Mannanafnanefnd, úrskurðir 9. febrúar 2011
Mál nr. 8a/2011 Eiginnafn: Kristofer
Hinn 9. febrúar kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 8a/2011 en erindið barst nefndinni 27. janúar:
Með úrskurði í máli nr. 124/1997, dags. 22. desember 1997, var beiðni um eiginnafnið Kristofer hafnað þar sem ritháttur þess væri ekki í samræmi við ritreglur íslensks máls, sbr. 5. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn.
Samkvæmt gögnum Þjóðskrár Íslands eru aðstæður nú breyttar að því leyti að nafnið hefur öðlast hefð í skilningi vinnulagsreglna mannanafnanefndar en nú eru 10 karlar skráðir með eiginnafnið Kristofer.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Kristofer (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
Mál nr. 8b/2011 Eiginnafn: Stapi
Hinn 9. febrúar 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 8b/2011 en erindið barst nefndinni 27. janúar:
Eiginnafnið Stapi (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Stapa, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Stapi (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
Mál nr. 9/2011 Eiginnafn: Einína
Hinn 9. febrúar 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 9/2011 en erindið barst nefndinni 8. febrúar:
Eiginnafnið Einína (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Einínu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Einína (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
Mál nr. 11/2011 Eiginnafn: Berni
Hinn 9. febrúar 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 11/2011 en erindið barst nefndinni 8. febrúar:
Eiginnafnið Berni (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Berna, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Berni (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
Mál nr. 12/2011 Eiginnafn: Patricia
Hinn 9. febrúar 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 12/2011 en erindið barst nefndinni 8. febrúar:
Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.
Í máli þessu reynir á skilyrði nr. þrjú hér að ofan. Ritháttur nafnsins Patricia (kvk.) getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Bókstafurinn c er ekki í íslensku stafrófi og rithátturinn Patricia getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur. Á nafnið er því aðeins heimilt að fallast ef umbeðinn ritháttur þess telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.
Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:
1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
b. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
c. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
d. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.
2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
3. Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Samkvæmt gögnum Þjóðskrár eru 13 konur skráðar með eiginnafnið Patricia sem uppfylla skilyrði vinnulagsreglnanna og er sú elsta fædd árið 1941. Því telst vera hefð fyrir rithættinum Patricia.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Patricia (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
Mál nr. 13/2011 Eiginnafn: Dóris
Hinn 9. febrúar 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 13/2011 en erindið barst nefndinni sama dag:
Eiginnafnið Dóris (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Dórisar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Dóris (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
Mál nr. 71/2010B Eiginnafn: Reykdal
Þjóðskrá framsendi með tölvubréfi, dags. 6. janúar 2011, erindi xx þar sem gerðar eru athugasemdir við og mótmælt niðurstöðu mannanafnanefndar í úrskurði nr. 71/2010, þar sem synjað var beiðni um eiginnafnið Reykdal (kk.). Erindi þetta var tekið fyrir á fundi mannanafnanefndar 21. janúar en afgreiðslu þess var frestað. Erindið er á ný tekið fyrir á fundi nefndarinnar 9. febrúar og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður.
Í niðurlagi bréfs xx kemur fram að hann telji fordæmi fyrir eiginnafninu Reykdal og hafi hann því talið rökrétt að nafnið ætti að vera leyft og fært á mannanafnaskrá þar sem nýjar upplýsingar varðandi nafnið og ástæðu höfnunar liggi nú fyrir. Mannanafnanefnd lítur svo á að í erindi xx felist beiðni um endurupptöku máls, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í úrskurði mannanafnanefndar nr. 71/2010 þar sem beiðni um eiginnafnið Reykdal var synjað kemur fram að upplýst hafi verið að á árinu 1994 hafi 18 karlar og 27 konur borið nafnið sem ættarnafn en 10 karlar og 8 konur hafi borið nafnið sem eiginnafn. Þá hafi verið til 5 karlar sem borið hafi kenninafnið Reykdalsson. Í úrskurðinum er tekið fram að þetta leiði til þess að nafnið Reykdal eigi nokkra sögu í íslensku sem eiginnafn. Upplýsingar sem fram koma í erindi xx og tilvísun til þess að nafnið hafi verið notað með þessum hætti hér á landi, þ.e. sem eiginnafn, eru því ekki nýjar. Þær koma þegar fram í fyrri úrskurði mannanafnanefndar.
Samkvæmt þessu var úrskurður mannanafnefndar nr. 71/2010 hvorki byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik né byggðist hann á atvikum sem hafa breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Skilyrði til endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru því ekki fyrir hendi.
Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann mannanafnanefnd eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Skylda til slíks veltur þó, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Ekkert er fram komið um að slíkur ágalli hafi verið á fyrri úrskurði nefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Beiðni xx frá 6. janúar 2011 um endurupptöku úrskurðar mannanafnanefndar í máli nr. 71/2010 er hafnað.
Mál nr. 10/2011 Eiginnafn: Maía
Hinn 9. febrúar 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 10/2011 en erindið barst nefndinni 8. febrúar:
Eiginnafnið Maía (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Maíu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Maía (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
Mál nr. 7/2010B Eiginnafn: Kjárr
Hinn 9. febrúar kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 7/2011B en málið barst nefndinni 1. febrúar 2011:
Þegar um almennt eiginnafn er að ræða, og ekki reynir á nafnrétt manna af erlendum uppruna, eins og hér er, verður nafn að fullnægja skilyrðum 5. gr. laga um mannanöfn. Í því ákvæði segir svo:
„Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.“
Í 1. mgr. ákvæðisins koma fram þrjú skilyrði sem nafn skal fullnægja. (1) Nafn má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Þessi regla er án undantekninga. (2) Nafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu. Undantekningu frá þessu skilyrði má gera ef nafn hefur unnið sér hefð í íslensku máli. (3) Nafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Undantekningu frá þessu skilyrði má gera ef hefð er fyrir öðrum rithætti þess.
Rithátturinn Kjárr (kk.) fullnægir öllum ofangreindum skilyrðum nema því síðastgreinda. Litið hefur verið svo á að sá ritháttur, sem sótt er um í máli þessu, að nafnið endi á –rr, sé ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Á 14. öld er talið að „langt r“ í bakstöðu (þ.e. aftast í orði) hafi styst í áherslulitlum endingum og á eftir löngu sérhljóði (s.s. ó og á). Dæmi: Ragnarr > Ragnar, stórr > stór. Slík orð eru ævinlega rituð með einu r-i skv. stafsetningu nútímamáls.
Af þessu leiðir að niðurstaða um það hvort rétt sé að fallast á ritháttinn Kjárr veltur á því hvort hann teljist hefðaður, í skilningi 5. gr. laga um mannanöfn.
Túlkun mannanafnefndar á hugtakinu hefð, bæði í 5. og 6. gr. mannanafnalaga, styðst við eftirfarandi vinnureglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og byggðar eru á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum:
1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
b. Það er nú borið af 10‑14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
c. Það er nú borið af 5‑9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
d. Það er nú borið af 1‑4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703‑1910.
2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
3. Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Samkvæmt 3. lið tilvitnaðra reglna getur nafn m.a. talist hefðað ef það kemur fyrir í alkunnum ritum. Mannanafnanefnd hefur að vísu litið svo á að ritháttur teljist vart hefðaður í þessum skilningi séu eingöngu til um hann dæmi í forníslensku. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að í fornum ritum er stafsetning með ýmsu móti og hún er ekki samræmd eins og nú er. Hins vegar þarf einnig í þessu sambandi að hafa í huga hvort rithátturinn Kjárr (kk.) teljist hefðaður á grundvelli þess að hann komi fram í öðrum alkunnum ritum en hinum fornu ritum sjálfum, þ.e. síðari tíma útgáfum þeirra sem telja má alkunnar hér á landi.
Eiginnafnið Kjárr (kk.) kemur t.d. fyrir, með þeim rithætti, í alþekktri útgáfu Íslendingasagnaútgáfunnar á Snorra-Eddu (Edda Snorra Sturlusonar 1949:235). Með hliðsjón af því er hægt að líta svo á að rithátturinn sé hefðaður í skilningi 3. lið vinnulagsreglna mannanafnanefndar, sbr. 5. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn.
Fallist er á beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Kjárr (kk.). Nafnið beygist svo: Kjárr - Kjár - Kjár - Kjárs. Til leiðbeiningar skal tekið fram að framburður nafnsins er sá sami í nefnifalli og þolfalli, rétt eins og Héðinn (nefnifall) er borið fram eins og Héðin (þolfall).
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Kjárr (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.