Mál nr. 8/2003. Úrskurður kærunefndar:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 25. apríl 2003
í máli nr. 8/2003:
Íslenskir aðalverktakar hf.,
Landsafl hf. og
ISS ehf.
gegn
Ríkiskaupum.
Með bréfi 3. mars 2003, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kæra Íslenskir aðalverktakar hf., Landsafl hf. og ISS ehf. ákvörðun Ríkiskaupa sem fram kemur í bréfi, dags. 4. febrúar 2003, til forsvarsmanns kærenda um að hafna tilboði kærenda í útboðinu nr. 12733 auðkennt „Rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri - Einkaframkvæmd."
Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða athöfn verði felld úr gildi en til vara að réttaráhrifum hennar verði frestað þar til fullnaðarúrskurður dómstóla liggur fyrir um gildi úrskurðar kærunefndar útboðsmála sem kveðinn var upp 9.
ágúst 2002 í máli nr. 12/2002.
Kærði krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá. Til vara krefst kærði þess að kröfum kæranda verði hafnað. Að auki krefst kærði þess að kærendur verði úrskurðaðir til þess að greiða kærumálskostnað í ríkissjóð.
I.
Í febrúar 2001 fór fram forval á vegum kærða vegna Rannsókna- og nýsköpunarhúss við Háskólann á Akureyri. Tveir hópar skiluðu inn tilkynningum um þátttöku í forvalinu og voru metnir hæfir til að taka verkið að sér. Að undangengnu forvalinu fór fram lokað útboð og skiluðu báðir hóparnir inn tilboði. Annar hópurinn samanstóð af kærendum. Hinn hópurinn, Nýsir ehf. og Ístak hf., kærðu útboðið til kærunefndar útboðsmála með bréfi 10. júní 2002. Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 20. júní 2002 var hið kærða útboð og hugsanleg samningsgerð í framhaldi af því stöðvað þar til endanlega hefði verið skorið úr kröfum kærenda. Í úrskurði kærunefndar útboðsmála 9. ágúst 2002 í máli nr. 12/2002 var svo lagt fyrir Ríkiskaup að hafna tilboði kærenda máls þessa. Í úrskurðinum er forsaga málsins rakin ítarlega. Í kjölfar úrskurðarins höfðuðu kærendur mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur Ístaki hf., Nýsi ehf. og Ríkiskaupum til ógildingar á ákvörðun síðastnefnda aðilans í máli nr. 12/2002. Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfur kærenda og téður úrskurður kærunefndar ógiltur í heild sinni. Með bréfi kærða, dags. 4. febrúar 2003, hafnaði kærði tilboði kærenda með vísan til úrskurðar kærunefndar útboðsmála í málinu nr. 12/2002. Er sú ákvörðun kærða til umfjöllunar í máli þessu.
II.
Kærði byggir aðalkröfu sína um frávísun á því, að kæran hafi borist kæruefnd útboðsmála eftir að fjögurra vikna frestur samkvæmt 78. gr. laga um opinber innkaup var liðinn. Fresturinn hafi byrjað að líða 4. febrúar 2003. Það hafi verið 7. mars 2003 sem hin kærða athöfn hafi verið borin undir nefndina.
Kærendur telja að krafa kærða um frávísun eigi ekki rétt á sér. Hin kærða ákvörðun hafi borist þeim 6. febrúar 2003 með bréfi kærða, dags. 4. febrúar 2003. Kærendur benda á að kæran hafi borist kærunefnd útboðsmála 3. mars 2003. Því til stuðnings leggja kærendur fram staðfestingu fjármálaráðuneytisins um móttöku kærunnar þann dag.
III.
Til stuðnings kröfum sínum vísa kærendur fyrsta lagi til þess að eftir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-11020/2002 var kveðinn upp 27. mars 2003 eigi þeir gilt tilboð, enda hafi forsenda fyrir höfnun kærða algjörlega brostið með niðurstöðu dómsins. Kærendur benda á að dómurinn sé bindandi fyrir kærunefnd útboðsmála og Ríkiskaup sem stjórnvöld, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar og því sé ekki önnur niðurstaða tæk en að fella höfnun á tilboði kæranda úr gildi.
IV.
Kærði byggir varakröfu sína m.a. á því að honum hafi ekki verið skylt að halda að sér höndum þrátt fyrir að honum hafi verið kunnugt um að höfðað hafi verið mál vegna úrskurðar kærunefndar útboðsmála í málinu nr. 12/2002. Kærði bendir á að þrátt fyrir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2003 sé alls ekki séð fyrir endann á málarekstrinum vegna ágreiningsatriða málsins, enda megi áfrýja dóminum til Hæstaréttar Íslands. Hafa verði í huga að kærendur hafi aldei átt og eiga aldrei neinn sérstakan rétt til þess að tilboði þeirra yrði tekið.
Kærði byggir ennfremur á því að kærði og íslenska ríkið hafi verið bundin af úrskurði kærunefndar útboðsmála í málinu nr. 12/2002. Kærði hafi ekki átt annan kost en að fara að úrskurðinum. Vísar kærði sjónarmiðum sínum til stuðnings til 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 60. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að dómendur skeri úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Þó geti enginn, sem um þau leitar úrskurðar, komið sér hjá því að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta málum til dóms.
V.
Kröfu um málskostnað styður kærði við 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Kærði telur að kæra kærenda sé algerlega tilefnislaus, hún byggi á efnislegum forsendum sem engan veginn geti staðist og hún sé í andstöðu við alkunnar reglur þess efnis að þótt stjórnvaldsákvarðanir verði bornar undir dómstóla fresti það ekki framkvæmd þeirra. Kærði telur ennfremur að kæran og málatilbúnaður kærenda hafi það markmið að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa. Það komi beinlínis fram í kærunni sjálfri.
Kærendur mótmæla kröfu kærða um málskostnað. Telja kærendur fullyrðingar sem koma fram í greinargerð kærða furðulegar og vísa þeim algjörlega á bug sem staðleysum.
VI.
Hin kærða ákvörðun var tilkynnt með bréfi kærða, dags. 4. febrúar 2003. Kærandi kærði ákvörðunina með bréfi 3. mars 2003. Fyrir liggur staðfesting starfsmanns fjármálaráðuneytisins, sem tók á móti kærunnni af hálfu kærunefndar útboðsmála, um að kæran hafi borist í símbréfi 3. mars 2003. Var því kæran sett fram innan fjögurra vikna frests 78. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Samkvæmt þessu verður að hafna kröfu kærða um frávísun málsins.
VII.
Í úrskurði kærunefndar útboðsmála í málinu nr. 12/2002 sem kveðinn var upp 8. ágúst 2002 var lagt fyrir kærða að hafna tilboði kærenda sem ógildu. Með bréfi, dags. 4. febrúar 2003 hafnaði kærði tilboði kærenda á grundvelli úrskurðarins. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-11020/2002, sem kveðinn var upp 27. mars 2003, var tilgreindur úrskurður kærunefndarinnar felldur úr gildi. Málinu hefur ekki verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands samkvæmt staðfestingu sem kærunefnd útboðsmála hefur borist þess efnis frá skrifstofustjóra réttarins. Áfrýjunarfrestur samkvæmt 1. mgr. 153. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 er þrír mánuðir og rennur hann því út 27. júní næstkomandi. Það leiðir af 60. gr. stjórnarskrárinnar að sá sem leitar úrlausnar um lögmæti ákvarðana stjórnvalda getur ekki komið sér hjá því að hlýða ákvörðun stjórnvaldsins með því að skjóta málinu til dóms. Hins vegar verður að líta svo á að efnisúrlausn héraðsdóms bindi hendur aðila málsins og hefur gildi til frambúðar, verði málinu ekki áfrýjað. Áfrýjun til Hæstaréttar myndi fresta réttaráhrifum dómsins. Þar sem dóminum hefur ekki verið áfrýjað hefur dómurinn, a.m.k. enn sem komið er, réttaráhrif sem úrlausn í réttarágreiningi aðila.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-11020/2002 felldi úr gildi úrskurð kærunefndar útboðsmála í málinu nr. 12/2002. Ekki verður séð að höfnun kærða á tilboði kærenda með bréfi, dags. 4. febrúar 2003, hafi á því tímamarki verið ólögmæt. Með hinum óáfrýjaða dómi héraðsdóms verður á hinn bóginn að líta svo á að ekki sé lengur grundvöllur fyrir ákvörðun kærða, enda hefur úrskurður kærunefndar sem ákvörðunin byggði á verið felldur úr gildi. Með vísan til þessa er rétt að taka til greina kröfu kærenda um að fella úr gildi ákvörðun kærða um að hafna tilboði þeirra í útboðinu nr. 12733.
Eftir þessari niðurstöðu verður að hafna kröfu kærða um að kærendur greiði málskostnað.
Úrskurðarorð:
Kröfu kærða um frávísun málsins er hafnað.
Felld er úr gildi ákvörðun kærða að hafna tilboði kærenda í útboði nr. 12733.
Kröfu kærða um málskostnað er hafnað.
Reykjavík, 25. apríl 2003
Páll Sigurðsson
Sigfús Jónsson
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir.
25. apríl 2003