Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 143/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 17. febrúar 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 143/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að A, sótti um atvinnuleysisbætur með rafrænni umsókn sem staðfest var skriflega þann 26. febrúar 2010. Umsóknin var tekin fyrir á tveimur fundum hjá Vinnumálastofnun, annars vegar þann 26. mars 2010 og hins vegar þann 6. apríl 2010. Með ákvörðuninni frá 26. mars 2010 var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafnað með vísan til c-liðar 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún væri í námi. Með ákvörðun frá 6. apríl 2010 var umsókn kæranda um námssamning / undanþágu vegna háskólanáms hafnað. Kærandi vildi ekki una þessum niðurstöðum og kærði þær til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dagsettu 4. ágúst 2010, mótteknu 5. ágúst 2010. Vinnumálastofnun telur að þriggja mánaða kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra kæranda kom fram og að vísa beri málinu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Kærandi telur að Vinnumálastofnun hafi brotið jafnræðisregluna við meðferð máls hennar og sé því full ástæða til aðkomu úrskurðarnefndarinnar að málinu þrátt fyrir að kærufrestur hafi verið liðinn þegar hún skaut málinu til nefndarinnar.

Fram kemur í kæru kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að hún hafi fengið upplýsingar sem vakið hafi efasemdir um að rétt hafi verið staðið að málum varðandi synjun um atvinnuleysisbætur og um gerð námssamnings. Hafi hún í framhaldinu ákveðið að kæra úrskurð Vinnumálastofnunar þótt kærufrestur væri liðinn. Umræddar upplýsingar snúi að því að sæki námsmaður um atvinnuleysisbætur beri að skoða námshlutfall hans sérstaklega, sé það svo lágt að það uppfylli ekki skilyrði til að vera lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Sé það í samræmi við undantekningarreglu 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem tekið hafi gildi árið 2009. Meistaranám í skattarétti sé byggt upp með tilliti til þess að fólk geti stundað vinnu meðfram námi, enda hafi flestir samnemendur kæranda jafnframt í fullu starfi. Um áramótin 2009–2010 hafi kærandi átt 10 ECTS einingar eftir, sem sé um 33% námshlutfall, en fullt nám sé 30 ECTS einingar og hafi hún ekki þurft að sækja neinar kennslustundir. Hún hafi því átt möguleika á að þiggja fullt starf. Kærandi tekur fram að hún hafi verið í virkri atvinnuleita þann tíma sem liðinn er frá upphaflegri umsókn hennar um atvinnuleysisbætur og geti hún lagt fram gögn þar að lútandi.

Kærandi vísar í kærunni til niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerð í máli nr. 124/2009 sem kærandi telji að sé sambærilegt máli hennar. Í því máli hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að kærandi ætti rétt til atvinnuleysisbóta. Kærandi telur að mál hennar hefði átt að fá sambærilega meðferð og úrlausn enda sé það í samræmi við 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í ljósi þessa óskar kærandi eftir því að úrskurður Vinnumálastofnunar verði felldur úr gildi og umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur verði staðfest frá og með 24. febrúar 2010. Til vara óskar kærandi eftir því að umsóknin verði látin gilda frá og með þeim tíma sem sanngjarn þykir í ljósi aðstæðna.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 18. nóvember 2010, kemur fram að ákvörðun stofnunarinnar í máli nr. 124/2009 hafi verið tekin á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, áður en breyting á ákvæði 52. gr. laganna hafi tekið gildi, sbr. lög nr. 134/2009. Með tilkomu laga nr. 134/2009 hafi réttur námsmanna til að stunda nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga verið skertur. Verði ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar eftir að kærufrestur sé liðinn og telur Vinnumálastofnun að ekki sé nauðsynleg frekari aðkoma úrskurðarnefndarinnar að máli þessu.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 16. desember 2010. Kærandi sendi úrskurðarnefndinni bréf, dags. 15. desember 2010, ásamt frekari gögnum.

 

2.

Niðurstaða

Hinar kærðu ákvarðanir voru samkvæmt gögnum málsins teknar annars vegar 26. mars 2010 og hins vegar 6. apríl 2010. Kæran er dagsett 4. ágúst 2010 og var móttekin 5. ágúst 2010. Þegar kæran barst var hinn þriggja mánaða kærufrestur því liðinn, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða ef veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Úrskurðarorð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta