Mál nr. 9/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 9/2016
Miðvikudaginn 16. nóvember 2016
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, móttekinni 18. janúar 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. desember 2015 um að stöðva örorkulífeyrisgreiðslur til hennar og krefja hana um endurgreiðslu ofgreiddra örorkulífeyrisgreiðslna.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með örorkumati Tryggingastofnunar, dags. 1. júní 2003, var kærandi metin með tímabundna örorku. Hefur endurmat farið reglulega fram síðan. Síðast var örorka kæranda metin fyrir tímabilið 1. júní 2014 til 30. júní 2019 og var niðurstaða þess mats 75% örorka. Með bréfi, dags. 22. maí 2015, óskaði Tryggingastofnun ríkisins eftir aðstoð Þjóðskrár þar sem kærandi væri ekki rétt skráð í Þjóðskrá. Í bréfinu kemur fram að samkvæmt Þjóðskrá sé kærandi skráð með lögheimili að B. Við eftirlit hjá Tryggingastofnun hafi vaknað grunur um að kærandi væri búsett í C. Var farið þess á leit við Þjóðskrá að kanna hvort lögheimili kæranda væri rétt miðað við ofangreindar upplýsingar. Niðurstaða Þjóðskrár var að kærandi væri búsett í D.
Með bréfi, dags. 28. október 2015, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda að samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hafi lögheimili hennar verið flutt frá Íslandi þann 22. maí 2015. Samkvæmt 12. gr. laga um almannatryggingar væri búseta á Íslandi eitt af skilyrðum fyrir greiðslum almannatrygginga. Engir milliríkjasamningar væru við D. Allar greiðslur til kæranda yrðu stöðvaðar 1. desember 2015 og var kæranda veittur þrjátíu daga frestur til andmæla. Með bréfi, dags. 1. desember 2015, var kæranda tilkynnt um stöðvun greiðslna. Í bréfinu kemur meðal annars fram að engin andmæli hafi borist frá kæranda og væri hún því krafin um endurgreiðslu frá gildistíma flutnings í Þjóðskrá sem hafi verið 22. maí 2015. Bótaréttur ársins hafi því verið endurreiknaður og myndast hafi krafa að fjárhæð 517.248 kr.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 18. janúar 2016. Með bréfi, dags. 1. febrúar 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 15. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. febrúar 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. september 2016, var kæranda gefinn kostur á að upplýsa um búsetu sína á tímabilinu frá 22. maí 2015 til 20. október 2015 og leggja fram gögn því til stuðnings. Athugasemdir ásamt gögnum bárust frá kæranda með tölvubréfi þann 30. september 2016. Gögnin voru send Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 10. október 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í kæru en af málatilbúnaði hennar má ráða að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Í kæru kemur fram að kærandi sé öryrki og hafi undanfarin ár, frá ágúst 2009, verið búsett ýmis í C eða á Íslandi. Hún hafi verið mikið fram og til baka vegna barna sinna og skólagöngu þeirra. Eins og margir aðrir hafi hún og þáverandi eiginmaður hennar misst húsið sitt og bú hennar hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta vegna þess, en hún var skráð á Íslandi á þeim tíma.
Tryggingastofnun ríkisins hafi nú stöðvað greiðslur til hennar og sé að krefja hana um greiðslur frá því í maí á síðasta ári. Sem standi sé hún stödd í D og hafi verið þar síðan 20. október 2015 af heilsufarslegum ástæðum, en muni fara aftur til C á næstunni. Hún sé nú einstæð þar sem hún hafi skilið við fyrrverandi eiginmann sinn á síðasta ári. Þetta séu því einu tekjurnar sem hún hafi og þær dugi skammt.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að innra eftirliti stofnunarinnar hafi borist ábending um að kærandi væri búsett í C. Tryggingastofnun hafi sent Þjóðskrá Íslands bréf, dags. 22. maí 2015, þar sem óskað hafi verið eftir því að lögheimili kæranda yrði kannað. Rannsókn Þjóðskrár hafi leitt í ljós að kærandi væri búsett í D.
Í kjölfar búsetubreytingar hjá Þjóðskrá hafi Tryggingastofnun upplýst kæranda, með bréfi, dags. 28. október 2015, að greiðslur yrðu stöðvaðar 1. desember 2015 þar sem kærandi væri flutt til D.
Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 1. desember 2015, hafi kærandi verið upplýst um að enginn milliríkjasamningur um almannatryggingar væri við D, en einstaklingur sem flytji búsetu sína frá Íslandi teljist ekki tryggður nema annað leiði af milliríkjasamningum.
Tryggingastofnun greiði út lífeyri til þeirra einstaklinga sem séu í tryggingum og með lögheimili hér á landi, sbr. 4. gr. laga um almannatryggingar. Einnig greiði stofnunin lífeyri til þeirra einstaklinga sem hafi búsetu í þeim löndum sem Ísland hafi gert samning við, sbr. 68. gr. laganna. Enginn samningur um almannatryggingar sé á milli Íslands og D.
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um almannatryggingar ákvarði Tryggingastofnun sjálfstætt hvort einstaklingur teljist tryggður hér á landi eða ekki. Einstaklingur teljist tryggður hafi hann búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, en með búsetu sé átt við skráningu á lögheimili samkvæmt lögheimilislögum nr. 21/1990, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um almannatryggingar. Einstaklingar sem flytji búsetu sína frá Íslandi teljist ekki tryggðir nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um almannatryggingar.
Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá skuli Tryggingastofnun halda sérstaka skrá um tryggingaréttindi einstaklinga. Skráin skuli vera til viðbótar við Þjóðskrá. Jafnframt segi í 17. gr. að lífeyrisþegar sem taki upp búsetu innan Evrópska efnahagssvæðisins eigi rétt á að halda skráningu sinni sem tryggðir hjá almannatryggingum. Þá ákvarði Tryggingastofnun hvort einstaklingur teljist tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar og áðurnefndri reglugerð, sbr. 20. gr. reglugerðarinnar.
Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að ákvörðun stofnunarinnar um að stöðva greiðslur kæranda og synja um áframhaldandi greiðslur hafi verið rétt. Ísland hafi ekki gert samning um almannatryggingar við D, sbr. 68. gr. laga um almannatryggingar, en Tryggingastofnun sé eingöngu heimilt að greiða lífeyrisgreiðslur til þeirra landa sem Ísland hafi gert samninga við á sviði almannatrygginga.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. desember 2015, um að stöðva örorkulífeyrisgreiðslur til kæranda og krefja hana um endurgreiðslu ofgreiddra örorkulífeyrisgreiðslna með þeim rökum hún hafi ekki verið búsett á Íslandi frá 22. maí 2015.
Í þágildandi 12. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar var fjallað um þá sem tryggðir voru samkvæmt lögunum. Greinin hljóðaði svo:
„Sá sem búsettur er hér á landi telst tryggður, sbr. þó 29. gr., að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum.
Með búsetu skv. 1. mgr. er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga.
Tryggingastofnun ríkisins eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt lögunum. Um málskot fer skv. 7.–9. gr.“
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Ákvæði laganna um lögheimili hafa verið skýrð svo að lögheimili manns og raunverulegur dvalarstaður færu að jafnaði saman.
Samkvæmt þágildandi 58. gr. laga um almannatryggingar greiðir Tryggingastofnun bótaþegum, búsettum í þeim ríkjum sem ríkisstjórn hefur gert samninga við eða ráðherra hefur samið við með stoð í 68. gr., sömu bætur og viðkomandi hefði átt rétt á hefði hann verið búsettur hér á landi. Greiðslur almannatrygginga falla því niður við brottflutning til landa sem enginn samningur hefur verið gerður við um almannatryggingar. Ekki er í gildi samningur milli Íslands og D um almannatryggingar.
Samkvæmt upplýsingum frá kæranda bjó hún í D frá október 2015 til apríl 2016. Tryggingastofnun heldur því hins vegar fram að kærandi hafi verið búsett í D frá 22. maí 2015, en það er í samræmi við dagsetningu skráningar flutnings kæranda í Þjóðskrá líkt og liggur fyrir í gögnum málsins.
Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 20. september 2016, var kæranda gefinn kostur á að upplýsa um búsetu sína á tímabilinu frá 22. maí 2015 til 20. október 2015 og leggja fram gögn því til stuðnings, t.d. opinbera staðfestingu um búsetu, húsaleigusamning, flugmiða og/eða upplýsingar um þjónustu sem hún hefði nýtt sér í viðkomandi landi. Með tölvubréfi þann 30. september 2016 greindi kærandi frá því að hún hefði verið búsett í C á framangreindu tímabili en hún hafi þó farið til D til þess að láta mála íbúð sem hún hafi átt með fyrrverandi eiginmanni sínum og til þess að hitta dóttur sína. Hún hafi skilið við eiginmann sinn í X 2015 og eftir það flutt tímabundið til D. Meðfylgjandi tölvubréfinu voru upplýsingar úr flugmiðum og fram kemur að kærandi telji þá sýna að hún hafi farið til D í maí og aftur heim til C í júlí. Þá sé flugmiði frá því hún hafi flutt heim til Íslands í apríl 2016.
Óumdeilt er í máli þessu að kærandi var búsett í D frá október 2015. Ágreiningur málsins lýtur hins vegar að því hvar kærandi var búsett á tímabilinu frá X 2015 til X 2015. Þjóðskrá Íslands rannsakaði búsetu kæranda á framangreindu tímabili og komst að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði verið búsett í D, meðal annars með hliðsjón af upplýsingum frá kæranda sjálfri og upplýsingum sem aflað var á netinu. Kærandi hefur lagt fram upplýsingar úr flugmiðum sem styðja að kærandi hafi flogið frá E til D þann X 2015 og til baka þann X 2015. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru framangreind gögn ekki nægjanleg til þess að sýna fram á að kærandi hafi verið búsett í C á umdeildu tímabili. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því enga ástæðu til að vefengja þá niðurstöðu Þjóðskrár Íslands að kærandi hafi verið búsett í D frá 22. maí 2015.
Í ljósi þess að kærandi var búsett í D telur úrskurðarnefnd velferðarmála að Tryggingastofnun hafi verið heimilt að stöðva örorkulífeyrisgreiðslur til hennar þann 1. desember 2015, sbr. þágildandi 12. og 58. gr. laga um almannatryggingar. Enn fremur telur úrskurðarnefndin að Tryggingastofnun ríkisins hafi borið að endurkrefja kæranda um ofgreiddar örorkulífeyrisgreiðslur frá 22. maí 2015 með vísan til 55. gr. laganna.
Með hliðsjón af öllu framangreindu er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A, dags. 1. desember 2015, um að stöðva örorkulífeyrisgreiðslur til kæranda og krefja hana um endurgreiðslu ofgreiddra örorkulífeyrisgreiðslna er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir