Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 247/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 247/2020

Fimmtudaginn 20. ágúst 2020

A

gegn

Seltjarnarnesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. maí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Seltjarnarnesbæjar, dags. 17. apríl 2020, um greiðslu fjárhagsaðstoðar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá Seltjarnarnesbæ frá og með febrúar 2020 þegar réttur hans til atvinnuleysisbóta var fullnýttur. Greiðslur til kæranda tóku mið af hálfum framfærslugrunni þar sem hann var búsettur hjá foreldrum sínum, sbr. 2. mgr. 10. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Félagsþjónustu Seltjarnarnesbæjar.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 20. maí 2020. Með bréfi, dags. 25. maí 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Seltjarnarnesbæjar vegna kærunnar ásamt málsgögnum. Sú beiðni var ítrekuð með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. júní 2020. Greinargerð Seltjarnarnesbæjar barst 22. júlí 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. júlí 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið samþykkta fjárhagsaðstoð á þeirri forsendu að hann búi frítt með foreldrum sínum í eigin húsnæði. Hið rétta sé að kærandi og foreldrar hans séu búsett í leiguhúsnæði og hann sé meðleigjandi með þeim. Kærandi sé því ekki með þau fríðindi að búa frítt í foreldrahúsum og eigi því rétt á fjárhagsaðstoð sem sjálfstætt búandi einstaklingur án gildandi húsaleigusamnings. Svo virðist sem kæranda sé mismunað þar sem einstaklingar sem leigi með ókunnugum fái fjárhagsaðstoð án gildandi húsaleigusamnings. Að mati kæranda sé enginn munur á rétti einstaklings sem leigi með ókunnugum eða foreldri og því óski kærandi eftir að þessi misskilningur verði leiðréttur.

III.  Sjónarmið Seltjarnarnesbæjar

Í greinargerð Seltjarnarnesbæjar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir janúar 2020 en verið synjað þar sem hann hafi verið með tekjur yfir viðmiðunarmörkum. Kæranda hafi verið veitt fjárhagsaðstoð frá og með febrúar 2020 en þá hafi réttur hans til atvinnuleysisbóta klárast. Kærandi leigi húsnæði með foreldrum sínum og því hafi ákvörðun um framfærslugrunn hans tekið mið af því. Kærandi hafi fengið 93.695 kr. í fjárhagsaðstoð á mánuði vegna þess að hann sé búsettur á sama heimili og foreldrar hans og njóti hagræðis af því.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Seltjarnarnesbæjar um greiðslu fjárhagsaðstoðar til handa kæranda frá og með febrúar 2020. Greiðslur til kæranda tóku mið af hálfum framfærslugrunni þar sem hann var búsettur hjá foreldrum sínum, sbr. 2. mgr. 10. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Félagsþjónustu Seltjarnarnesbæjar. Kærandi hefur vísað til þess að hann leigi húsnæði með foreldrum sínum og því eigi hann rétt á fjárhagsaðstoð á grundvelli 3. mgr. 10. gr. reglnanna eða sem nemur 0,732 af heilum framfærslugrunni.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Félagsþjónustu Seltjarnarnesbæjar er kveðið á um markmið og hlutverk fjárhagsaðstoðar. Þar kemur meðal annars fram í 1. mgr. að fjárhagsaðstoð sé veitt til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem hafi ónógar tekjur og geti ekki séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Fjárhagsaðstoð skuli veitt íbúum í tímabundnum erfiðleikum til að mæta grunnþörfum. Samkvæmt 6. mgr. 2. gr. reglnanna skal jafnan kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga. Þá segir í 5. gr. reglnanna að fjárhagsaðstoð skuli að öðru jöfnu vera greidd einn mánuð í senn.

Í III. kafla reglnanna er kveðið á um rétt til fjárhagsaðstoðar. Þar segir í 9. gr. að við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skuli grunnfjárþörf til framfærslu, sbr. 10. gr. reglnanna, lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur, sbr. 12. gr. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. tekur framfærslugrunnur mið af útgjöldum einstaklings, 18 ára eða eldri, vegna daglegs heimilishalds og miðast við grunnfjárhæð 177.600 kr. Í 2. mgr. 10. gr. kemur fram að fólk sem búi hjá foreldri/-um skuli reiknast hálf grunnupphæð á mánuði, eða mismun á þeirri upphæð og eigin tekjum þeirra. Sama gildi um þá sem hafa búsetu hjá ættingjum, vinum eða vandamönnum og njóti hagræðis af því. Þá segir í 3. mgr. 10. gr. reglnanna að fólk sem búi sjálfstætt en sé ekki með gildan leigusamning að húsnæðinu og sé ekki eigandi þess reiknist 130.000 kr. (0,732) í framfærslugrunn.

Líkt og áður greinir býr kærandi hjá foreldrum sínum og fékk því greiddan hálfan framfærslugrunn, sbr. 2. mgr. 10. gr. framangreindra reglna sveitarfélagsins. Af hálfu kæranda hefur komið fram að honum sé mismunað þar sem einstaklingar sem leigi með ókunnugum fái hærri greiðslur. Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála. Tilgreind regla sveitarfélagsins gildir um alla þá sem eru í sömu aðstæðum og kærandi, þ.e. búsettir í foreldrahúsum, óháð því hvort viðkomandi greiði leigu eða ekki. Því fellst úrskurðarnefndin ekki á að sveitarfélagið hafi ekki gætt samræmis og jafnræðis í máli kæranda.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Seltjarnarnesbæjar, dags. 17. apríl 2020, um greiðslu fjárhagsaðstoðar til handa A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta