Hoppa yfir valmynd

Nr. 24/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. janúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 24/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU20110022

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. nóvember 2020 kærði [...] fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. nóvember 2020, um að synja umsókn hennar um dvalarskírteini skv. 90. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarskírteini fyrir útlending sem ekki er EES- eða EFTA-borgari á grundvelli sambúðar með EES- eða EFTA-borgara þann 13. júlí 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. nóvember 2020, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 10. nóvember 2020 og meðfylgjandi voru athugasemdir. Þá bárust frekari gögn frá kæranda þann 15. nóvember 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að við vinnslu umsóknar hafi komið í ljós að fylgigögn væru ófullnægjandi. Hafi stofnunin endursent hjúskaparvottorð til kæranda þann 18. október 2018 og hafi vottorðið komið til baka með vottunum 19. desember 2018. Við vinnslu umsóknar hafi jafnframt komið í ljós að maki kæranda, þ.e. sá einstaklingur sem kærandi leiði rétt sinn af, uppfyllti ekki skilyrði til skráningar lögheimilis á Íslandi. Hafi lögheimili hans verið skráð erlendis frá og með 20. maí 2019. Hafi stofnunin sent kæranda bréf, dags. 19. febrúar 2020, þar sem henni hafi verið gert viðvart um að maki væri ekki skráður með lögheimili á Íslandi en jafnframt hafi verið óskað eftir greinargerð um samband og kynni kæranda og maka. Maki kæranda hafi svarað bréfi Útlendingastofnunar með bréfi, dags. 30. mars 2020 en þar komi m.a. fram að upplýsingar stofnunarinnar séu ekki réttar en hann hafi fengið skráningu í júní 2018 en ekki 20. maí 2019. Einnig hafi hann ekki verið á landinu 20. maí 2019 og hafi kærandi aldrei komið til Íslands.

Vísaði Útlendingastofnun til ákvæða 80. og 86. gr. laga um útlendinga. Ljóst væri að maki kæranda hefði fengið skráningu hjá Þjóðskrá Íslands þann 18. júní 2018 en hann hefði verið skráður úr landi 20. maí 2019. Jafnvel þótt forsendur fyrir dvalarskírteini hefðu verið til staðar þegar kærandi lagði fram dvalarumsókn væru þær forsendur brostnar, sbr. 2. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 86. gr. laga um útlendinga. Þá vísaði Útlendingastofnun til þess að þó svo að einstaklingur yrði talinn hafa nýtt rétt sinn til frjálsrar farar komi frekari reglur og skilyrði til skoðunar varðandi útgáfu dvalarskírteinis til umsækjanda eins og t.d. að EES-borgari hafi dvalist í öðru samningsríki að samningnum um evrópska efnahagssvæðið með raunverulegum hætti þannig að fjölskyldulíf gæti myndast og að dvalartími yrði að hafa verið lengri en þrír mánuðir, sbr. dóm EFTA dómstólsins frá 26. júlí 2016 í máli Yankuba Jabbi gegn norska ríkinu í máli nr. E-28/15. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 86. gr. laga um útlendinga og var umsókn hennar því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að maki hennar hafi starfað hér á landi í u.þ.b. fjóra mánuði. Þá eru ýmsar athugasemdir gerðar við málsmeðferð Útlendingastofnunar sem ekki er þörf á að rekja nánar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga um útlendinga gilda ákvæði kafla XI. laganna um rétt útlendinga sem eru ríkisborgarar ríkis sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu til að koma til landsins og dveljast hér á landi. Þá segir í 1. málsl. 2. mgr. 80. gr. að ákvæði XI. kafla gildi einnig um aðstandendur EES- og EFTA-borgara sem fylgja honum til landsins eða koma til hans. Í 1. mgr. 82. gr. kemur fram að aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem falli undir ákvæði XI. kafla laganna hafi rétt til að dveljast með honum hér á landi. Í 2. mgr. 82. gr. eru aðstandendur EES- og EFTA-borgara skilgreindir, þ.e. maki og sambúðarmaki ef aðilar eru í skráðri sambúð eða sambúð sem er staðfest með öðrum hætti, sbr. a-lið, niðji viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka í beinan legg sem er yngri en 21 árs eða á framfæri borgarans, sbr. b-lið eða ættingi viðkomandi, maka eða sambúðarmaka hans í beinan legg sem er á framfæri borgarans, sbr. c-lið ákvæðisins.

Í 1. mgr. 84. gr. laga um útlendinga er kveðið á um rétt til dvalar í lengur en þrjá mánuði fyrir EES-eða EFTA-borgara. Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. hefur EES- eða EFTA-borgari rétt til dvalar hér á landi lengur en þrjá mánuði ef hann fullnægir einhverju af skilyrðum a-d liðar ákvæðisins, þ.e. er launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur hér á landi, sbr. a-lið, ætlar að veita eða njóta þjónustu hér á landi og uppfyllir jafnframt skilyrði c-liðar, eftir því sem við á, sbr. b-lið, hefur nægilegt fé fyrir sig og aðstandendur sína til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar á meðan dvöl stendur og fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir, sbr. c-lið eða er innritaður í viðurkennda námsstofnun með það að meginmarkmiði að öðlast þar menntun eða starfsþjálfun, fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir og getur sýnt fram á trygga framfærslu.

Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga um útlendinga gilda ákvæði 1. og 2. mgr. 85. gr., eftir því sem við á, um útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar en eru aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem hefur dvalarrétt skv. a-, b- eða c-lið 1. mgr. 84. gr. Sama gildir um maka, sambúðarmaka, barn eða ungmenni yngra en 21 árs sem fylgir eða kemur til EES- eða EFTA-borgara sem hefur dvalarrétt skv. d-lið 1. mgr. 84. gr.

Umsókn kæranda um dvalarskírteini byggir á hjúskap hennar með [...] ríkisborgara, [...]. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands var maki kæranda skráður nýr á skrá hér á landi þann 1. júní 2018. Þann 20. maí 2019 var lögheimili hans skráð erlendis. Samkvæmt upplýsingum frá þjóðskrá sem kærunefnd aflaði þann 21. janúar 2021 var heimili maka kæranda þá enn skráð í útlöndum. Af gögnum málsins og athugasemdum kæranda til kærunefndar er ljóst að maki kæranda er ekki búsettur hér á landi. Þá er enn fremur ljóst að kærandi hefur aldrei komið til Íslands. Með hliðsjón af framangreindu getur kærandi ekki byggt rétt sinn til dvalar hér á landi á maka sínum og uppfyllir hún því ekki skilyrði 2. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 86. gr. laga um útlendinga.

Að framansögðu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Gunnar Páll Baldvinsson                                     Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta