Mál nr. 9/2022 - Úrskurður
KÆRUNEFND HÚSAMÁLA
ÚRSKURÐUR
uppkveðinn 7. apríl 2022
í máli nr. 9/2022
A
gegn
B ehf.
Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögfræðingur og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur.
Aðilar málsins eru:
Sóknaraðili: A.
Varnaraðili: B ehf.
Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að endurgreiða tryggingarfé að fjárhæð 85.000 kr.
Með kæru, dags. 27. janúar 2022, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 2. febrúar 2022, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð barst ekki frá varnaraðila, þrátt fyrir ítrekaða beiðni kærunefndar þar um.
I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning frá 1. desember 2021 um leigu sóknaraðila á herbergi varnaraðila að C. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár.
II. Sjónarmið sóknaraðila
Sóknaraðili segir að hann hafi sótt um leiguherbergi hjá varnaraðila og hann ákveðið að taka tiltekið herbergi. Hann hafi verið að bíða eftir fjárhagsaðstoð en hnökrar hafi orðið á því ferli þar sem hann hafi ekki verið með virkan bankareikning, rafræn skilríki og fleira. Leigusamningur hafi verið undirritaður 1. desember og varnaraðili sagt að gæti bæjarfélagið ábyrgst að greiðsla væri væntanleg á næstu dögum væri í lagi að undirrita og afhenda lykla. Það hafi ekki gengið eftir og hafi þá verið rætt um að bíða í einn til tvo daga og vona að greiðsla kæmi frá fjárhagsaðstoðinni næstu daga. Þann 3. desember hafi sóknaraðili greitt leigu að fjárhæð 85.000 kr. og tryggingu sömu fjárhæðar. Sóknaraðili hafi farið í herbergið þann dag en þá hafi varnaraðili verið búinn að leigja það öðrum.
Varnaraðili hafi boðið sóknaraðila annað herbergi í Reykjavík sem hann hafi hafnað. Starfsmaður bæjarfélagsins hafi pressað á varnaraðila að finna lausn þar sem mikið hafi legið á að koma sóknaraðila í húsnæði. Til staðar hafi verið herbergi fullt af drasli og með brotnum glugga og hafi verið beðið um að það yrði lagað sem fyrst svo að sóknaraðili gæti þá flutt inn í það. Það hafi gengið hægt en fundið hafi verið annað herbergi í Hafnarfirði með mun betri aðstöðu og hafi verið ákveðið að hætta við herbergi varnaraðila þar sem glugga hafi meðal annars átt að laga með spónaplötu. Óskað hafi verið eftir endurgreiðslu en varnaraðili hafi synjað því vegna mikils ómaks við þetta ferli og héldi því eftir tryggingarfénu en endurgreiddi leiguna.
III. Niðurstaða
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir kærunefnd og verður því úrlausn málsins byggð á þeim gögnum og sjónarmiðum sem sóknaraðili hefur lagt fyrir nefndina.
Aðilar undirrituðu leigusamning 1. desember 2021. Sóknaraðili lagði fram tryggingarfé að fjárhæð 85.000 kr. þann 3. desember 2021 en þann sama dag komst hann að því að herbergið hefði verið leigt öðrum.
Í 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að leigusali megi ekki ráðstafa tryggingarfé eða taka af því án samþykkis leigjanda nema fyrir liggi endanleg niðurstaða um bótaskyldu leigjanda. Þó sé leigusala jafnan heimilt að ráðstafa tryggingarfénu til greiðslu á vangoldinni leigu, bæði á leigutímanum og við lok hans.
Í 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga segir að leigusali skuli svo fljótt sem verða megi og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðis gera leigjanda skriflega grein fyrir því hvort hann geri kröfu í tryggingarfé samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. eða hafi uppi áskilnað um það, sbr. einnig 1. mgr. 64. gr. Hafi leigusali ekki gert kröfu samkvæmt 1. málsl. skuli hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt vöxtum án ástæðulauss dráttar og skal hann greiða leigjanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er fjórar vikur eru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hann skilar tryggingarfénu. Ákvæði 5. mgr. kveður á um að geri leigusali kröfu í tryggingarféð innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðisins samkvæmt 4. mgr. skuli leigjandi tilkynna leigusala skriflega hvort hann hafni eða fallist á kröfuna innan fjögurra vikna frá móttöku kröfunnar. Jafnframt segir að hafni leigjandi kröfu leigusala beri honum að vísa ágreiningi um bótaskyldu leigjanda til kærunefndar húsamála eða höfða mál um bótaskyldu hans innan fjögurra vikna frá þeim degi er leigjandi hafnaði kröfunni, ella skuli hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt vöxtum án ástæðulauss dráttar.
Engin gögn liggja fyrir sem styðja það að varnaraðili hafi gert skriflega kröfu í tryggingarfé sóknaraðila. Þegar af þeirri ástæðu ber honum að endurgreiða tryggingarféð að fjárhæð 85.000 kr. ásamt vöxtum, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, frá þeim degi sem tryggingarféð var lagt fram en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi er fjórar vikur voru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hann skilar tryggingarfénu, sbr. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Þar sem sóknaraðili fékk ekki lykla að hinu leigða telur kærunefnd að miða beri útreikning dráttarvaxta við fjórar vikur frá þeim degi sem tryggingarféð var lagt fram, þ.e. 3. desember 2021, og reiknast dráttarvextir því frá 1. janúar 2022.
Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 7. mgr. 85. gr. laganna eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðila ber að endurgreiða sóknaraðila tryggingarfé að fjárhæð 85.000 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, frá þeim degi sem tryggingarféð var lagt fram til 1. janúar 2022 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.
Reykjavík, 7. apríl 2022
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson Eyþór Rafn Þórhallsson