hefðu verið brotin.

Svarbréf lögmanns héraðsnefndar Þingeyinga er dags. 10. janúar 1997. Með bréfi dags. 7. febrúar sendi kærandi athugasemdir sínar við bréf lögmanns héraðsnefndar. Kærandi og lögmaður héraðsnefndar komu á fund kærunefndar 7. mars.

Starf framkvæmdastjóra héraðsnefndar Þingeyinga var auglýst laust til umsóknar 15. september 1996. Engar hæfniskröfur voru gerðar í auglýsingu. Umsækjendur voru níu, ein kona og átta karlar. Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka. Til starfsins var ráðinn B.

Kærandi málsins, A, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Kópavogi 1985 og embættisprófi í lögum frá Háskóla Íslands 1990. Á menntaskólaárum sínum var hún eitt ár skiptinemi í Bandaríkjunum. Hún stundaði nám í umhverfisrétti og sveitarstjórna- og amtsrétti við Kaupmannahafnarháskóla 1991. Auk þess hefur hún sótt ýmis námskeið svo sem tölvunámskeið og námskeið um stjórnsýslulög og upplýsingalög. A starfaði sem sýslumannsfulltrúi á Húsavík frá apríl 1992 til ársloka það ár og rak eigin lögfræðistofu á Húsavík frá ársbyrjun 1993 fram í september sama ár. Frá þeim tíma þar til í júlí 1994 starfaði hún sem sýslumannsfulltrúi á Ísafirði og frá júlí 1994 hefur hún starfað sem fulltrúi og staðgengill sýslumannsins á Blönduósi. A var barnshafandi þegar hún sótti um starfið og gat þess í umsókn sinni.

B lauk námi í vélvirkjun frá Iðnskóla Húsavíkur og vélaverkstæði Kísiliðjunnar hf. Auk þess hefur hann lokið ýmsum námskeiðum, m.a. 120 tíma námskeiði í skrifstofutækni og 40 tíma námskeiði í skjalavörslu. Ennfremur hefur hann sótt ýmis tölvu- og bókhaldsnámskeið, einkum sem tengjast starfsemi sveitarfélaga. B starfaði hjá Kísiliðjunni hf. 1970-1989. Hann var oddviti Skútustaðahrepps 1990-1994 og hefur verið sveitarstjóri þar frá 1990. Auk þess sat hann í stjórn Kísiliðjunnar hf. 1978-1986 þar af sem stjórnarformaður 1982-1986. B sat í umdæmanefnd um sameiningu sveitarfélaga í Norðurlandi eystra frá árinu 1993, í stjórn Dvalarheimilis aldraðra 1990-1996, í stjórn byggingafulltrúaembættisins 1990-1996, var formaður undirbúningsnefndar um stofnun Sorpsamlags Þingeyinga 1992-1994 og sat í héraðsnefnd S-Þingeyjarsýslu 1990-1996, þar af sem formaður frá 1994.

Kærandi telur sig hæfari til að gegna starfinu en sá sem ráðinn var. Hún hafi mun meiri menntun en hann og menntun hennar falli betur að starfinu. Laganám nýtist í mörgum störfum vegna þeirrar áherslu sem lögð sé á þjálfun rökhugsunar og fagleg vinnubrögð. Þá nýtist það sérstaklega vel til að afla upplýsinga og leysa hin ýmsu viðfangsefni auk þess sem lögfræðingar læri að horfa á öll mál frá fleiri en einni hlið sem hún telur ótvíræðan kost í þessu starfi. Hún hafi sérhæft sig í sveitarstjórnarétti, bæði við lagdeild H.Í. og einkum við Kaupmannahafnarháskóla. Þar hafi hún einnig lagt stund á umhverfisrétt en sú þekking komi að góðum notum við lausn þeirra mála sem falli undir héraðsnefndina svo sem sorpmál, heilbrigðis- og byggingamál. Þá hafi hún starfsreynslu sem nýtast mundi vel í þessu starfi. Hún sé nú staðgengill sýslumanns. Á landsbyggðinni sé mikið samstarf milli sýslumannsembætta og sveitarstjórna og þær síðarnefndu leiti mikið til sýslumannsembætta um samstarf og ráðgjöf. Samstarf hennar við sveitarstjórnir hafi m.a. tengst vegamálum, lausagöngu búfjár, forðagæslu, veiðum í sjó, ám og vötnum svo og veiðum á afréttum og fjallskilum. Þá hafi hún langa reynslu af sifjamálum og hafi haft náið samband við barnaverndarnefndir m.a. vegna skilnaðar-, forsjár- meðlags- og umgengnisréttarmála en félagsmál séu eitt af verkefnum héraðsnefnda.

Í svari lögmanns héraðsnefndar Þingeyinga segir að forsaga málsins sé sú að á s.l. ári hafi verið ákveðið að sameina héraðsnefndir Norður- og Suður-Þingeyjarsýslna frá 1. janúar 1997. Héraðsráðum Suður- og Norður-Þingeyjarsýslna hafi verið falið að auglýsa starf framkvæmdastjóra og setja honum erindisbréf. Héraðsráðin hafi farið yfir umsóknir sem bárust og metið fjóra umsækjendur hæfa til starfsins m.a. kæranda og þann sem ráðinn var. Á fyrsta fundi nýskipaðrar héraðsnefndar Þingeyinga 4. nóvember 1996 hafi farið fram leynileg atkvæðagreiðsla milli þessara fjögurra umsækjenda. Atkvæði hafi fallið þannig að B hafi fengið níu atkvæði, A fjögur og aðrir umsækjendur færri. Í framhaldi af því hafi B verið ráðinn. Ákvörðunin hafi verið byggð á leynilegri atkvæðagreiðslu á 16 manna fundi og því ekki um rökstuðning að ræða af hálfu nefndarinnar.

Í bréfinu kemur ennfremur fram að nefndin telji sig í öllu hafa farið að settum reglum við ráðninguna. Í 34. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu ákvæði um það hvernig stjórnsýslunefnd skuli komast að niðurstöðu í málum og skuli afl atkvæða ráða þar úrslitum. Því er mótmælt að kæranda hafi verið mismunað vegna kynferðis. Hún hafi verið ein þeirra fjögurra sem talin voru hæf til starfsins, en sá sem ráðinn var hafi haft ýmislegt til að bera sem vegið hafi þungt. Reynsla og þekking hans af sveitarstjórnarstörfum og þá sérstaklega af samstarfi sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum hafi ráðið vali nefndarinnar. Einnig muni víðtæk þekking hans og reynsla af tölvubókhaldi nýtast vel. Af hálfu héraðsnefndar er lögð áhersla á að í auglýsingu um starfið hafi hvorki verið gerðar kröfur um menntun né starfsreynslu.

Á fundi hjá kærunefnd lagði lögmaður kærða áherslu á að sá sem ráðinn var hefði unnið að sameiningu héraðsráðanna tveggja og því þekkt mjög vel til allra mála. Skiptar skoðanir hefðu verið meðal heimamanna um sameininguna, eins og oft vilji verða við breytingar á skipan stjórnsýslu. Það hefði verið mat héraðsnefndarinnar að mikill fengur væri að fá B til starfans vegna þekkingar hans á öllum aðstæðum og af sveitarstjórnarmálum á svæðinu. Auk þess hefði með ráðningu hans verið tryggð ákveðin samfella frá undirbúningsstigi til raunverulegs starfs á vegum hinnar nýju héraðsnefndar.

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að ráða einstakling af því kyni sem í minnihluta er í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.

Engar menntunarkröfur voru gerðar í auglýsingu um starfið. Kærunefnd telur að það komi þó ekki í veg fyrir að menntun umsækjenda verði borin saman við mat á hæfni þeirra. A er lögfræðimenntuð með sveitarstjórnarétt sem sérgrein. Kærunefnd telur að sú menntun falli vel að hinu umrædda starfi. B hefur iðnmenntun sem kemur ekki að beinum notum í þessu starfi. Hann hefur lokið 160 klst. námskeiði í skrifstofutækni og skjalavörslu. Bæði hafa sótt ýmis námskeið um tölvunotkun og bókhald. Menntun hennar er því ótvírætt meiri.

A hefur starfað í tæp fimm ár við lögfræðistörf, aðallega sem sýslumannsfulltrúi á landsbyggðinni og telur kærunefnd að sú starfsreynsla hennar gæti nýst vel í umræddu starfi. Sá sem ráðinn var hefur hins vegar verið oddviti og sveitarstjóri í tæp sjö ár auk starfa sinna hjá Kísiliðjunni hf. Þá hefur hann starfað í ýmsum nefndum á sviði sveitarstjórnarmála þ.á m. veitt héraðsnefnd Suður- Þingeyjarsýslu forstöðu frá 1994. Í því starfi vann hann að sameiningu héraðsnefnda Norður- og Suður-Þingeyjarsýslna. Kærunefnd fellst á þau rök kærða að þessi starfsreynsla B hafi beina þýðingu fyrir umrætt starf. Verður í því sambandi að horfa til þess að um er að ræða nýtt starf. Það er mat nefndarinnar að líta megi svo á, að víðtæk þekking hans á aðstæðum og virk þátttaka í undirbúningi að stofnun hinnar nýju héraðsnefndar, geti talist sérstakir hæfileikar sem réttlæti að gengið var fram hjá umsækjanda með meiri menntun.

Með hliðsjón af því er að framan greinir er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að með ráðningu B í starf framkvæmdastjóra héraðsnefndar Þingeyinga hafi héraðsnefnd Þingeyinga ekki brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta