Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 181/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 181/2021

Fimmtudaginn 10. júní 2021

 

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 6. apríl 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Barnaverndarnefndar B, dags. 9. mars 2021, um að óheimilt sé að fara með son hennar, D, úr landi. 

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D er rúmlega X árs gamall drengur sem lýtur forsjá móður sinnar sem er kærandi málsins. Drengurinn býr á heimili móðurforeldra sinna.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að kærandi hafi átt sögu um vímuefnaneyslu og voru áhyggjur af neyslu hennar á meðgöngu drengsins. Málefni kæranda voru því unnin samkvæmt 30. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Fyrstu sjö vikurnar eftir fæðingu drengsins bjó hann með foreldrum sínum á heimili þeirra. Foreldrar létu drenginn síðan í umsjá móðurforeldra hans. Ekki hefur náðst samvinna við kæranda um að bæta aðstæður sínar og vinna með vanda sinn.

Mál drengsins fór fyrir barnaverndarnefnd þann 6. október 2020 þar sem foreldrar samþykktu vistun drengsins utan heimilis í allt að þrjá mánuði, fyrst hjá móðurforeldrum hans á meðan foreldrar leituðu sér viðeigandi vímuefnameðferðar og síðan í greiningar- og leiðbeiningarvistun á E, vistheimili barna. Eftir fyrrgreindan fund barnaverndarnefndar hefur ekkert náðst í föður og að sögn kæranda fluttist hann til F þann X 2020. Foreldrar slitu sambúð hjá sýslumanni í janúar 2021 og fer kærandi ein með forsjá drengsins. Vegna vímuefnaneyslu kæranda náðist ekki að koma á umgengni fyrr en 3. nóvember 2020. Kærandi fór í afeitrun á G þann  X 2020. Kærandi fór með drenginn í greiningar- og leiðbeiningarvistun á E þann 14. desember 2020.

Í tilkynningu, sem barst undir nafnleynd 29. janúar 2021, var tilkynnt um áhyggjur af vímuefnaneyslu föður á F og því að hann segði að kærandi ætlaði sér að flytja til hans með drenginn. Kærandi hafi hafnað þessu en jafnframt talað um að faðir hefði mikil tök á henni. Mál drengsins var til umfjöllunar á meðferðarfundi barnaverndar þann 3. febrúar 2021 þar sem bókað var að starfsmenn teldu mikilvægt að drengnum yrði fylgt eftir í umsjá kæranda og að fylgst yrði með áframhaldandi edrúmennsku hennar. Kærandi útskrifaðist af E 8. febrúar 2021 og fór þá með drenginn á heimili móðurforeldra. Gerð var meðferðaráætlun 11. febrúar 2021 til fjögurra mánaða þar sem kærandi samþykkti meðal annars að taka á móti eftirfylgni, mæta í vímuefnameðferð, mæta í sálfræðiviðtöl og taka á móti óboðuðu eftirliti. Kærandi hafnaði því að samþykkja í meðferðaráætlun að hún myndi ekki fara með drenginn úr landi á tímabili meðferðaráætlunar.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram það mat starfsmanna að ástæða hafi verið til að hafa áhyggjur af því að kærandi færi með drenginn úr landi til að búa með föður á F. Þyki einsýnt að fari kærandi með drenginn úr landi til föður séu aðstæður þar óboðlegar og beinlínis hættulegar fyrir drenginn. Það væri því mat barnaverndarnefndarinnar að skerða þyrfti ferðafrelsi kæranda með drenginn til að tryggja hagsmuni hans og öryggi á meðan kærandi ynni áfram að því að bæta uppeldisaðstæður drengsins í sinni umsjá.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar sé bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að drengurinn D, megi ekki fara úr landi, sbr. d-liður 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Úrskurður þessi gildir á tímabili áætlunar um meðferð máls en skal endurskoðaður að sex mánuðum liðnum.„

Lögmaður kæranda lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 6. apríl 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. apríl 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst 3. maí 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. maí 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að ferðabannið gildi ekki lengur en í einn mánuði en til vara að það gildi ekki lengur en í tvo mánuði. Til þrautavara krefst kærandi að ferðabannið gildi ekki lengur en í þrjá mánuði. 

Í kæru kemur fram að kærandi hafi staðið sig með eindæmum vel og verið í fullri samvinnu við barnaverndarnefnd frá því í nóvember 2020. Hún hafi verið á E ásamt drengnum, þegið sálfræðiaðstoð og búi nú hjá foreldrum sínum og þiggi aðstoð frá H og eftirfylgni frá E. Þá hafi hún samþykkt óboðað eftirlit og vímuefnapróf þegar barnavernd óski eftir því. Hún bíði eftir að komast í eigið húsnæði með drengnum og sé þunguð af öðru barni sínu.

Tilkynning hafi komið frá aðila sem hafði áhyggjur af því að kærandi ætlaði sér að fara til F til föður þar sem hann dvaldi. Það hafi því verið tekin ákvörðun um að fara fram á bann við að fara með drenginn úr landi. Einnig hafi það verið grunur tilkynnanda að faðir hafi verið í neyslu og því yrði drengnum ekki óhætt að dvelja þar. Þá reyndi tilkynnandi að draga tilkynningu sína til baka þegar ljóst var að ekki væri neitt hæft í því sem fram kom í tilkynningunni.

Þá hafi kærandi ávallt lýst því yfir að hún hafi ekki í hyggju að flytjast með drenginn til F. Þá hafi hún ekki einu sinni í hyggju að heimsækja hann, sér í lagi vegna þess ástands sem nú ríkir í heiminum. Kæranda sé það ljóst að stuðninginn, sem hún hafi hér á landi, sé ekki að finna á F. Hér hafi hún aðgang að aðstoð sem hún myndi ekki fá á F, sótt hafi verið um leikskólapláss með forgangi í ljósi þess að hún eigi von á öðru barni og svo félagslega íbúð þar sem hún geti búið drengnum gott heimili. Kærandi hafi fagnað inngripum barnaverndaryfirvalda, svo sem sálfræðiaðstoð, leiðbeiningum á E og eftirfylgni í kjölfarið, óboðuði eftirliti, vímuefnaprófum og svo leiðbeiningum frá H

Þá sé á það bent að frá því að úrskurður Barnaverndarnefndar B var kveðinn upp hafi faðir drengsins flutt til Íslands. Hann hafi tekið ákvörðun um að gera allt sem í sínu valdi stæði til þess að vera í lífi drengsins og kæranda, en hún hafi sett honum skilyrði um edrúmennsku. Hann hafi því sótt um innlögn í meðferð, bæði á F og á Íslandi, og bíði eftir því að komast inn. Kærandi hafi sjálf tekið ákvörðun um að á meðan faðir geti ekki sýnt fram á edrúmennsku, fái hann ekki að umgangast drenginn og hefur það staðist.

Í öllum barnaverndarmálum ber að hafa í huga meðalhófsregluna sem er að finna í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og er svohljóðandi: „Barnaverndaryfirvöld skulu eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þau skulu jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Því aðeins skal gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.“

Það sé mjög íþyngjandi ákvörðun að banna foreldrum að fara úr landi með barnið sitt og sé það einnig íþyngjandi fyrir barnið sjálft. Það sé ekki síður nauðsynlegt að gæta meðalhófs þegar tekin sé ákvörðun um hversu lengi slíkt bann eigi að gilda. Nauðsynlegt sé að skerða ferðafrelsið ekki að óþörfu. Kærandi hafi þegar lýst því yfir að engin áætlun sé að fara með barnið til föður líkt og barnavernd virðist hafa verulega miklar áhyggjur af, enda hafi hún engan áhuga á því. Sér í lagi í því ástandi sem nú ríkir í heiminum.

Við beitingu á úrræðum barnaverndar skulu barnaverndaryfirvöld eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Jafnframt skuli þau ávallt miða við að beitt séu vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem stefnt sé að. Því skal aðeins gera ráð fyrir íþyngjandi úrræði sem þessu sé ljóst að lögmætum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Eiga barnaverndaryfirvöld því að velja vægasta úrræði sem völ er á og gangi ekki lengra en nauðsynlegt. Barnaverndaryfirvöldum ber þar að auki að beita þeim ráðstöfunum sem eru barni fyrir bestu og að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda.

Með banni við að ferðast með barnið erlendis samkvæmt d-lið 26. gr. barnaverndarlaga sé verið að skerða ferðafrelsi móður og barns sem séu stjórnarskrárvarin réttindi, sbr. 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrár Íslands. Slík skerðing verði að grundvallast á skýrri og ótvíræðri lagaheimild.

Í athugasemdum við greinargerð með frumvarpi til barnaverndarlaga segir um ákvæði c-liðar 1. mgr. 26. gr. laganna (nú d-liður) að barnaverndarnefnd geti ákveðið að ekki megi taka barn úr landi telji barnavernd barnið í hættu og/eða hagsmunum þess verði ekki borgið með öðrum hætti. Verður þar af leiðandi að fara fram sérstakt mat á því hvort barni sé sérstök hætta búin á því að farið sé með það úr landi. Um sé að ræða úrræði sem hægt sé að beita ef úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. laga nr. 80/2002 hafi ekki skilað árangri eða þau talin ófullnægjandi að mati barnaverndarnefndar. Það sé ljóst að kærandi hafi verið í fullri samvinnu með barnaverndaryfirvöldum.

Barnaverndarnefnd hafi ekki sýnt fram á að þarft hafi verið að taka svo íþyngjandi ákvörðun þegar móðir hafi verið í fullri samvinnu við barnavernd síðan í nóvember 2020. Hún hafi lagt sig alla fram við að búa sér og drengnum betra heimili og aðlagast móðurhlutverkinu.

Kærandi sé í mikilli samvinnu við barnaverndaryfirvöld en þyki þó krafa um farbann ganga óþarflega langt gagnvart frelsi sínu, enda telji hún sig hafa staðið sig vel á síðustu mánuðum sem beri að líta til. Þá telji hún að hræðsla við það að hún fari með barnið úr landi til föður þar sem hann sé í neyslu takmarki einnig ferðafrelsi hennar til þess að ferðast til annarra landa, svo sem ef hún og foreldrar hennar ákvæðu að taka frí yfir sumartímann, enda einskorðast takmörkun á ferðafrelsinu ekki aðeins við það eitt að faðir sé ekki í nægjanlega góðri samvinnu við barnavernd.

Kærandi árétti að hún hafi lýst því yfir að hún hafi ekki í hyggju að fara með barnið úr landi og alls ekki til föður. Telji hún þar af leiðandi farbann líkt og úrskurðurinn kveði á um ekki þarfur en takmarki þó ferðafrelsi hennar verulega.

 

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í greinargerð barnaverndarnefndarinnar kemur fram að um sé að ræða mál X mánaða gamals drengs sem lýtur forsjá kæranda. Faðir drengsins er forsjárlaus. Miklar áhyggjur hafi verið af neyslu kæranda þegar hún gekk með drenginn og voru málefni hans unnin á grundvelli 30. gr. barnaverndarlaga. Kærandi á sögu um mikla og alvarlega vímuefnaneyslu. Faðir á langa sögu um neyslu vímuefna og líferni sem tengist neyslu. Fyrstu sjö vikurnar eftir að drengurinn fæddist bjó hann með foreldrum á heimili þeirra en síðan létu foreldrar drenginn í umsjá móðurforeldra. Starfsmenn reyndu ítrekað að ná samvinnu við móður til þess að bæta aðstæður sínar og vinna með vanda sinn, án árangurs. Þann 6. október 2020 fór mál drengsins fyrir fund Barnaverndarnefndar B þar sem foreldrar samþykktu vistun drengsins utan heimils í allt að þrjá mánuði, fyrst hjá móðurforeldrum á meðan foreldrar leituðu sér viðeigandi vímuefnameðferðar og síðan í greiningar- og leiðbeiningarvistun á E Eftir fund barnaverndarnefndar náðist ekkert í föður og að sögn kæranda flutti hann til F þann X 2020. Foreldrar slitu sambúð hjá sýslumanni í janúar 2021 og hefur fengist staðfesting á því að móðir fari nú ein með forsjá drengsins. Í kjölfar fundar Barnaverndarnefndar B í október 2020 hafi verið reynt að koma á daglegri umgengni móður við drenginn á heimili móðurforeldra. Vegna vímuefnaneyslu móður tókst ekki að koma umgengni á fyrr en 3. nóvember 2020. Móðir hafi að lokum farið í afeitrun á G þann X 2020. Í samráði við móður mælti G með því, vegna ungs aldurs drengsins, að móðir færi í eftirmeðferð á göngudeild J í stað þess að fara á Í. Móðir hafi því farið með drenginn í greiningar- og leiðbeiningarvistun á E þann 14. desember 2020. Vistun gekk mjög illa til að byrja með. Kærandi hafi ekki verið til samvinnu og verið mikið í herbergi sínu með drenginn. Taldi hún sig ekki í þörf fyrir neina ráðgjöf né stuðning. Hún hafi greint  frá því að henni liði mjög illa á E og að hún vildi ekki vera þar. Kærandi greindi einnig frá því að hún væri þunguð eftir föður drengsins. Hún finndi fyrir miklum kvíða, jafnvel ofsakvíða og væri því byrjuð að taka aftur benzolyf sem geðlæknir hennar á stofu skrifaði upp á. Sagðist hún taka lyfin í litlu magni og ekki daglega. Á tímabilinu 9. til 12. janúar 2021 kviknuðu áhyggjur hjá starfsmönnum E um að kærandi væri undir áhrifum. Í viðtali starfsmanns við kæranda og lögmann hennar þann 12. janúar 2021 kom fram að kærandi væri mjög ósátt við vinnslu málsins og talaði lögmaður hennar einslega við hana. Eftir það samtal breyttist afstaða kæranda og var hún til samvinnu á E. Líðan hennar varð mun betri og hún tók framförum hvað varðar að koma á rútínu fyrir drenginn og í tengslum sínum við drenginn. Í tilkynningu, sem barst undir nafnleynd þann 29. janúar 2021, var tilkynnt um áhyggjur af vímuefnaneyslu föður á F og því að hann segði að kærandi ætlaði sér að flytja til hans með drenginn. Þetta hafi verið rætt við kæranda sem sagðist ekki ætla að fara en talaði jafnframt um að faðir drengsins hefði mikil tök á henni.

Mál drengsins var til umfjöllunar á meðferðarfundi starfsmanna þann 3. febrúar 2021 þar sem bókað var að starfsmenn teldu mikilvægt að drengnum yrði fylgt eftir í umsjá kæranda og að fylgst yrði með áframhaldandi edrúmennsku hennar. Gerð yrði meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. barnaverndaralaga til fjögurra mánaða. Þá hafi jafnframt verið bókað um mikilvægi þess að kærandi færi ekki með drenginn úr landi til föður í óöruggar aðstæður. Kærandi útskrifaðist af E þann 8. febrúar 2021 og fór þá með drenginn á heimili móðurforeldra þar sem hún áætlaði að dvelja um óákveðinn tíma. Kærandi undirritaði áætlun um meðferð máls, dags. 11. febrúar 2021, til fjögurra mánaða þar sem hún samþykkti að taka á móti eftirfylgd frá E, mæta í vímuefnameðferð á göngudeild J, mæta í sálfræðiviðtöl, taka á móti óboðuðu eftirliti og gangast undir vímuefnapróf, væri þess óskað. Kærandi samþykkti einnig að Barnavernd B væri í samvinnu við meðferðaraðila hennar, þjónustumiðstöð og við ungbarnavernd. Kærandi hafnaði því að skrifa undir í meðferðaráætlun að fara ekki með drenginn úr landi á tímabili meðferðaráætlunar.

Málið var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 2. mars 2021. Fyrir fundinum lá greinargerð starfsmanna, dags. 23. febrúar 2021, þar sem lagt var til að kærandi samþykkti í áætlun um meðferð máls að fara ekki með drenginn úr landi á tímabili meðferðaráætlunar. Kærandi samþykkti það ekki og var lagt til að nefndin myndi úrskurða um að kæranda væri ekki heimilt að fara með drenginn úr landi á tímabili áætlunar um meðferð máls. Kærandi mætti á fund nefndarinnar ásamt lögmanni sínum. Kom meðal annars fram hjá lögmanni að kærandi hafnaði þeirri tillögu sem lögð hafi verið fram, tillagan skerði ferðafrelsi hennar og barnsins. Hún ætli sér ekki úr landi með drenginn og sjái ekki tilefni til þess að meina henni för úr landi með hann. Fram kom hjá kæranda að ekki kæmi til greina að fara með drenginn út til föður. Hún væri búin að setja föður mörk um að hann þurfi að fara í meðferð ef hann ætli að taka þátt í lífi þeirra. Þrátt fyrir að hún ætli sér ekki að fara út, vilji hún ekki samþykkja takmarkanir á ferðafrelsi sínu. Í ljósi þess að kærandi samþykkti ekki tillögur starfsmanna hafi málið verið tekið til úrskurðar 9. mars 2021.

Frá því að málið var lagt fyrir fund nefndarinnar þann 9. mars 2021 hafi aðstæður kæranda breyst töluvert. Þann 15. mars 2021 barst tilkynning frá móðurömmu sem greindi frá því að faðir væri kominn til landsins og hefði móðir farið til hans þann 9. mars 2021 og skilið drenginn eftir hjá móðurforeldrum. Frá þeim tíma hefði móðir komið tvisvar sinnum á heimili móðurforeldra að hitta drenginn. Kærandi óskaði í framhaldinu eftir við starfsmann barnaverndar að faðir fengi umgengni við drenginn en ekki hefur orðið af því þar sem faðir hefur ekki mætt til viðtals.

Þann 19. mars 2021 barst tilkynning frá göngudeild mæðraverndar þar sem tilkynnt var um áhyggjur af lyfjanotkun kæranda. Þann 22. mars 2021 mældist kærandi jákvæð fyrir metamfetamíni í áhættumeðgöngu. Þvagsýnið hafi verið sent í magnmælingu og í tölvupósti  26. mars 2021 frá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði Háskóla Íslands kom fram að sést hafi smá vottur af metamfetamíni, en toppurinn hafi verið það lítill að styrkur hans var ekki nógu hár til að hægt væri að gefa út staðfest svar og því væri niðurstaðan að metamfetamín væri „Ekki mælanlegt“. Þann 23. mars 2021 mætti kærandi í viðtal ásamt lögmanni sínum. Í viðtalinu fannst starfsmanni sem kærandi væri undir áhrifum en hún þvertók fyrir neyslu og fyrir að taka meira en hún ætti af þeim lyfjum sem hún væri með uppáskrifuð. Rætt hafi verið við hana um að fara í niðurtröppun á Suboxone og afeitrun á benzo á fíknigeðdeild en hún taldi ekki þörf á því og sagðist sjálf vera að trappa sig niður af lyfjunum. Kærandi lýsti miklu þunglyndi og kvíða. Í viðtalinu samþykkti hún stuðning inn á heimili móðurforeldra sinna þar sem hún dvelur og sagðist ætla að slíta samskiptum við föður. Í framhaldinu fór starfsmaður H daglega á heimili móðurforeldra í tvær vikur. Ekki hafi borist skýrsla en í símtali við starfsmann H að þessum tveimur vikum liðnum hafi komið fram að kærandi væri í samskiptum við föður og að hún segðist ekki sjá lífið án hans. Hún sæi að einhverju leyti að þetta væri ekki gott samband fyrir sig en hún næði ekki að slíta því. Kærandi hefði litla ábyrgð á heimilinu og hafi verið að fara til föður yfir nætur og skilið drenginn eftir þó að móðurforeldrar hafi beðið hana um að gera það ekki. Kærandi þurfi mikla aðstoð með kvíða og vanlíðan. Aðspurð sagði starfsmaður H að kærandi hefði ekki góða einbeitingu við umönnun drengsins. Síminn væri mikið að trufla hana. Kærandi virðist hafa vitsmunalega getu til að sinna drengnum en hugurinn væri ekki á réttum stað. Hún þyrfti mikinn stuðning og utanumhald.

Í skýrslu forsjárhæfnimats, dags. 18. mars 2021, komi fram að innsæi kæranda á eigin stöðu sé ekki nægilega gott. Hún virðist ekki gera sér fyllilega grein fyrir því á hvaða stað hún sé í dag og afneitar í raun þeim mikla fíknivanda sem augljóst sé að hún berjist við. Kærandi sé í þörf fyrir mikla og langvarandi aðstoð en erfitt sé að veita slíka aðstoð vegna afneitunar hennar á eigin vanda. Hún sé að taka inn of mikið af lyfjum og virðist ekki ætla að taka á þeim vanda. Það sé mat matsaðila að þar sem kærandi hafi ekki gengist við sínum vanda, og hefur ekki verið meðferðarfús, geti hún ekki ein og óstudd skapað syni sínum viðunandi uppeldisskilyrði. Það sé jafnframt mat matsaðila að hæfni kæranda sé viðunandi góð, nái hún að halda sér edrú og nýta sér alla þá aðstoð sem hún þarf á að halda. Í því samhengi þurfi að horfa á mikið utanumhald næstu árin, að lágmarki tvö ár, og að á þeim tíma eigi sér stað markviss uppbygging og styrking. Það sé samt ekkert í dag sem bendi til að þessi leið sé raunhæf og virðist matsmanni móðir vera búin að velja sér aðra leið í lífinu en þessa.

Á tímabilinu 18. mars 2021 til 12. apríl 2021 fór óboðað eftirlit á heimili móðurforeldra í sex skipti. Í þrjú þessara skipta var kærandi ekki á heimilinu og var með föður drengsins, í tvö skipti sagði hún símleiðis að hún væri að tæma með honum geymslu sem þau væru bæði með hluti í. Í þau þrjú skipti sem kærandi var á heimilinu var hún lyfjuð, að mati eftirlitsaðila. Kærandi hafi greint frá við eftirlitsaðila að faðir drengsins væri í neyslu.

Þann 14. apríl 2021 barst niðurstaða frá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði Háskóla Íslands en um hafi verið að ræða þvagsýni kæranda sem tekið var í áhættumeðgöngu þann 9. apríl 2021. Fram kom að metamfetamín væri mælanlegt. 

Mál drengsins var bókað á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B þann 14. apríl 2021 þar sem lagt hafi verið til að drengurinn yrði vistaður utan heimilis í fjóra mánuði samkvæmt 1. mgr. 25. gr. bvl. og gerð yrði áætlun um meðferð mál samkvæmt 23. gr. bvl. í samvinnu við kæranda þar sem meðal annars kæmi fram að hún myndi tafarlaust leita sér afeitrunar og fullrar meðferðar og fara í eftirfylgd á I að lokinni vímuefnameðferð. Kærandi sýni fram á edrúmennsku með því að taka á móti óboðuðu eftirliti og undirgangast vímuefnapróf þegar þess sé óskað. Enn fremur þarf kærandi að lokinni vímuefnameðferð að sinna meðferð á Geðheilsuteymi heilsugæslunnar. Samvinna verði við meðferðaraðila móður og vistunaraðila drengsins. 

Þann 15. apríl 2021 mætti kærandi í viðtal ásamt lögmanni sínum þar sem hún  neitaði meðal annars að hafa tekið metamfetamín og sagðist ekki skilja niðurstöður mælinga. Greindi hún frá því að hún teldi að faðir hefði byrlað henni. Starfsmaður lét kæranda vita að starfsmanni H hefði fundist hún ör að kvöldi þess 6. apríl 2021 en kærandi sagðist hafa verið í tilfinningalegum rússíbana undanfarnar vikur vegna samskipta við föður. Farið hafi verið yfir tillögur starfsmanna Barnaverndar B með kæranda, þ.e. að hún færi í afeitrun, síðan á Í og loks í eftirmeðferð á I og að drengurinn yrði vistaður í fjóra mánuði. Kærandi sagðist samþykkja þetta ef það væri það sem þyrfti til að halda drengnum. Aðspurð hvort hún teldi sig eiga við fíknivanda að stríða sagði hún já við því en sagði að það væri ekki þannig núna. Kærandi óskaði eftir því að drengurinn yrði vistaður hjá móðurforeldrum. Hún greindi frá því að hafa áhyggjur af foreldrum sínum vegna föður og ræddi um hvort þau gætu fengið krækju hjá lögreglu þar sem faðir hefði verið að hóta þeim.

Þann 19. apríl 2021 hafi verið farið í eftirlit á heimili foreldra kæranda þar sem hún var með drenginn. Í dagálsnótu komi meðal annars fram að kærandi hafi tekið á móti eftirlitsaðilum og hafi verið aðeins sljó en ekki eins og hún sé oftast. Kærandi hafi verið í uppnámi og sagðist vera búin að gráta mikið síðustu daga þar sem barnsfaðir hennar léti hana ekki í friði. Hún sagði hann stöðugt vera að áreita sig, með því að senda henni skilaboð og mæta óboðinn fyrir utan heimili hennar með blóm meðal annars og biðjast fyrirgefningar, en hann væri búinn að vera að senda henni hótanir í gegnum skilaboð. Kærandi sagði einnig að barnsfaðir væri að reyna að fá hana til sín en vildi ekki að drengurinn kæmi með henni og sagði að hún ætti bara að skilja hann eftir hjá ömmu sinni og afa, foreldrum kæranda. Hún sagðist ætla að reyna að vera sterk og láta hegðun hans ekki hafa áhrif á sig.

Þann 20. apríl 2021 mætti kærandi ásamt lögmanni sínum í viðtal og undirritaði yfirlýsingu um vistun drengsins utan heimilis og áætlun um meðferð máls í samræmi við bókun meðferðarfundar frá 14. apríl 2021. Í dagálsnótu frá fundinum kemur fram að kærandi hafi verið  aðeins drafandi í tali en ekki eins slæm og oft áður. Greindi hún frá því að vera komin með pláss á G 23. apríl 2021. Kvaðst kærandi vera kvíðin fyrir því að fara á Í í framhaldinu en að hún ætli samt að gera það fyrir drenginn. Samkvæmt upplýsingum frá G þann 26. apríl 2021 mætti kærandi á G þann 23. apríl 2021. 

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með vísan til forsendna niðurstöðu úrskurðar nefndarinnar frá 9. mars 2021 og enn fremur þeirrar framvindu sem orðið hafi í málinu, sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þykir ljóst, með tilliti til hagsmuna og öryggis drengsins, að ríkt tilefni hafi verið til að úrskurðað yrði um farbann kæranda með drenginn erlendis á tímabili áætlunar um meðferð máls. Kærandi virðist eiga erfitt með að standa á sínu gagnvart föður drengsins og hafi ekki sett honum þær skorður sem nauðsynlegar séu, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Ómögulegt sé að segja hvað framtíðin ber í skauti sér en ákveði kærandi að fara úr landi á einhverjum tímapunkti séu það klárlega hagsmunir drengsins að dveljast hér á landi í öryggi og umsjá ættingja sinna sem hafa sinnt honum stóran hluta ævi sinnar.

 

IV. Niðurstaða

D er X árs gamall drengur sem lýtur forsjá móður sinnar sem er kærandi málsins. Drengurinn býr á heimili móðurforeldra.

Með hinum kærða úrskurði frá 9. mars 2021 var úrskurðað um að óheimilt væri að fara með drenginn úr landi. Úrskurðurinn gildir á tímabili áætlunar um meðferð máls en skal endurskoðaður að sex mánuðum liðnum.

Í málinu krefst kærandi þess aðallega að farbannið gildi ekki lengur en í einn mánuð en til vara að það gildi ekki lengur en í tvo mánuði. Til þrautavara krefst kærandi að ferðabannið gildi ekki lengur en í þrjá mánuði. 

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að starfsmenn hafi verulegar áhyggjur af því að kærandi hyggist fara með drenginn úr landi til þess að búa með föður. Ljóst sé að miðað við fíkniefnaneyslu föður undanfarin ár séu aðstæður hans á F óboðlegar fyrir drenginn. Drengurinn sé ungur að árum og geti enga björg sér veitt og þá eigi hann enga ættingja á F sem geti komið honum til aðstoðar, sé þess þörf. Kærandi sé sjálf stutt á veg komin í sinni edrúmennsku og mikilvægt að fylgja henni vel eftir á þeirri vegferð. Starfsmenn telja mikilvægt að kærandi fari ekki með drenginn úr landi. Á fundi nefndarinnar 2. mars 2021 ítrekuðu starfsmenn það mat að aðstæður hjá föður á F væru mjög ótryggar og væru miklar áhyggjur af því að kærandi fari með drenginn í ótryggar aðstæður til föður þar sem kærandi hafi lýst því og sagan sýni að faðir hafi mikil tök á henni.

Í 1. mgr. 26. gr. bvl. eru talin upp sérstök úrræði sem barnaverndarnefnd getur beitt með úrskurði, án samþykkis foreldra, hafi úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. laganna ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar eða eftir atvikum að barnaverndarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 26. gr. bvl. getur nefndin gegn vilja foreldra með úrskurði ákveðið að ekki megi fara úr landi með barnið. Í 2. mgr. 26. gr. kemur fram að ráðstafanir samkvæmt 1. mgr. skuli ávallt vera tímabundnar og eigi standa lengur en þörf krefji hverju sinni og skuli endurskoðaðar eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti.

Við úrlausn á því hvort uppfyllt hafi verið lagaskilyrði fyrir því að úrskurða að ekki mætti fara með drenginn úr landi samkvæmt d-lið 26. gr. bvl. ber að líta til þess að gert er ráð fyrir að unnt sé að beita þessu úrræði eftir að barnaverndarmál er hafið ef barnaverndarnefnd telur að barnið geti verið í hættu og að hagsmunum þess verði ekki borgið með öðrum hætti. Þetta kemur fram í athugasemdum með lagaákvæðinu í frumvarpi til bvl. Þar segir enn fremur að unnt sé að beita ákvæðinu meðan á könnun máls standi, meðan unnið er að gerð áætlunar samkvæmt 23. gr. eða eftir atvikum eftir að ákvarðanir hafi verið teknar um beitingu úrræða. Barnaverndarnefndin mat það svo að drengurinn gæti verið í hættu eða að hagsmunum hans yrði ekki borgið með öðrum hætti en þeim að beita því úrræði að ekki mætti fara með hann úr landi eins og gert var með hinum kærða úrskurði. Þær breytingar, sem orðið hafa á högum drengsins og foreldrum hans eftir að hinn kærði úrskurður var kveðinn upp, gefa ekki tilefni til að víkja frá því mati að ekki megi fara með drenginn úr lagi við núverandi aðstæður. Með vísan til þess, sem fyrir lá í málinu þegar úrskurðurinn var uppkveðinn, telur úrskurðarnefndin rétt að fallast á framangreint mat Barnaverndarnefndar B. Ekki þykja efni til að marka banninu skemmri tíma eins og kærandi krefst. Samkvæmt öllu þessu ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 9. mars 2021 um að óheimilt sé að fara með drenginn D, úr landi í sex mánuði, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta