Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/1995

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 5/1995

A
gegn
fjármálaráðuneytinu

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála 29. september 1995 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTTR

Með kæru dagsettri 19. júlí 1995 fór A, bústjóri að Keldum, þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun fjármálaráðuneytisins á umsókn hans um launað fæðingarorlof bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991.

Kærandi lýsir málavöxtum svo að hann og kona hans, sem er opinber starfsmaður, hafi eignast barn 21. apríl 1995. Hafi hann sótt um launað fæðingarorlof frá 1. september til 1. október 1995. Starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hafi synjað erindi hans með bréfi dags. 10. júlí 1995. Í því bréfi komi fram að um rétt ríkisstarfsmanna til greiðslna í fæðingarorlofi gildi nú 17. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. reglugerð nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins. Þessar réttarheimildir takmarki launagreiðslur í fæðingarorlofi við konur. Kærandi telur þessa synjun ráðuneytisins brjóta í bága við 4. gr. laga nr. 28/1991 og vísar því til stuðnings til álitsgerða kærunefndar jafnréttismála í sambærilegum málum nr. 3/1992 og nr. 16/1992.

Með bréfi dags. 24. júlí 1995 óskaði kærunefnd eftir afstöðu fjármálaráðuneytisins til málsins. Svarbréf ráðuneytisins er dagsett 27. júlí 1995. Í því segir m.a. að skv. 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989 sé réttur starfsmanna ríkisins til launa í barnsburðarleyfi takmarkaður við fastráðnar konur sem starfað hafi í þjónustu ríkisins samfellt í 6 mánuði fyrir barnsburð. Þá segir að ákvæði 17. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins heimili aðeins setningu reglugerðar er kveði á um rétt kvenna til launagreiðslna í barnaburðarleyfi, en ekki sé fyrir hendi lagastoð fyrir reglugerð er kveði á um sama rétt til launagreiðslna til handa körlum í þjónustu ríkisins, hvorki í tilgreindu lagaákvæði né öðrum settum lögum.

ÁLIT KÆRUNEFNDAR

Lög nr. 57/1987 voru fyrstu almennu lögin um fæðingarorlof hér á landi. Í 1. gr. laganna er fæðingarorlof skilgreint sem leyfi frá launuðum störfum vegna meðgöngu og fæðingar. Rétt til töku fæðingarorlofs eiga þeir foreldrar sem eiga lögheimili á Íslandi og gegna launuðum störfum.

Í lögum nr. 59/1987 um breyting á lögum um almannatryggingar er fjallað um greiðslur til foreldra. Þar er greint á milli greiðslu fæðingarstyrks og fæðingardagpeninga. Fæðingarstyrkur er greiddur móður við fæðingu barns og er óháður því hvort hún taki fæðingarorlof, þ.e. leggi niður launað starf, sbr. 1. gr. laga nr. 59/1987. Fæðingarstyrkur er því greiddur konum sem vinna heimilisstörf jafnt og þeim er starfa utan heimilis. Í 2. mgr. segir að ákvæðið taki ekki til „félagsmanna í samtökum opinberra starfsmanna, bankamanna eða annarra stéttarfélaga, er njóta óskertra launa í fæðingarorlofi samkvæmt kjarasamningum, þann tíma er óskert laun eru greidd.“, (sbr. nú 2. mgr. 16. gr. laga nr. 67/1971).

Um fæðingardagpeninga er fjallað í 2. gr. laga nr. 59/1987. Rétt til greiðslu fæðingardagpeninga eiga þeir foreldrar í fæðingarorlofi sem lögheimili eiga á Íslandi, enda leggi þeir niður launuð störf þann tíma. Foreldrar geta skipt með sér fæðingarorlofi, þó þannig að fyrsti mánuður þess er bundinn móður og samþykki hennar þarf til að faðir taki hluta þess, sbr. f-lið 2. gr. Þeir foreldrar sem njóta óskertra launa í fæðingarorlofi eiga ekki rétt til fæðingardagpeninga.

Í umræðum á Alþingi kom fram sá skilningur að réttur til greiðslu fæðingardagpeninga væri einungis háður því skilyrði að foreldri ætti lögheimili á Íslandi og legði niður launað starf, sbr. framsöguræðu heilbrigðis- og tryggingaráðherra (Alþingistíðindi 1987, bls. 3711). Af því verður að ætla að skilningur löggjafans hafi verið sá að réttur föður til greiðslu fæðingardagpeninga færi eftir atvinnuþátttöku hans sjálfs en ekki móðurinnar. Réttur föður til töku fæðingarorlofsins yrði afleiddur af rétti móður, þ.e. samþykki hennar yrði forsenda þess að faðir tæki fæðingarorlof en greiðslurnar byggðust á atvinnuþátttöku hans sjálfs.

Megintilgangur laganna um fæðingarorlof var að tryggja öllum foreldrum rétt til leyfis frá launuðum störfum vegna fæðingar barns. Lögin gera engan greinarmun á foreldrum sem starfa á almennum vinnumarkaði og þeim foreldrum sem starfa hjá ríkinu. Verður ekki annað séð en að rétturinn til töku fæðingarorlofs nái til feðra í þjónustu ríkisins jafnt sem feðra á almennum vinnumarkaði. Kemur þá til álita hver sé réttur feðra í þjónustu ríkisins til greiðslna í fæðingarorlofi.

Í 17. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segir að ákveða skuli með reglugerð hvernig fari um launagreiðslur til kvenna í fjarvistum vegna barnsburðar. Um það efni gildir nú reglugerð nr. 410/1989. Þar er kveðið svo á að rétt til launa í barnsburðarleyfi eigi fastráðnar konur sem starfað hafi í þjónustu ríkisins samfellt í 6 mánuði fyrir barnsburð. Ekkert er fjallað um rétt karla í þjónustu ríkisins í reglugerðinni.

Af hálfu fjármálaráðuneytisins er því haldið fram að þar sem réttur ríkisstarfsmanna til launa í barnsburðarleyfi sé einskorðaður við konur skv. skíru orðlagi 17. gr. laga nr. 38/1954, sbr. reglugerð nr. 410/1989 geti ekki verið um neina aðra afstöðu af hálfu ráðuneytisins að ræða.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu konum og körlum greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með kjörum í lögunum er samkvæmt 4. mgr. sömu greinar átt við lífeyris- orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur samningsréttindi. Kærunefnd jafnréttismála telur með vísan til hinna almennu laga um fæðingarorlof nr. 57/1987 að túlka beri 4. mgr. 4. gr. laga nr. 28/1991 svo, að hugtakið fæðingarorlof falli þar undir og að laun í fæðingarorlofi falla þar með undir hugtakið „kjör“ í skilningi laganna.

Ákvæði 17. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins takmarkar launagreiðslur í barnsburðarleyfi við konur enda voru þau lög sett á þeim tíma er engin ástæða þótti til að veita feðrum rétt til töku fæðingarorlofs og löngu fyrir setningu fyrstu laga um jafnrétti kynjanna. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 28/1991 er hvers kyns mismunun eftir kynferði óheimil, þó er heimilt að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar. Slíkt tillit er lögfest í lögunum um almannatryggingar með því að fyrsti mánuður fæðingarorlofsins er af heilsufarsástæðum bundinn móður og samþykki hennar þarf til að faðir taki hluta þess. Óumdeilt er í málinu að synjun á umsókn kæranda um launað fæðingarorlof sé einungis vegna kynferðis hans.

Það er álit kærunefndar að jafnvel þótt fjármálaráðuneytið telji lagaheimild ekki vera fyrir hendi til setningar reglugerðar er tryggi feðrum í þjónustu ríkisins rétt til launa í fæðingarorlofi, sé því skylt skv. 1. 28/1991 að tryggja körlum í þjónustu ríkisins þessi réttindi með einhverjum hætti.

Með vísan til þessa er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að synjun fjármálaráðuneytisins á umsókn A um launað fæðingarorlof sé brot á 4. mgr. laga 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sbr. 3. gr. sömu laga.

Með vísan til 20. gr. laga nr. 28/1991 er þeim tilmælum beint til fjármálaráðuneytisins að það geri þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að viðurkenndur verði og tryggður réttur feðra í þjónustu ríkisins til launa í fæðingarorlofi.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta