Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hinn 30. júlí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 2/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. nóvember 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið að kæranda skyldi gert að sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sökum þess að hún hafi verið við vinnu í júlí 2014, á sama tíma og hún þáði greiðslur atvinnuleysisbóta án þess að tilkynna um slíkt til stofnunarinnar. Þá var kæranda gert að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 103.715 kr. með 15% álagi.

Með tölvupósti, dags. 3. nóvember 2014, til Vinnumálastofnunar kvaðst kærandi ekki hafa verið með laun í júlí, en hún kvaðst hafa unnið í júlí en fengið það greitt í ágúst. Meðfylgjandi var tölvupóstur frá bókhaldara fyrrverandi vinnuveitanda kæranda, sem staðfesti það að kærandi hafi verið að störfum í júlí 2014. Hinn 10. nóvember 2014 var mál kæranda tekið fyrir að nýju hjá stofnuninni og sú ákvörðun tekin að staðfesta fyrri ákvörðun og var kæranda tilkynnt um ákvörðunina með bréfi, dags. 11. nóvember.

Kærandi óskaði eftir endurupptöku málsins hjá Vinnumálastofnun 6. nóvember 2014 og var hún tekin fyrir hjá stofnuninni 1. desember 2014 með hliðsjón af launaseðlum frá B, sem kærandi starfaði hjá, fyrir júlí og ágúst 2014 ásamt staðfestingu þess efnis að kærandi hafi verið að störfum hjá fyrirtækinu fyrrgreint tímabil. Með bréfi, dags. 4. desember 2014, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að synja beiðni hennar um endurupptöku þar sem ekki var séð að fyrri ákvörðun stofnunarinnar í málinu hafi verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum.

Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 7. janúar 2015. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.

Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun þann 2. janúar 2014 og reiknaðist með 96% bótarétt. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra kom í ljós að kærandi hafði tekjur fyrir júlí 2014 frá B að fjárhæð 362.239 kr. á sama tíma og hún þáði greiðslur atvinnuleysistrygginga. Með bréfi, dags. 7. október 2014, var kæranda tilkynnt um samkeyrslu stofnunarinnar og var óskað eftir skriflegum skýringum kæranda á ótilkynntum tekjum. Hinn 9. október 2014 barst Vinnumálastofnun erindi frá kæranda þar sem hún kveðst hafa fyllt út blað þar sem hún tilkynnir um tekjur í júlí með launaseðil til hliðsjónar. Ekkert slíkt blað lá hins vegar fyrir hjá stofnuninni samkvæmt gögnum málsins og upplýsingar úr tölvukerfi stofnunarinnar sýni enga færslu frá kæranda þess efnis. Engar frekari skýringar bárust.

Í kæru setur kærandi ekki fram skýrar kröfur en af málatilbúnaði kæranda má ráða að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kærandi segist hafa unnið í tvo mánuði hjá B sumarið 2014, hún hafi unnið í júlí og ágúst og þar af leiðandi hafi hún fengið laun í ágúst og september. Hún hafi sent Vinnumálastofnun launaseðla til sönnunar á því ásamt tölvupósti frá bókara B sem staðfesti þetta. Vinnumálastofnun hafi fengið upplýsingar hjá skattinum um að hún hafi fengið laun í júlí og ágúst í stað ágúst og september, sömu fjárhæðir og hún hafi fengið útborgaðar frá fyrirtækinu í ágúst og september. Þetta séu augljós mistök þar sem fjárhæðirnar stemmi við launaseðlana en upplýsingarnar segi að vinna sem unnin sé í júlí sé greidd í júlí og vinna unnin í ágúst sé greidd þann mánuð. Hún hafi lent í miklum fjárhagslegum vandræðum út af þessu, hún hafi ekki getað borgað leigu og skuldi nú „fólki út í bæ“ svo hún og sonur sinn geti lifað. Hún sé í fullum rétti og krefst þess að fá sínum rétti framgengt.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. janúar 2015, kemur fram að lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar þar sem kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Henni hafi einnig verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Annar málsliður 1. mgr. 60. gr. laganna taki á því þegar atvinnurekandi starfi á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín. Af ákvæðinu leiði að sá sem ekki tilkynni Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a skuli sæta viðurlögum. Í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysistrygginga hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna.

Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með tekjur frá B í júlí 2014 að fjárhæð 362.239 kr. Í skýringum til stofnunarinnar segist kærandi ekki hafa fengið nein laun í júlí 2014, en segist þó hafa verið að vinna þann mánuð. Jafnframt sýni launaseðlar og staðfesting frá umræddu fyrirtæki fram á að kærandi hafi verið að störfum í júlí 2014. Samkvæmt upplýsingum úr samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun ásamt upplýsingum úr tölvukerfi stofnunarinnar sé ekki hægt að sjá að kærandi hafi tilkynnt fyrirfram um þessa vinnu sína, en rík skylda hvíli á þeim sem njóti greiðslna atvinnuleysistrygginga að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti ákvarðað bótarétt viðkomandi. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a sömu laga, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt. Með vísan til þessara sjónarmiða telur Vinnumálastofnun að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. febrúar 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Í meðförum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Vinnumálstofnun byggir á því að háttsemi kæranda falli undir síðari málsliðinn.

Samkvæmt gögnum málsins starfaði kærandi hjá fyrirtækinu B í júlí 2014 en þáði atvinnuleysisbætur fyrir þann mánuð. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun fyrirfram um þessa vinnu eins og hún hefur haldið fram. Hefur kærandi ekki stutt þá fullyrðingu sína með gögnum. Ljóst er af gögnum málsins að kærandi starfaði á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingar á atvinnuleysisbótum og hljóðar 2. mgr. lagagreinarinnar svo:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber því kæranda einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar eða í júlímánuði 2014 auk 15% álags eða samtals 103.715 kr.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. desember 2014 í máli A er staðfest. 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta