Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 567/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 567/2022

Miðvikudaginn 18. janúar 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 5. desember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. desember 2022, um að synja kæranda um mæðralaun með þremur börnum.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslu mæðralauna með þremur börnum. Tryggingastofnun synjaði umsókn kæranda með bréfi, dags. 5. desember 2022, á þeim forsendum að eitt barna hennar væri ekki skráð með sama lögheimili og hún.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. desember 2022. Með bréfi, dags. 6. desember 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 29. desember 2022, tilkynnti Tryggingastofnun að fallist hafi verið á kröfu kæranda um mæðralaun með þremur börnum frá 1. október 2022 og óskaði stofnunin eftir frávísun málsins. Með bréfi, dags. 30. desember 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til bréfs Tryggingastofnunar. Með tölvupósti 30. desember 2022 tilkynnti kærandi að hún féllist ekki á beiðni Tryggingastofnunar um frávísun málsins.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé synjun á greiðslu mæðralauna með þremur börnum.

Með úrskurði Tryggingastofnunar þann 5. desember 2022 hafi kæranda verið synjað um greiðslu mæðralauna með þremur börnum frá 1. október 2022 á þeim forsendum að eitt barnanna hafi ekki opinbera skráningu lögheimilis hjá kæranda.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafi börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og séu búsett hér á landi. Ráðherra hafi sett reglugerð nr. 540/2002 um mæðra- og feðralaun. Í 1. gr. sé kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt, að fenginni umsókn, að greiða mæðra- og feðralaun þeim sem eigi lögheimili hér á landi. Skilyrði sé að foreldri hafi tvö eða fleiri börn yngri en 18 ára á framfæri sínu og að börnin séu búsett hér á landi hjá foreldri samkvæmt lögmætri skipan.

Með kærðri ákvörðun hafi Tryggingastofnun synjað kæranda um greiðslu mæðralauna með þremur börnum eingöngu á þeim grundvelli að eitt barnanna hafi ekki opinbera skráningu lögheimilis hjá henni heldur hjá föður sínum. Það liggi skýrt fyrir í úrskurði Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. nóvember 2022, sem hafi fylgt beiðni um greiðslu meðlags og mæðralauna með þremur börnum, að drengurinn búi hjá henni samkvæmt lögmætri skipan í skilningi barnalaga. Þess vegna hafi verið fallist á að hún gæti farið fram á meðlagsgreiðslur frá föður, þrátt fyrir opinbera skráningu lögheimilis hjá honum og fallist hafi verið á að hann ætti að greiða kæranda meðlag með barninu.

Hvorki ákvæði laga um félagslega aðstoð né ákvæði reglugerðar nr. 540/2002 kveði á um að opinber skráning lögheimilis sé forsenda fyrir greiðslu mæðralauna. Í framangreindri 1. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um það skilyrði að barn búi hjá foreldri samkvæmt lögmætri skipan sem sé opnara en svo að heimilt sé að synja greiðslum eingöngu á grundvelli opinberrar lögheimilisskráningar. Sýslumaður hafi kveðið upp úrskurð um að drengurinn búi hjá kæranda samkvæmt lögmætri skipan og falli því hans heimili undir ákvæðið. Sé því ljóst að kærandi hafði þrjú börn á sínu framfæri frá 1. október 2022 samkvæmt opinberri skráningu lögheimilis tveggja þeirra og samkvæmt lögmætri skipan í skilningi ákvæðis 1. gr. reglugerðar nr. 540/2002 eins þeirra en telja verði að hugtakið „lögmætri skipan“ í umræddu ákvæði reglugerðarinnar verði túlkað með sama hætti og í barnalögum.

Með vísan til framangreinds sé farið fram á að úrskurðanefnd velferðarmála breyti framangreindri niðurstöðu Tryggingastofnunar á þann veg að samþykkt verði greiðsla mæðralauna með þremur börnum frá 1. október 2022 til 31. desember 2022 en í þeim mánuði hafi elsta barnið orðið 18 ára og vísast í því sambandi til 6. gr. reglugerðar nr. 540/2002.

Í athugasemdum kæranda 30. desember 2022 kemur fram að í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram fallist hafi verið á kröfur hennar. Engar athugasemdir séu gerðar við þá afgreiðslu Tryggingastofnunar, enda sé þar með fallist á þær kröfur kæranda. 

Á hinn bóginn komi fram í greinargerðinni að það sé mat stofnunarinnar að ekki sé um að ræða ágreining um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna líkt og kveðið sé á um í 13. gr. laga um almannatryggingar og hafi stofnunin því farið fram á að málið verði fellt niður. Þeirri afstöðu stofnunarinnar sé harðlega mótmælt þar sem hér sé klárlega um að ræða grundvöll og skilyrði þess að fá greidd mæðralaun. Stofnunin hafi synjað kæranda um greiðslu mæðralauna þar sem eitt barna hennar hafi ekki verið með opinbera skráningu lögheimilis hjá kæranda, þrátt fyrir að það komi skýrt fram í úrskurði sýslumanns, sem hafi legið til grundvallar beiðni hennar, að barnið hefði búsetu hjá kæranda samkvæmt lögmætri skipan. Stofnunin hafi litið svo á að það væri skilyrði þess að kærandi fengi greidd mæðralaun vegna drengsins að hann hefði hjá henni opinberlega skráð lögheimili sem hún hafi kært með því máli sem hér sé til meðferðar. Kærandi hafi fært fram rök fyrir því að skilyrði fyrir greiðslu mæðralauna væri ekki opinber skráning lögheimilis heldur að það barn sem um ræði hafi búsetu hjá beiðanda greiðslanna samkvæmt lögmætri skipan sem sýslumaður hafi talið vera í hennar tilfelli. 

Þess sé krafist að málið verði ekki látið niður falla heldur verði kveðinn upp úrskurður þar sem málið eigi erindi við fleiri sem mögulega geti verið í sömu aðstæðum og kærandi og geti þannig vísað til úrskurðar þess efnis og þurfi ekki að fara í kæruferli. Gera megi ráð fyrir að um sé að ræða fordæmisgefandi niðurstöðu, hafi það verið afstaða Tryggingastofnunar að synja um greiðslu mæðralauna vegna þess að barn hafi ekki lögheimili hjá umsækjanda greiðslnanna. Ef svo sé, sé mikilvægt að birta úrskurð um þetta efni svo að það liggi fyrir að stofnunin hafi samþykkt kröfu kæranda. 

Með vísan til framangreinds sé þess því krafist að kveðinn verði upp úrskurður í málinu sem verði birtur fyrir aðra.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins segir að stofnunin hafi ákveðið að taka kröfur kæranda til greina og greiða henni mæðralaun frá 1. október 2022 með þremur börnum. Greiðsla fyrir tímabilið 1. október til 31. desember 2022 hafi átt sér stað.

Þar sem ekki verður séð að um sé að ræða ágreining um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna eins og kveðið sé á um í 13. gr. laga um almannatryggingar, fari Tryggingastofnun fram á að mál þetta verði fellt niður hjá úrskurðarnefndinni.

IV.  Niðurstaða

Kærumál þetta varðaði upphaflega ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. desember 2022, um að synja kæranda um mæðralaun með þremur börnum. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun nýja ákvörðun, dags. 29. desember 2022, þar sem fallist var á greiðslur mæðralauna með þremur börnum.

Með tölvubréfi 30. desember 2022 tilkynnti kærandi að hún féllist ekki á beiðni Tryggingastofnunar um frávísun málsins þar sem gera mætti ráð fyrir að um væri að ræða fordæmisgefandi niðurstöðu, hafi það verið afstaða Tryggingastofnunar að synja greiðslu mæðralauna vegna þess að barn hafi ekki lögheimili hjá umsækjanda greiðslna. Sé sú raunin þá sé mikilvægt að birta úrskurð um þetta efni svo að það liggi fyrir að stofnunin hafi samþykkt kröfu kæranda.

Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segir að um kærurétt til úrskurðarnefndar velferðarmála gildi ákvæði laga um almannatryggingar. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum, kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu.

Af framangreindu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar velferðarmála er bundið við ágreiningsefni sem tilgreind eru í 13. gr. laga um almannatryggingar. Eins og úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað fellur það því utan valdsviðs hennar að fjalla almennt um kvartanir er lúta að málsmeðferð Tryggingastofnunar í málum sem stofnunin hefur til umfjöllunar.

Fyrir liggur að Tryggingastofnun hefur fallist á að greiða kæranda mæðralaun með þremur börnum vegna umbeðins tímabils. Af málatilbúnaði kæranda verður ekki séð að ágreiningur sé uppi um þá niðurstöðu heldur snúa athugasemdirnar að rökstuðningi kærðrar ákvörðunar Tryggingastofnunar sem nú hefur verið afturkölluð. Af gögnum málsins verður ráðið að ekki sé til staðar ágreiningur á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins um nein af þeim ágreiningsefnum sem tilgreind eru í 13. gr. laga um almannatryggingar. Þegar af þeirri ástæðu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta