Hoppa yfir valmynd

Nr. 238/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 28. apríl 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 238/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22120008

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 1. desember 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Íran (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. nóvember 2022, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi kom til Íslands í lok árs 2021 og fékk útgefið tímabundið dvalarleyfi sem námsmaður á Íslandi með gildistíma til 15. júlí 2022 og stundaði nám við Flugskóla Íslands. Hinn 30. maí 2022 lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 9. ágúst 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 15. nóvember 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 1. desember 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum 14. desember 2022. Dagana 29. janúar, 3. og 27. febrúar og 17. apríl 2023 bárust frekari gögn og upplýsingar frá kæranda.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna meintra tengsla við íranska herinn.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, kveði á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Í greinargerð kæranda eru gerðar ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, einkum varðandi trúverðugleikamat stofnunarinnar, umfjöllun um aðstæður í Íran og mat á því hvort kæranda sé óhætt að fara þangað aftur. Kæranda bíði fangelsisvist í Íran og telur hann að mál hans hafi ekki verið skoðað nægilega vel af hálfu Útlendingastofnunar. Kærandi óttist að snúa aftur til Íran vegna hótana í hans garð af hálfu samtaka sem tengist írönsku leyniþjónustunni og hernum og vilji hann frekar fara í fangelsi á Íslandi heldur en að snúa aftur til heimaríkis. Bankareikningi hans hafi nú þegar verið lokað og hafi hann því þurft að hætta því námi sem hann hafi stundað hér á landi. Telur kærandi rannsókn málsins hjá Útlendingastofnun hafa verið ábótavant og ekki í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga eða 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Jafnframt telur kærandi að meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar hafi ekki verið fylgt með því að synja honum um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Kærandi hafi vakið mikla athygli á sér vegna þeirra hótana sem hann hafi orðið fyrir vegna starfa sinna og þeirrar kröfu um að hann láti af hendi trúnaðarupplýsingar, en hann hafi látið íslensk yfirvöld vita af þessum hótunum. Kærandi telur sig því hafa sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann búi við ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr., sbr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærandi að breyting hafi orðið á aðstæðum í Íran síðan þær upplýsingar sem Útlendingastofnun hafi byggt á í ákvörðun sinni hafi verið birtar, en í landinu ríki upplausn vegna mótmæla og sýni nýleg dæmi að fólk sé jafnvel tekið af lífi þar í dag.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað írönsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé íranskur ríkisborgari.


Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Íran m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2021 Country Reports on Human Rights Practices: Iran (U.S. Department of State, 12. apríl 2022);
  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices: Iran (U.S. Department of State, 20. mars 2023);
  • Amnesty International Report 2022/23: Iran 2022 (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • COI Focus: Iran. Treatment of returnees by their national authorities (Office of the Commissioner General for Refugees and Stateless Persons, 30. mars 2020);
  • Country Policy and Information Note. Iran: Actors of protection (UK Home Office, nóvember 2019);
  • Country Background Note: Iran (UK Home Office, október 2019);
  • Country Policy and Information Note. Iran: Illegal exit (UK Home Office, maí 2022);
  • Country Policy and Information Note. Iran: Medical and healthcare issues (UK Home Office, nóvember 2019);
  • Country Policy and Information Note. Iran: Military service (UK Home Office, nóvember 2022);
  • Country Policy and Information Note. Iran: Social media, surveillance and sur place activities (UK Home Office, mars 2022);
  • DFAT Country Information Report - Iran (Australian Government: Department of Foreign Affairs and Trade, 14. apríl 2020);
  • Freedom in the World 2023 – Iran (Freedom House, 2023);
  • Iran: COI Compilation (ACCORD, 31. júlí 2018);
  • Iran : Criminal procedures and documents (Landinfo, CGRS, SEM, desember 2021);
  • Iran: Death Sentences Against Protesters (Human Rights Watch, 13. desember 2022);
  • Iran: Details of 321 deaths in crackdown on November 2019 protests (Amnesty International, 29. júlí 2022);
  • Iran: four men sentenced to have fingers amputated for theft (Amnesty International, 24. september 2020);
  • Iran: Internal Politics and U.S. Policy and Options (United States Congressional Research, 20. maí 2020);
  • Iran - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer: situationen per den 30 juni 2019 (Utrikesdepartementet, 18. desember 2019);
  • Iran: No Justice for Bloody Crackdown (Human Rights Watch, 25. febrúar 2020);
  • Iran’s Review of 2022 (International Centre for Human Rights, 31. desember 2022);
  • No one is spared. The widespread use of the death penalty in Iran (FIDH, október 2020);
  • Situation of human rights in the Islamic Republic of Iran. Report of the Secretary-General (UNHRC, 27. júlí 2022);
  • Situation of human rights in the Islamic Republic of Iran. Report of the Special Rapporteur (UNHRC, 28. janúar 2020);
  • Situation of human rights in the Islamic Republic of Iran. Report of the Special Rapporteur on the situation of human rights in the Islamic Republic of Iran, Javaid Rehman (UNHRC, 11. janúar 2021);
  • Stjórnarskrá Íran (https://www.wipo.int/edocs/lexdocs/laws/en/ir/ir001en.pdf);
  • The World Factbook: Iran (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 11. apríl 2023);
  • Trampling Humanity. Mass Arrests, Disappearances and Torture since Iran’s November 2019 Protests (Amnesty International, 2. september 2020) og
  • World Report 2023 – Iran. Events of 2022 (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Íslamska lýðveldið Íran er klerkaveldi, leitt af æðsta klerki (e. the supreme leader), sem hefur frá árinu 1989 verið Ayatollah Ali Khamenei. Sem æðsti klerkur fer Khamenei með beint eða óbeint vald yfir framkvæmdar-, löggjafar- og dómsvaldi, auk þess sem hann hefur vald yfir her landsins, öryggissveitum og ríkisreknum fjölmiðlum. Þá er hann ábyrgur fyrir innanríkis- og utanríkisstefnu landsins. Hinn 24. október 1945 gerðist Íran aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1968. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1975. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1994.

Samkvæmt framangreindum skýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 11. mars 2019, breska innanríkisráðuneytisins frá nóvember 2019 og ástralska utanríkisráðuneytisins (DFAT) frá 14. apríl 2020 var byltingarvarðsveit Íran (e. Iran Revolutionary Guard Corps, IRGC) komið á fót í kjölfar byltingarinnar árið 1979 til að framfylgja hugmyndum Ruhollah Khomeini, upphaflegs æðsta klerks Íran, um íslamskt ríki. IRGC, sem heyri beint undir æðsta klerk, hafi átt stóran þátt í að kveða niður andóf gegn ríkisstjórn Ruhollah Khomeini og að varna innrás hersveita Saddam Hussein árið 1980. Frá þeim tíma hafi umsvif IRGC orðið meiri en öryggis- og hersveita ríkisins. IRGC sinni bæði innra og ytra öryggi ríkisins og sé leiðandi í stjórnmálalegu og efnahagslegu landslagi ríkisins. Þá hafi áhrif IRGC er varðar utanríkisstefnu aukist. IRGC hafi, ásamt öðrum öryggissveitum, átt stóran þátt í að kveða niður fjölmenn mótmæli á undanförnum árum, þ. á m. mótmæli í nóvember 2019 og september 2022, og sætt ásökunum um ólögmæta og banvæna notkun valds gegn óbreyttum borgurum. 

Samkvæmt skýrslum Human Rights Watch frá 2023 og bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2022 og 2023 fara sanngjörn réttarhöld almennt ekki fram í Íran. Þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins mæli fyrir um að sakborningar eigi rétt á réttlátri málsmeðferð, m.a. lögmanni að eigin vali, að vera álitnir saklausir uns sekt sé sönnuð og að áfrýja sakfellingardómum í málum þar sem þungar refsingar liggi fyrir, hafi þessi réttindi oft og tíðum verið virt að vettugi. Þá fái blaðamenn og sakborningar sem sakaðir séu um brot gegn öryggislögum landsins einungis að velja lögmenn af tilteknum lista sem yfirvöld hafi samþykkt. Algengt sé að þvingaðar játningar, í kjölfar kúgunar og pyndinga, séu notaðar sem sönnunargögn fyrir dómstólum. Þá sé enn mælt fyrir um líkamsrefsingar í dómum í Íran árið 2022, þ. á m. hýðingar, grýtingar, aflimanir og blindanir. Samkvæmt bandarísku mannréttindasamtökunum Abdorrahman Boroumand Fountation hafa írönsk yfirvöld frá árinu 2000 til ársins 2020 dæmt a.m.k. 237 manns til aflimunar og framfylgt dómunum í a.m.k. 129 tilfellum, en líklegt sé að raunverulegur fjöldi fórnarlamba sé hærri. Þá hafi írönsk yfirvöld gefið út yfir eitt þúsund handtökuskipanir í tengslum við mótmæli í september og nóvember 2022. Sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna hafi lýst yfir miklum áhyggjum í skýrslu árið 2022 yfir því að írönsk yfirvöld stundi það að ákæra og sakfella einstaklinga sem hafi tekið þátt í mótmælum eða öðrum ágreiningi gegn yfirvöldum fyrir verulega óljósa glæpi, jafnvel án sönnunargagna, þ. á m. fyrir „fjandskap gegn Guði“, „spillingu á jörðu“ og „vopnaða uppreisn“ en allir varði þeir dauðarefsingu. Samkvæmt skýrslunni tóku írönsk yfirvöld a.m.k. 15 einstaklinga af lífi árið 2020 fyrir framangreind brot. Frá 14. nóvember 2022 hafi a.m.k. níu mótmælendur verið ákærðir fyrir „fjandskap gegn Guði“ eða „spillingu á jörðu“.

Aðstæður í fangelsum hafi verið gagnrýndar af mannréttindasamtökum en algengt sé að greint sé frá pyntingum og misnotkun, t.d. hótunum um aftöku eða nauðgun, þvinguðum skoðunum á leggöngum og endaþarmi, vatnspyndingu (e. waterboarding), raflosti og endurteknum alvarlegum barsmíðum gagnvart föngum. Þá séu fangelsin yfirfull og skortur sé m.a. á mat, hreinu vatni, hreinlæti og heilbrigðisþjónustu. Yfirvöld hafi ekki rannsakað fjölmargar ásakanir um pyndingar gagnvart föngum og takmarki aðgang þeirra að lögfræðiaðstoð, sérstaklega í upphafi rannsókna. Þá fari lengd gæsluvarðhalda eftir geðþótta dómara, einkum í málum þar sem einstaklingur sé sakaður um brot á öryggislögum landsins.

Í skýrslum Freedom House frá 2022 og DFAT frá 2020 kemur fram að íranskir ríkisborgarar standi frammi fyrir hömlum á opinni og frjálsri umræðu þar sem skilgreiningar laga um takmarkanir á tjáningarfrelsinu séu óljósar, refsingar vegna meiðyrða séu þungar og ríkið hafi eftirlit með rafrænum samskiptum. Þrátt fyrir áhættuna og framangreindar takmarkanir láti margir í ljós óánægju sína, bæði meðal almennings og á samfélagsmiðlum. Í stjórnarskrá Íran komi fram að það megi halda almenn mótmæli ef þau ógni ekki íslömskum grunngildum. Undanfarin ár hafi mótmæli, sem ekki séu samþykkt fyrir fram af yfirvöldum, hins vegar verið leyst upp með valdi af öryggissveitum ríkisins sem hafi hneppt mótmælendur í varðhald.

Samkvæmt m.a. skýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2020 og sérstaks eftirlitsmanns Sameinuðu þjóðanna (e. Special Rapporteur) frá 2020, brutust fjölmenn mótmæli út í Íran 15. nóvember 2019 í kjölfar þess að tilkynnt var um 50% hækkun eldsneytisverðs og skömmtun eldsneytis. Að minnsta kosti 200 þúsund einstaklingar hafi tekið þátt í mótmælunum sem hafi teygt anga sína til 29 af 31 héruðum landsins og staðið yfir til 21. nóvember 2019. Þrátt fyrir að mótmælin hafi, að mestu leyti, farið friðsamlega fram hafi yfirvöld brugðist við með harkalegum og jafnvel banvænum aðgerðum, s.s. notkun táragass og skotvopna gegn mótmælendum. Til að hindra frekari mótmæli hafi yfirvöld auk þess lokað fyrir aðgang flestallra að interneti í hartnær viku og sent fjöldaskilaboð á borgara landsins þar sem þeir hafi verið varaðir við frekari þátttöku í mótmælunum. Samkvæmt framangreindri frétt Human Rights Watch frá 25. febrúar 2020 og skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2022 hafa öryggissveitir sem gerðust sekar um óhóflega og ólöglega notkun banvæns valds gegn mótmælendum árið 2019 ekki verið dregnar til ábyrgðar af hálfu íranskra yfirvalda. Samkvæmt skýrslu Human Rights Watch frá 2023 hafa mótmæli haldið áfram í landinu á árinu 2021 og 2022, fjöldi mótmælenda verið handtekinn og upp komið tilvik þar sem einstaklingar hafi sætt ofbeldi og pyntingum af hálfu yfirvalda. Í september 2022 jukust mótmæli almennings gríðarlega í kjölfar þess að 22 ára gömul kona lést í haldi íranskra yfirvalda eftir að hafa verið handtekin fyrir að bera höfuðslæðuna sína (e. hijab) ranglega að mati siðgæðislögreglunnar í landinu. Hinn 14. nóvember 2022 hafi 341 mótmælandi, þ. á m. 52 börn, verið skráður látinn. Yfirvöld hafi takmarkað verulega aðgengi að internetinu og samskipta- og samfélagsmiðlum í viðleitni sinni til þess að halda aftur af mótmælendum.

Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins um herskyldu í Íran frá 2022 eru takmarkaðar upplýsingar um hvaða meðferð eða refsingu einstaklingar, sem komi sér undan herskyldu, hljóta. Fram kemur að ólíklegt sé að herskylda feli í sér að viðkomandi þurfi að fremja verknað sem sé andstæður grundvallarreglum mannlegrar hegðunar (e. basic rules of human conduct). Þó þurfi ávallt að fara fram einstaklingsbundið mat. Almennt sé ólíklegt að einstaklingur sem komi sér hjá herskyldu eða yfirgefi herinn sæti meðferð sem jafngildi ofsóknum, en einstaklingur sem yfirgefi Íran þurfi að ljúka herþjónustu við heimkomu sé hann undir fertugu. Þá séu einstaklingar sem komi sér undan því að sinna herskyldu líklegir til að sæta ákæru. Fyrir þá sem séu eldri en fertugir sé sekt algengasta refsingin. Forðist einstaklingur herskyldu í allt að eitt ár á friðartímum eða í tvo mánuði á stríðstímum geti tímalengd herskyldu viðkomandi lengst um þrjá til sex mánuði. Forðist einstaklingur herskyldu í meira en eitt ár á friðartímum eða í meira en tvo mánuði á stríðstímum geti það hins vegar leitt til þess að viðkomandi sæti saksókn. Jafnframt geti einstaklingar sem komi sér hjá því að sinna herskyldu tapað lífeyrisbótum, borgaralegum réttindum sínum, þ.m.t. aðgangi að atvinnu og æðri menntun, rétti til að fá útgefin lán og ökuskírteini og leyfis til að yfirgefa landið. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins um ólöglega brottför úr Íran frá 2022 kemur fram að tilteknir einstaklingar þurfi leyfi til að yfirgefa Íran, t.a.m. þeir sem starfi hjá stofnunum sem fari með viðkvæm málefni tengd yfirvöldum, þeir sem stundi nám erlendis og allir karlmenn á aldrinum 18-30 ára sem eigi enn eftir að ljúka herskyldu sinni, einkum vegna háskólanáms.

Í skýrslu DFAT kemur auk þess fram að ólíklegt sé að íranskir ríkisborgarar, sem sótt hafi um alþjóðlega vernd í öðru ríki og fengið synjun, veki athygli yfirvalda við endurkomu til landsins. Íranskir ríkisborgarar hafi yfirgefið landið í miklum mæli undanfarna áratugi og hafi yfirvöld sætt sig við það að margir kjósi að búa erlendis af efnahagslegum ástæðum. Meðferðin sem þeir eigi von á velti þó á stöðu þeirra gagnvart yfirvöldum áður en þeir yfirgáfu Íran og háttsemi þeirra við endurkomu. Líklegra sé að pólitískir aðgerðasinnar og aðrir sem hafi þegar verið undir sérstöku eftirliti yfirvalda fyrir brottför frá landinu veki athygli yfirvalda við endurkomu. Samkvæmt skýrslu CGRS frá 2020 eru aðgerðasinnar almennt auðkenndir á flugvellinum við endurkomu til Írans vegna skimana og yfirheyrslna af hálfu yfirvalda. Þá séu vegabréf einstaklinga skoðuð og athugað hvort búið sé að höfða dómsmál gegn þeim. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2022 um eftirlit íranskra yfirvalda með írönskum borgurum kemur fram að írönsk yfirvöld fylgist með tilteknum einstaklingum sem jafnvel séu staddir erlendis, þá einkum þeim sem yfirvöld álíti mikilvæga eða andsnúna yfirvöldum.

Í framangreindri skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2019 um heilbrigðismál kemur fram að stjórnarskrá Íran kveði á um að stjórnvöld landsins séu ábyrg fyrir því að tryggja að landsmenn hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu. Yfirvöld hafi innleitt ríkisrekið tryggingarkerfi árið 2014 (e. the Health Reform Plan), en samkvæmt því geti ríkisborgarar fengið allt að 90% af meðferðarkostnaði endurgreiddan frá yfirvöldum. Samkvæmt skýrslunni hafi heilbrigðiskerfið í Íran, sem sé bæði ríkis- og einkarekið, tekið markverðum framförum undanfarna áratugi. Yfirvöld verji um 7% af landsframleiðslu til heilbrigðismála og séu um 950 spítalar, 3700 heilsugæslustöðvar og 6400 endurhæfingarstöðvar í Íran. Þar af bjóði yfir 50 spítalar, flestir í Teheran, upp á geðheilbrigðisþjónustu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019) og leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna nr. 10 varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd í tengslum við herþjónustu frá 2014. Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtali hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Verður ráðið að kærandi byggi umsókn sína á því að hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki sínu á grundvelli stjórnmálaskoðana, sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, sökum þess að hann hafi komið sér undan herskyldu.    

Í leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd í tengslum við herþjónustu frá 2014 segir m.a. að rétturinn til að neita herþjónustu af samviskuástæðum sé afleiddur réttur byggður á túlkun á 18. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um réttinn til frelsis hugsana sinna, samvisku og trúar og 18. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna geti þó á lögmætan hátt krafist þess að ríkisborgara þeirra gegni herþjónustu eða þjónustu af öðrum toga. Í þeim tilvikum þar sem ríki bjóði ekki upp á þann möguleika að ríkisborgari gegni annars konar þjónustu verði að kanna hvaða afleiðingar séu af því að hann neiti að gegna herskyldu. Eigi einstaklingur á hættu óhóflega eða handahófskennda refsingu fyrir að neita að gegna herskyldu geti komið til athugunar að veita viðkomandi alþjóðlega vernd. Í ríkjum sem bjóði ekki upp á að ríkisborgarar, sem neiti að gegna herskyldu, inni af hendi annars konar þjónustu teljist það hins vegar ekki til ofsókna ef þeir geti komist hjá herskyldu með greiðslu stjórnsýslusektar.

Í 4. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er mælt fyrir um bann við þrældómi og nauðungarvinnu. Samkvæmt greininni tekur þvingunar- eða nauðungarvinna ekki til herþjónustu eða þjónustu sem krafist er í hennar stað af einstaklingum sem synja herþjónustu samvisku sinnar vegna og búa við lög sem heimila slíka synjun, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. sáttmálans. Þegar Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tekið afstöðu til þess hvort herskylda stríði gegn mannréttindum einstaklinga hefur dómstóllinn litið til þess að ákvæði sáttmálans hafi að þessu leyti sérstaklega tekið til herþjónustu eða þjónustu sem krafist er hennar í stað. Aftur á móti hefur dómstóllinn fallist á að herskylda og þjónusta sem er krafist hennar í stað geti falið í sér takmörkun á rétti manna til að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar, sbr. 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, í þeim tilvikum þegar ástæður af trúarlegum toga liggja að baki synjun á að gegna herþjónustu eða að viðkomandi hafi lýst yfir sterkum skoðunum um að hann sé mótfallinn hvers kyns stríðsrekstri eða því að bera vopn, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 7. júlí 2011 í máli Bayatyan gegn Armeníu (mál nr. 23459/03).

Kærandi byggir umsókn sína á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna hótana af hálfu íranskra yfirvalda í kjölfar þess að hann hafi neitað að sinna herskyldu sinni í heimaríki. Kærandi hafi fengið leyfi til að yfirgefa Íran til að stunda flugnám í Úkraínu með því skilyrði að hann færi aftur til heimaríkis að því loknu til að starfa fyrir yfirvöld. Kærandi hafi ekki hlýtt fyrirmælum um að fara aftur til heimaríkis þar sem hann vilji ekki starfa fyrir írönsk yfirvöld sökum þess að hann muni þurfa að fremja glæpi í þeirra þágu. Írönsk yfirvöld hafi nú m.a. gefið út ákæru og handtökuskipun á hendur kæranda og fryst bankareikninga hans.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun og bréfi sem kærandi sendi íslenskum stjórnvöldum greindi hann frá því að hann hafi flúið Íran því hann vilji ekki starfa fyrir herinn þar sem hann yrði látinn fremja ýmsa glæpi. Þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað bera ekki með sér að þeir sem sinni herskyldu í Íran séu almennt neyddir til að fremja glæpi eða verknað sem séu taldir andstæðir grundvallarreglum mannlegrar hegðunar (e. basic rules of human conduct). Þá bera heimildir jafnframt með sér að þeir sem komi sér hjá því að ljúka herskyldu sæti almennt ekki meðferð sem jafngildi ofsóknum en þeir sem yfirgefi Íran þurfi almennt að ljúka herþjónustu við heimkomu séu þeir undir fertugu. Þó geti einstaklingar verið sviptir ýmsum borgaralegum réttindum.

Hinn 24. janúar 2023 óskaði kærunefnd eftir því að kærandi legði fram gögn sem styddu við frásögn hans, t.a.m. bankagögn sem sýni fram á að búið sé að frysta reikninga hans, skjöl sem sýni fram á að írönsk stjórnvöld ætlist til þess að kærandi starfi fyrir herinn við heimkomu og skjöl sem hafi gefið kæranda ástæðu til að ætla að hann sé á svörtum lista íranskra stjórnvalda. Hinn 3. febrúar 2023 barst kærunefnd ljósmyndir af frumritum sem kærandi kvað foreldra sína hafa sent sér en skjölin væru á leið til landsins með ferðamanni. Var kærandi inntur eftir því hvort hægt væri að nálgast gögnin rafrænt þar sem að gögn um Íran bentu til þess að ýmis gögn séu send með rafrænum hætti til aðila, t.a.m. sakborninga, en kærandi svaraði ekki þeirri spurningu kærunefndar. Hinn 28. febrúar 2023 lagði kærandi fram skjöl sem hann kvað annars vegar vera ljósmyndir af frumritum og hins vegar frumrit af dómskvaðningu í Íran og bankayfirlýsingum frá írönskum bönkum. Framlögð skjöl voru send í þýðingu hjá túlkaþjónustu og svo til rannsóknar hjá lögreglu og bárust kærunefnd niðurstöður rannsóknarinnar 12. apríl 2023. Í skjalarannsóknarskýrslunni kemur m.a. fram að til rannsóknar hafi verið írönsk handtökuskipun, stefnuskjal og bankayfirlýsingar. Niðurstöður lögreglu voru þær að skjölin væru ekki öryggisskjöl, bæru enga öryggisþætti og hefðu flúrljómað skært í útfjólubláu ljósi. Engin samanburðargögn um skjölin hafi verið til hjá skilríkjarannsóknastofu. Á bæði handtökuskipuninni og stefnunni hafi stimpill útgefanda, dómsvalds í tilviki handtökuskipunarinnar, og undirskrift neðst á skjölunum hvort tveggja verið áprentað sem rýri áreiðanleika skjalanna. Ekki væri hægt að sjá að skjölin væru merkt sem afrit, en hafi þau verið lögð fram sem frumrit beri að líta á þau sem fölsuð. Þá hafi við rannsókn skjalanna komið fram merki um að öll skjöl væru prentuð í einum og sama prentaranum. Auk þess hafi við samanburð bankayfirlýsinganna komið í ljós að pappír skjalanna væri sams konar, en annað skjalið hafi verið skorið til til að breyta lengd þess. Stimplarnir á skjölunum hafi verið sams konar blek en það að stimplarnir séu blautstimplar og undirskriftir gerðar með penna styðji þá fullyrðingu um að um fölsun sé að ræða. Var það ályktun lögreglu að líklegt þætti að handtökuskipunin væri fölsuð, sem og tvær blaðsíður í stefnunni. Ein blaðsíða stefnunnar hafi þótt að forminu til ótraust en ekkert yrði fullyrt um innihaldið. Þá var það ályktun lögreglu að skjölin sem kærandi kvað vera bankayfirlýsingar væru fölsuð. Í ljósi niðurstöðu rannsóknar lögreglu var kæranda veitt tækifæri á að koma á framfæri andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Hinn 17. apríl 2023 bárust kærunefnd andmæli kæranda.

Niðurstaða lögreglu um að bankaskjölin séu sannarlega fölsuð og að hin skjölin séu líklega fölsuð dregur verulega úr trúverðugleika frásagnar kæranda um að hann sé eftirlýstur af írönskum yfirvöldum. Í framangreindum andmælum hafnar kærandi því alfarið að um fölsuð gögn sé að ræða. Kvað kærandi opinberan verjanda hafa afhent foreldrum kæranda framangreind gögn og að þau innihaldi kóða og netföng svo hægt sé að hafa samband við skrifstofu útgefanda með auðveldum hætti til frekari könnunar. Opinberir aðilar í Íran gefi ekki út skjöl af sömu gæðum og eftir sömu kröfum og íslensk stjórnvöld og því sé eðlilegt að einhverjar skemmdir séu á skjölunum og að þau séu prentuð með einföldum prentara. Það sé auk þess venjan þegar gefin sé út rafræn handtökuskipun að einhver stimpill sé áprentaður en skjalið sé síðan stimplað aftur síðar. Þá hafi skjölin verið stimpluð nýlega að beiðni lögmanns kæranda til þess að staðfesta að yfirvöld hafi málið enn til skoðunar og að kærandi eigi að mæta til skýrslutöku. Kærunefnd telur framangreindar skýringar kæranda óljósar og ekki til þess fallnar að styðja við trúverðugleika framlagðra skjala. Einkum er óljóst hver prentaði framlögð gögn og hvaðan þau stafa nákvæmlega en í andmælum kæranda nefnir hann að foreldrar hans hafi fengið gögnin afhent frá lögmanni sínum en einnig að þau hafi prentað þau út. Þá kemur fram að eitt gagnið sé mögulega óskýrt af því að það sé ljósmynd af upprunalega skjalinu sem hafi verið sent rafrænt til foreldra hans en tekur þó fram að léleg prentgæði og einfaldur pappír sé í samræmi við útgáfu slíkra skjala frá yfirvöldum. Þá var ekki hægt að opna slóðina sem leiddi af QR-kóða eins skjalsins til frekari staðfestingar. Í ljósi rannsóknarskýrslu lögreglu og óljósra andmæla kæranda er það mat kærunefndar að framlögð gögn kæranda hafi ekki sönnunargildi og verða þau því ekki lögð til grundvallar í málinu.

Kærandi hefur ekki lagt fram önnur gögn eða að öðru leyti sýnt fram á að hann eigi á hættu ákæru eða fangelsisvist í Íran eða að hann sé álitinn andófsmaður af hálfu íranskra stjórnvalda. Kærandi greindi frá því þegar hann sótti um vernd hér á landi, 30. maí 2022, að hann hafi stundað flugnám í Úkraínu en fengið vegabréfsáritun til Íslands til að stunda nám hér á landi. Hann kvaðst vera í námi við Flugskóla Íslands og að námstíma hans lyki á næstu mánuðum. Kvaðst hann vera búsettur á […] á vegum skólans til 3. júní 2022. Að mati kærunefndar ber frásögn kæranda með sér að hann hafi fengið leyfi frá írönskum stjórnvöldum til að stunda nám erlendis og hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að hann sé staddur hér á landi í leyfisleysi eða gegn vilja íranskra yfirvalda. Þá bendir ekkert til þess að kærandi hafi komið sér undan herskyldu, enda bera heimildir með sér að námsmenn sem stundi nám erlendis geti frestað herskyldu sinni þar til við heimkomu. Verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi eigi á hættu handtöku eða refsingu af þessari ástæðu snúi hann aftur til Íran.

Auk framangreinds lagði kærandi fram ljósmyndir sem sýna hann mótmæla írönskum stjórnvöldum hér á landi og á myndbandi á Facebook. Þrátt fyrir að kærandi hafi mótmælt írönskum stjórnvöldum hér á landi bera heimildir með sér að margir láti í ljós óánægju sína í Íran, bæði meðal almennings og á samfélagsmiðlum, án þess að sæta sérstökum viðurlögum af hálfu stjórnvalda. Þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda í heimaríki kæranda til þess að bæla niður andóf verður ekki skilið af heimildum að hver sem sé mótfallinn ríkjandi stjórnvöldum í landinu eigi á hættu að sæta handtöku eða viðurlögum sem nái því marki að teljast ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi á hættu ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki sínu á grundvelli stjórnmálaskoðana, sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki af öðrum ástæðum.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði lagt til grundvallar að kærandi eigi á hættu að sæta ofsóknum af hálfu stjórnvalda vegna stjórnmálaskoðana hans eða vegna þess að hann hafi svikist undan herskyldu. Heimildir um Íran benda til þess að talsverður órói sé í Íran og almenningur láti óánægju sína vegna aðgerða stjórnvalda sem og efnahagsástandsins í landinu í ljós með því að mótmæla á götum úti og stjórnvöld hafi gripið til harðra aðgerða til þess að bæla niður andóf. Verður þó ekki ráðið af gögnum um heimaríki kæranda að aðstæður hans verði slíkar að ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki af þeim sökum. Þá er það mat kærunefndar, að virtum gögnum málsins og upplýsingum um aðstæður í Íran, að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hann hafi ríka þörf fyrir vernd á grundvelli félagslegra eða almennra aðstæðna eða af heilbrigðisástæðum. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að vera heilbrigður. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands í ágúst eða september 2021 og sótti um alþjóðlega vernd 30. maí 2022. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta