Hoppa yfir valmynd

Nr. 239/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 28. apríl 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 239/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23030086

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Með úrskurði nr. 87/2021, í máli nr. KNU21010003, kveðnum upp 25. febrúar 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. desember 2020, um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Pakistan, um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 1. mars 2021. Beiðni um frestun réttaráhrifa barst kærunefnd 8. mars 2021 og var henni hafnað með úrskurði nr. 144/2021, uppkveðnum 24. mars 2021. Beiðni um endurupptöku málsins barst kærunefnd 21. desember 2022. Með úrskurði nr. 143/2023, uppkveðnum 16. mars 2023, hafnaði kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

Hinn 26. mars 2023 barst að nýju beiðni um endurupptökumálsins ásamt fylgigögnum. Dagana 28. og 29. mars og 4. og 5. apríl 2023 bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda.

Af beiðni kæranda um endurupptöku máls hans má ráða að hann byggi á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kærenda

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku máls hans á 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og 11. gr. stjórnsýslulaga. Því til stuðnings vísar kærandi í úrskurð kærunefndar nr. 319/2020 sem uppkveðinn var 24. september 2020 og fréttum af fjölmiðlum tengdum niðurstöðu þess máls. Kærandi telur að málavextir í hans máli séu sambærilegir þeim málavöxtum sem til úrlausnar hafi verið í framangreindu máli. Kærandi vísar til þess að hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd 6. október 2020. Kærandi hafi verið hér á landi í tvö og hálft ár. Kærandi telur að hann eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi ekki fengið endanlega ákvörðun um brottvísun frá Íslandi. Kærandi vísar einnig til þess að hann hafi spurst fyrir um stöðu sína hér á landi og verið tjáð að Útlendingastofnun ætli ekki að vísa honum úrlandi. Þá hafi síðustu ákvörðun Útlendingastofnunar ekki verið framfylgt af stjórnvöldum. Framangreindu til stuðnings vísar kærandi jafnframt til 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

Af beiðni kæranda um endurupptöku og framlögðum gögnum með beiðninni má ráða að hann byggi á því að skilyrði séu til endurupptöku málsins þar sem hann eigi eiginkonu og börn hér á landi sem séu með dvalarleyfi. Því til stuðnings vísar kærandi í dóm Mannréttindadómsstóls Evrópu í máli Abdulaziz, Cabales og Balkandali gegn Bretlandi (mál nr. 9214/80, 9473/80 og 9474/81) frá 28. maí 1985. Í dómnum hafi dómstóllinn túlkað 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og réttinn til fjölskyldulífs og fjölskyldusameiningar. Kærandi vísar til skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2018 er fjallar um rétt flóttamanna og annarra sem í þörf séu fyrir alþjóðlega vernd til fjölskyldulífs og fjölskyldusameiningar. Kærandi vísar einnig til tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2003/109/EC varðandi stöðu ríkisborgara þriðja ríkis sem hafi verið í langtímadvöl í aðildarríkjunum. Í tölvubréfi til kærunefndar 28. mars 2023 kvaðst kærandi ekki eiga rétt á fjölskyldusameiningu á grundvelli 69. gr. og 72. gr. laga um útlendinga og þá geti 78. gr. sömu laga ekki átt við í hans máli.

Þá byggir kærandi beiðni um endurupptöku málsins á 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þar sem erfiðar aðstæður séu í heimaríki hans sem hann telur að hafi ekki verið skoðaðar í máli hans. Með beiðni lagði kærandi fram afrit af fréttum á ýmsum netfjölmiðlum um aðstæður í Pakistan, svo sem til fréttar frá 7. mars 2023 á netmiðli Guardian, fréttar frá 2. febrúar 2023 á netmiðli CNN og fréttar frá 8. mars 2023 á netmiðli Al jazeera.

Þá kemur fram í beiðni kæranda að hann sé ósammála mati kærunefndar í úrskurði nr. 143/2023 á hljóðupptöku sem hann lagði fram með fyrri beiðni um endurupptöku. Kærandi telji að kærunefnd hafi ekki gætt hlutleysis við mat á því hvað fram hafi komið í samskiptum hans við starfsmann Útlendingastofnunar um stöðu hans hér á landi. Kærandi leggi nú fram skriflegt endurrit af framangreindum samskiptum. Kærandi telur að endurritið sýni fram á að staða hans sem flóttamanns á Ítalíu hafi verið færð hingað til lands, sbr. 47. gr. laga um útlendinga.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. laganna.

Með úrskurði nr. 87/2021, dags. 25. 2021, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar um að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og ætti því ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga og að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd taldi, með vísan til umfjöllunar hennar í úrskurði um aðstæður í heimaríki kæranda, að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði ekki í vegi fyrir endursendingu hans þangað. Líkt og að framan greinir var beiðni kæranda um endurupptöku frá 21. desember 2022 hafnað með úrskurði kærunefndar nr. 143/2023.

Málsástæður sem kærandi byggir á í beiðni sinni um endurupptöku eru samhljóða málsástæðum í fyrri beiðni hans um endurupptöku. Verður af beiðni kæranda og framlögðum gögnum henni til stuðnings ráðið að kærandi sé ósammála mati kærunefndar í fyrrgreindum úrskurði nr. 143/2023.

Hvað kröfu kæranda um að honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldutengsla áréttar kærunefnd að í úrskurðum nefndarinnar í efnismeðferðarmáli kæranda og fyrri endurupptöku máli leiðbeindi nefndin kæranda um að leggja fram beiðni um fjölskyldusameiningu til Útlendingastofnunar. Kærunefnd ítrekar þær leiðbeiningar og vekur athygli kæranda á því að Útlendingastofnun er það stjórnvald sem tekur til skoðunar umsóknir um dvalarleyfi á stjórnsýslustigi. Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru eftir atvikum kæranlegar til kærunefndar útlendingamála.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku einnig á því að það sé mat hans að kærunefnd hafi ekki lagt rétt mat á það hvað fram hafi komið í framlagðri hljóðupptöku af samskiptum kæranda og starfsmanns Útlendingastofnunar þar sem þeir hafi rætt um stöðu kæranda hér á landi. Kærandi leggi nú fram skriflegt endurrit af framangreindum samskiptum. Kærandi telur að endurritið sýni fram á að alþjóðleg vernd hans á Ítalíu hafi verið færð hingað til lands, sbr. 47. gr. laga um útlendinga. Hvað framangreint varðar ítrekar kærunefnd það sem fram kemur í úrskurði nefndarinnar nr. 143/2023 um umrædda hljóðupptöku. Kærunefnd staðfesti með úrskurði nr. 87/2021 þann 25. febrúar 2021 ákvörðun Útlendingastofnunar að synja kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Eftir þá niðurstöðu mátti kæranda vera fullljóst að hann hefði þá þegar fengið endanlega niðurstöðu hvað varðaði umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi og hafði því ekki réttmætar væntingar til þess að þeirri niðurstöðu yrði breytt án þess að kærandi óskaði sérstaklega eftir því, s.s. með beiðni um endurupptöku eða með því að leggja inn nýja umsókn um alþjóðlega vernd. Samkvæmt lögum um útlendinga getur útlendingur ekki átt réttmætar væntingar á því að verða veitt alþjóðleg vernd með því einu að starfsmaður Útlendingastofnunar tjái honum það munnlega, hvort sem það sé á misskilningi byggt eða í góðri trú starfsmannsins. Þá kemur fram í úrskurðinum að ákvörðun ítalskra yfirvalda um að veita kæranda stöðu flóttamanns þar í landi bindur ekki íslensk stjórnvöld. Ákvæði 47. gr. laga um útlendinga fela í sér heimild til handa íslenskum stjórnvöldum að endurskoða mat annarra ríkja og ákvarða hvort grundvöllur sé til að veita alþjóðlega vernd samkvæmt lögum um útlendinga.

Líkt og í fyrri beiðni sinni um endurupptöku byggir kærandi á því að vegna ótryggs öryggisástands í Pakistan þá eigi hann rétt á dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í áðurnefndum úrskurði kærunefndar nr. 143/2023 lagði kærunefnd mat á framangreinda málsástæðu. Það er mat kærunefndar að ekkert í gögnum málsins gefi til kynna að aðstæður á heimasvæði kæranda í Pakistan hafi breyst verulega þannig að taka beri mál hans upp að nýju, sbr. 24. stjórnsýslulaga.

Kærandi byggir jafnframt að nýju á því að þar sem hann hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi 6. október 2020 þá eigi hann rétt á dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd lagði mat á framangreinda málsástæðu í úrskurði nefndarinnar nr. 143/2023. Eins og fram kemur í úrskurðinum var úrskurður kærunefndar í máli hans kveðinn upp 25. febrúar 2021 eða um fimm mánuðum eftir að hann lagði fram umsókn sína. Var máli kæranda því lokið á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða. Tók kærunefnd fram að í ljósi þess að máli kæranda var lokið á báðum stjórnsýslustigum innan þeirra tímamarka sem fram kæmu í ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga væri ljóst að hann uppfyllti ekki skilyrði til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða af þeim sökum. Ekkert í beiðni eða framlögðum gögnum málsins breytir framangreindu mati kærunefndar.

Kærunefnd hefur farið yfir öll framlögð gögn með beiðni kæranda um endurupptöku og er það niðurstaða nefndarinnar að ekkert sem fram kemur í þeim bendi til þess að úrskurður kærunefndar nr. 87/2021, frá 25. febrúar 2021 hafi byggst á röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst frá því úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine his case is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsso

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                            Sindri M. Stephensen


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta