Mál nr. 11/2015
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 9. apríl 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 11/2015.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau, eins og fram kemur í innheimtubréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, A, dags. 29. janúar 2013, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 4. nóvember 2011 en á þeim tíma hafi hún ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 þar sem hún hafi fengið skráninguna: Ekki atvinnulaus. Höfuðstóll skuldarinnar væri 213.536 kr. ásamt 15% álagi 32.030 kr. eða samtals 245.566 kr. Þess var farið á leit að kærandi greiddi skuldina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins.
Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 15. janúar 2015.
Þar óskar hún eftir endurupptöku á máli sínu varðandi ofgreiðslu atvinnuleysisbóta fyrir árið 2011. Hún óskar eftir rökstuðningi fyrir innheimtu meintrar ofgreiðslu atvinnuleysisbóta og telur að á rétt sinn hafi verið gengið.
Í kæru kæranda kemur fram að hún óski endurupptöku á máli sínu en málið varði ofgreiðslu atvinnuleysisbóta vegna ársins 2011. Kærandi óskar einnig eftir rökstuðningi fyrir innheimtu meintrar ofgreiðslu atvinnuleysisbóta vegna þess að hún telji að á rétt sinn hafi verið gengið. Kærandi kveðst á umræddum tíma hafa lagt stund á B. Hún kveðst ítrekað hafa haft samband við Vinnumálastofnun til þess að afla sér upplýsinga um það hvort vera hennar í skólanum samrýmdist því að þiggja atvinnuleysisbætur. Hún hafi tekið það skýrt fram við starfsmenn Vinnumálastofnunar að hún vildi ekki þiggja bætur ef það væri ekki í samræmi við reglur stofnunarinnar og vísar kærandi til þess að stofnunin hljóti að hafa upplýsingar um þau samskipti. Kærandi tekur fram að svörin sem hún hafi fengið hafi verið óljós og lítið samræmi verið í þeim. Um sumt hafi henni alls ekki verið leiðbeint þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hennar.
Kærandi kveðst ætíð hafa skilað umbeðnum gögnum til Vinnumálastofnunar en svo virðist sem þau skil hafi orðið henni í óhag og leitt til íþyngjandi ákvörðunartöku Vinnumálastofnunar.
Kærandi kveðst á umræddum tíma hafa verið virk í atvinnuleit, hún hafi mætt á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar og hefði tekið atvinnu hefði hún boðist. Ástæða þess að hún sótti í B hafi verið sú að hún hafi ekki viljað sitja aðgerðarlaus og einnig hafi hún viljað efla sig andlega.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 5. mars 2015, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kemur fram, að í innheimtubréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 29. janúar 2013, hafi þess verið farið á leit við kæranda að hún greiddi skuld sína við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Henni hafi einnig verið bent á, ef hún hefði athugasemdir við efni bréfsins eða vildi koma að frekari andmælum eða skýringum, skyldi hún senda tölvupóst innan 14 daga á tilgreint netfang stofnunarinnar. Þá hafi komið fram í bréfinu að kærufrestur vegna ákvörðunarinnar væri 3 mánuðir frá dagsetningu bréfsins, sbr. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Bréfið hafi verið sent á lögheimili kæranda að C og hafi það ekki komið endursent til stofnunarinnar.
Fram kemur hjá Vinnumálastofnun að kærandi hafi sent stofnuninni beiðni um rökstuðning 22. október 2013 vegna ákvörðunarinnar. Henni hafi verið tilkynnt með bréfi dags. 4. nóvember 2013 að þar sem tveggja vikna frestur til að óska eftir rökstuðningi á grundvelli 21. gr. stjórnsýslulaga væri liðinn, væri beiðni hennar vísað frá.
Í áðurnefndri greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 5. mars 2015, kemur fram að stofnuninni hafi borist endurupptökubeiðni frá kæranda vegna áðurraktra innheimtuaðgerða og með bréfi, dags. 25. september 2014, hafi kæranda verið tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að synja beiðni hennar um endurupptöku. Hafi kæranda enn fremur verið tilkynnt um rétt sinn til að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða innan þriggja mánaða, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að stofnunin telji að kærufrestur vegna hinnar kærðu ákvörðunar hafi runnið út í desember 2014 og þar sem kæran sé dagsett 15. janúar 2015 hafi hún borist utan þriggja mánaða frestsins samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. mars 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 23. mars 2015. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2. Niðurstaða
Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæra kæranda, dags. 15. janúar 2015, barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 20. janúar 2015, en kæran var ranglega send kærunefnd greiðsluaðlögunarmála og var framsend þaðan til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Eins og rakið hefur verið, með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 25. september 2014, var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun stofnunarinnar að synja beiðni hennar um endurupptöku. Í bréfinu var kæranda tilkynnt um rétt sinn til þess að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar innan þriggja mánaða, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra kæranda barst því að liðnum kærufresti.
Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Úrskurðarorð
Kæru A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson