Hoppa yfir valmynd

Nr. 40/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. janúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 40/2021

í stjórnsýslumálum nr. KNU21010020 og KNU21010021

 

Beiðni [...], [...] og barns þeirra um endurupptöku

I. Málsatvik

Þann 13. ágúst 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 20. febrúar 2020, um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir nefnd K), [...], fd. [...], ríkisborgara Gana (hér eftir nefndur M), og barni þeirra, [...], fd. [...], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir nefndur A), um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 17. ágúst 2020. Þann 24. ágúst 2020 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og þann 31. ágúst 2020 barst kærunefnd greinargerð kærenda. Beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði nefndarinnar í málum nr. KNU20080013 og KNU20080014, dags. 8. september 2020. Þann 15. janúar 2021 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 13. ágúst 2020 ásamt fylgiskjali.

Beiðni kærenda um endurupptöku máls þeirra byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kærenda

Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem þau telja að atvik hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar í málum þeirra hafi verið kveðinn upp og að ákvörðun í málum þeirra hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum.

Í beiðni kærenda um endurupptöku er vísað til þess að í úrskurði nefndarinnar í málum kærenda sé byggt á því að kærendur og barn þeirra séu almennt heilsuhraust. Kærendur telja að umræddar forsendur sem komi fram í úrskurði nefndarinnar séu rangar og vísa til læknisvottorðs meltingarlæknis hjá Landspítalanum, dags. 11. janúar 2021, máli sínu til stuðnings. Af fyrrgreindu vottorði megi sjá að heilsufar K sé bágborið og vísa kærendur m.a. til þess að uppvinnsla hafi leitt í ljós að um sjálfsofnæmislifrarbólgu (e. autoimmune hepatitis) sé að ræða. Þá komi einnig fram að undir engum kringumstæðum megi rjúfa þá meðferð sem hafin sé hér á landi og að framkvæmd brottvísunar á þessu stigi kunni að stefna heilsu og/eða lífi K í hættu. Kærendur vísa til þess að um nýjar upplýsingar sé að ræða og eftir atvikum breyttar aðstæður og að fullyrðing kærunefndar þess efnis að heilsufar fjölskyldunnar sé gott standist ekki skoðun. Kærendur vísa til þess að K þjáist af alvarlegum og lífshættulegum sjúkdómi og sé um þessar mundir að undirgangast meðferð til að snúa við þróun sem geti leitt til lifrarbilunar og dauða. Sú forsenda að heilsufar kærenda sé almennt gott sé því bersýnilega röng og af þeirri ástæðu beri að endurupptaka mál kærenda.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku á því að úrskurður í málum þeirra hafi verið byggður á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin og að ákvörðun hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum. Kærendur vísa í því sambandi til framlagðs læknisvottorðs, dags. 11. janúar 2021, þar sem m.a. kemur fram að K hafi verið greind með sjálfsofnæmislifrarbólgu.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í málum kærenda þann 13. ágúst 2020. Með úrskurði var komist að þeirri niðurstöðu að kærendur uppfylltu ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kærenda í heimaríkjum þeirra væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærendur lögðu fram þann 15. janúar sl. ný gögn um heilsufar K og frekari rökstuðning fyrir kröfu þeirra um endurupptöku. Það er mat kærunefndar að fyrrgreindar upplýsingar um heilsufar K séu þess eðlis að líta verði svo á að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Kærunefnd horfir m.a. til þess að K hefur verið greind með alvarlegan sjúkdóm og hefur hafið meðferð hér á landi. Eru skilyrði fyrir endurupptöku á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga því uppfyllt.

Kærunefnd hefur lagt mat á aðstæður í Nígeríu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Medical and Healthcare issues (U.K. Home Office, janúar 2020);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Key socio-economic indicators (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • Nigeria: A pandemic and a weak health system (Good Governance Africa, 22. júlí 2020);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html) og
  • Covid-19 vefsíða nígerískra heilbrigðisyfirvalda (https://covid19.ncdc.gov.ng/).

Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2020 er heilbrigðiskerfinu í Nígeríu skipt í þrjú stig og skiptist jafnframt í opinberan- og einkageira. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins sé starfrækt á vegum sveitarfélaga, annað stig sé starfrækt á vegum ráðuneyta í hverju og einu fylki og þriðja stigið sé starfrækt á vegum alríkisins. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins feli í sér almenna heilbrigðisþjónustu fyrir borgara Nígeríu og fái jafnframt minnsta fjármagnið af stigunum þremur. Því sé almenn heilbrigðisþjónusta almennt illa skipulögð og innviðir hennar veikburða. Aðgengi sé þá ekki gott sökum skorts á heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki víða um Nígeríu. Þá sé lækniskostnaður almennt hár og aðgengi að lyfjum slæmt. Talið sé að allt að 60% íbúa Nígeríu hafi ekki haft fullnægjandi aðgang að lyfjum en aðgengi sé þó betra á þéttbýlli svæðum landsins. Heilbrigðisþjónusta sé fjórfalt aðgengilegri í þéttbýli heldur en í strjálbýli. Heilbrigðisþjónusta innan einkageirans sé almennt betri og skipulagðari en lækniskostnaður sé að meðaltali hærri en hjá opinbera geiranum. Þá komi fram að heilbrigðisþjónusta sé töluvert aðgengilegri í suðurhluta landsins en í norðurhluta þess.

Samkvæmt fyrrgreindri skýrslu séu engar sérhæfðar stofnanir sem bjóði upp á meðferð við lifrarbólgu en sérhæfðar deildir séu innan heilbrigðisstofnana á vegum ríkisins. Læknar séu á flestum ríkisreknum heilbrigðisstofnunum og þá starfi blóðmeinafræðingar í landinu. Meðferð við lifrarbólgu sé aðallega aðgengileg í þéttbýli en oft sé hún óaðgengileg viðkomandi sökum efnahagsstöðu. Samkvæmt skýrslu EASO frá nóvember 2018 sé tíðni lifrarbólgu há í landinu og auk þess sé hlutfall þeirra sem sæki meðferð við sjúkdómnum með því lægsta í Nígeríu af Afríkuríkjunum.

Ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í úrskurði kærunefndar frá 13. ágúst 2020 byggði K m.a. á því að hún eigi á hættu ofsóknir í heimaríki sem þolandi kynferðisofbeldis og mansals. M byggði á því að hann óttist ofsóknir í heimaríki vegna þess að honum beri skylda til að taka við höfðingjaembætti í heimabæ sínum. Eins og áður greinir komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að synja bæri kærendum og barni þeirra um alþjóðlega vernd á grundvelli 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í endurupptökubeiðni kærenda kemur ekkert fram sem breytt getur því mati nefndarinnar. Telur kærunefnd því að kærendur og börn þeirra hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til hagsmuna, öryggis, velferðar og félagslegs þroska barna kærenda. Þá hefur ekkert komið fram sem breytt getur niðurstöðu málsins að því er varðar 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Telur kærunefnd því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Kærunefnd horfir til þess að barnið A er í fylgd foreldra sinna og nýtur stuðnings þeirra.

Líkt og fram kemur í úrskurðum nefndarinnar frá 13. ágúst 2020 var það niðurstaða kærunefndar að kærendur hefðu ekki sýnt fram á aðstæður sem næðu því alvarleikastigi að þau og barn þeirra hefðu ríka þörf fyrir vernd skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Við það mat leit kærunefnd til hagsmuna barns kærenda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 25. gr. sömu laga.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur m.a. fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Til stuðnings beiðni um endurupptöku lögðu kærendur fram ný gögn um heilsufar K, læknisvottorð frá yfirlækni meltingarlækninga á Landspítalanum, dags. 11. janúar 2021. Þar kemur m.a. fram að K hafi leitað á bráðamóttöku þann 14. desember 2020 með tilvísun frá heilsugæslu vegna kviðverkja. Uppvinnsla hafi leitt í ljós að K sé með sjálfsofnæmislifrarbólgu en blóðrannsóknir, röntgenrannsóknir og lifrarsýni hafi sýnt fram á þá sjúkdómsgreiningu. K hafi verið sett í háskammta sterameðferð og þarfnist hún mikillar eftirfylgni með endurteknum blóðprufum í framtíðinni. Einnig muni á næstunni verða nauðsynlegt að bæta við annarri tegund af ónæmisbælandi meðferð með lyfinu Azathioprine. Án meðferðar muni sjálfsofnæmislifrarbólga leiða til lifrarbilunar og dauða úr bráðri lifrarbilun en einnig geti myndast skorpulifur, með fylgikvillum sem geti einnig leitt til dauða. Ef ekki takist að vinna á bólgunni geti þurft að gera lifrarígræðslu. Þá sé það mat læknisins að það sé mikilvægt að K haldi áfram í meðferð og sé undir stöðugu eftirliti. Þá megi ekki undir neinum kringumstæðum rjúfa þá meðferð sem sé hafin hér á landi.

Af framangreindu er ljóst að K hefur verið greind með sjálfsofnæmislifrarbólgu og er í meðferð við henni. Þá lítur kærunefnd til þess mats læknis að ekki sé forsvaranlegt að rjúfa þá meðferð sem K hefur hafið hér á landi. Að því virtu og í ljósi þess að um alvarlegan sjúkdóm er að ræða telur kærunefnd ekki forsvaranlegt að rjúfa nýhafna meðferð K hér á landi.

Þessar sérstöku aðstæður K eru að mati kærunefndar þess eðlis að K telst hafa sýnt fram á að hún hafi ríka þörf fyrir vernd, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á þeim aðstæðum sem bíða K í heimaríki. Við þetta mat hefur kærunefnd einnig litið til þess hvaða áhrif Covid-19 faraldurinn hefur haft á heilbrigðiskerfið í Nígeríu.

Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar verður því lagt fyrir Útlendingastofnun að veita kærendum og barni þeirra dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kærendum og barni þeirra dvalarleyfi skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á beiðni kærenda og barns þeirra um endurupptöku í málum þeirra.Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kærendum og barni þeirra dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barns þeirra varðandi umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd eru staðfestar.

The appellants and their child´s request for re-examination of their cases is granted.The Directorate of Immigration is instructed to issue residence permits for the appellants and their child based on Article 74 of the Act on Foreigners. The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their child related to their applications for international protection are affirmed.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                 Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta