Hoppa yfir valmynd

Nr. 466/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 6. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 466/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18100003

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 2. október 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. september 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna, og 2. mgr. 36. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 7. júní 2018. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 28. júní 2018, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 11. september 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 18. september 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 2. október 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 9. október 2018, ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn frá kæranda þann 26. október sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Ungverjalandi, en hann hefði lagt fram ungverskt flóttamannavegabréf með gildistíma til 16. júní 2018. Kærandi hefði m.a. borið fyrir sig að flóttamannavegabréf sitt væri útrunnið en fyrirliggjandi heimildir bæru með sér að alþjóðleg vernd í Ungverjalandi væri veitt ótímabundið, þó að kveðið væri á um kerfisbundna endurskoðun mála á þriggja ára fresti. Að mati Útlendingastofnunar væri ekkert sem benti til þess að einstaklingar með alþjóðlega vernd þar ættu í vandræðum með að fá skilríki sín endurnýjuð.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var komist að þeirri niðurstöðu að 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur aftur til Ungverjalands. Útlendingastofnun mat aðstæður kæranda slíkar að hann væri ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Það var einnig mat stofnunarinnar að 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ætti ekki við í máli kæranda. Var umsókn kæranda um alþjóðlega vernd því synjað um efnismeðferð, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Þá kom fram að hann skyldi fluttur til Ungverjalands.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann tilheyri þjóðernisminnihluta í [...] og hafi alla tíð átt erfitt sökum þess. Hann hafi m.a. verið frelsissviptur við 15 ára aldur og verið [...]. Þá kveður kærandi að hann hafi dvalið í Ungverjalandi í u.þ.b. tvö ár og upplifað þar fordóma og kynþáttahatur. Hann hafi dvalið í flóttamannabúðum þar í landi fyrstu sex mánuðina. Aðstæður í búðunum hafi verið slæmar en fæði og húsnæði hafi verið eina þjónustan sem kærandi hafi fengið. Eftir að kærandi hafi hlotið alþjóðlega vernd í Ungverjalandi hafi hann þurft að yfirgefa búðirnar og hvorki notið húsaskjóls né framfærslu frá yfirvöldum. Þá hafi hann ekki haft aðgang að heilbrigðiskerfinu og félagsþjónustan hafi tjáð honum að hann þyrfti að sjá um sig sjálfur. Jafnframt hafi hann verið inntur eftir því hvað hann væri að gera í Ungverjalandi og honum hafi verið ráðlagt að sækja um vernd annars staðar í Evrópu.

Þá vísar kærandi til umfjöllunar í greinargerð sinni til Útlendingastofnunar, dags. 12. júlí 2018, um aðstæður og réttindi einstaklinga með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi, þ. á m. varðandi húsnæðisvanda, heilbrigðismál, framfærslu, aðgengi að atvinnu og opinber viðhorf stjórnvalda til flóttamanna. Kærandi bendi á að einstaklingar með alþjóðlega vernd séu viðkvæmur þjóðfélagshópur vegna stöðu sinnar, oft engu síður en umsækjendur um alþjóðlega vernd. Því sé engin ástæða til að greina þar sérstaklega á milli við mat á því hvort skilyrðum 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sé fullnægt eður ei. Í því sambandi vísar kærandi einkum til aðstæðna einstaklinga með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi. Þá vísar kærandi, til stuðnings málsástæðum sínum, til tilskipana Evrópusambandsins nr. 2011/95/EB og nr. 2013/33/EB.

Til stuðnings kröfu sinni um efnismeðferð vísar kærandi einkum til 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga, 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en kærandi telji ótækt að beita a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í máli hans.

Þá byggir kærandi á því að taka skuli mál hans til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi í því sambandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu, laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016, lögskýringargagna að baki breytingarlögunum og úrskurða kærunefndar útlendingamála, m.a. nr. 550/2017 og 552/2017, frá 10. október 2017, og nr. 581/2017, 583/2017 og 586/2017, frá 24. október 2017. Kærandi telji að viðkvæm staða hans geri hann enn berskjaldaðri fyrir erfiðum aðstæðum í Ungverjalandi, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Kærandi vísar jafnframt til úrskurða kærunefndar útlendingamála nr. 387/2018 og 389/2018 frá 27. september sl. Framangreind mál hafi varðað endursendingar tveggja manna sem hafi hlotið alþjóðlega vernd í Ungverjalandi. Hafi kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að sérstakar ástæður, í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, væru uppi í málunum og að rétt væri að taka umsóknir kærenda til efnismeðferðar hér á landi. Kærunefnd hafi byggt niðurstöðu sína á heildstæðu mati á aðstæðum kærenda og fyrirliggjandi gögnum um stöðu einstaklinga með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi. Það hafi verið mat nefndarinnar að kærendur myndu eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar á grundvelli kynþáttar og gætu vænst þess að staða þeirra yrði verulega síðri en almennings í viðtökuríki, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Kærandi telji stöðu sína sambærilega stöðu kærenda í framangreindum málum.

Að endingu kveður kærandi að skv. fyrirliggjandi landaupplýsingum verði vernd hans í Ungverjalandi endurskoðuð þar sem skilríki hans séu útrunnin. Því sé óljóst hvort hann hljóti áframhaldandi vernd þar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt alþjóðleg vernd í Ungverjalandi þann 11. apríl 2016. Eru því skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi einstakling sem nýtur alþjóðlegrar verndar aftur til ríkisins sem hefur veitt honum slíka vernd, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður í viðtökuríki brjóti í bága við 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Verður kærunefnd því að leggja mat á hvort aðstæður í viðtökuríki brjóti í bága við ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar. Þá þarf að líta til stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Meta verði fyrirsjáanlegar afleiðingar af því að vísa einstaklingi til móttökuríkis í ljósi almennra aðstæðna í ríkinu og persónulegra aðstæðna viðkomandi einstaklings.

Greining á hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Kærandi er einhleypur og barnlaus karlmaður á [...]. Kvað kærandi í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hann væri líkamlega heilsuhraustur. Þá kvað kærandi að andlegt heilsufar hans væri ágætt en hann glímdi við ótta og hræðslu við fordóma og kynþáttahatur. Þá hefði hann verið frelsissviptur við 15 ára aldur og honum [...] en hann endurupplifði atburðinn í sífellu og glímdi við afleiðingar hans. Í framlögðum komunótum frá Göngudeild sóttvarna kemur m.a. fram að kærandi glími við svefnörðugleika og hafi verið ávísað [...]. Þá hafi hann leitað til sálfræðings í tvígang frá komu hingað til lands.

Þótt frásögn kæranda beri með sér að hann sé þolandi [...] og annars ofbeldis telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að hann hafi sérþarfir sem taka þurfi tillit til við meðferð máls hans eða að hann geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt og uppfyllt skyldur án aðstoðar eða sérstaks tillits. Í ljósi þess og annarra gagna málsins er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður í Ungverjalandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Ungverjalandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Report to the Hungarian Government on the visit to Hungary carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) from 20 to 26 October 2017 (Council of Europe, 18. september 2018);
  • Migration and Asylum: Commission takes further steps in infringement procedures against Hungary (European Commission, 19. júlí 2018);
  • ECRI conclusions on the implementation of the recommendations in respect of Hungary subject to interim follow-up (European Commission against Racism and Intolerance, 15. maí 2018);
  • 2017 Country Reports on Human Rights Practices - Hungary (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);
  • Freedom in the World 2018 – Hungary (Freedom House, 1. mars 2018);
  • Asylum Information Database National Country Report: Hungary (European Council on Refugees and Exiles, febrúar 2018);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Hungary (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Hungary‘s Government Strengthens its Anti-NGO Smear Campaign (Human Rights Watch, 20. janúar 2018);
  • World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);
  • Integration of Refugees in Greece, Hungary and Italy: Comparative Analysis (European Parliament, desember 2017);
  • Hungary: Definition of hate crime according to Hungarian law; recourse available to victims (2015-March 2017) (Immigration and Refugee Board of Canada, 29. mars 2017);
  • Asylum in Hungary: Damaged Beyond Repair? ECRE‘s call for states to end transfers to Hungary under Dublin and bilateral arrangements (European Council on Refugees and Exiles, 2017);
  • Hungary: Legal amendments to detain all asylum-seekers a deliberate new attack on the rights of refugees and migrants (Amnesty International, 9. mars 2017);
  • Ungarn: Situasjonen for personer med beskyttelse (Landinfo, 30. ágúst 2016);
  • Hungary as a country of asylum: Observations on restrictive measures and subsequent practice implemented between July 2015 and March 2016 (UNHCR, maí 2016);
  • Hungary Immigration Detention Profile (Global Detention Project, september 2016);
  • Progress Report mid-2016. Beyond Detention: A Global Strategy to support governments to end the detention of asylum-seekers and refugees, 2014-2019 (UN High Commissioner for Refugees, ágúst 2016);
  • Hungary: Locked Up for Seeking Asylum (Human Rights Watch, 1. desember 2015);
  • ECRI Report on Hungary (European Commission against Racism and Intolerance, 9. júní 2015);
  • Description of the Hungarian Asylum System (European Asylum Support Office, 18. maí 2015);
  • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his Visit to Hungary from 1 to 4 July 2014 (Council of Europe, 16. desember 2014) og
  • Fréttir af af vefsíðu Sameinuðu þjóðanna (https://news.un.org/en/story/2018/06/1012722 og https://news.un.org/en/story/2012/02/403402-un-experts-speak-out-against-hungarian-law-criminalizing-homelessness).

Samkvæmt ofangreindum skýrslum og gögnum fá einstaklingar með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi ekki útgefin dvalarleyfi heldur ungversk skilríki. Þá sætir alþjóðleg vernd kerfisbundinni endurskoðun á þriggja ára fresti. Útgáfa framangreindra skilríkja tekur a.m.k. einn mánuð frá því að ákvörðun um veitingu verndar hefur verið tekin. Flóttamenn mega dvelja í móttökumiðstöðvum í 30 daga eftir að ákvörðun hefur verið tekin. Séu þeir skilríkjalausir reynist þeim erfitt að afla atvinnu og húsnæðis. Öflun ótímabundins dvalarleyfis og ríkisborgararéttar í Ungverjalandi er erfiðleikum bundin fyrir flóttamenn m.a. vegna skilyrða á borð við framvísun gilds vegabréfs og ungverskukunnáttu. Flóttamenn fá útgefin ferðaskilríki og njóta ferðafrelsis í Ungverjalandi en frjáls félagasamtök og kirkjur halda úti gistiskýlum í Búdapest. Því dvelja flestir flóttamenn í höfuðborginni. Í skýrslu gagnagrunns Evrópuráðsins um flóttamenn og landflótta einstaklinga, Asylum Information Database, kemur m.a. fram að árið 2016 hafi ungversk stjórnvöld ákveðið að binda enda á úrræði á borð við húsnæði og uppihald sem ætlað var að styðja við aðlögun flóttamanna að ungversku samfélagi. Sem fyrr segir hafa flóttamenn þó haft aðgang að endurgjaldslausri gistingu á vegum félagasamtaka og kirkna. Í samanburðargreiningu á vegum Evrópuþingsins um aðlögun flóttamanna í Grikklandi, Ungverjalandi og á Ítalíu (e. Integration of refugees in Greece, Hungary and Italy: Comparative Analysis) frá desember 2017 kemur m.a. fram að öfugt við grísk og ítölsk yfirvöld hafi ungversk yfirvöld lagt kapp á að takmarka aðgerðir og stuðning til handa flóttamönnum. Því séu frjáls félagasamtök í landinu afar mikilvæg þessum hópi. Þá kemur fram í ofangreindum gögnum að í júní sl. hafi ungverska þingið samþykkt löggjöf sem geri það að verkum að lögmenn, ráðgjafar, sjálfboðaliðar og aðrir sem aðstoði m.a. umsækjendur um alþjóðlega vernd geti átt yfir höfði sér fangelsisrefsingu. Þá hafi ungverskum skattalögum verið breytt á þá leið að 25% skattur skuli lagður á starfsemi frjálsra félagasamtaka sem snúi að stuðningi við innflytjendur.

Flóttamenn í Ungverjalandi hafa aðgang að vinnumarkaðnum en glíma þó við ýmsar hindranir m.a. vegna tungumálaörðugleika. Því standa margir flóttamenn í reynd frammi fyrir atvinnuleysi og heimilisskorti í Ungverjalandi. Þá geta þeir átt yfir höfði sér refsingu fyrir að hafast við á götunni. Flóttamenn í Ungverjalandi hafa, að sex mánuðum liðnum frá veitingu verndar, aðgang að heilbrigðisþjónustu til jafns við ungverska ríkisborgara en fram að því njóta þeir sömu réttinda og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þeir glíma þó við fjölda hindrana við nýtingu þjónustunnar m.a. vegna tungumálaörðugleika, þekkingarleysis á ungverskum lögum og stjórnsýslu og mismununar af hálfu opinberra starfsmanna, þ.m.t. lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks.

Af framangreindum gögnum má ráða að á síðustu árum hafi umsóknum um alþjóðlega vernd í Ungverjalandi fjölgað verulega en í kjölfarið hefur orðið vart við óþol og hatursorðræðu gagnvart þessum hópi, svo og flóttamönnum og innflytjendum. Hatursglæpir (e. violence against a community) og hatursorðræða eru refsiverð skv. ungverskum hegningarlögum en eftirfylgni með löggjöfinni skortir. Í skjóli þess refsileysis sem viðgengst í málaflokknum hefur hatursorðræða rutt sér til rúms á opinberum vettvangi og ofbeldi gegn innflytjendum, umsækjendum um alþjóðlega vernd og flóttamönnum hefur aukist til muna.

Af framangreindum skýrslum verður ráðið að ungversk yfirvöld hafa átt við margvíslegan vanda að etja við móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd og hefur hæliskerfið í Ungverjalandi verið harðlega gagnrýnt, þ. á m. óhófleg beiting varðhalds gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lagst gegn endursendingum umsækjenda til Ungverjalands en ekki endursendingum þeirra sem þegar hafa hlotið vernd í landinu.

Samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er bann við meðferð sem fer gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu fortakslaust en meðferð verður þó að fullnægja lágmarkskröfu um alvarleika til að teljast brot gegn 3. gr. sáttmálans. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lagt til grundvallar að þó svo að efnahagsstaða einstaklings versni við frávísun eða brottvísun frá aðildarríki sáttmálans sé slíkt eitt og sér ekki fullnægjandi til að uppfylla grundvallarkröfu um þann alvarleika sem 3. gr. sáttmálans geri kröfu um, þ.e. þar sem ekki sé um að ræða sérstaklega sannfærandi mannúðaraðstæður sem mæli gegn flutningi einstaklings, sbr. ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Aðstæður kæranda hafa þegar verið raktar. Kærandi kveður m.a. að hann hafi hafst við á götunni í Ungverjalandi og ekki notið framfærslu frá ungverskum yfirvöldum. Þá hafi hann ekki fengið heilbrigðisaðstoð eða tungumálakennslu. Enn fremur hafi hann upplifað misþyrmingar, niðurlægingu, mismunun og fordóma af hálfu samborgara sinna. Hann hafi m.a. verið laminn og tilkynnt verknaðinn til lögreglu, sem hafi ekkert aðhafst í málinu. Kemur frásögn kæranda að mestu leyti heim og saman við heimildir um aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi sem kærunefnd hefur kynnt sér.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga er fjallað um mat á því hvort taka eigi umsókn til efnislegrar meðferðar hér á landi vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, og eru ákveðin viðmið þar nefnd í dæmaskyni. Er þar m.a. átt við þau tilvik þegar umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, s.s. ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Þá er jafnframt vísað til þess ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Aðstæður einstaklinga sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í Ungverjalandi hafa verið raktar. Eins og þar kemur fram hafa einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd að mestu sambærileg réttindi að lögum og ungverskir ríkisborgarar. Aftur á móti liggur fyrir að ýmsar hindranir eru á því að þeir geti sótt þessi réttindi. Gögn málsins bera með sér að yfirvöld í Ungverjalandi hafi ekki gripið til aðgerða til að reyna að draga úr þessum hindrunum heldur þvert á móti unnið að því að takmarka möguleika umsækjenda um alþjóðlega vernd til aðlögunar. Lýsa þessar takmarkanir sér m.a. í skerðingu á þjónustu við umsækjendur og refsivæðingu þess að hafast við á götunni, svo og aðgerðum sem er ætlað að draga úr möguleikum frjálsra félagasamtaka til að aðstoða einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd til að njóta nauðsynlegrar heilbrigðis- og félagsþjónustu. Að mati kærunefndar leiða þessir samverkandi þættir til þess að líta verði svo á staða einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd, sem eru af öðrum kynþætti en almenningur í Ungverjalandi og hafa ekki aðlagast þar, sé verulega síðri en staða almennings þar í landi.

Með tilliti til uppruna kæranda og með hliðsjón af upplýsingum um þær aðstæður sem bíða hans í Ungverjalandi er það mat kærunefndar að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar á grundvelli kynþáttar og hann geti vænst þess að staða hans verði verulega síðri en almennings í viðtökuríki, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að í máli kæranda séu fyrir hendi sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að fyrir liggi að ungversk stjórnvöld hafi þegar veitt kæranda alþjóðlega vernd er það mat kærunefndar að rétt sé að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á aðstæðum kæranda og fyrirliggjandi gögnum um stöðu einstaklinga sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í Ungverjalandi.

Athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar

Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar vísar hann m.a. til úrskurðar kærunefndar í máli nr. 552/2017 frá 10. október 2017, er varðaði einstakling með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi. Var það niðurstaða kærunefndar í málinu, í ljósi uppruna kæranda og með hliðsjón af upplýsingum um þær aðstæður sem biðu hans í Ungverjalandi, að kærandi myndi eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki sökum mismununar vegna kynþáttar og aðstæðna hans sem einstaklings með alþjóðlega vernd þar. Um framkvæmd kærunefndar í málum einstaklinga með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi vísast einnig til úrskurða nefndarinnar nr. 581/2017, 583/2017 og 586/2017, frá 24. október 2017, og úrskurða nr. 387/2018 og 389/2018, frá 27. september 2018.

Af stöðu og hlutverki kærunefndar útlendingamála gagnvart Útlendingastofnun leiðir að úrskurðir nefndarinnar eru bindandi sem fordæmi fyrir stofnunina. Á grundvelli jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eiga aðilar mála hjá Útlendingastofnun jafnframt rétt á því að mál þeirra fái sambærilega úrlausn og meðferð og sambærileg mál sem hafa fengið úrlausn kærunefndar útlendingamála, þ.m.t. að matskenndum lagaheimildum sé beitt með sama hætti við úrlausn sambærilegra mála. Í 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga segir að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati skal í rökstuðningi greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. skal einnig, þar sem ástæða er til, rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Þá leiðir af 22. gr. stjórnsýslulaga að stjórnvaldi ber að svara þeim meginmálsástæðum sem aðili færir fram í málinu.

Í ljósi ofangreindrar framkvæmdar kærunefndar í málum einstaklinga með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi, sem lá fyrir við ákvörðunartöku Útlendingastofnunar í máli kæranda og hann tefldi fram til stuðnings einni meginmálsástæðu sinni í greinargerð til stofnunarinnar, er að mati kærunefndar ekki í samræmi við framangreindar reglur að í ákvörðun stofnunarinnar sé hvergi rökstutt af hverju Útlendingastofnun taldi framangreinda úrskurði, þ.e. þá sem voru kveðnir upp fyrir ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun, ekki hafa fordæmisgildi í málinu.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Það er þó mat kærunefndar að endurtekin málsmeðferð, þar sem að nýju yrði lagt mat á það hvort rétt sé að synja umsókn kæranda um efnismeðferð á grundvelli 36. gr. laga um útlendinga, kæmi til með að vera mjög íþyngjandi fyrir kæranda.

Líkt og áður greinir er það því niðurstaða nefndarinnar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                             Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta