Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 38/2012

Mánudaginn 10. febrúar 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 14. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. febrúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 20. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 16. mars 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. mars 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 52 ára. Hann er einhleypur og á þrjú uppkomin börn. Hann býr í 60 fermetra leiguhúsnæði að B götu nr. 2 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er atvinnulaus. Mánaðarlega fær hann útborgaðar að meðaltali 96.174 krónur í atvinnuleysisbætur og 40.000 krónur í húsaleigubætur. Alls eru ráðstöfunartekjur kæranda því 136.174 krónur á mánuði að meðaltali.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til þess er embætti tollstjóra fór fram á gjaldþrotaskipti á búi hans árið 2007. Um nokkurra ára skeið fyrir þann tíma hafi verið í gildi greiðslusamningur milli kæranda og tollstjóra en tollstjóri hafi fellt samningin niður einhliða. Afleiðingar gjaldþrotsins fyrir kæranda hafi verið umtalsverðar. Hann hafi ekki lengur getað staðið í skilum með skuldir sínar, hann hafi misst allt sem hann átti, þar með talið búseturétt sinn hjá Búseta og bifreið. Á þessum tíma hafi kærandi verið í námi sem hann hafi orðið að hætta. Kærandi hafi orðið atvinnulaus haustið 2010 og hafi það aukið enn á fjárhagserfiðleika hans.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 34.197.683 krónur og falla 17.774.472 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þær skuldir sem falla utan samnings um greiðsluaðlögun eru námslán að fjárhæð 1.014.444 krónur, meðlagsskuldir að fjárhæð 11.979.000 krónur, skattsekt að fjárhæð 2.101.767 krónur og virðisaukaskattskuld að fjárhæð 1.328.000 krónur. Alls falla því 16.423.211 krónur utan samnings. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2000 til 2011.

Kærandi lagði fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 18. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. febrúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að kærunefndin fari þess á leit við umboðsmann skuldara að embættið taki mál hans fyrir að nýju og þá á réttum forsendum. Verður að skilja málatilbúnað kæranda á þann veg að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi skilji ekki hvers vegna umboðsmaður skuldara hafi ekki farið fram á skýringar á þeim atriðum sem umboðsmaður telji að komi í veg fyrir greiðsluaðlögun. Kveðst kærandi hafa fullnægjandi skýringar á þessum atriðum.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Í ákvæðinu sé það tekið fram að við mat á því skuli taka sérstakt tillit til atvika sem talin séu upp í stafliðum ákvæðisins.

Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Ákvæðið hafi verið túlkað svo í framkvæmd að kröfur sem séu vegna opinberra gjalda eða greiðslna í sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu eða samtryggingar falli þar undir. Hafi þessi túlkun verið staðfest með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Í málinu liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á kæranda. Þannig nemi skuldir sem kærandi hafi stofnað til með háttsemi er varði refsingu 3.687.368 krónum en það séu skattsekt og vanskil á vörslusköttum. Telja verði þessa fjárhæð út af fyrir sig allháa. Kærandi gæti þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 vegna vanskila sinna á þessum sköttum. Einnig hvíli á kæranda skuld að fjárhæð 1.960.274 krónur vegna ógreiddra lífeyrissjóðsiðgjalda en í 2. gr. laga um söfnunarsjóð lífeyrisréttinda nr. 155/1998 sé kveðið á um skyldu til greiðslu iðgjalds. Gæti kærandi þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 55. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nemi skuldir kærenda 34.197.683 krónum en fjárhagur hans sé mjög þröngur vegna mikilla skulda og mjög lágra tekna. Eina eign kæranda sé bifreiðin X sem sé verðlaus samkvæmt skattframtali. Verði því að telja eignir kæranda óverulegar að teknu tilliti til skulda. Fjárhæð virðisaukaskattskuldar kæranda verði að teljast verulega há. Kröfur vegna opinberra gjalda séu 45,3% af heildarskuldum kæranda. Þyki því ófært að líta þannig á að skuldirnar séu smávægilegar með hliðsjón af fjárhag kæranda.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þar sem óhæfilegt þyki að veita hana hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum hafi framast verið unnt. Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Í málinu liggi fyrir að langstærstur hluti skulda kæranda sé vegna vanskila á opinberum gjöldum, meðlagi og launatengdum gjöldum, en skuldir þessar nemi samtals 26.261.564 krónum. Þyki ljóst að sú háttsemi kæranda að standa ekki skil á þessum skuldbindingum ráði mestu um slæma fjárhagsstöðu hans. Þegar fjárhagslegar ráðstafanir kæranda séu virtar í heild og einkum þegar horft sé til óhóflegrar skuldasöfnunar hans með vangreiðslu fyrrnefndra skulda þyki rétt að horfa til sjónarmiða sem búi að baki f- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Það sé mat umboðsmanns skuldara, meðal annars með hliðsjón af úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 13/2011 og 25/2011, að eðli og fjárhæðir skulda kæranda séu með þeim hætti að óhæfilegt sé að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d- og g-liða.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Þær skuldbindingar sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru skuld vegna virðisaukaskatts samtals að fjárhæð 1.328.000 krónur frá árunum 2005 og 2007 og skuld vegna skattsektar yfirskattanefndar frá 2002 að fjárhæð 2.101.767 krónur. Sektin var lögð á vegna vanskila á virðisaukaskatti vegna áranna 1995, 1996, 1997 og 1999.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu en fyrir liggur að kærandi hefur hlotið skattsekt vegna vanskila sinna. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem virðisaukaskattskyldan aðila.

Að því er varðar virðisaukaskattskuld frá árunum 2005 og 2007 verður að líta til ákvæða d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sem hafa verið skilin svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Með því að láta hjá líða að skila virðisaukaskatti hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um liðlega 34.000.000 króna. Skuld sem kærandi hefur stofnað til með framangreindri háttsemi, þ.e. ógreiddur virðisaukaskattur að fjárhæð 1.380.000 krónur og skattsekt að fjárhæð 2.101.767 krónur, nemur alls 3.429.767 krónum eða 10,1% af heildarskuldum hans. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Í kæru tekur kærandi fram að hann hafi fullnægjandi skýringar á þeim atriðum sem leitt hafi til synjunar umboðsmanns skuldara á beiðni hans um heimild til greiðsluaðlögunar. Kærandi gerir enga grein fyrir þessum skýringum í kæru og hann hefur heldur ekki komið þeim á framfæri við kærunefndina við meðferð málsins. Verður því ekki á þessari málsástæðu kæranda byggt.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kæranda þannig að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta