Hoppa yfir valmynd

Nr. 144/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 144/2018

Miðvikudaginn 15. ágúst 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 12. apríl 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. apríl 2018 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 21. febrúar 2018. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. apríl 2018, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. apríl 2018. Með bréfi, dags. 18. apríl 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 11. maí 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. maí 2018. Með bréfi, dags. 21. maí 2018, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. maí 2018. Viðbótargögn frá kæranda bárust úrskurðarnefnd 29. júní 2018 og voru þau send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún krefjist þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn hennar um örorkulífeyri verði endurskoðuð.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri í samráði við B heimilislækni, sem hafi mikla þekkingu og reynslu af vinnu með sjúklingum sem þjáist af örmögnun og síþreytu. Hann hafi sent læknisvottorð til Tryggingastofnunar og sé ekki sammála niðurstöðu úr sérhæfðu mati VIRK. Nefndin sé eindregið hvött til að hafa samband við B til að fá innihald þessarar kæru staðfest. Þá sé vísað til athugasemda kæranda við mat VIRK og úrskurðarnefndin beðin um að lesa þær vel svo að heildarmyndin sé skýr. Að mati kæranda sé það ótækt að neyða hana til vinnuprófunar til þess eins að hún missi aftur þá heilsu sem henni hafi tekist að endurheimta undanfarið ár og verði niðurlægð þar sem hún valdi ekki fastri vinnu.

Í fylgiskjali með kæru, dags. 9. febrúar 2018, sem útbúið hafi verið vegna sérhæfðs mats VIRK eru gerðar alvarlegar athugasemdir við framkomu læknis í viðtali vegna matsins. Fram kemur einnig að viðkomandi læknir hafi ekki lesið fyrirliggjandi gögn um kæranda frá sjúkraþjálfara, ráðgjafa, lækni og Þraut. Í skjalinu geri kærandi jafnframt grein fyrir veikindum sínum og því mati hennar að ekki séu forsendur til að byrja vinnuprófun strax. Fram kemur meðal annars að hún þjáist af heilaþoku ásamt örmögnun, orkuleysi sem sjáist ekki og mælist ekki í hefðbundum læknisfræðilegum rannsóknum eins og þeim sem skili „bilat“ niðurstöðum á sérhæfðu mati. Sjúkdómurinn lýsi sér aðallega í því að hún hafi svo takmarkað þol fyrir álagi og áreiti að hún þurfi nánast að leggjast í rúmið eftir hvers konar álag, útréttingar, ferðalög eða mannamót. Hún sé vonsvikin og kvíðin. Hún forðist öll átök, allar krefjandi samræður og samskipti því það geti valdið yfirþyrmandi vanlíðan og örmögnun.

Í athugasemdum kæranda, dags. 21. maí 2018, við greinargerð Tryggingastofnunar, segir að kærandi líti þannig á að endurhæfingu sé lokið eftir […] mánaða vinnu hjá VIRK með viðtölum við ráðgjafa, sjúkraþjálfun, sálfræðing, núvitund, greiningu og grunnnámskeið hjá Þraut. Þessi endurhæfing hafi ekki borið þann árangur sem þurfi til endurkomu á vinnumakað. Það hafi B yfirlæknir stutt í læknisvottorði. Hvorki hann né kærandi sjái forsendur fyrir endurkomu hennar á vinnumarkað eins og staðan sé í dag. Eftir langa samfellda vinnusögu hafi hún átt hámarks réttindi þegar hún hafi veikst og orðið óvinnufær. Hún hafi því fengið laun í […] daga og síðan greiðslur úr sjúkrasjóði C í […] daga sem hafi lokið í X. Þess vegna hafi ekki verið sótt um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun.

Frá og með mánaðamótum X hafi hún ekki fengið laun eða aðrar greiðslur til framfærslu. Það sé í fyrsta skipti frá […] ára aldri sem hún hafi ekki haft tök á að sjá fyrir sér sjálf. Kæranda vanti ekki hvatningu til atvinnuþátttöku heldur getu til þess. Tryggingastofnun hvetji til áframhaldandi endurhæfingar og að hún sæki um endurhæfingarlífeyri en sökum varanlegs heilsubrests séu ekki forsendur fyrir því.

Í kjölfar niðurstöðu úr sérhæfðu mati VIRK og nýrrar áætlunar hafi kærandi sótt um störf, hún hafi haldið að allt væri í lagi en fyrir utan örmögnunina hafi hún sökum álags fengið hægðastopp, líkaminn hafi orðið einn stressaður hnútur og svefninn hafi raskast. Kærandi hafi séð það fljótt að þessi áætlun VIRK hafi ekki verið raunhæf en um leið hafi hún efast um sitt eigið raunsæi og eigin heilindi því þessir menn sem stóðu að sérhæfðu mati VIRK hafi sex ára háskólanám í læknisfræðum og henni hafi fundist hreinlega að þeir hlytu að vita betur en hún sjálf. Kærandi hafi síðan brotnað alveg saman og í mars hafi hún farið til B læknis og þá hafi hún fengið skilning og stuðning.

Það hafi verið skautað yfir sálræna þáttinn í veikindum kæranda við greiningu VIRK. Það liggi ekki fyrir henni að leggjast í vesaldóm og hún muni halda áfram á eigin spýtur að sækja leiðbeiningar og ráðgjöf/meðferðir, til dæmis hjá taugasálfræðingi.

Eins og staðan sé í dag þá sé það skýrt tekið fram að kærandi sé ekki haldin neinni sjálfsvorkun, eftirfarandi punktar séu því miður staðreyndir sem hái henni mismikið daglega. Kærandi fái „eftir-álags-þreytu“, þ.e. óvenjulega mikla þreyta í kjölfar andlegs og líkamlegs álags, þetta sé ekki venjuleg þreyta heldur alger örmögnun. Þegar verst láti sé kærandi bundin við heimilið eða jafnvel rúmið og þá sé hún með svefntruflanir, minnisvandamál og heilaþoku auk verkjavandamála. Kærandi sé fælin og kvíðin, hún koðni niður ef einhver hvessi sig eða ef drama og átök séu í gangi. Kærandi hafi mjög lítið úthald, hún örmagnist og sé með flensueinkenni án þess að vera með flensu eða hita. Hún sé síþreytt, misjafnt eftir dögum, en verði það skyndilega og þurfi hún þá að leggjast og loka augunum. Kærandi sé viðkvæm og næm fyrir hljóðum, lykt og birtu og þá sé hún með munn- og augnþurrk, auk eymsla hálsi suma daga. Kærandi sé með verki daglega, misjafnlega slæma víða um líkmann en þó aðallega í upphandleggjum og öxlum þessa dagana. Kærandi horfi ekki á fréttir og hún lesi ekki neitt sem valdið geti henni vanlíðan. Kærandi sé hætt að ferðast, hún fari lítið á mannamót, hún nái að framkvæma athafnir daglegs lífs heima við en forðist aukaálag, til dæmis leikhús og þess háttar. Hún passi vel upp á mataræði, hreyfingu og svefnvenjur. Kærandi sé örvæntingarfull eftir þessa greiningu hjá VIRK og niðurstöðu Tryggingastofnunar. Óvissan í stöðunni í dag sé ekki til að bæta líðan hennar. Hún þurfi að hafa hlutina í föstum skorðum hvað varði afkomu/tekjur/lífeyri til að geta haldið áfram að byggja sig upp og viðhalda heilsu eins og kostur sé.

Sé það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að beiðni um örorku sé hafnað, þá sé nefndin vinsamlegast beðin um að leiðbeina um aðra úrlausn til eigin framfærslu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati frá [3. apríl] 2018.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar sem skiptist í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Fyrirliggjandi gögn séu umsókn, dags. 21. febrúar 2018, læknisvottorð B, dags. 21. febrúar 2018, yfirlit yfir ferli hjá VIRK, dags. 27 mars 2018, sérhæft mat, dags. 15. janúar 2018, og spurningalisti, dags. 22. febrúar 2018.

Í læknisvottorði séu sjúkdómsgreiningar […], kvíði, fibromyalgia og gastro-esophageal reflux disease.

Í yfirliti yfir feril hjá VIRK komi fram að kærandi hafi hætt í þjónustu þann X 2018 í samráði við tilvísandi lækni vegna þess að veikindi hennar hindri þátttöku í starfsendurhæfingu. Í meðfylgjandi sérhæfðu mati komi fram, undir tillögum að markmiðum og úrræðum, að megináherslur í starfsendurhæfingu væru stök úrræði fagaðila. Varðandi andlega þætti og/eða félagslega þætti hafi verið gerð tillaga um [...] samhliða áætlun um vinnuprófun. Varðandi atvinnuþátttöku hafi verið gerð tillaga um vinnuprófum í líkamlega og andlega hentugu starfi. Byrjað verði í um 10-20% hlutfalli og það trappað upp á 1-2 vikna fresti eftir getu á 2-4 mánaða tímabili. Stefnt sé að útskrift í hentugt starf fyrir sumarið 2018. Varðandi líkamlega þætti hafi verið gerð tillaga um almenna þjálfun á eigin vegum, daglega göngu og sund eftir atvikum.

Kærandi hafi ekki sótt um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun á meðan hún var í þjónustu VIRK. 

Í spurningalista lýsi kærandi heilsuvanda sínum sem viðvarandi síþreytu, stoðverkjum og verulega skertu þoli gagnvart álagi og áreiti. Varðandi líkamlega færniskerðingu svari kærandi liðnum að sitja á stól með því að hún eigi erfitt með langar setur á stól, þ.e. meira en 30 mínútur, vegna stoðverkja (vefjagigtar). Liðnum að standa, svari kærandi með því að hún eigi erfitt með að standa lengi, þ.e. 15-30 mínútur, vegna stoðverkja nema hún geti hreyft sig. Liðnum að nota hendurnar, svari kærandi með því að verkir í liðum geti haft í för með sér að hún geti misst takið ef hún lyfti þungu, suma daga séu oft miklir verkir og máttleysi. Liðnum að teygja sig eftir hlutum, svari kærandi með því að nefna stoðverki (vefjagigt). Liðnum að lyfta og bera, svari kærandi með því að nefna verki í vöðvafestingum, liðverki, stoðverki og liðnum varðandi sjón svari hún með því að minnast á augnþurrk. Varðandi andlega færniskerðingu segist kærandi vera með þunglyndi, fælni og kvíða. Hún taki [flúoxetín].

Kæranda hafi með bréfi, dags. 3. apríl 2018, verið synjað um örorkumat á þeim grundvelli að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Kæranda hafi verið bent á að hafa samband við heimilislækni sinn til að leita ráðgjafar um þau endurhæfingarúrræði sem í boði séu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. mars 2018 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 21. febrúar 2018. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda eru:

„[...]

KVÍÐI

FIBROMYALGIA

GASTRO-ESOPHAGEL REFLUX DISEASE“

Þá segir í læknisvottorðinu um heilsuvanda og færniskerðingu:

„Kvartar um mikla þreytu dofa og kemur litlu í verk, örmagnast oft. Oft flensulík einkenni, hiti og valíðan án þess að vera með hita eða kvef.. Mikill kvíði og vanlíðan, þolir illa allt andlegt álag..Mikð orkuleysi. Kvíði og þunglyndi og hefur tekið Fluoxetin 20 mg x1 síðan X. Svefntruflanir og minnisvandamál. Mikil áfallasaga, einelti í æsku og […] í mörg ár..Mikil kulnunar og verkjavandamál sem hafa gert hana alveg óvinnufæra síðan í X . Verið í starfsendurhæfingu hjá VIRK sem lauk með starfsgetumati X sl. Þar gert ráð fyrir vaxandi vinnugetu fram á […] en hún treystir sér alls ekki í neina vinnu ennþá.“

Í læknisvottorði B, dags. 29. júní 2018, sem lagt var fram undir rekstri málsins, er vísað í fyrra læknisvottorð B. Þá segir meðal annars:

„Þrátt fyrir umfangsmikla starfsendurhæfingu á vegum VIRK hefur A ekki treyst sér í vinnu vegna sinna einkenna. Er nú komin á framfærslu hjá D.

Þarf á frekari uppbyggingu að halda og hefur verið nefnt að sækja um fyrir hana á Gen það tekur þó langan tíma að komast þar að..

Óska eftir því að hún verði kölluð í örorkumat, uppfyllir að mínu mati amk skilyrði fyrir örorkustyrk og líklegast fyrir örorkubætur en það kemur þó fram við matið.“

Í sérhæfðu mati VIRK, dags. 5. janúar 2018, segir í klínísku mati sálfræðings meðal annars:

„A, Xára einstæð [...]. Er með samfellda og góða vinnusögu til X ára […] Var síðast á vinnumarkaði í X. Er greind með vefjagigt og hefur sótt greiningar- og fræðslunámskeið í Þraut og hyggur síðar á endurhæfingarferli þar. […] [L]ýsir langvarandi streitu og álagi, áfallsögu frá fyrri tíð, skertu álagsþoli, einbeitingar- og minnistruflunum, „heilaþoku“, „örmögnun“ sem rakin hefur verið til vefjagigtar. Neitar einkennum þunglyndi í dag og telur sig almennt í góðu tilfinningalegu jafnvægi. […] Kveðst í góðu jafnvægi í tilfinningalega í dag þegar hefur tök á að stýra álagi og uppfyllir ekki viðmið fyrir kvíða eða þunglyndiseinkenni. Þá verður ekki séð að A uppfylli greiningarviðmið áfallaröskunar. […] Svörunarmynstur í greiningarviðtali og samkvæmt matslitum sýnir væg einkenni kvíða og depurðar og telst í lágmarks þjónustuþörf hvað geðræn einkenni varðar. […]

Fagleg meðferð og árangur þeirra: Sótti fimm viðtöl hjá E sálfræðingi. Að mati sálfræðings, ekki þörf fyrir frekari meðferð þar sem tilfinningalegeinkenni teljast ekki hamlandi fyrir atvinnuþátttöku. Viðhorf A til sálfræðimeðferðar var í samræmi við álit sálfræðings.“

Í áætlun VIRK í starfsendurhæfingu, dags. 24. janúar 2018, segir að óljóst sé á þessum tímapunkti með langtímamarkmið varðandi atvinnuþáttöku. Í tillögum að markmiðum og úrræðum segir varðandi atvinnuþáttöku:

Markmið: Atvinnuþáttaka frá X 2018.

Úrræði: Vinnuprófun í líkamlega og andlega hentugu starfi. Byrja í um 10-20% hlutfalli og trappa upp á 1-2 vikna fresti eftir getur á 2-4 mánaða tímabili. Stefnt að útskrift í hentugt starf fyrir sumarið 2018.

Varðandi andlega þætti og/eða félagslega þætti segir:

Markmið: Efla streitu og álagsþol, verkjaaðlögun.

Úrræði: [...] samhliða áætlun um vinnuprófun. Viðmið fyrir endurskoðun: apríl 2018“

Varðandi líkamlega þætti segir:

Markmið: Bætt líkamleg og andleg líðan.

Úrræði: Almenn þjálfun á eigin vegum. Dagleg ganga og sund eftir atvikum.“

Í greiningu og endurhæfingarmati frá Þraut, dags. 20. september 2017, segir í samantekt á niðurstöðum:

„X ára kona sem varð fyrir heiftarlegu einelti í barnæsku sem stóð yfir í mörg ár. Bjó við streitu, kvíða og þunglyndi á unglingsárum. Var að mestu laus við stoðkerfisverki þar til um X en um svipað leyti blossuðu upp almennri stoðkerfisverkir með þrálátum höfuðverkjum og miklum iðraólgueinkennum. Á undanförum X árum hafa stoðkerfisverkir og þreyta aukist verulega og A fengið algjör örmögnunarköst. Hefur nú verið í veikindaleyfi frá X. Mat hjá Þraut sýnir útbreidda verkjanæmingu og staðfestir greininguna vefjagigt, þol er í neðri viðmiðunarmörkum, gripstyrkur allgóður og jafnvægisviðbrögð ágæt. Geðrænt mat benda til fyrri tímabila geðlægða en í dag eru slík einkenni ekki til staðar. Einnig er saga um ofsakvíða, kvíðaeinkenni eru eðlileg í dag. Streitueinkenni eru lítil. Verkjaaðlögun er góð en verkjakvíði er aukinn. Einkenni þreytu og heilaþoku er talsverð“

Þá kemur þar fram að leggja þurfi áherslu á fræðslu, að byggja upp líkamann og að læra á mörkin. Varðandi fræðslu og endurhæfingu segir:

„1. Fræðsla um vefjagigt og langvinna verki, almennt 8 klst námskeið hjá Þraut. A er búin á þessu námskeiði hjá Þraut.

2. Endurhæfing vegna vefjagigtar ætti að koma til greina en mögulega munu stakar fræðslulotur hjá Þraut  henta betur[…].

3. G, verkjasvið eða gigtarsvið kæmi til greina. A hefur einnig fengið boð um að taka þátt í hreyfingu á H á vegum Virk. A íhugar þessa möguleika og ræðir þá við heimilislækni sinn og Virk ráðgjafa.“

Varðandi líkamsþjálfun, hreyfingu og lífstílsþætti segir:

„1. Endurhæfingaráætlun. Haft verður samband við A og henni boðið áhugahvetjandi viðtal hjá sjúkraþjálfara til að gera endurhæfingaráætlun.

2. Þjálfun og þjálfunaráætlun undir handleiðslu sjúkraþjálfara með áherslu á að kenna henni þjálfunarprógramm sem hentar og hún getur gert heima. Fer í daglega göngutúra.

3. Sjúkraþjálfun – skoðun og mat v. höfuðverkja. Ath. hvort að einhver kveikja sé f. höfuðverkjum í stoðkerfi, andliti, spennumunstri.

4. Slökun og/eða hugleiðsla – gera stutta slökun af og til með rólegri öndun.

5. Lífsstílsaðgerðir; þarf að draga smám saman úr reykingum og koffeinneyslu.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Af svörum kæranda verður ráðið að hún eigi í erfiðleikum með langar setur og stöður auk stoðverkja. Þá greinir kærandi frá því að hún sé með viðvarandi síþreytu, örmögnun, stoðverki og að um sé að ræða verulega skert þol gagnvart álagi og áreiti.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að meta örorku heldur hafi endurhæfing verið álitin raunhæfur möguleiki. Þá var kæranda leiðbeint um að sækja um endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að af fyrirliggjandi mötum frá VIRK og C verði ráðið að starfsendurhæfing sé ekki fullreynd. Í mötunum er mælt með ákveðnum endurhæfingarúrræðum fyrir kæranda og ekki verður ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er staðfest sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. apríl 2018, að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Varðandi kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin svari því hvernig hún eigi að framfleyta sér vísar nefndin til þeirra leiðbeininga sem koma fram í hinni kærðu ákvörðun um endurhæfingarlífeyri. Kæranda er jafnframt bent á að hún geti kannað hvort hún eigi rétt til fjárhagsaðstoðar frá sveitarfélagi, sbr. IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta