Mál nr. 127/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 127/2016
Miðvikudaginn 16. nóvember 2016
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 31. mars 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. mars 2016, þar sem kæranda var synjað um barnalífeyri vegna náms aftur í tímann.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Þann 4. desember 2015, sótti kærandi um barnalífeyri vegna náms aftur í tímann. Með bréfi, dags. 18. mars 2016, tilkynnti Tryggingastofnun ríksins kæranda að eingöngu væri heimilt að greiða ungmenni á aldrinum 18 til 20 ára barnalífeyri vegna menntunar en skilyrði væri að viðkomandi væri í fullu námi hér á landi og námið væri hans aðalstarf. Þá væri einungis heimilt að greiða barnalífeyri tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn berist. Þar sem kærandi varð 20 ára árið 2013 væri ekki heimilt að greiða honum barnalífeyri vegna menntunar og var umsókn hans því synjað.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. apríl 2016. Með tölvubréfi sama dag óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 13. apríl 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að mál hans verði endurskoðað og að hann fái þann barnalífeyri sem hann eigi rétt á.
Hann hafi sótt um barnalífeyri vegna náms frá 18 til 20 ára til Tryggingastofnunar ríkisins í nóvember 2015, en umsókn hans hafi verið synjað. Hann hafi sent með umsókn sinni skólavottorð og það sem um hafi verið beðið. Faðir hans, B, hafi látist árið X.
Honum hafi ekki verið kunnugt um þann rétt sem hann hafi átt hjá Tryggingastofnun í tengslum við þennan barnalífeyri áður en hann varð tvítugur og þess vegna sótt um hann á síðasta ári. Hvorki móður hans né skólunum sem hann hafi verið í hafi verið kunnugt um þennan rétt hans og því hafi enginn sagt honum frá þessu.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að samkvæmt 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18 til 20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar séu látnir, enn fremur ef foreldrar séu ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir.
Í 4. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segi að bætur skuli aldrei ákvarða lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.
Þá segi í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 88/2015 að einnig skuli beita V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.
Kærandi hafi sótt um barnalífeyri vegna náms í gegnum „Mínar síður“ þann 4. desember 2015. Hann hafi skilað inn annars vegar skólavottorði frá C, sem hafi staðfest að hann hafi verið í námi við skólann á haustönn 2011 og í fjarnámi á vorönn 2015 og hins vegar skólavottorði frá D sem staðfesti að hann hafi stundað nám við skólann frá X 2012 til X 2013.
Þar sem skýrt sé kveðið á um í 3. gr. laga um félagslega aðstoð að barnalífeyri vegna náms skuli greiða ungmennum á aldrinum 18-20 ára, falli réttur ungmenna samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma sem 20 ára aldri sé náð. Kærandi hafi orðið 20 ára í X 2013 en hafi ekki sótt um barnalífeyri vegna náms fyrr en í desember 2015. Þar sem einungis sé heimilt að ákvarða bætur tvö ár aftur í tímann frá því að sótt sé um þær sé Tryggingastofnun ekki heimilt að greiða kæranda barnalífeyri vegna náms fyrir þann tíma sem hann hafi stundað nám frá 18 til 20 ára aldurs.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. mars 2016, þar sem kæranda var synjað um barnalífeyri vegna náms aftur í tímann.
Um barnalífeyri vegna náms er fjallað í 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. málsl. 3. gr. laga um félagslega aðstoð er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir eru látnir, enn fremur ef foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir.
Í 14. gr. laga um félagslega aðstoð kemur fram að ákvæði laga um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi. Ákvæði 2. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar hljóðaði svo þegar kærandi sótti um afturvirkan barnalífeyri vegna náms:
„Bætur, aðrar en slysalífeyrir, skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni.“
Samkvæmt gögnum málsins varð kærandi 20 ára þann X 2013. Þá liggur fyrir að hann sótti um barnalífeyri aftur í tímann 4. desember 2015. Frá því kærandi varð 20 ára og þar til hann sótti um barnalífeyri liðu því rúmlega tvö ár. Með vísan til framangreindra lagaákvæða er ljóst að Tryggingastofnun var ekki heimilt að ákvarða kæranda barnalífeyri svo langt aftur í tímann.
Í ljósi þess sem framan greinir er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. mars 2016 um að synja A, um barnalífeyri er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir