Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hinn 30. júlí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 5/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 21. desember 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 17. desember 2014 fjallað um höfnun hans á þátttöku á námskeiði á vegum Vinnumálastofnunar. Vegna höfnunar kæranda var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með 21. desember 2014. Ákvörðun stofnunarinnar var tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 8. janúar 2015, og krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun skuli standa.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 5. ágúst 2014. Með tölvupósti 7. nóvember 2014 var kærandi boðaður á starfsleitarnámskeiðið „Virk atvinnuleit“. Þann 11. nóvember 2014 mætti kærandi í viðtal hjá ráðgjafa stofnunarinnar og skrifaði undir bókunarblað á námskeiðið sem fram fór dagana 18. og 20. nóvember 2014 kl. 9:00–13:00, þar sem hann staðfesti að hann myndi mæta á námskeiðið. Kærandi mætti þó ekki á námskeiðið og þann 25. nóvember 2014 barst Vinnumálastofnun erindi frá kæranda þar sem hann kveðst hafa gleymt námskeiðinu. Var honum tjáð að hann þyrfti að skila inn skýringum vegna fjarveru sinnar. Skýringar kæranda bárust stofnuninni með tölvupósti þann 25. nóvember. Var kæranda jafnframt sent bréf, dags. 15. desember 2014, þar sem óskað var eftir skýringum á því hvers vegna hann sinnti ekki mætingarskyldu. Þar sem skýringar kæranda lágu fyrir, var mál hans tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar þann 17. desember 2014.

 Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, dags. 8. janúar 2015, að hann hafi verið boðaður á skrifstofu Vinnumálastofnunar til að boða sig á námskeið. Hann hafi mætt á kynningarfund tveimur dögum síðar en hafi gleymt að hann hafi þurft að mæta á annað námskeið í vikunni á eftir. Hann hafi gert mistök þegar hann skráði áminningu í símann sinn, þ.e. gert áminningu í janúar í stað desember. Kærandi tekur fram að þetta séu mannleg mistök og að hann eigi erfitt með að sjá hvernig það að hafa strax samband við Vinnumálastofnun til að fá nýjan tíma á námskeið fallir undir að „neita að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum“. Hann hafi viljað mæta á umrætt námskeið og hafi reynt eftir fremsta megni að komast á námskeiðið sem fyrst eftir að mistökin hafi orðið honum ljós. Þá tekur kærandi fram að hann hafi nýverið hætt að drekka og að alþekkt sé að fólk sem hætti að drekka eftir langvarandi drykkju geti verið gleymið og utan við sig í mánuði á eftir. Hann vilji að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði endurskoðuð og að honum verði veittar bætur aftur og boðaður á annað námskeið sem hann muni að sjálfsögðu mæta á. Kærandi greinir frá því að leigan hans hafi hækkað um tíu þúsund krónur um mánaðamótin og að hann sjái ekki fram á að ná endum saman á bótum, hvað þá ef bæturnar séu teknar af honum.

Í greinargerð Vinnumálstofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 19. febrúar 2015, kemur fram að málið lúti að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgt hafi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna skýrt nánar. Þar komi fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Vinnumálastofnun bendir á að skv. g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standa til boða. Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði, nr. 55/2006, komi einnig fram skylda þess sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun býður upp á.

Vinnumálastofnun greinir frá því að í skýringarbréfi kæranda til Vinnumálastofnunar og í kæru til úrskurðarnefndar komi fram að kærandi hafi gleymt námskeiðinu. Það sé mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda séu ekki gildar.

Með vísan til ofangreindra sjónarmiða telji Vinnumálastofnun að kærandi hafi í umrætt sinn hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, og að hann skuli sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. febrúar 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 10. mars 2015. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 21. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og þeir sem tryggðir eru samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist þeir þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

 Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir eru vinnumarkaðsúrræði meðal annars einstök námskeið, svo sem námskeið um gerð starfsleitaráætlunar eða sjálfstyrkingu og námskeið til að bæta tiltekna færni. Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 4. gr. laga nr. 134/2009, er virk atvinnuleit skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til atvinnuleitanda. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða. Í 3. mgr. 13. gr. laganna er kveðið á um heimild til handa Vinnumálastofnun til þess að boða atvinnuleitanda til stofnunarinnar með sannanlegum hætti og skal atvinnuleitandi vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi mætti ekki á námskeiðið ,,Virk atvinnuleit hjá Promennt“ sem fram fór dagana 18. til 20. nóvember 2014, sem hann var boðaður á af Vinnumálastofnun. Kærandi staðfesti með undirritun sinni á bókunarblað um námskeiðið að hann myndi mæta á það. Á bókunarblaðinu er bent á að það geti valdið missi bótaréttar skv. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum Vinnumálastofnunar eða fylgir ekki slíkri áætlun, þar á meðal hafnar úrræðum Vinnumálastofnunar. Ítrekað er með svörtu letri á bókunarblaðinu að það sé mikilvægt að atvinnuleitandi uppfylli kröfur um mætingarskyldu á námskeiðið. Þá segir að ef viðkomandi forfallist sé hann beðinn um að hringja í þar til greint símanúmer. Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi gleymt námskeiðinu.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða eru skýringar kæranda á því hvers vegna hann mætti ekki á umrætt námskeið ekki gildar. Þrátt fyrir að kærandi hafi sent Vinnumálastofnun tilkynningu þess efnis að hann hafi gleymt umræddu námskeiði, þá getur það ekki talist gild ástæða. Á atvinnuleitanda hvílir rík skylda til þátttöku í þeim aðgerðum sem honum er boðið samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

  

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 21. desember 2014 í máli A um niðurfellingu bótaréttar hans í tvo mánuði er staðfest.  

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta