Nr. 274/2014 - Úrskurður
Miðvikudaginn 25. febrúar 2014
274/2014
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
ÚRSKURÐUR
Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 19. september 2014, kærir B f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skerða bótaréttindi hennar á árinu 2013 vegna fjármagnstekna.
Óskað er endurskoðunar.
Málavextir eru eftirfarandi samkvæmt málsgögnum. Með bréfi, dags. 21. júlí 2014, krafði Tryggingastofnun kæranda um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2013, samtals að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Með bréfi, dags. 15. ágúst 2014, andmælti kærandi endurkröfunni við Tryggingastofnun og svaraði stofnunin því með bréfi, dags. 4. september 2014, þar sem fyrri ákvörðun var staðfest.
Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:
„Með bréfi dags. 6.8.2014 óskaði undirritaður eftir því við Tryggingastofnun að bótagreiðslur ársins 2013 yrðu leiðréttar, þar sem þær voru ekki byggðar á skattframtali A fyrir árið 2013. Við útreikning bótagreiðslna gekk Tryggingastofnun út frá því að A hefði haft vaxtatekur, arðstekjur og leigutekjur á árinu 2013, sem hún hafði ekki. Í úrskurði vísaði Tryggingastofnun til þess að A hefði ekki fengið skilnað frá fyrrum eiginmanni sínum fyrr en þann X 2013 og bæri því að reikna henni hlutdeild í fjármagnstekjum hans fyrir árið 2013.
Forsendur:
Þann X 2012 óskaði A eftir skilnaði við eiginmann sinn hjá Sýslumanninum á C. Ekki náðist samkomulag um fjárskipti milli hjónanna fyrr en þann X 2013. Voru fjárskiptin miðuð við þann dag sem sótt var um skilnaðinn þann X 2012, en frá þeim degi átti hvorugt hjónanna tilkall til tekna hins.
Niðurstaða:
Í ljósi þess er að ofan er rakið, þ.e. að A átti enga hlutdeild í fjármagnstekjum fyrrum eiginmanns síns á árinu 2013, er þess krafist að bótaútreikningur hennar fyrir árið taki mið af því.“
Með bréfi, dags. 29. september 2014, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kærunnar. Umbeðin greinargerð barst frá stofnuninni, dags. 14. október 2014, þar sem segir:
„1. Kæruefni
Kærð er meðhöndlun Tryggingastofnunar á fjármagnstekjum í endurreikningi tekjutengdra bóta 2013 sem kæranda var tilkynnt um með bréfi dags. 21. júlí 2014.
2. Lög og reglur
Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (atl.) með síðari breytingum er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Þá segir í 2. mgr.
Til tekna skv. III. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skal eftirfarandi gilda við ákvörðun tekjugrundvallar:
a. Tekjur umfram 90.000 kr. á ári skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu teljast til tekna við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu skv. 17.–19. gr. og 21.–22. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.
Bótagreiðsluár er almanaksár sbr. 5. mgr. 16. gr. atl. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna skv. 7. mgr. 16. gr. laganna, sbr. og III. kafla reglugerðar nr. 598/2009.
Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 55. gr. atl. Þar kemur fram að Tryggingastofnun skuli draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Sú skylda er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.
Í 2. mgr. 52. gr. atl. felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki. Aftur á móti er einungis um heimild hjá Tryggingastofnun að ræða til að afla tekjuupplýsinga. Slík heimild verður þess ekki valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu.
3. Málvextir
Kærandi naut örorkulífeyris og tengdra greiðslna á árinu 2013. Það er lögbundin skylda Tryggingastofnunar að endurreikna bótafjárhæðir eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins leiddi til X kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa myndaðist í uppgjöri er að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2014 vegna tekjuársins 2013 hafði farið fram, kom í ljós að tekjur kæranda reyndust hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattfamtölum bótaþega lögum samkvæmt.
Tryggingastofnun útbjó tillögu að tekjuáætlun vegna ársins 2013 þar var gert ráð fyrir því að að kærandi hefði X kr. í laun á árinu, ásamt X kr. í fjármagnstekjur. Kærandi breytti tillögunni í X kr. í fjármagnstekjur og voru greiðslur ársins greiddar á grundvelli þeirra upplýsinga. Við bótauppgjör ársins 2013 kom í ljós að kærandi var með X kr. í laun, X kr. úr séreignarsjóði ásamt X kr. í fjármagnstekjur (sjá nánari sundurliðun á meðfylgjandi afriti). Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2013 var að kærandi hafði fengið greitt á árinu X kr. en átti eingöngu rétt á að fá greitt X kr. Sjá nánar í meðfylgjandi gögnum. Leiddi þessi mismunur til endurgreiðslukröfu í tekjutryggingu, orlofs- og desemberuppbót ásamt framfærsluuppbót.
Kærandi andmælti niðurstöðu uppgjörs og var þar haldið fram að fjármagnstekjur kæranda væru eingöngu X kr á árinu. Andmælunum var svarað með bréfi, dags. 4. september sl. en ekki var fallist á rök kæranda.
Útreikningur tekjutengdra bóta byggist á lögum um almannatryggingar. Kærandi var sannarlega í hjúskap á árinu 2013 og ber því að meðhöndla fjármagnstekjur hjónanna eins og 16. gr. atl. kveður á um. Þrátt fyrir að upphaf skilnaðarmáls kæranda hafi verið á árinu 2012 breytir það ekki þeirri staðreynd að viðkomandi var sannarlega í hjúskap á árinu 2013, fjármagnstekjur mynduðust á því ári og lögum samkvæmt hafa fjármagnstekjur maka áhrif á tekjutengdar bætur eins og komið hefur verið að hér að framan. Ef um hjón er að ræða skiptast fjármagnstekjur til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða. Tryggingastofnun hefur ekki heimild til að líta fram hjá fjármagnstekjum. Í þessu samhengi vísast til úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 17/2012 og 286/2013. Rétt er að vekja einnig athygli á niðurstöðu hæstaréttardóms í máli nr. 395/2008 þar sem tekinn var af allur vafi á að Tryggingastofnun beri að endurreikna bætur og miða við hvernig fjármagnstekjurnar eru færðar á hvert tekjuár en ekki tilurð þeirra tekna eða hvort viðkomandi hafi í raun fengið einhverja greiðslur í hendur á því ári.
4. Niðurstaða
Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.“
Greinargerðin var send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 14. október 2014, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi, dags. 17. október 2014, bárust svofelldar athugasemdir frá umboðsmanni kæranda:
„Í nefndri greinargerð er tiltekið að stofnunin hefði útbúið tekjuáætlun 2013 fyrir kæranda, þar sem gert var ráð fyrir fyrir fjármagnstekjum kr. X og að kærandi hafi breytt tillögu um fjármagnstekjur X ( sama fjárhæð ) og að greiðslur ársins hefðu verið greiddar á grundvelli þeirra upplýsinga. Kærandi kveðst ekki hafa gert neina tillögu um breytingar á fjármagnstekjum í þessa veru, enda bera þau gögn sem Tryggingastofnun lætur fylgja með greinargerð engin merki þess að svo hafi verið. Þessari fullyrðingu er því mómælt.
Greinargerð Tryggingastofnunar breytir engu um það að útreikningur bóta kæranda fyrir árð 2013 er grundvallaður á fjármagnstekjum sem kærandi sannanlega hafði ekki og sýnt hefur verið fram á með gögnum er áður hafa verið send. Þá er bent á að þessi málsmeðferð stofnunarinnar kann að brjóta í bága við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því er ítrekuð sú krafa að útreikningur bóta ársins 2013 verði byggður á réttum og sannanlegum upplýsingum sem lagðar voru fram með bréfi undirritaðs þann 19.09.2014.“
Athugasemdir umboðsmanns kæranda voru kynntar Tryggingastofnun með bréfi, dags. 20. október 2014, og stofnuninni gefinn kostur á frekari athugasemdum. Viðbótargreinargerð, dags. 4. nóvember 2014, barst frá stofnuninni þar sem segir:
„Rétt er að vekja athygli á því sem fram kemur í athugasemdum lögmanns kæranda, að eins og fram kemur í fyrri greinargerð TR þá breytti kærandi fyrirliggjandi tekjuáætlun á þá leið að hún tók út launatekjur sínar en breytti ekki áætluðum fjármagnstekjum. Hefði þetta getað verið orðað betur í fyrrnefndri greinargerð og er beðist afsökunar á því.
Að öðru leyti sér stofnunin ekki ástæðu til sérstakra athugasemda. Vísar stofnunin til fyrri greinargerðar sinnar í málinu.“
Viðbótargreinargerðin var kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 4. nóvember 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skerða bótaréttindi kæranda á árinu 2013 vegna fjármagnstekna.
Í kæru til úrskurðarnefndar er greint frá því að kærandi hafi ekki haft vaxtatekjur, leigutekjur eða tekjur af arði á árinu 2013. Fram kemur að kærandi hafi óskað eftir skilnaði við eiginmann sinn þann X 2012 hjá sýslumanni en ekki hafi náðst samkomulag þeirra á milli um fjárskipti fyrr en þann X 2013. Fjárskiptin hafi því verið miðuð við þann dag sem sótt hafi verið um skilnaðinn en frá þeim degi hafi hvorugt þeirra átt tilkall til tekna hins. Kærandi hafi því enga hlutdeild átt í fjármagnstekjum fyrrum eiginmanns síns á árinu 2013.
Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að þrátt fyrir að upphaf skilnaðarmáls kæranda hafi verið á árinu 2012 breyti það ekki þeirri staðreynd að hún hafi sannanlega verið í hjúskap á árinu 2013. Fjármagnstekjur hafi myndast á því ári og lögum samkvæmt hafi fjármagnstekjur maka áhrif á tekjutengdar bætur. Þá segir að ef um hjón sé að ræða skiptist fjármagnstekjur til helmings á milli hjóna við útreikning bótanna. Skipti ekki máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra tekna sem myndi tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða.
Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun á árinu 2013. Fjárhæðir bóta á bótagreiðsluári ráðast af áætlun um tekjur bótaþega á því ári sem bæturnar eru greiddar. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, bera bótaþegar skyldu til að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka rétta ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Sambærileg ákvæði er nú að finna í 39. gr. laganna.
Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun að endurreikna fjárhæðir bóta eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Endurreikningur stofnunarinnar á bótarétti kæranda vegna ársins 2013 leiddi í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Samkvæmt gögnum málsins er ástæðu ofgreiðslunnar að rekja til vanáætlunar fjármagnstekna í tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2013.
Með tekjuáætlun, dags. 11. janúar 2013, var gert ráð fyrir X kr. í fjármagnstekjur á árinu 2013. Þar af voru X kr. áætlaðar í vexti og verðbætur, X kr. í arð og X kr. í leigutekjur. Bótaréttindi ársins voru reiknuð og greidd út miðað við þær forsendur. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2013 reyndist kærandi hins vegar vera með X kr. í launatekjur og voru fjármagnstekjur hærri. Vextir og verðbætur reyndust vera X kr., arður X kr. og leigutekjur X kr.
Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um hvernig Tryggingastofnun skuli standa að útreikningi tekjutengdra bóta. Í a-lið 2. mgr. greinarinnar er fjallað nánar um tengingu fjármagnstekna við bótaréttindi:
„Tekjur umfram 90.000 kr. á ári skv. C-lið7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu teljast til tekna við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu skv. 17.–19. gr. og 21.–22. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“
Hin kærða ákvörðun grundvallast á framangreindu lagaákvæði þar sem helmingur samanlagðra fjármagnstekna kæranda og fyrrum eiginmanns hennar skerða bótaréttindi kæranda á árinu 2013 þar sem þau voru skráð í hjúskap. Kærandi óskaði skilnaðar frá eiginmanni sínum hjá sýslumanni þann X 2012, samningur um fjárslit er dagsettur X 2013 og voru þau skráð í hjúskap til X 2013. Af gögnum málsins má ráða að umræddar fjármagnstekjur hafi verið skráðar í skattframtal fyrrum eiginmanns kæranda vegna tekjuársins 2013.
Samkvæmt því sem kveðið er á um í 2. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skulu fjármagnstekjur skiptast til helminga á milli hjóna við útreikning bóta og skv. 3. málsl. sömu greinar skiptir ekki máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem mynda fjármagnstekjur. Með hliðsjón af framangreindu ákvæði telur úrskurðarnefnd að það taki til þeirra bótaþega sem eru skráðir í hjúskap samkvæmt opinberri skráningu og að engu skipti í hvoru skattframtalinu tekjurnar séu skráðar. Hjúskapi lauk X 2013 og af gögnum málsins má ráða að umræddar fjármagnstekjur hafi verið skráðar í skattframtal fyrrum eiginmanns kæranda vegna tekjuársins 2013.
Í 6. gr. reglugerðar um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, nr. 598/2009, segir að leggja skuli til grundvallar við endurreikning þær aðstæður bótaþega á hverjum tíma innan bótagreiðsluársins sem lögum samkvæmt hafa áhrif á greiðslurétt. Í þessu sambandi skuli m.a. litið til hjúskaparstöðu. Þá segir í b-lið 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar að aðrar tekjur en staðgreiðsluskyldar skuli hafa áhrif á endurreikning bóta í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem tilheyra hverju tímabili. Þegar hjúskap eða sambúð sé slitið á bótagreiðsluári sé þó heimilt að undanskilja þessar tekjur að hluta eða öllu leyti við endurreikning tímabilsins eftir að hjúskaparstaða breytist. Af gögnum málsins fær úrskurðarnefnd ekki ráðið hvort um sé að ræða fjármagnstekjur sem tilheyri tímabilinu fyrir eða eftir hjúskap kæranda og fyrrum eiginmanns hennar og þar með hvort stofnunin hafi haft hliðsjón af framangreindum ákvæðum reglugerðarinnar við endurreikninginn. Þegar af þeirri ástæðu telur úrskurðarnefnd að málinu skuli heimvísað til frekari skoðunar.
Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins hrundið og málinu heimvísað til frekari meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli A, er vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til frekari meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
Friðjón Örn Friðjónsson formaður