Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 45/2012

Fimmtudaginn 3. janúar 2013

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 3. apríl 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 28. febrúar 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 30. mars 2012, um að synja kæranda um fæðingarstyrk til foreldris í fullu námi.

Með bréfi, dags. 11. apríl 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 30. apríl 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 3. maí 2012, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust þann 9. maí 2012 með bréfi, dags. 8. maí 2012.

 

I. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hann sæki um fæðingarstyrk til foreldris í fullu námi á þeim forsendum að heimilt sé að greiða foreldri slíkan fæðingarstyrk þegar foreldri hafi lokið að minnsta kosti einnar annar námi og hafi síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði sé að nám og starf hafi varað samfellt í sex mánuði.

Árið 2010 hafi kæranda fæðst dóttir þann Y. desember. Kærandi hafi verið í námi frá september til desember það ár og hafi verið í námi síðan. Kærandi hafi verið í samfelldri vinnu frá janúar til september 2010 en hafi ekki fengið útborguð laun í ágúst það ár og því hafi honum verið synjað um fæðingarstyrk þar sem talið sé vanta samfellu í nám og starf.

Störf kæranda sem rithöfundur, þýðandi og fræðimaður séu ekki með þeim hætti að hann fái reglulega útborgað við hver mánaðamót. Því sé fráleitt að telja að kærandi hafi ekki verið í vinnu í ágúst 2010 þótt hann hafi ekki fengið útborgað.

Kærandi fari því fram á að fá fæðingarstyrk námsmanns og að tekið sé tillit til þess að vinna kæranda sé ekki hefðbundin hvað varði útborgun launa.

 

II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 31. janúar 2012, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í þrjá mánuði vegna barns hans sem fæddist þann Y. desember 2010.

Með umsókn kæranda hafi fylgt vottorð á skólavist frá Háskóla Íslands, dags. 2. febrúar 2012. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi til kæranda, dags. 23. febrúar 2012, hafi verið óskað eftir staðfestingu á greiðslu tryggingagjalds fyrir ágúst 2010 og staðfestingu á loknum einingum á haustönn 2010. Í kjölfarið hafi borist gögn frá RSK og vottorð frá Háskóla Íslands, dags. 27. febrúar 2012.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 30. mars 2012, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi og tekið fram að ekki hafi verið séð af fyrirliggjandi gögnum að kærandi uppfyllti skilyrði þágildandi 11. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.).

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. sem hafi verið í gildi við fæðingardag barns kæranda, sbr. 16. gr. ffl 74/2008, eigi foreldrar sem hafi verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda fæddist þann Y. desember 2010 og því hafi orðið, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. desember 2009 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt staðfestingum á skólavist frá Háskóla Íslands, dags. 2. og 27. febrúar 2012, komi fram að kærandi hafi lokið 30 einingum á haustmisseri 2010 og það hafi verið eina misserið á tólf mánaða tímabilinu fyrir fæðingardag barns kæranda sem hann hafi verið í námi.

Þegar um sé að ræða nám við háskóla teljast 30 einingar á önn vera 100% nám og því teljist 22–30 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir hafi legið um námsframvindu kæranda hafi Fæðingarorlofssjóður litið svo á að kærandi hafi ekki uppfyllt almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Í ffl. og reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sé að finna undanþágu frá framangreindu skilyrði um fullt nám. Í þágildandi 11. mgr. 19. gr. ffl. komi fram að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hafi verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Í d-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sé að finna skilgreiningu á samfelldu starfi, sbr. og 1. mgr. 13. gr. a ffl. Með samfelldu starfi sé átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil. Enn fremur teljist til samfellds starfs þau tilvik sem talin séu upp í a-d lið 2. mgr. 13. gr. a. laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl. komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Síðustu 6 mánuðir áður en kærandi hafi hafið nám á haustönn 2010 sé því tímabilið mars til ágúst 2010, sbr. framangreint og til dæmis úrskurð úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 16/2010. Þar sem kærandi hafi starfað við eigin rekstur hefði hann þurft að standa skil á tryggingagjaldi á tímabilinu, sbr. einnig a–d-liði 2. mgr. 13. gr. a ffl.

Í kæru kæranda hafi komið fram að hann hafi verið í námi frá september til desember 2010. Hann hafi verið í samfelldri vinnu frá janúar til september 2010 en ekki fengið útborguð laun í ágúst 2010.

Samkvæmt skrám ríkisskattstjóra og innsendum gögnum verður ekki séð að kærandi hafi starfað við eigin rekstur og staðið skil á tryggingagjaldi fyrir ágúst 2010. Ekki verður heldur séð af gögnum málsins að tilvik kæranda falli undir liði a–d í 2. mgr. 13. gr. a ffl.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 30. mars 2012.

 

III. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni með bréfi, dags. 30. mars 2012.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eins og hún var við fæðingu barns kæranda, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fullt nám við Háskóla Íslands er 30 ECTS einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er samkvæmt því 22–30 ECTS einingar á önn, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Heimilt er skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands fæddist barn kæranda Y. desember 2010. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá Y. desember 2009 fram að fæðingu barnsins.

Samkvæmt yfirliti frá Háskóla Íslands, dags. 27. febrúar 2012, lauk kærandi 30 ECTS einingum á haustönn 2010. Þar sem kærandi lauk einungis námi á einni önn fyrir fæðingu barnsins, þ.e. frá september til desember 2010, er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 11. mgr. 19. gr. ffl. er kveðið á um undanþágu þess efnis að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Í d-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2009, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, er að finna skilgreiningu á því hvað átt sé við með samfelldu starfi en þar segir að með samfelldu starfi sé átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil. Enn fremur teljist til samfellds starfs þau tilvik sem talin eru upp í a-d-lið 2. mgr. 13. gr. a ffl.

Í 13. gr. a ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008, er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi ffl. Þar segir í 1. mgr. að þátttaka á innlendum vinnumarkaði feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeigandi er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Samkvæmt gögnum málsins hófst haustönn 2010 í námi kæranda í september 2010 og teljast því sex mánuðir áður en nám kæranda hófst á haustönninni frá mars 2010 til og með ágúst 2010. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra skilaði kærandi ekki inn tryggingagjaldi fyrir ágústmánuð 2010. Samkvæmt d-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, sbr. einnig 1. mgr. 13. gr. a ffl., getur kærandi því ekki talist hafa verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst um haustið 2010, sbr. undanþáguákvæði 11. mgr. 19. gr. ffl. Þá verður heldur ekki séð af gögnum málsins að tilvik kæranda falli undir liði a-d í 2. mgr. 13. gr. a ffl.

Í 12. mgr. 19. gr. ffl. er kveðið á um undanþágu þess efnis að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Kærandi stundaði nám sem fyrr greinir frá september til desember 2010 en barn kæranda fæddist síðan þann Y. desember 2010. Í tilviki kæranda eru því ekki uppi þær aðstæður að ákvæði 12. mgr. 19. gr. ffl. eigi við.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta