Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/1995

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 4/1995

A
gegn
félagsmálaráði Reykjavíkurborgar

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 27. október 1995 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með kæru dags. 19. júní fór A, fulltrúi, þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort félagsmálaráð Reykjavíkurborgar hafi með ráðningu B í starf forstöðumanns á Vistheimili barna, Laugarásvegi 39 brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá félagsmálaráði um:

  1. Afstöðu félagsmálaráðs til erindisins.

  2. Menntun og starfsreynslu þeirrar sem ráðinn var ásamt upplýsingum um hvaða sérstaka hæfileika hún hafi til að bera umfram kæranda, sbr. 8. gr. 1. 28/1991.

  3. Fjölda umsækjenda.

  4. Hlutfall kynja í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá stofnunum er heyra undir félagsmálaráð.

  5. Aðrar upplýsingar sem að mati félagsmálaráðs gætu komið að gagni við mat á því hvort jafnréttislög hefðu verið brotin.

Greinargerð félagsmálastjóra er dags. 27. júlí 1995. Með bréfi dags. 3. ágúst 1995 sendi kærandi athugasemdir sínar við greinargerð félagsmálastjóra til kærunefndar.

A, kærandi máls þessa, og C, félagsmálastjóri, komu á fund nefndarinnar 21. ágúst 1995.

Staða forstöðumanns á Vistheimili barna var auglýst hinn 3. mars 1995. Í auglýsingunni segir: „Umsækjendur þurfa að hafa menntun á uppeldis- og félagssviði og áhersla er lögð á reynslu af að vinna með börn og fjölskyldur.“

Í greinargerð félagsmálastjóra kemur fram að átta umsækjendur hafi verið um starfið, fjórar konur og fjórir karlar á aldrinum 27 til 51 árs. Allir umsækjendur hafi verið kallaðir til viðtals, sjö þeirra við yfirmann fjölskyldudeildar og yfirmann vistheimilasviðs en sá sem ráðinn var við félagsmálastjóra og yfirmann vistheimilasviðs. Hafi yfirmaður fjölskyldudeildar óskað eftir því að taka ekki viðtal við þann umsækjanda vegna tengsla þeirra í milli.

Þá segir í greinargerðinni að um ráðninguna hafi verið fjallað á fundi félagsmálaráðs 27. mars 1995. Lagður hafi verið fram listi yfir umsækjendur, aldur þeirra, menntun og starfsreynslu og hafi félagsmálastjóri og forstöðumaður vistheimilasviðs gert frekari grein fyrir umsóknunum. Félagsmálaráð hafi síðan einróma samþykkt að ráða B í starfið.

A stundaði nám við Fjölbrautaskólann Flensborg 1976-1980. Hann útskrifaðist frá Fósturskóla Íslands árið 1983. Hann las frönsku við Háskólann í Montpellier í Frakklandi árin 1984-1985 og franskar bókmenntir við Sorbonneháskóla 1988. Hann hóf nám við framhaldsdeild Fósturskóla Íslands haustið 1994 og var í því námi er hann sótti um starfið. Nám þetta beinist að sögn A aðallega að börnum með sérþarfir og fjallaði lokaritgerð hans um vistheimili sem úrræði í barnaverndarmálum. Auk þessa hefur hann sótt margvísleg námskeið, sem tengdust starfi hans á Vistheimili barna.

A hefur starfað sem leikskólakennari við leikskóla Reykjavíkurborgar og Landakotsspítala og verið leikskólastjóri við leikskólann Völvuborg í eitt ár. Frá 1. maí 1989 hefur hann verið í fullu starfi við Vistheimili barna, fyrst á Mánagötu og síðan á Laugarásvegi auk þess sem hann hefur unnið við afleysingar á Vistheimili barna við Dalbraut, einkum á árunum 1982 og 1983.

B lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1976. Hún stundaði nám í uppeldis- og sálarfræði við Högskolan í Borås í Svíþjóð 1978-1979, og lauk þaðan 40 eininga námi, sem er sambærilegt 30 einingum við H.Í. og 20 eininga námi í sálfélagslegri meðferðarvinnu við Umeå Universitet í Svíþjóð, sem er sambærilegt 15 einingum við H.Í. Þá lauk hún námi í fjölskylduvinnu og fjölskyldumeðferð við Endurmenntunarstofnun H.Í. 1992. Auk þess hefur hún sótt margvísleg námskeið og ráðstefnur sem tengjast starfi hennar.

A leggur áherslu á að menntun hans og starfsreynsla falli vel að auglýsingu um starfið og að hann teljist hæfari til að gegna því en sú sem ráðin var. Ráði þar mestu menntun hans og starfsreynsla. Hann sé með uppeldismenntun, en menntun á uppeldis- eða félagssviði hafi verið sett að skilyrði í auglýsingu um starfið. Hann hafi auk þess stundað framhaldsnám við Fósturskóla Íslands þar sem áhersla hafi verið lögð á börn með sérþarfir og þar hafi lokaverkefni hans verið um vistheimili sem úrræði í barnarverndarmálum. Þá telur hann það vega þungt að hann hafi unnið á vistheimilum í mörg ár. Í auglýsingu hafi áhersla verið lögð á vinnu með börn og fjölskyldur en vinna með börn hafi verið hans starf í mörg ár. Auk þess hafi hann starfað á leikskólum og verið leikskólastjóri í eitt ár. Séu störf hans og þeirrar sem ráðin var borin saman megi ljóst vera að menntun hans og starfsreynsla falli mun betur að hinu auglýsta starfi. A leggur áherslu á að vistheimilið sé ekki meðferðarstofnun, starf forstöðumanns sé, að stjórnunarþættinum frátöldum, fyrst og fremst umönnunarstarf.

Í kæru sinni bendir A á að stétt leikskólakennara sé hefðbundin kvennastétt. Í 5. gr. jafnréttislaga segi að atvinnurekendur skuli sérstaklega stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Eingöngu konur gegni sambærilegum stöðum á vegum Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Teldust kærandi og sú sem hlaut stöðuna jafnhæf hefði því verið rétt að ráða kæranda á grundvelli sjónarmiða 5. gr. 1. 28/1991.

Kærandi telur að óeðlilega hafi verið staðið að undirbúningi ráðningarinnar. Yfirmaður vistheimilasviðs og yfirmaður fjölskyldudeildar hafi rætt við alla umsækjendur nema B, við hana hafi félagsmálastjóri og yfirmaður vistheimilasviðs rætt. Yfirmaður fjölskyldudeildar hafi vegna tengsla sinna við B ekki rætt við hana, en engu að síður lagt mat á aðra umsækjendur þrátt fyrir þessi tengsl.

Í greinargerð félagsmálastjóra, C, segir að við ráðninguna hafi einkum verið höfð til hliðsjónar langur og farsæll starfsferill B við Félagsmálastofnun, hæfileikar hennar til samstarfs og reynsla af stjórnun, löng og mikil reynsla af vinnu í barnaverndarmálum og góð menntun á sviði fjölskylduvinnu og vinnu með börn. B hafi starfað í 19 ár við stofnunina. Hún hafi sýnt sérstaklega mikla hæfileika í starfi á sviði barnaverndarmála. Undanfarið ár hafi hún sinnt forstöðumannsstarfi á einni af hverfaskrifstofum borgarinnar í fjarveru forstöðumanns og sé það mjög ábyrgðarmikið og erfitt starf sem hún hafi leyst einkar vel af hendi, bæði gagnvart skjólstæðingum, samstarfsfólki og yfirstjórn. Hún hafi sérhæft sig í vinnu með fjölskyldur og tekið þátt í margvíslegri fræðslu og endurmenntun, bæði sem nemandi og kennari öll þau ár sem hún hafi starfað fyrir stofnunina. Það sé liður í starfsmannastefnu stofnunarinnar að láta starfsmenn njóta farsæls starfsferils Þá sé starfsaldur B mun lengri en A.

Í viðtali við kærunefnd lagði félagsmálastjóri áherslu á að B hafi leyst störf sín einkar vel af hendi, allan sinn starfsferil verið að mennta sig og gera sig hæfari til sinna starfa hjá stofnuninni, enda hafi henni verið falin margvísleg trúnaðarstörf fyrir stofnunina. Félagsmálastjóri sagði að það hefði þótt kostur að fá utanaðkomandi starfsmann á umræddu vistheimili ekki síst með tilliti til væntanlegra áherslubreytinga í starfi heimilisins á komandi árum en þó með þekkingu og reynslu á þessu sviði. Sífellt væri verið að þróa úrræði í barnaverndarmálum og stefnan á undanförnum árum hafi verið sú að styrkja fjölskyldur til að hafa börn sín hjá sér og neyta allra ráða meðan á neyðarvistun stæði til að styrkja fjölskylduböndin.

Í greinargerð yfirmanns vistheimilasviðs kemur fram að af 26 börnum sem dvöldu á vistheimilinu á árinu 1994 hafi þrettán verið í rannsóknar- og kennsluvistun, níu í hvíldarvistun og/eða bráðavistun með athugun á stöðu barns og fjögur í vistun vegna barnaverndarráðstafana. Þessar tölur sýni að helmingur allra vistana hafi þann skilgreinda tilgang að rannsaka stöðu barns og samskipti í fjölskyldu ásamt því að leiðbeina og kenna betri aðferðir í fjölskyldusamskiptum.

Hvað varðar málsmeðferðina við ráðninguna sagði félagsmálastjóri að það kynnu að hafa verið mistök að yfirmaður fjölskyldudeildar skyldi hafa rætt við alla umsækjendur nema B, vegna tengsla hennar við hana. Yfirmaður vistheimilasviðs hafi hins vegar tekið viðtöl við alla. Taldi hún þetta ekki breyta neinu um niðurstöðu málsins. Matið hefði fyrst og fremst verið í höndum yfirmanns vistheimilasviðs.

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvalli hluthægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar er það mat kærunefndar að þau A og B uppfylli bæði skilyrði sem sett voru í auglýsingu um starfið. Auglýst var eftir starfsmanni með menntun á uppeldis- og félagssviði en í máli félagsmálastjóra kom fram að ekki hafi verið átt við að skilyrði væri að umsækjandi hefði menntun á báðum þessum sviðum, annað nægði. A hefur menntun á uppeldissviði og B á félagssviði. Erfitt er að bera menntun þeirra saman, nám B er á háskólastigi, en hún hefur þó ekki lokið prófgráðu. A hefur lokið leikskólakennaraprófi frá Fósturskóla Íslands, en það nám er ekki á háskólastigi. Þá hefur A stundað framhaldsnám við sama skóla. Það er álit kærunefndar að þau standi nokkurn veginn jafnt að vígi hvað menntun varðar og að menntun beggja hæfi vel því starfi sem auglýst var. Kemur þá starfsreynsla umsækjenda til athugunar. Starfsreynsla B er mun lengri og víðtækari en A. Kærandi hefur haldið því fram að starfsreynsla sín falli mun betur að starfinu en starfsreynsla B. Kærunefnd telur hins vegar að félagsmálastjóri hafi sýnt fram á, m.a. með greinargerð yfirmanns vistheimilasviðs, að starfsreynsla B falli betur að starfinu en A.

Kærunefnd telur því að B verði að teljast hæfari til að gegna hinu umrædda starfi en kærandi.

Með vísan til þess er að framan greinir er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að með ráðningu B í starf forstöðumanns Vistheimilis barna að Laugarásvegi 69 hafi félagsmálaráð Reykjavíkurborgar ekki brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta