Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/1995

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 11/1995

A
gegn
Samgönguráðuneyti

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 22. mars 1996 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með erindi dags. 16. nóvember 1995 óskaði A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort sú ákvörðun samgönguráðuneytisins að ráða B í stöðu yfirmanns reiknistofu Pósts og símamálastofnunarinnar bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá samgönguráðuneytinu m.a. um :

  1. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðu yfirmanns reiknistofu Pósts og
    símamálastofnunarinnar.
  2. Menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var ásamt upplýsingum um aðra sérstaka hæfileika hans, sbr. 8. gr. 1. 28/1991.
  3. Hlutfall kynja í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá stofnuninni.

  4. Umsögn starfsmannaráðs um umsækjendur.

  5. Afstöðu ráðuneytisins til erindisins.

  6. Annað það sem ráðuneytið óskar að koma á framfæri til upplýsinga fyrir málið.

Svarbréf ráðuneytisins er dags. 13. desember 1995. Því fylgdi m.a. skipurit yfir Póst- og símamálastofnunina. Umsögn kæranda um bréfið er dags. 3. janúar 1996.

A mætti á fund kærunefndar þann 28. febrúar 1996. Af hálfu samgönguráðuneytisins mættu C, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu og D, framkvæmdastjóri hjá Pósti og símamálastofnuninni.

Samkvæmt lögum nr. 36/1977 um stjórn og starfsrækslu póst- og símamála, skipar Forseti Íslands póst- og símamálastjóra en samgönguráðherra annað starfsfólk að fengnum tillögum póst- og símamálastjóra og starfsmannaráðs póst- og símamálastofnunarinnar, sbr. 4. gr. Starfsmannaráðið er skipað fulltrúum samtaka starfsmanna stofnunarinnar og forstöðumönnum tiltekinna þátta hennar, sbr. 10 gr. laganna.

Þann 28. júlí 1995 auglýsti samgönguráðuneytið stöðu yfirmanns reiknistofu Póst- og símamálastofnunarinnar lausa til umsóknar. Umsækjendur um stöðuna voru fjórir, tvær konur og tveir karlar. Framkvæmdastjóri umsýslusviðs og fyrrverandi forstöðumaður reiknistofunnar mæltu með B í stöðuna. Á fundi starfsmannaráðs þann 26. október sl. var sú tillaga samþykkt með sjö atkvæðum, fjórir sátu hjá. Í framhaldi af því réði samgönguráðherra B í stöðuna. Upplýst er að umsókn hans barst eftir að umsóknarfrestur rann út.

Starfinu er lýst svo í starfsauglýsingu:

Leitað er að verkfræðingi/tæknifræðingi/viðskiptafræðingi, með mikla þekkingu á vinnslu í stórtölvusamskiptum. Umsækjendur þurfa að hafa góða samstarfshæfni og eiga auðvelt með að tileinka sér nýjungar.

Póst- og símamálastofnunin hefur gert jafnréttisáætlun sem gefin var út í nóvember 1994 og í framhaldi af því kynnt starfsmönnum. Í henni segir:

Markmið jafnréttisáætlunar Póst- og símamálastofnunarinnar er að stuðla að jafnri stöðu karla og kvenna innan stofnunarinnar og nýta sér það lagalega jafnrétti sem er til staðar. Jafnréttisáætlunin leggur áherslu á að auka hlut kvenna innan stofnunarinnar.

Í kaflanum um starfsmannastefnu, lið 2.1.2., segir:

Stefnt skal að því að fjölga konum í stjórnunarstöðum á jafnréttisgrundvelli með tilliti til hæfni, menntunar og starfsaldurs. Innan sex ára er æskilegt að fjöldi minnihluta kynsins í stjórnunarstöðum nemi eigi minna en 30% af heildarfjölda karla og kvenna hjá stofnuninni. Ein leið að þessu marki er hvatning þess kyns sem er í minnihluta hverju sinni að sækja um viðkomandi störf. Sú hvatning getur átt sér stað í starfsauglýsingum og ráðningarstefnu stofnunarinnar.

Til frekari tímabundinna aðgerða er hægt að grípa við ráðningar í stjórnunarstörf þar til jafnstöðu og jafnrétti hefur verið náð.

Samkvæmt skipuriti Póst- og símamálastofnunar heyra átta yfirmenn beint undir póst- og símamálastjóra, þar af tvær konur. Konurnar starfa sem blaðafulltrúi og yfirmaður skrifstofu póst- og símamálastjóra; karlarnir starfa sem aðalendurskoðandi, gæðastjóri, framkvæmdastjóri fjarskiptasviðs, fjármálasviðs, póstmálasviðs og umsýslusviðs. Umdæmisstjórar heyra einnig beint undir póst- og símamálastjóra en þeir eru sex, allt karlar. Jafnframt er upplýst að af 97 stöðvastjórum séu 62 konur og 35 karlar og af 11 starfandi skrifstofustjórum séu 7 konur og 4 karlar.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um menntun og starfsreynslu kæranda og þess sem ráðinn var.

A lauk B.S. prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1986 og M.Sc. prófi frá Danmarks Tekniske Höjskole árið 1988. Hún hefur starfað hjá Póst- og símamálastofnuninni frá hausti 1988 á símastöðvadeild sjálfvirkrar símstöðvar sem tilheyrir fjarskiptasviði. Starf hennar felst í kerfisstjórnun á UNIX tölvum en þær taka á móti ýmsum mælingum í sjálfvirku símstöðvunum, s.s. umferðamælingum og viðvörunum o.fl. Auk þess hefur hún sinnt ýmsum forritunarverkefnum.

B lauk B. S. prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1979 og M.Sc. prófi frá Danmarks Tekniske Höjskole árið 1983. Á árunum 1979 til 1981 starfaði hann hjá Rafmagnsveitum ríkisins, áætlanadeild. Frá árinu 1983 hefur hann starfað hjá Verk- og kerfisfræðistofunni, fyrst við þróun kerfisráða fyrir Hitaveitu ríkisins en frá 1986 sem verkefnisstjóri við verkefni á sviði reikningagerðar og notendaupplýsinga fyrir Póst - og símamálastofnunina. Fram kemur í umsókn hans að í þeirri vinnu hafi falist almenn hugbúnaðargerð auk verkefnisstjórnunar. Í fyrstu hafi vinnan verið unnin fyrir starfshóp á vegum Póst- og símamálastofnunnar en síðar fyrir reiknistofuna eftir að hún var stofnuð.

Í erindi sínu til kærunefndar vísar A til þeirrar óskráðu meginreglu sem hún segir gilda innan stofnunarinnar um að við val á umsækjendum í stöður yfirverkfræðinga sé horft til starfsaldurs viðkomandi verkfræðings hjá stofnuninni. Hún hafi lengstan starfsaldur umsækjenda hjá stofnuninni. Við þessa ráðningu hafi í fyrsta lagi verið tekið við umsókn eftir að umsóknarfrestur var runninn út og í öðru lagi verið brugðið út af gildandi venjum og ráðinn umsækjandi sem aldrei hefur starfað innan stofnunarinnar. A bendir einnig á að samkvæmt jafnréttisáætlun Póst og símamálastofnunarinnar sé það yfirlýst stefna að auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum. Konur séu þar fáar eins og skipurit stofnunarinnar beri með sér. Ekki sé hægt að vísa til fjölda kvenna í störfum sem stöðvastjórar í þessu sambandi, því þau séu á engan hátt sambærileg þessu starfi. Varðandi hæfni þeirra beggja bendir hún á að menntun hennar og B sé sú sama og hún fái ekki séð að hann hafi einhverja sérstaka hæfileika umfram hana til að gegna þessu starfi. Í auglýsingu um stöðuna sé m.a. gerð krafa um mikla þekkingu á vinnslu í stórtölvusamskiptum og hafi hún sjö ára reynslu á því sviði. Þar sem miklar og hraðar breytingar eigi sér stað í tölvuheiminum, telji hún ekki að reynsla umfram það skipti máli.

Af hálfu samgönguráðuneytisins er áhersla lögð á að B hafi allt frá árinu 1986 unnið sem verkefnisstjóri við verkefni á sviði reikningagerðar og notendaupplýsinga fyrir Póst og símamálastofnun, fyrst fyrir starfshóp á vegum hennar sem hafði umsjón með endurskipulagningu á tölvuvinnslu reikningagerðar en síðan fyrir reiknistofu stofnunarinnar eftir að hún var stofnuð. Hann hafi stýrt undirbúningsvinnu og stofnun reiknistofunnar og unnið fyrir hana síðan. Hann þekki þetta starf því mjög vel og það hafi verið mat umsagnaraðila hjá Póst- og símamálastofnun að hann væri hæfastur umsækjenda. Kærandi hafi unnið sitt starf mjög vel en það sé allt annars eðlis en starf yfirmanns reiknistofu enda tilheyri það fjarskiptasviði en reiknistofan heyri undir umsýslusvið. Hafi því verið mat forsvarsmanna Pósts og símamálastofnunar að A nýttist stofnuninni best í því starfi sem hún nú gegnir. Því er alfarið mótmælt að kynferði hafi nokkru ráðið um val á umsækjendum.

NIÐURSTAÐA

Tilgangur laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er að koma á jafnrétti kynja á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja og stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. gr. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu kynjanna verði náð.

Ein af málsástæðum A er að umsókn B hafi borist eftir að umsóknarfrestur rann út. Skv. 2. ml. 1. mgr. 5. gr. 1. nr. 38/952 var heimilt að taka umsókn hans til greina. heppilegra hefði þó verið að auglýsa stöðuna að nýju.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar ber jafnframt að hafa í huga að Póst- og símamálastofnun hefur samþykkt jafnréttisáætlun. Þar er m.a. tilgreint það markmið að fjölga konum í stjórnunarstöðum á jafnréttisgrundvelli með tilliti til hæfni, menntunar og starfsaldurs. Þeim sem veita umsögn um umsækjendur, ber að hafa þetta í huga við mat á hæfni þeirra. Ákvæðið í jafnréttisáætluninni felur í sér hvatningu til kvenna, ekki síst þeirra sem starfa hjá stofnuninni eins og kærandi þessa máls gerir, um að sækja um yfirmannastöður. Samkvæmt þeim umsögnum sem liggja fyrir í málinu kemur ekki fram neitt mat á hæfni umsækjenda með tilliti til þessa yfirlýsta markmiðs. Það er nauðsynlegt til að tryggja raunverulega framkvæmd jafnréttisáætlunarinnar og til þess að upplýsa starfsmenn um að hún hafi vægi.

B og A hafa bæði lokið M.Sc. prófi í verkfræði frá Danmarks Tekniske Höjskole. Starfsreynsla þeirra er á ólíkum sviðum en bæði hafa um allnokkurt skeið unnið fyrir Póst- og símamálastofnun, A sem starfsmaður hennar, B sem sérfræðingur utan hennar. B hefur lengri starfsaldur en A. Bæði verða að teljast vel hæf til að gegna starfinu.

Kemur þá til álita hvort B hafi einhverja sérstaka hæfileika umfram A sem réttlæti að hann sé ráðinn þrátt fyrir að verulega halli á konur í stjórnunarstöðum hjá Póst- og símamálastofnun og hún hafi lýst því markmiði sínu að þeim skuli fjölga. Samkvæmt gögnum málsins hefur starfsferill B um árabil verið samofinn starfsemi reiknistofnunnar. Frá árinu 1986 vann hann sem verkefnisstjóri við verkefni á sviði reikningagerðar og notendaupplýsinga fyrir Póst- og símamálastofnun. Hann hafði umsjón með endurskipulagningu á tölvuvinnslu þessa þáttar og tók þannig þátt í undirbúningi stofnunar reiknistofunnar. B hefur unnið fyrir reiknistofuna sem sérfræðingur síðan. Hann gjörþekkir því starfsemi hennar. Starfsferill A er hins vegar á öðru sviði. Kærunefnd fellst því á með vísan til framangreinds að B hafi sérstaka hæfni til að gegna stöðu yfirmanns reiknistofu Pósts og símamálastofnunar.

Með vísan til þessa er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að samgönguráðuneytið hafi með ráðningu B í stöðu forstöðumanns reiknistofu Pósts og símamálastofnunar ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þrátt fyrir jafnréttisáætlun stofnunarinnar.

Kærunefnd jafnréttismála telur þó rétt að taka fram vegna þeirrar afstöðu sem fram kom fyrir nefndinni um að hæfni A nýttist stofnuninni best í því starfi sem hún nú gegnir, að slík afstaða felur ekki í sér sveigjanlega starfsmannastefnu og getur verið í andstöðu við hagsmuni starfsmanna um tilfærslur í starfi og möguleika til að takast á við ný verkefni. Er ekki síst brýnt að þess verði gætt að hæfni kvenna í því starfi sem þær gegna, hindri þær ekki í að fá stöðuhækkun.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta