Mál nr. 30/2010. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 8. febrúar 2011
í máli nr. 30/2010:
Heflun ehf.
gegn
Vegagerðinni
Með bréfi, dags. 30. nóvember 2010, kærði Heflun ehf. ákvörðun Vegagerðarinnar um val á tilboði í útboðinu „Vetrarþjónusta 2010-2014 Rangárvallasýsla og Flói“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:
· „Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar í stað umrætt innkaupaferli á grundvelli ofangreinds útboðs í samræmi við 1. mgr. 96. gr. OIL þar til endanlega hefur verið skorið úr öllum kröfum kæranda.
· Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kærða þess efnis að ganga til samninga við Þjótanda ehf. sbr. heimild í 1. málslið 1. mgr. 97. gr. OIL.
· Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála beini því til kærða að heimila kæranda að leggja fram frekari skýringar við framkomin gögn og/eða andmæla frávísun hans frá útboðsferlinu sbr. heimild í 2. málslið 1. mgr. 97. gr. OIL.
Fallist kærunefnd útboðsmála ekki á allt framangreint er þess krafist að:
· kærunefnd útboðsmála beini því til kærða að bjóða út umrædd innkaup að nýju sbr. heimild í 2. málslið 1. mgr. 97. gr. OIL.
· Í öllum tilfellum krefst kærandi þess að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda. Ennfremur krefst kærandi þess að nefndin ákveði að kærði greiði kæranda kostnað hans við að hafa kæruna uppi, alls 420.000 kr.“
Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir vali á tilboði. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Með bréfum, dags. 3. desember og 16. desember 2010, krafðist kærði þess að kærunni yrði vísað frá en annars að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerð kærða, með bréfi dags. 17. janúar 2011.
Með ákvörðun, dags. 7. desember 2010, hafnaði kærunefnd útboðsmála þeirri kröfu kæranda að stöðva samningsgerð í kjölfar útboðsins „Vetrarþjónusta 2010-2014 Rangárvallasýsla og Flói“.
Með tölvupósti, dags. 1. febrúar 2011, sendi kærandi viðbótargögn til nefndarinnar: yfirlýsingu frá Lífeyrissjóði Rangæinga, dags. 31. janúar 2011. Yfirlýsingin hljóðar svo:
„Staðfesti hér með góð samskipti við forráðamann Heflunar ehf. á undanförnum árum. Samkomulag og tryggingar eru í gildi varðandi greiðslur iðgjalda, samkomulag sem unnið er eftir. Í ljósi ofangreinds og með vísan í umrætt samkomulag telst því Heflun ehf. vera í skilum við Lífeyrissjóð Rangæinga.“
I.
Hinn 19. júlí 2010 auglýsti kærði útboðið „Vetrarþjónusta 2010-2014 Rangárvallasýsla og Flói“. Í kafla 1.1 segir m.a. um útboðið:
„Verkefnið felst í hreinsun á snjó og krapa af vegum, vegköntum, gatnamótum, áningastöðum, vigtarplönum og öðrum þeim mannvirkjum sem tilheyra veginum svo og hálkuvörn á vegyfirborði ásamt færðargreiningu. Tíðni og framkvæmd aðgerða í vetrarþjónustu skal vera samkvæmt gildandi reglum um snjómokstur og vetrarþjónustu.
Útboð þetta innifelur a.m.k. 15 klst. daglega þjónustu, snjómokstur og hálkuvörn. Verktaki skal hafa að lágmarki 2 vörubíla á vakt ásamt þeim mannafla sem þarf til að ganga vaktir til að uppfylla kröfur samkvæmt snjómokstursreglum.“
Áætlað kostnaðarverð samningsins er 19.900.000 kr. á ári. Innkaupin voru ekki boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu.
Kærandi var meðal þeirra sem gerðu tilboð í útboðinu. Hinn 27. ágúst 2010 tilkynnti kærði að hann hefði ákveðið að ganga til samninga við kæranda í kjölfar útboðsins. Þjótandi ehf. kærði þá ákvörðun til kærunefndar útboðsmála. Með ákvörðun í máli kærunefndar útboðsmála nr. 24/2010, dags. 21. september 2010, stöðvaði kærunefnd útboðsmála samningsgerð kærða og kæranda. Með úrskurði í sama máli, dags. 18. nóvember 2010, felldi kærunefnd útboðsmála úr gildi ákvörðun kærða um að semja við kæranda í kjölfar útboðsins. Úrskurður í máli nr. 24/2010 byggði á því að kærandi hafði ekki lagt fram staðfestingu um að félagið væri ekki í vanskilum með lífeyrissjóðsiðgjöld. Af þeim sökum komst kærunefnd útboðsmála að þeirri niðurstöðu að kærða hafði verið óheimilt að semja við kæranda. Í kjölfar úrskurðarins sendi kærði bréf til kæranda, dags. 22. nóvember 2010, þar sem sagði m.a.:
„Ákveðið hefur verið að leita samninga við Þjótanda ehf. á grundvelli tilboða. Ákvörðun um að leita samninga um verkið er án skuldbindingar og með fyrirvara skv. 1. mgr. 76. gr. laga um opinber innkaup [...]“
II.
Kærandi telur að fjárhæð hinna kærðu innkaupa hafi verið umfram þau viðmið sem sett eru í reglugerð nr. 229/2010 og því hafi myndast skylda samkvæmt X. kafla laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, til þess að bjóða út á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt ákvæðum laganna. Það hafi hins vegar ekki verið gert og útboðið beri að ógilda af þeirri ástæðu.
Þá telur kærandi einnig að kærði hafi hafnað tilboði kæranda án þess að veita andmælarétt eða gefa kæranda tækifæri til að skýra framkomin gögn. Vísar kærandi þar í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meginreglur stjórnsýsluréttar og 53. og 54. gr. laga nr. 84/2007.
III.
Kærði telur að kæra hafi komið of seint fram enda hafi kæranda verið kunnugt um það allt frá birtingu útboðsauglýsingar, hinn 19. júlí 2010, að ekki yrði boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Kærði telur að hin kærðu innkaup séu verkframkvæmd samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 84/2007 og að ekki hafi verið skylda til að bjóða verkið út á Evrópska efnahagssvæðinu enda séu viðmiðunarfjárhæðir vegna verkframkvæmda 649.230.000 krónur. Þá telur kærandi að það falli utan verksviðs nefndarinnar að leysa úr álitaefnum sem varða stjórnsýslulög og góða stjórnsýsluhætti.
IV.
Kærandi byggir á því að innkaupin hefði átt að bjóða út á Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, skal kæra borin undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Í athugasemdum við 94. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 84/2007 er m.a. tekið fram að í opinberum innkaupum sé oft og tíðum sérlega mikilvægt að ekki sé fyrir hendi óvissa um gildi tiltekinna ákvarðana, jafnvel þótt vera kunni að ákvarðanir séu ólögmætar. Af ummælum í athugasemdunum má ráða að ætlast sé til þess að kærufrestur verði túlkaður þröngt og upphaf hans miðað við fyrsta mögulega tímamark. Útboðið „Vetrarþjónusta 2010-2014 Rangárvallasýsla og Flói “ var auglýst hinn 19. júlí 2010 og með hliðsjón af framangreindu var frestur liðinn til að bera undir kærunefnd útboðsmála meint brot á útboðsskyldu á Evrópska efnahagssvæðinu.
Í kafla 2.2.2 í útboðinu „Vetrarþjónusta 2010-2014 Rangárvallasýsla og Flói “ kom skýrt fram að kærandi skyldi leggja fram tiltekin gögn. Kærandi lagði ekki fram tilskilin gögn og kærða bar engin skylda til að beina því til kæranda að leggja þau fram enda var áskilnaður útboðsgagnanna skýr og það er meginregla opinberra innkaupa að bjóðendur bera sjálfir ábyrgð á tilboðum sínum. Kærunefnd útboðsmála hefur enda þegar leyst úr því með úrskurði í máli nr. 24/2010 að tilboð kæranda hafi verið haldið ágalla að þessu leyti. Kærandi gerði ekki reka að því að leggja fram umrædd gögn við meðferð máls nr. 24/2010, þar sem kæranda var gefinn kostur á að koma að sínum sjónarmiðum. Hinn 1. febrúar 2011 barst kærunefnd útboðsmála bréf með yfirlýsingu frá Lífeyrissjóði Rangæinga, dags. 31. janúar 2011. Bréfið ber ekki skýrlega með sér að kærandi hafi verið í skilum við lífeyrissjóðinn þegar tilboðsfrestur útboðsins rann út, en auk þess er yfirlýsingin allt of seint fram komin enda átti hún að fylgja með upphaflegu tilboði kæranda.
Af framangreindum ástæðum telur kærunefnd útboðsmála að kærði hafi ekki brotið lög um opinber innkaup og því beri að hafna öllum kröfum kæranda.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda, Heflunar ehf., um að kærunefnd útboðsmála ógildi ákvörðun kærða, Vegagerðarinnar, um að ganga til samninga við Þjótanda ehf. í útboðinu „Vetrarþjónusta 2010-2014 Rangárvallasýsla og Flói“, er hafnað.
Kröfu kæranda, Heflunar ehf., um að kærunefnd útboðsmála beini því til kærða, Vegagerðarinnar, að heimila kæranda að leggja fram frekari skýringar við framkomin gögn og/eða andmæla frávísun hans frá útboðsferli „Vetrarþjónustu 2010-2014 Rangárvallasýsla og Flói“, er hafnað.
Kröfu kæranda, Heflunar ehf., um að kærunefnd útboðsmála beini því til kærða, Vegagerðarinnar, að bjóða að nýju út „Vetrarþjónustu 2010-2014 Rangárvallasýsla og Flói“, er hafnað.
Það er álit kærunefndar útboðsmála að kærði, Vegagerðin, sé ekki skaðabótaskyld gagnvart kæranda, Heflun ehf., vegna kostnaðar kæranda við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboðinu „Vetrarþjónusta 2010-2014 Rangárvallasýsla og Flói“.
Kröfu kæranda um að kærði, Vegagerðin, greiði kæranda, Heflun ehf., kostnað við að hafa kæruna uppi, er hafnað.
Reykjavík, 8. febrúar 2011.
Páll Sigurðsson
Auður Finnbogadóttir
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, febrúar 2011.