Mál nr. 30/2012
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 8. janúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 30/2012.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málavextir eru þeir Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 17. febrúar 2010, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 1. febrúar 2010 hafnað umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli d-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem hann hafi ekki óbundið leyfi til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana. Til þess að hafa óbundna heimild sé átt við að útlendingar verði að hafa varanlegt atvinnuleyfi á Íslandi. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 21. febrúar 2012. Kærandi krefst endurskoðunar á ákvörðuninni. Hann tekur fram að sér hafi verið sagt upp störfum í desember 2011 hjá B., hann hafi verið búsettur hér á landi í 11 ár og greitt hafi verið tryggingagjald af launum hans. Honum hafi verið sagt upp störfum án fyrirvara og hafi hann ekki fengið laun sín uppgerð að fullu. Við uppsögnina hafi atvinnuleyfið fallið úr gildi og hafi greiðslu atvinnuleysisbóta verið hafnað á þeim grundvelli. Kærandi sé í virkri atvinnuleit en hafi ekki fengið vinnu.
Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar, í bréfi til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. maí 2012, að ákvörðun stofnunarinnar hafi verið tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 17. febrúar 2010. Í ljósi þess að kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sé dagsett 21. febrúar 2012 telji Vinnumálastofnun að þriggja mánaða kærufrestur sé liðinn og að vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
2.
Niðurstaða
Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi sem var móttekið 21. febrúar 2012. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli d-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistrygginga þar sem hann hefur ekki óbundið leyfi til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana var tekin 1. febrúar 2010 og tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 17. febrúar 2010. Kæran barst því að liðnum kærufresti.
Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufrestum og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Úrskurðarorð
Kæru A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson