Hoppa yfir valmynd

Nr. 453/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 453/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060040

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. maí 2017 kærði […], kt. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. maí 2017, um að synja honum um endurnýjun dvalarleyfis vegna náms.

Af gögnum málsins má ráða að kærandi geri þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að dvalarleyfi kæranda vegna náms hér á landi verði endurnýjað, sbr. 5. mgr. 65. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi vegna náms hinn 7. september 2012 og var leyfið endurnýjað átta sinnum. Síðasta leyfi kæranda gilti til 15. janúar 2017. Kærandi sótti um endurnýjun á því leyfi hinn 1. mars 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. maí 2017, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar þann 30. maí 2017 og barst kæran kærunefnd útlendingamála þann 15. júní 2017. Greinargerð kæranda barst samhliða kæru. Með tölvupósti, dags. 15. júní 2017, var kæranda veittur 14 daga frestur til að leggja fram frekari greinargerð vegna kærumálsins. Gögn málsins bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun þann 19. júní 2017. Frekari gögn frá kæranda bárust kærunefnd þann 29. júní 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi haft dvalarleyfi með gildistíma til 15. janúar 2017. Umsókn um endurnýjun þess leyfis hafi borist þann 1. mars 2017. Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga skuli sækja um endurnýjun dvalarleyfis eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi fellur úr gildi. Ljóst hefði því verið að umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfisins hafi borist um það bil sjö vikum eftir að gildistími þess hafi runnið út. Kæranda hafi verið sent bréf hinn 6. mars 2017 þar sem honum hafi verið gefinn kostur á að koma með skriflegar skýringar á því hvers vegna hann hafi sótt of seint um endurnýjun á leyfi sínu. Engar skýringar hafi borist frá kæranda og var það því mat stofnunarinnar að ekki væru ríkar sanngirnisástæður til staðar í málinu sem réttlættu að litið væri á umsókn hans sem endurnýjun dvalarleyfis. Því var litið á umsókn kæranda sem umsókn um nýtt leyfi en ekki endurnýjun leyfis. Enn fremur taldi stofnunin kæranda ekki hafa heimild til að vera staddur á landinu á meðan umsókn hans væri til meðferðar. Þá félli kærandi ekki undir undanþáguákvæði 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Var umsókn hans um dvalarleyfi hér á landi því hafnað sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi greinir frá því í greinargerð að ástæða þess að hann hafi sótt of seint um endurnýjun dvalarleyfis sé sú að hann hafi verið að bíða eftir útkomu úr prófum við Háskóla Íslands í ljósi þess að hann hafi þurft að taka endurtektarpróf. Þá hafi hann verið að bíða eftir yfirliti af bankareikningi í heimaríki sínu. Kærandi kveðst hafa búið á Íslandi í nokkur ár og aldrei lent í sambærilegum vandræðum áður. Kærandi greinir frá því að hann sé í námi og vinnu á Íslandi auk þess sem hann sé að vinna að BA-ritgerð. Það muni valda kæranda talsverðum vandræðum verði honum gert að yfirgefa Ísland. Þá hafi vegabréfi kæranda verið stolið sem torveldi honum að snúa til baka til Íslands enn frekar. Kærandi kveðst hafa haft samband við sendiráð heimaríkis síns og fengið þau svör að það taki sex mánuði að fá nýtt vegabréf.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að því hvort rétt sé að synja kæranda um endurnýjun dvalarleyfis vegna náms hér á landi, sbr. 65. gr. laga um útlendinga.

Í 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur sem óskar eftir endurnýjun dvalarleyfis skuli sækja um slíkt eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi fellur úr gildi. Sé sótt um endurnýjun innan tilskilins frests er útlendingi heimilt að dveljast hér á landi samkvæmt fyrra dvalarleyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans. Að öðrum kosti skuli útlendingur yfirgefa landið áður en gildistími fyrra dvalarleyfis hans rennur út. Sæki útlendingur ekki um endurnýjun dvalarleyfis innan gildistíma fyrra dvalarleyfis skal réttur til dvalar falla niður og fara skal með umsókn hans samkvæmt 51. gr. laganna. Í 1. mgr. 51. gr. laganna kemur fram að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsókn hefur verið samþykkt. Frá þessu eru undantekningar, t.d. ef umsækjandi er undanþeginn áritunarskyldu eða fellur undir a.-c. lið 1. mgr. 51. gr. Heimilt er að víkja frá 1. mgr. í öðrum tilvikum en þar eru upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því, sbr. 3. mgr. 51. gr. laganna. Þegar umsækjandi um dvalarleyfi fær heimild til að vera staddur á landinu á meðan hann leggur fram umsókn og umsóknin er í vinnslu er um undantekningu frá meginreglu laganna að ræða og ber að túlka allar slíkar undanþáguheimildir þröngt.

Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. útlendingalaga skal hafna umsókn um dvalarleyfi ef umsækjandi dvelur hér á landi þegar hann leggur fram umsókn án þess að vera undanþeginn því að sækja um leyfi áður en hann kemur til landsins skv. 1. og 2. mgr. sama ákvæðis. Hið sama á við ef umsækjandi kemur til landsins áður en umsókn er samþykkt.

Kærandi hafði dvalarleyfi með gildistíma til 15. janúar 2017. Umsókn um endurnýjun þess leyfis barst Útlendingastofnun þann 1. mars 2017. Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga skal sækja um endurnýjun dvalarleyfis eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi fellur úr gildi. Ljóst er að umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi kæranda barst um það bil sjö vikum eftir að gildistími dvalarleyfis rann út.

Kemur þá til skoðunar hvort fyrir hendi séu ríkar sanngirnisástæður sem mæli með því að veita kæranda heimild til að dvelja hér á landi samkvæmt fyrra leyfi, þrátt fyrir að umsókn um endurnýjun dvalarleyfis hafi borist of seint, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við 4. mgr. 57. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga kemur fram að afsakanleg tilvik geti til dæmis verið þau að útlendingur hafi verið alvarlega veikur eða af óviðráðanlegum ástæðum þurft að fara fyrirvaralaust til heimaríkis án þess að hafa haft tök á að leggja fram umsókn um endurnýjun. Þá eru nefnd dæmi um tilvik sem ekki falli undir ákvæðið, líkt og ef útlendingur ber fyrir sig að hafa ekki vitað að leyfið væri að renna út eða að umboðsmaður hans hafi gert mistök. Þegar horft er heildstætt á aðstæður kæranda og málavexti getur kærunefndin ekki fallist á að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að undanþága verði gerð frá meginreglu 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga um að sækja beri um endurnýjun dvalarleyfis eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi fellur úr gildi. Samkvæmt 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga verður því að líta á umsókn kæranda sem umsókn um nýtt leyfi en ekki endurnýjun dvalarleyfis og skal því fara með umsókn samkvæmt 51. gr. laganna. Ljóst er að kærandi fellur ekki undir undanþágur a.-c. liðar 1. mgr. 51. gr. laganna. Það er enn fremur mat kærunefndar að ríkar sanngirnisástæður mæli ekki með því kærandi fái að dvelja á landinu á meðan umsókn hans er til meðferðar, sbr. 3. mgr. 51. gr. laganna, þannig vikið sé frá 1. mgr. í öðrum tilvikum en þar eru nefnd.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta