Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 84/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 1. júlí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 84/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. júlí 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar sökum þess að hún hefði verið að vinna hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Þá var hún upplýst um að hún skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur var kæranda gert að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 7.911 kr. með 15% álagi. Kærandi óskaði eftir endurskoðun á málinu með tölvupósti þann 23. júlí 2014. Þar kemur fram að kærandi hafi verið að vinna hjá B í desember og febrúar á meðan hún hafi verið á atvinnuleysisbótum. Atvinnurekandi hafi sagt henni að B myndi sjá um að senda launaseðlana til Vinnumálastofnunar. Hún hafi ekki gefið Vinnumálastofnun upplýsingar um starf sitt því hún hafi haldið að það væri nóg að B myndi senda launaseðla hennar til stofnunarinnar. Í kjölfarið var mál hennar tekið fyrir að nýju og með bréfi, dags. 20. ágúst 2014, var kæranda tilkynnt að ákvörðun stofnunarinnar frá 27. júní 2014 væri staðfest enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir að ný gögn í málinu hefðu borist. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 15. október 2014. Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar um viðurlög skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verði felld niður. Vinnumálastofnun telur að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 17. október 2013. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra kom í ljós að kærandi hafði tekjur fyrir febrúarmánuð 2014 frá B að fjárhæð 81.902 kr. Með bréfi, dags. 9. maí 2014, var kæranda tilkynnt um samkeyrsluna og óskaði eftir upplýsingum um framangreindar tekjur. Þann 15. maí 2014 barst Vinnumálastofnun launaseðill vegna vinnu kæranda í febrúar 2014. Með bréfi, dags. 4. júlí 2014, var kæranda tilkynnt um viðurlagaákvörðun stofnunarinnar.

Í kæru segir að á tímabilinu frá 18. til 21. október 2013 hafi kærandi sótt um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Með tölvupósti, dags. 30. október, hafi kærandi verið boðuð á kynningarfund þann 1. nóvember. Boðunin hafi verið send á netfang kæranda og ítrekuð þann 31. október. Kærandi hafi þá staðið í flutningum og ekki fengið tölvupóstinn. Þann 5. nóvember hafi kæranda verið tilkynnt að hún teldist ekki lengur í atvinnuleit þar sem hún hefði ekki mætt á fundinn. Þann 6. nóvember hafi kærandi loksins séð tölvupóstinn og haft samdægurs samband við stofnunina og útskýrt að hún hefði verið að flytja og væri án netsambands. Kærandi hafi aldrei aftur verið boðuð til kynningarfundar. Þar sé meðal annars farið yfir skráningar á atvinnuleit og tilkynningar á tekjum en þar sem kærandi hafi ekki verið boðuð aftur hafi hún lent í vandræðum með hvort tveggja, sbr. samskiptasögu stofnunarinnar.

Kærandi hafi fætt barn í mars 2014. Undir lok meðgöngu hafi hún tekið tilfallandi starf í leikskóla en láðst að tilkynna um tekjur fyrr en ósk hafi komið um launaseðil frá Vinnumálastofnun í maí 2014. Launaseðillinn hafi þá verið sendur um hæl enda hafi aldrei staðið til að leyna stofnunina upplýsingum. Tekjur yfir frítekjumörkum hafi verið mjög óverulegar. Kærandi hafi verið í fæðingarorlofi frá 14. mars til 14. september og ekki verið skráð atvinnulaus á meðan. Þann 30. júní hafi stofnunin tekið ákvörðun um að endurkrefja hana atvinnuleysisbætur og henni gerð viðurlög skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi hafni því að hún hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti eða látið vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um breytingar á högum hennar og tímabundið starf, eins og tekið sé fram í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ákvörðun stofnunarinnar byggi á. Kæranda hafi ekki verið boðið upp á kynningu á réttindum og skyldum atvinnuleitenda eftir að hún hafi misst af fyrsta fundi. Ljóst sé að frá upphafi hafi hún haft litla þekkingu á þeim kröfum sem séu gerðar til atvinnuleitenda. Hún hafi til að mynda ekki vitað af því að hún þyrfti að staðfesta atvinnuleit fyrr en hún hefði misst bótarétt um nokkra vikna skeið, sbr. samskiptasögu. Hún hafi ekki heldur vitað af tilkynningarskyldu sinni vegna tilfallandi starfs, heldur aðeins reynt að sinna þeirri skyldu sem hún hafi þó vitað af og reynt að taka öll störf sem í boði hafi verið þrátt fyrir að þau væru tímabundin og hún komin átta mánuði á leið. Ávinningur hennar af meintu broti hafi verið mjög óverulegur eða innan við 7.000 kr. Afleiðingarnar séu í engu samræmi við það en kærandi sé nú án atvinnu eftir að fæðingarorlofi hafi lokið þann 13. september 2014, án nokkurs bótaréttar og án möguleika á að framfæra barn sitt.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. nóvember 2014, kemur fram að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Mál þetta lúti að ákvörðun stofnunarinnar þar sem kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Annar málsliður 60. gr. laganna taki á því þegar atvinnuleitandi starfi á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín. Af ákvæðinu leiðir að sá sem ekki tilkynni Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laganna skuli sæta viðurlögum á grundvelli þess.

Í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun hvíli því skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé að finna ákvæði þar sem þessi skylda sé ítrekuð. Þannig segi í 3. mgr. 9. gr. laganna að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa stofnunina um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysistryggingar eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um tekjur sem hann fái fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan standi yfir eða ef atvinnuleit sé hætt.

Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra komi í ljós að kærandi hafi verið með tekjur frá B í febrúar 2014 að fjárhæð 81.902 kr. Í skýringum til stofnunarinnar kveðjist kærandi ekki hafa sent stofnuninni upplýsingar varðandi starf sitt sökum þess að hún hafi talið það nægjanlegt að atvinnurekandi sendi stofnuninni launaseðlana. Það sé mat stofnunarinnar að kærandi geti ekki borið fyrir sig vankunnáttu á lögunum þar sem víðtækar og ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitenda liggi meðal annars fyrir á heimasíðu stofnunarinnar. Atvinnuleitendur beri sjálfir ábyrgð á því að réttar upplýsingar berist til Vinnumálastofnunar en ekki vinnuveitendur þeirra.

Vinnumálastofnun hafi ekki borist tilkynning um tekjur eða vinnu kæranda á þeim tíma sem um ræði og kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir allan febrúarmánuð. Af samskiptasögu kæranda megi sjá að kærandi hafi staðfest atvinnuleit sína með reglulegum hætti á árinu 2014. Þegar atvinnuleitendur staðfesti atvinnuleit á netinu sé þeim meðal annars gert að skrá niður fjölda þeirra starfa sem þeir hafi sótt um á tímabilinu. Þá sé atvinnuleitendum gefið færi á því að koma að athugasemdum til Vinnumálastofnunar. Engin athugasemd hafi borist með staðfestingum kæranda. Þann 20. febrúar hafi kærandi staðfest atvinnuleit með sama hætti og áður, án athugasemda um vinnu sína.

Kærandi hafi ekki tilkynnt fyrirfram um breytingar á högum sínum til stofnunarinnar en rík skylda hvíli á þeim sem njóti greiðslna atvinnuleysistrygginga að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti ákvarðað bótarétt viðkomandi. Í ljósi afdráttarlausarar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynna um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laganna, verði að telja að kærandi hafi brugðist gegn skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. nóvember 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

2. Niðurstaða

 Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þá segir í 35. gr. a:

Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vera.

Í meðförum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Vinnumálstofnun byggir á því að háttsemi kæranda falli undir síðari málsliðinn.

Samkvæmt gögnum málsins vann kærandi á leikskóla í B í febrúar 2014. Kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um vinnuna en þáði greiðslur atvinnuleysisbóta frá stofnuninni á sama tíma. Atvinnuleitendum sem þiggja atvinnuleysisbætur ber að tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Í 3. mgr. 9. gr. laganna er jafnframt kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu.

Af hálfu kæranda er byggt á því að henni hafi ekki verið kunnugt um viðkomandi reglur. Hún hafi misst af kynningarfundinum hjá Vinnumálastofnun og henni hafi ekki verið boðið upp á nýja kynningu. Hún hafi talið nægjanlegt að vinnuveitandi hennar myndi senda stofnuninni launaseðlana. Að mati úrskurðarnefndar getur kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu á lögunum. Víðtækar upplýsingar um stöðu atvinnuleitenda liggja meðal annars fyrir á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þar kemur skýrt fram að atvinnuleitanda ber að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína, meðal annars vegna tilfallandi tekna. Atvinnuleitendur bera sjálfir ábyrgð á því að réttar upplýsingar berist til Vinnumálastofnunar en ekki vinnuveitendur þeirra.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hún starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 20. ágúst 2014 í máli A, þess efnis að staðfesta beri fyrri ákvörðun í máli hennar frá 27. júní 2014, er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta