Úrskurður nr. 168/2016
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 17. maí 2016 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 168/2016
í stjórnsýslumáli nr. KNU15100031
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru, dags. 27. október 2015, kærði maður er kveðst heita [...], fd. [...] og talinn vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar þann 23. október 2015, að synja honum um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002 um útlendinga.
Kærandi gerir þá kröfu að honum verði veitt hæli á Íslandi sem flóttamaður. Verði ekki fallist á kröfu kæranda um hæli er gerð sú krafa að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi kom hingað til lands 18. maí 2014 og sótti um hæli sama dag hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. júní 2014 var ákveðið að kærandi skyldi endursendur til Þýskalands og að mál hans yrði ekki tekið til efnismeðferðar á Íslandi. Með úrskurði innanríkisráðuneytisins, hinn 5. desember 2014, var ákvörðun Útlendingastofnunar frá 16. júní 2014 felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka hælisbeiðni kæranda til efnismeðferðar. Kærandi mætti í fjögur viðtöl hjá Útlendingastofnun, þann 19. febrúar 2015, þann 4. mars 2015, þann 7. maí 2015 og þann 8. júlí 2015 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. október 2015, um að synja kæranda um hæli og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið, var birt honum þann 27. október 2015. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar þann sama dag. Greinargerð vegna kæru barst kærunefnd útlendingamála þann 18. nóvember 2015. Þann 3. maí sl. kom kærandi fyrir kærunefndina og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.
Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Kærandi hefur frá upphafi borið fyrir sig að hann komi frá [...] en gögn málsins benda þó til þess að hann komi frá [...]. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um hæli á því að hann sé í hættu verði hann endursendur til [...], þaðan sem hann kveðst vera, þar sem hann hafi starfað fyrir fyrrum valdhafa þar í landi og sé eftirlýstur af leyniþjónustunni m.a. vegna þess að hann hafi snúist gegn starfsemi [...] hersins í [...]. Honum stafi einnig hætta af ættbálkum þar í landi. Þá sé ástand í [...] með þeim hætti að hann geti ekki leitað til yfirvalda til að hljóta vernd gegn ofsóknum. Þá kvaðst kærandi vera með [...].
Þar sem kærandi gat ekki sannað á sér deili boðaði Útlendingastofnun kæranda í tungumála- og staðháttapróf ásamt talsmanni sínum. Niðurstöður þeirra lágu fyrir þann 20. apríl 2015 og 4. maí 2015 og bentu til þess að kærandi væri ekki frá [...] og að tungumálanotkun kæranda væri í samræmi við þá mállýsku [...] sem töluð væri í [...]. Í fjórða viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi vera fæddur í [...] en niðurstaða tungumála- og staðháttaprófs var ekki talin í samræmi við það sem tíðkast í [...].
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram nein skilríki hjá íslenskum yfirvöldum. Þá hafi hann gefið upp ýmis nöfn á ferðum sínum um Evrópu. Útlendingastofnun hafi leiðbeint kæranda ítrekað um að upplýsa um auðkenni sitt. Það hafi hann ekki gert og því var niðurstaða í máli hans byggð á trúverðugleika á frásögn hans, niðurstöðum úr tungumála- og staðháttaprófum og gögnum sem lágu fyrir. Niðurstaða tungumála- og staðháttaprófa um að kærandi komi frá [...] voru afgerandi. Eins og framburði kæranda og atvikum málsins var háttað þótti stofnuninni ekki annað fært en að leggja það til grundvallar í málinu. Vegna hins ríka innbyrðis ósamræmis í frásögn kæranda, ósamræmis frásagnar hans gagnvart sögulegum staðreyndum, afgerandi misræmis í heildarfrásögn kæranda, þeirrar niðurstöðu að kærandi væri ekki frá [...] og vegna þess að kærandi hafi ekki fært fram gögn til að renna stoðum undir neina af frásögnum sínum þótti ástæða til að draga í efa frásögn kæranda. Að loknu heildarmati á trúverðugleika frásagnar kæranda var það mat Útlendingastofnunar að frásögn kæranda væri í heild sinni ótrúverðug og því væri ekki hægt að leggja hana til grundvallar í málinu. Því var ekki byggt á öðru en að kærandi væri frá [...].
Kærandi hafði ekki haldið því fram að hafa verið eða eiga á hættu að vera ofsóttur í heimalandi sínu, [...]. Að þessu virtu og með tilliti til upplýsinga um aðstæður í [...] var það mat Útlendingastofnunar að hvorki væri ástæða til þess að ætla að aðstæður kæranda væru með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, né 2. mgr. sömu lagagreinar. Við mat á því hvort aðstæður kæranda féllu undir 12. gr. f útlendingalaga kom fram að ekki hafi mælst [...] í blóði kæranda og gætu þessi ætluðu veikindi því ekki orðið grundvöllur dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Talið var að kærandi gæti leitað til heilbrigðisyfirvalda í heimalandi sínu vegna [...] og að [...], sem hrjái kæranda, teldist ekki til alvarlegs heilsufarsvanda. Þá hafi kærandi ekki borið fyrir sig að hafa sérstök tengsl við Ísland og ekkert liggi fyrir sem gefi það til kynna. Var kærandi því ekki talinn eiga rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða né sérstakra tengsla skv. 12. gr. f útlendingalaga.
Með vísan til málavaxtalýsingar og framburðar í máli kæranda var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi af ásetningi gefið efnislega rangar upplýsingar í skýrslu hjá lögreglu og viðtölum hjá Útlendingastofnun. Taldi stofnunin því skilyrðum b-liðar 1. mgr. 20. gr. útlendingalaga fullnægt og var kæranda gert að sæta 5 ára endurkomubanni í samræmi við 2. mgr. 20. gr. c útlendingalaga, sbr. 57. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga. Þá var niðurstaða Útlendingastofnunar að kæra skyldi fresta réttaráhrifum með vísan til 1. mgr. 32. gr. útlendingalaga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé fæddur í [...]. Þar hafi hann dvalist til ársins [...] þegar fjölskylda hans hafi flust til [...] þar sem kærandi hafi fengið [...] ríkisborgararétt gegn því að sinna herþjónustu. Kærandi hafi verið sendur þaðan í því skyni að sinna friðargæslu í [...]. Kærandi hafi stutt þáverandi [...]. Í framhaldinu hafi kæranda ekki hugnast að sinna þeim störfum sem honum hafi verið gert að sinna og hafi hann því gengið til liðs við hóp [...] til að berjast fyrir [...]. Uppfrá þeim tíma hafi kærandi verið eftirlýstur í [...] af þáverandi foringjum leyniþjónustunnar þar í landi. Kærandi hafi lýst því yfir að hann óttist að verða ráðinn af dögum ef hann verði sendur aftur til [...] þar sem ríki nú óstjórn og stríðsástand. Þá telji hann sig í aukinni hættu vegna þess að hann hafi snúið frá störfum sínum í [...] til þess að fara til [...]. Einnig óttist hann ættbálka, skærur og hefnd þeirra sem hann hafi áður unnið gegn í störfum sínum fyrir stjórnvöld.
Í greinargerðinni er bent á að framburður kæranda fái stoð í skýrslum alþjóðastofnana og samtaka. Þar komi m.a. fram að embættismenn og starfsmenn sem hafi starfað á vegum yfirvalda í stjórnartíð [...] sæti nú ofsóknum í [...] frá skæruliðahópum og núverandi stjórnvöldum. Stjórnvöld í [...] séu ófær um að aðstoða þá sem ofsóknum sæti af hálfu skæruliðahópa auk þess sem ofbeldi, óöryggi og óstjórn ríki í landinu og alls kyns mannréttindabrot séu stunduð af vopnuðum skæruhópum og öðrum valdhöfum í landinu.
Í greinargerðinni er gerð athugasemd við þá ályktun Útlendingastofnunar að kærandi sé í raun ríkisborgari [...]og þau málsatvik sem þar séu lögð til grundvallar. Kærandi bendi í fyrsta lagi á að hann sé ríkisborgari [...] og hafi frá komu sinni hingað til lands verið stöðugur í framburði um það atriði þó að hann hafi breytt framburði sínum varðandi fæðingarstað sökum ótta við að verða sendur aftur þangað. Undir rekstri málsins hafi kærandi þvertekið fyrir það að vera frá [...]. Í greinargerð kæranda er bent á að það eina sem styðji ályktun stofnunarinnar séu tungumála- og staðháttapróf en ótækt sé að byggja meginforsendur stjórnvaldsákvörðunar, andstætt framburði kæranda, á eins ótraustu gagni og slíku prófi sem aflað hafi verið einhliða af stofnuninni. Kærandi leggi áherslu á að niðurstaða prófanna sé ekki afgerandi, hvorki í þá átt að hann sé ekki frá [...] né að hann sé frá [...]. Sama megi segja varðandi prófið er varði [...]. Kærandi hafi jafnframt verið lengi utan heimalands síns sem hljóti að skekkja niðurstöðu prófanna. Sé um að ræða verulegan efnisannmarka á ákvörðuninni sem leiði til rangrar niðurstöðu hennar. Af öllu þessu telji kærandi að leggja verði til grundvallar að hann sé ríkisborgari [...] og því sé hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar byggð á röngum málsatvikum, sem leiði til þess að ógilda beri ákvörðunina. Kærandi hafi ekki haft skilríki frá [...] lengi og sé í engri aðstöðu til að afla skilríkja þaðan vegna aðstæðna sinna. Hafi Útlendingastofnun verið í lófa lagið að hafa samband við [...] yfirvöld og sannreyna ríkisfang kæranda. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við málsmeðferðina. Þá þótti stofnunin hafa brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga í máli kæranda þar sem hún hafi í sambærilegum málum ekki byggt á staðhátta- og tungumálaprófum einum saman heldur byggt ákvarðanir á framburði kærenda.
Þá hafi nýjar upplýsingar komið fram í málinu frá því hin kærða ákvörðun var uppkveðin en kærandi hafi greint frá því að hann sé samkynhneigður. Samkynhneigð sé refsiverð í [...] og geri það kæranda að berskjölduðum einstaklingi sem tilheyri minnihlutahóp sem eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð og refsingu. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að fallist kærunefndin á mat Útlendingastofnunar þess efnis að kærandi sé frá [...], sé jafnframt ljóst að þar sé samkynhneigð einnig refsiverð og sæti samkynhneigðir mismunun og árásum á grundvelli kynhneigðar sinnar. Uppfylli kærandi því skilyrði þess að teljast flóttamaður skv. 44. gr. útlendingalaga, auk þess sem óheimilt sé að senda hann til [...] skv. 45. gr. útlendingalaga eins og aðstæður séu þar í málefnum samkynhneigðra. Beri því að fallast á kröfur kæranda þrátt fyrir að lagt sé til grundvallar að hann sá frá [...]. Þá hafi kærandi snúist til kristinnar trúar hér á landi. Kærandi telji að leggja beri þau málsatvik til grundvallar ákvörðun hjá kærunefnd útlendingamála.
Ennfremur er gerð athugasemd í greinargerð við langan málsmeðferðartíma máls kæranda. Ekkert hafi komið fram við meðferð málsins sem réttæti slíkar tafir sem um ræðir og sé því um verulegan annmarka að ræða með vísan til 23. gr. og 23. gr. a útlendingalaga og 9. gr. stjórnsýslulaga. Er í því samhengi bent á dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu E-4372/2014 en þar var komist að þeirri niðurstöðu að 19 mánaða málsmeðferðartími væri óréttlætanlegur með hliðsjón af framangreindum reglum. Dóminum hafi ekki verið áfrýjað og hafi því fordæmisgildi við úrlausn málsins.
Loks telji kærandi ákvörðun um brottvísun og fimm ára endurkomubann í ósamræmi við 1. mgr. 20. gr. útlendingalaga. Byggi kærandi á því í fyrsta lagi að hann hafi ekki með ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli sínu og því séu skilyrði þess að beita slíku banni ekki uppfyllt. Þar að auki bendi kærandi á að vægara úrræði sé í boði sem skili nákvæmlega sama árangri fyrir stjórnvaldið, t.d. frávísun frá landi án endurkomubanns og því skuli skv. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga beita því ef niðurstaða málsins er að synja hælisbeiðni kæranda. Auk þess verði að telja tímalengd endurkomubannsins úr öllu hófi. Endurkomubann sé kæranda verulega íþyngjandi enda gildi það í fleiri ríkjum þar sem kærandi eigi t.a.m. ættingja.
Í greinargerð er vísað til 1. og 4. mgr. 45. gr. útlendingalaga þar sem fram hafi komið að lífshætta, ofsóknir og ómannúðleg meðferð bíði kæranda í [...], verði hann sendur þangað. Það að neita honum um vernd sé í brýnni andstöðu við ákvæði 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2., 3. og 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. ennfremur meginreglu þjóðaréttar um að óheimilt sé að senda fólk þangað sem líf og frelsi þess sé í hættu sem m.a. birtist í 33. gr. samnings um réttarstöðu flóttamanna frá 1951.
Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda um að kæranda verða veitt hæli á grundvelli 44. gr. útlendingalaga er gerð varakrafa um að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, skv. 12. gr. f útlendingalaga.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagarammi
Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi sótti um hæli á Íslandi hafi hann ekki lagt fram skilríki hjá íslenskum yfirvöldum.
Kærandi hefur ekki fært fram nein gögn því til stuðnings að hann sé [...] ríkisborgari. Við mat á trúverðugleika kæranda telur kærunefndin, í ljósi hins ríka ósamræmis og breytinga í framburði kæranda, rétt að taka undir mat Útlendingastofnunar og telja heildarfrásögn kæranda ótrúverðuga. Niðurstöður tungumála- og staðháttaprófa sem liggja fyrir benda til þess að kærandi komi frá [...] og þykir ekki annað fært en að leggja það til grundvallar í málinu.
Landaupplýsingar
[...] er konungsríki með um [...] íbúa, þar sem [...] fer með yfirstjórn landsins. Árið [...] voru samþykktar breytingar á stjórnarskrá landsins sem fela í sér [...]. Stjórnarskráin bannar mismunun á grundvelli kynþáttar, kyns, fötlunar, tungumáls, félagslegrar stöðu, trúar, menningu, svæðisbundins uppruna og annarra persónulegra aðstæðna.
[...] gerðist aðili að [...].
Kærunefnd útlendingamála hefur m.a. skoðað eftirfarandi skýrslur: [...]
Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að mikil spilling fyrirfinnist í allri stjórnsýslu landsins. Þá sé virðingarleysi gagnvart landslögum mikið hjá öryggissveitum landsins. Einnig kemur fram að þrátt fyrir að trúfrelsi sé tryggt í stjórnarskrá landsins þá sé [...] hin eiginlega ríkistrú og móti allt daglegt líf [...] borgara og sé mikilvægur hluti af menningu og persónu þeirra. Enn eru miklir fordómar í samfélaginu gegn samkynhneigðum og þeir njóta ekki verndar í lögum vegna kynhneigðar sinnar. Kynferðislegt samneyti samkynhneigðra er refsivert með allt að þriggja ára fangelsisrefsingu. Þó kemur fram að umfjöllun í fjölmiðlum og opinber umræða um réttindi og stöðu samkynhneigðra hafi aukist til batnaðar á undanförnum árum.
Ákvæði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga
Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Kærandi kveður að hann sé í lífshættu verði hann sendur til baka til [...] vegna hugsanlegra ofsókna andstæðinga fyrrum leiðtoga landsins. Þá sé hann líka í hættu verði hann sendur til [...] þar sem að hann sé samkynhneigður og trúlaus.
Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.
Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.
Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:
Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að gildar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008)).
Kærandi hefur sagst vera í hættu í [...]. Kærunefnd útlendingamála tekur undir það mat Útlendingastofnunar að framburður kæranda varðandi uppruna sinn sé misvísandi og ótrúverðugur og ekki í samræmi við tungumála- og staðháttapróf og verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi sé [...]. Í greinargerð kæranda kom fram að fallist kærunefnd á mat Útlendingastofnunar um að kærandi komi frá [...], þá væri óheimilt að senda hann þangað þar sem kærandi sé samkynhneigður og að samkynhneigð sé refsiverð í [...]. Þar sæti samkynhneigðir mismunun og árásum á grundvelli kynhneigðar sinnar. Þá hafi kærandi snúist til kristinnar trúar hér á landi. Í viðtali hjá kærunefnd neitaði kærandi því hins vegar að vera samkynhneigður auk þess sem hann kvaðst vera trúlaus. Verða þessar málsástæður því ekki lagðar til grundvallar í máli kæranda. Þá var að mati kærunefndar mikið ósamræmi á frásögn kæranda að öðru leyti. Frásögn hans um veru og störf í [...] var í miklu ósamræmi við sögulegar staðreyndir sem þótti grafa undan trúverðugleika frásagnar hans, en ártöl stemmdu engan veginn við sögulega atburði sem hann skírskotaði til auk þess sem þá staði sem hann vísaði til var ekki unnt að finna. Þá gaf hann engar skýringar á misræmi og breytingum á framburði sínum á fyrri stigum málsins og þótti kærunefnd óhjákvæmilegt að meta frásögn kæranda í heild sinni ótrúverðuga. Að öllu framangreindu virtu þótti ekki unnt að byggja á öðru en að kærandi sé frá [...].
Kærandi hefur ekki borið fyrir sig ofsóknir af hálfu [...] stjórnvalda eða aðilum tengdum þeim. Skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur skoðað benda ekki til þess stjórnvöld þar geti ekki eða vilji ekki veita honum vernd gegn ofsóknum, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Í því sambandi er bent á að trúfrelsi er tryggt í landslögum [...] og stjórnvöld virtu þann rétt þegna sinna að mestu og gögn bentu ekki til þess að einstaklingar sem skiptu um trú í [...] yrðu fyrir ofbeldi eða væru myrtir á grundvelli þess, hvorki af hálfu stjórnvalda eða annarra borgara. Ferðafrelsi er ennfremur tryggt í stjórnarskrá landsins og stjórnvöld virða almennt þann rétt. [...]. Því er það mögulegt fyrir kæranda að flytja sig til innanlands telji hann þess þörf.
Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu réttarstöðu flóttamanns.
Ákvæði 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga
Í 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands.
Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hans séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna.
Þess ber að geta að hefði kærandi sýnt fram á að vera ríkisborgari [...], telur kærunefnd að ekki hefði verið unnt að senda hann þangað með vísan til 2. mrg. 44. gr. og 45 gr. útlendingalaga.
Ákvæði 12. gr. f útlendingalaga
Til vara er þess krafist að hinni kærðu ákvörðun verði breytt á þann veg að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.
Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.
Í 4. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga er kveðið á um að unnt sé að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða vegna sérstakra tengsla við landið ef útlendingur hefur dvalið hér á landi í tvö ár vegna málsmeðferðar stjórnvalda, og sérstakar ástæður mæla ekki gegn því. Viðkomandi þarf þó að uppfylla skilyrði a-e liðar 1. mgr. 12. gr. g.
Ljóst er að kærandi hefur dvalið hér á landi frá 18. maí 2014, eða í um tvö ár. Kærandi lagði fram hælisumsókn við komuna til landsins og hefur mál hans verið til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum síðan. Tafir á málsmeðferð kæranda má að einhverju leyti rekja til hans sjálfs og þá leikur vafi á því hver kærandi raunverulega er og hann hefur ekki veitt upplýsingar og atbeina til að aðstoða við úrlausn málsins. Er það því mat kærunefndar að kærandi uppfylli hvorki b né e-lið 1. mgr. 12. gr. g sem eru skilyrði veitingar dvalarleyfis á grundvelli 4. mgr. 12. gr. f.
Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga og teljist því ekki flóttamaður. Þegar frásögn kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga.
Jafnframt telur kærunefndin kæranda ekki uppfylla skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl við landið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á Íslandi í tengslum við hælisumsókn sína og aðeins í skamman tíma.
Ætluð brot á ákvæðum stjórnsýslulaga
Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við málsmeðferðina. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiðir til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á.
Kærunefnd útlendingamála telur að Útlendingastofnun hafi leitast við að upplýsa mál kæranda eftir fremsta megni. Hún hafi tekið við kæranda fjögur viðtöl, aflað gagna frá þýskum stjórnvöldum, framkvæmt staðhátta- og tungumálapróf og reynt að fá upplýsingar og aflað gagna með ýmsum leiðum. Kærunefnd getur ekki fallist á það með kæranda að slíkur ágalli sé á rannsókn málsins að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar. Verður ekki annað séð en að Útlendingastofnun hafi rannsakað málið á fullnægjandi hátt í samræmi við umsókn kæranda.
Þá telur kærandi að stofnunin hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga í máli kæranda þar sem hún hafi í sambærilegum málum ekki byggt á staðhátta- og tungumálaprófum einum saman heldur byggt ákvarðanir á framburði kærenda. Í jafnræðisreglunni felst að mál sem eru sambærileg í lagalegu tilliti hljóti sams konar úrlausn. Kærunefnd telur að eins og málum var háttað í máli kæranda og eins og rakið hefur verið hér að framan hafi Útlendingastofnun leitast við að upplýsa mál kæranda eftir fremsta megni og verður ekki fallist á að jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun.
Í greinargerð kæranda er gerð athugasemd við langan málsmeðferðartíma og vísað í 23. gr. og 23. gr. a útlendingalaga og 9. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd útlendingamála telur að langur málsmeðferðartími hjá Útlendingastofnun hafi að miklu leyti verið vegna atriða sem kærandi hafi sjálfur borið ábyrgð á og verður því ekki fallist á að málsmeðferðartími hafi verið óréttlætanlegur í máli kæranda.
Þá telur kærandi að Útlendingastofnun hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þegar hún ákvað að setja kæranda í fimm ára endurkomubann. Kærandi telur tímalengd endurkomubannsins úr hófi og kæranda verulega íþyngjandi. Í meðalhófsreglunni felst að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Jafnframt skal þess gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 20. gr. útlendingalaga er heimilt að vísa útlendingi úr landi ef hann hefur með ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögunum. Kærunefnd telur með tilliti til atvika máls að hæfileg tímalengd endurkomubanns sé tvö ár.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærunefnd útlendingamála telur hæfilega tímalengd endurkomubanns vera tvö ár
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Tímalengd endurkomubanns er þó felld úr gildi og breytt í tvö ár.
The Directorate of Immigration‘s decision is affirmed. The duration of expulsion shall be two years.
Pétur Dam Leifsson, varaformaður Vigdís Þóra Sigfúsdóttir