Mál nr. 25/2015 úrskurður 24. apríl 2015
Mál nr. 25/2015 Eiginnafn: Prinsessa
Hinn 24. apríl 2015 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 25/2015 en erindið barst nefndinni 12. mars:
Öll skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:
1. mgr. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
2. mgr. Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
3. mgr. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Í máli þessu reynir á annað skilyrði 1. mgr. hér að ofan um að eiginnafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Skilningur mannanafnanefndar á íslensku málkerfi er í samræmi við þá túlkun sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 45/1996 sem nú gilda um mannanöfn. Þar segir m.a.: „Íslenskt málkerfi er samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli.“
Orðið prinsessa er samnafn sem þarfnast ekki sérstakrar útskýringar, enda vel þekkt í íslensku máli. Allmörg dæmi eru um það í íslensku að samnöfn séu notuð sem mannanöfn, t.d. Hrafn. Samnöfn sem merkja titla eða starfsheiti (t.d. biskup, ráðherra, forseti, kóngur, drottning, prestur o.s.frv.) eru hins vegar ekki notuð sem sérnöfn. Undantekning er orðið Jarl sem á sér langa sögu í tungumálinu og hefur þannig áunnið sér hefð sem eiginnafn. Mannanafnanefnd telur ljóst, miðað við hefðir íslensks máls, að mannanöfn af þessu tagi séu ekki í samræmi við þær reglur sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Nefndin lítur því svo á að óheimilt sé að fallast á eiginnafnið Prinsessa.
Í þessu máli reynir einnig á skilyrðið í 3. mgr. hér af ofan um að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Þegar svo háttar að fullorðin kona sækir um að taka upp nýtt nafn er ekki unnt að fullyrða að nafnið verði nafnbera til ama. Hins vegar verður ekki hjá því komist að hafa í huga að með því að setja nafn á mannanafnaskrá er það um leið orðið mögulegt nafn fyrir nýfædd börn. Mannanafnanefnd ber því að meta hvort nafn sé þess eðlis að það geti orðið barni til ama. Gera má ráð fyrir að eiginnafnið Prinsessa geti orðið barni til ama.
Eiginnafnið Prinsessa (kvk.) uppfyllir ekki öll skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það. Benda má á að fólki kann að vera frjálst að nota nafn, t.d. listamannsnafn, á ýmsum vettvangi þótt það sé ekki hið formlega skráða nafn viðkomandi í Þjóðskrá.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Prinsessa (kvk.) er hafnað.