Hoppa yfir valmynd

Nr. 413/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 12. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 413/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22090021

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 7. september 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. ágúst 2022, um synja umsókn hans um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á umsókn hans um endurnýjun á dvalarleyfi hans samkvæmt 57. gr., sbr. 70. gr. laga um útlendinga en til vara að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og máli hans vísað til Útlendingastofnunar til nýrrar málsmeðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara 18. nóvember 2020 með gildistíma til 14. nóvember 2021. Kærandi sótti um endurnýjun á dvalarleyfi sínu 9. september 2021 en þeirri beiðni var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar 19. ágúst 2022 með vísan til 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga auk 1. mgr. 55. gr. og 8. mgr. 70. gr. sömu laga. Hinn 7. september 2022 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Hinn 27. september 2022 barst kærunefnd greinargerð kæranda.

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við vinnslu umsóknar kæranda hafi vaknað grunur um að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi. Stofnuninni hafi borist gögn úr síma kæranda frá lögreglu. Þar hafi verið að finna rómantísk og/eða kynferðisleg samskipti kæranda við konu í heimaríki hans. Þar hafi einnig verið að finna ljósmyndir af kæranda setja hring á fingur annarrar konu og öfugt. Hafi Útlendingastofnun sent kæranda bréf 16. júní 2022 þar sem rakin hefðu verið þau atriði sem bentu til þess gruns. Svör við athugasemdunum hafi borist Útlendingastofnun 4. júlí 2022.

Var það mat Útlendingastofnunar með vísan til gagna málsins að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hans hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi, enda hefði ekki verið sýnt fram á annað svo óyggjandi væri, sbr. 7. og 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis hans því synjað, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, 1. mgr. 55. gr. og 8. mgr. 70. gr. sömu laga.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að hann uppfylli öll skilyrði til endurnýjunar dvalarleyfis. Ekkert hafi breyst varðandi aðstæður hans og eiginkonu hans frá því dvalarleyfi hans hafi upphaflega verið gefið út 18. nóvember 2020. Hin kærða ákvörðun sé í öllum meginatriðum hin sama og gefið hafi verið til kynna með bréfi til kæranda 16. júní 2022. Kærandi hafi skilað andmælum við því bréfi og vísar til þess hvað varðar útskýringar hans á öllum atvikum og röksemdum.

Kærandi telur ekkert liggja fyrir sem leitt geti til þess að rökstuddur grunur geti verið fyrir því að hjónaband hans og eiginkonu hans hafi verið til málamynda. Kærandi hafi gengist við því að hafa átt í kynferðislegum/rómantískum samskiptum við aðra konu, hér eftir A. Slík samskipti væru þó ekki í óþökk eiginkonu hans. Kærandi og eiginkona hans eigi sannarlega í einlægu og ástríku hjónabandi sem þau hafi sýnt fram á með framlagningu ítarlegra gagna. Kærandi gerir athugasemdir við það að Útlendingastofnun byggi á úreltum hugmyndum um að öll hjónabönd þurfi að byggja á því að aðilar einskorði sig í kynferðislegum/rómantískum samskiptum við maka sinn. Stofnunin færi engin rök fyrir því af hverju slík samskipti ættu að vera kæranda óheimil. Það sé óforsvaranlegt að stofnunin telji sér heimilt á grundvelli 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga að líta svo á að eðlilegar skýringar kæranda og eiginkonu hans á eigin sambandi leiði til þess að rökstuddur grunur sé fyrir því að um málamynda hjónaband sé að ræða.

Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar hafi kærandi gefið stofnuninni skýringar á þeim muni sem sé á umfangi rafrænna samskipta milli kæranda og eiginkonu hans annars vegar og svo kæranda og A hins vegar. Kærandi og eiginkona hans eigi almennt séð ekki í miklum rafrænum samskiptum enda fari samskipti þeirra aðallega fram í persónu þar sem þau eyði flestum stundum saman þegar þau séu ekki við vinnu. Þá eigi eiginkona hans fjölskyldu [...] og því bjóði þau góðan dag og góða nótt þegar þau hittist ekki yfir daginn. Hvað varðar myndir kæranda af sér setja hring á fingur annarrar konu og öfugt sé það eðlilegt enda sé um að ræða gjafir fjölskyldna hjóna til hvorrar annarrar og ekki óeðlilegt að kærandi sem bróðir brúðguma myndi hljóta gjöf í slíku boði.

Kærandi vísar til þess að í hinni kærðu ákvörðun komi fram að Útlendingastofnun telji ekki nauðsynlegt að þýða öll samskipti kæranda við A í heimaríki í ljósi þess að kærandi hafi greint frá því að eiga í ástarsambandi við hana. Þá vísi stofnunin til þess að það sem fram komi í gögnunum renni stoðum undir grun stofnunarinnar en ráði ekki úrslitum þar um. Þá vísi Útlendingastofnun til þess að kærandi hafi sjálfur borið fyrir sig friðhelgi einkalífs í tengslum við það að vilja síður afhenda tiltekin gögn um persónuleg samskipti sín og eiginkonu sinnar. Verði að telja það vafasamt með vísan til rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, að stofnunin komist að jafn íþyngjandi niðurstöðu og raun beri vitni án þess að gæta þess fyllilega hvert efni þeirra gagna sé sem byggt sé á. Þá hafi kærandi aldrei gengist við því að eiga í ástarsambandi við A þó að á milli þeirra hafi farið skilaboð af kynferðislegum/rómantískum toga með samþykki eiginkonu hans.

Þá vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun taki það fram í ákvörðun sinni að ekki sé byggt á frásögnum nágranna kæranda og eiginkonu hans sem sönnun á aðstæðum heldur til vísbendinga. Kærandi telji óljóst hver sé munurinn á sönnun og vísbendingu en stofnunin byggi með beinum hætti á upplýsingum um það sem komi fram í samskiptum við nágranna í hinni kærðu ákvörðun. Þá geri stofnunin einnig lítið úr yfirlýsingum nágranna og kveður að um breyttan framburð sé að ræða. Kærandi telji að um sé að ræða eina sönnunargagn málsins þar sem fullnægjandi reki hafi verið gerður að því að fá skýra afstöðu frá nafngreindum nágranna og hljóti umrædd yfirlýsing að vega þungt enda hið öndverða algjörlega ósannað í málinu.

Í hinni kærðu ákvörðun byggi stofnunin mat sitt á því að kærandi og eiginkona hans séu ekki búsett á sama stað á því að kærandi hafi ekki verið heima þegar lögreglu hafi borið að garði. Kærandi bendir á að hlutverk Útlendingastofnunar sé að komast að réttri niðurstöðu og taka öll gögn og röksemdir til greina en ekki einungis horfa til þess sem leitt geti til rökstudds gruns um málamyndahjónaband. Kærandi telji að Útlendingastofnun hafi þegar komist að niðurstöðu þegar hin lauslega þýddu gögn úr farsíma kæranda hafi legið fyrir. Kærandi ítrekar að samband hans og eiginkonu hans sé raunverulegt og telur hann ljóst að heildarmat hljóti að leiða til þess að rökstuddur grunur í skilningi 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga geti ekki átt við um málið.

Í hinni kærðu ákvörðun sé 7. og 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga flækt saman svo erfitt sé að átta sig á rökstuðningi stofnunarinnar. Kærandi vísar þá til þess að það sé ekki hlutverk Útlendingastofnunar að meta það hvort kærandi og eiginkona hans uppfylli skilyrði 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga heldur sé um að ræða skilyrði sem teljist uppfyllt í skilningi laganna þegar kærandi og maki hafi skráð lögheimili á sama stað. Það sé hlutverk Þjóðskrár Íslands að meta hvort aðilar uppfylli lögheimilisskráningu samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2018 og Þjóðskrá Íslands hafi greinilega ekki talið ástæðu til að efast um lögmæti lögheimilisskráningu þeirra hjóna. Í því sambandi vísar kærandi til úrskurða kærunefndar útlendingamála nr. 86/2019 og 445/2019.

Kærandi telji sig hafa sýnt fram á að hann uppfylli öll skilyrði þess að dvalarleyfi hans á grundvelli hjúskapar við eiginkonu sína verði endurnýjað. Því beri að fallast á aðalkröfu kæranda og veita honum endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, sbr. 57. og 70. gr. laga um útlendinga.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda telur hann í öllu falli ljóst að kærunefnd beri að fallast á varakröfu hans enda liggi fyrir að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi verið haldin slíkum annmörkum að ekki sé unnt að byggja á henni jafn íþyngjandi ákvörðun og raun ber vitni. Kærandi vísar til þess að rannsóknarregla stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, hafi verið brotin með því að stofnunin byggi á farsímagögnum sem ekki hafi verið þýdd af löggiltum skjalaþýðanda. Þá hafi stofnunin ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína, t.d. hafi hann og eiginkona hans aldrei verið kölluð til viðtals til að veita þeim tækifæri til að skýra eðli sambands síns eða önnur atriði málsins. Einnig með því að hafa ekki gert frekari reka að því að taka búsetu kæranda og eiginkonu hans til skoðunar í ljósi þess hversu mikil kjölfesta meint aðskilin búseta þeirra hafi verið í ákvörðun stofnunarinnar. Þá byggi stofnunin á viðtölum við ónafngreinda nágranna í lögregluskýrslum til stuðnings því að kærandi búi ekki á skráðu lögheimili en taki ekkert mark á vitnisburði nágranna sem komi fram undir nafni og staðfesti búsetu kæranda.

Að lokum telur kærandi að ákvörðun Útlendingastofnunar feli í sér skýrt brot gegn skýrleikareglu stjórnsýsluréttar. Í því sambandi séu röksemdir um óljósa umfjöllun stofnunarinnar um 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga ítrekaðar. Hin kærða ákvörðun sé í senn óskýr, illa rannsökuð og illa rökstudd. Því megi telja að svo verulegir annmarkar séu á henni að vísa beri málinu til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Eins og að framan greinir lýtur mál þetta að synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara. Fjallað er um endurnýjun dvalarleyfis í 57. gr. laga um útlendinga en þar segir m.a. í 1. mgr. að heimilt sé að endurnýja dvalarleyfi að fenginni umsókn ef skilyrðum leyfisins er áfram fullnægt.

Í 55. gr. laga um útlendinga koma fram grunnskilyrði dvalarleyfis. Í 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga segir að tilgangur umsækjanda með dvöl hér á landi skuli vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt sé um. Í 70. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Samkvæmt 1. málsl. 69. gr. laga um útlendinga getur nánasti aðstandandi íslensks ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis samkvæmt 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis samkvæmt 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Í 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga kemur einnig fram að makar og sambúðarmakar skuli hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili.

Í 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. laganna segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. orðrétt:

„Ákvæðinu er ætlað að heimila synjun á veitingu leyfis ef hægt er að sýna fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjúskap er m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þarf þó að taka tillit til þess að mismunur getur verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar getur ekki verið eini grundvöllur þess að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verður fleira að koma til sem bendir til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Auk þessara þátta getur skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl í landinu á öðrum grundvelli, m.a. með umsókn um alþjóðlega vernd og að viðkomandi útlendingur hafi gengið í hjúskap stuttu eftir að þeirri umsókn hafi verið hafnað. Þá getur þurft að líta til þess hvort viðkomandi eigi ættingja hér á landi, maki hérlendis hafi verið giftur á Íslandi og skilið rétt eftir að maki hans eða hann sjálfur hafi öðlast sjálfstæð réttindi hér á landi, hversu oft ábyrgðaraðili hafi verið giftur hér á landi og hvort grunur er um að hann hafi fengið verulegar fjárhæðir sem gætu tengst málinu.“

Í framangreindum athugasemdum er vísað til atriða sem m.a. er unnt að líta til við mat á því hvort um rökstuddan grun sé að ræða í skilningi ákvæðisins. Hins vegar er ljóst að upptalning á þeim atriðum er koma til skoðunar er ekki tæmandi og gilda almennar sönnunarreglur í slíkum málum. Þannig er stjórnvöldum ótvírætt heimilt að líta til annarra atriða en nefnd eru í áðurnefndum lögskýringargögnum enda sé slíkt mat byggt á málefnalegum sjónarmiðum.

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var það mat Útlendingastofnunar að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hans hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi, sbr. 7. og 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þá hefði kærandi ekki sýnt fram á annað svo óyggjandi væri. Var kæranda því synjað um endurnýjun dvalarleyfis hans hér á landi, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, 1. mgr. 55. gr. og 8. mgr. 70. gr. sömu laga.

Ráða má af ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnunin byggi mat sitt einkum á eftirfarandi atriðum. Í fyrsta lagi að kærandi og maki hans hafi ekki búið saman, sbr. 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, í öðru lagi að kærandi eigi í ástarsambandi við aðra konu í heimaríki, í þriðja lagi að svör kæranda í andmælabréfi til stofnunarinnar hafi verið ótrúverðug aðallega hvað varðar myndir af kæranda og konu setja hringa á fingur hvors annars og í fjórða lagi að kærandi hafi lagt fram takmarkað magn af ljósmyndum sem teknar hafi verið við fá tækifæri og afar takmörkuð samskipti í formi skjáskota af símaskjá.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er byggt á lögregluskýrslu, dags. 1. desember 2021. Lögregla hafi í fjögur skipti komið að heimili kæranda og maka hans en í aðeins eitt skipti hafi maki hans verið heima. Maki hafi greint frá því að kærandi væri í vinnu, haft samband við kæranda símleiðis og hafi spurt kæranda hvort hann væri á heimleið. Samkvæmt skýrslunni hafi karlmannsfatnaður verið á fataslá í svefnherbergi og karlmannsúlpa ásamt fleiri munum í forstofuskáp auk þriggja skópara sem maki kvað vera í eigu kæranda. Þá hafi ýmsar snyrtivörur verið í íbúðinni auk eins tannbursta sem maki kvað vera kæranda. Þá kemur fram að annað náttborðið við rúm þeirra hafi verið autt auk þess sem sæng kæranda virðist hafa verið óhreyfð en sæng maka óumbúin. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er aðeins byggt á þessari einu heimsókn lögreglu á heimili kæranda og maka hans. Þá vísar Útlendingastofnun til þess að rafræn samskipti þeirra hjóna bendi til þess að þau búi ekki saman en þau virðist ekki fara að sofa eða vakna á sama stað. Eins og fram kemur voru í íbúð kæranda og maka hans föt af kæranda og aðrar eigur. Í andmælum kæranda til Útlendingastofnunar kemur fram að þegar eiginkona hans hafi hringt í hann þegar lögregluna hafi borið að garði hafi hann boðist til að koma heim en lögreglan hafi neitað að bíða eftir honum. Kærunefnd telur framangreinda heimsókn og þær upplýsingar um heimili kæranda og maka hans sem fram koma í skýrslu lögreglu ekki slíkar að hægt hafi verið að fullyrða að kærandi og maki hans byggju ekki þar saman. Kærunefnd tekur undir það með Útlendingastofnun að viss textaskilaboð gefi til kynna að kærandi og maki hans sofni ekki eða vakni alltaf á sama stað. Hins vegar telur kærunefnd erfitt að draga of miklar ályktanir af textaskilaboðum þeirra á milli en framlögð textaskilaboð gefa einnig til kynna að kærandi og maki hans eigi í ástarsambandi og eyði tíma saman. Þá hefur maki kæranda greint frá því að fjölskylda hennar búi [...] og hún heimsæki þau oft.

Útlendingastofnun byggir mat sitt einnig á því að kærandi eigi rómantísk samskipti við aðra konu í heimaríki sínu. Lögregla hafi haldlagt síma í eigu kæranda og Útlendingastofnun hafi fengið sendar upplýsingar úr honum. Samkvæmt upplýsingum úr síma kæranda eigi hann regluleg samskipti við konu í heimaríki. Í ákvörðun Útlendingastofnunar eru rafræn samskipti kæranda við þá konu borin saman við rafræn samskipti maka hans hér á landi. Kærandi hafi átt margfalt fleiri símtöl við konuna í heimaríki og sent henni mun fleiri textaskilaboð. Þá vísar stofnunin til þess að ljósmyndir úr síma kæranda gefi til kynna að hann eigi líklega í ástarsambandi við konuna. Þar sé að finna myndir af kæranda setja hring á fingur konu og öfugt. Kæranda var veittur frestur til að gera grein fyrir samskiptum sínum við konuna í heimaríki og hvers vegna hann eigi í mun meiri samskiptum við hana en maka sinn. Í svari kæranda kemur fram að samband hans við konuna í heimaríki sé ekki í óþökk eiginkonu hans hér á landi. Þá sé eðlilegt að rafræn samskipti hans við þá konu séu meiri enda búi hann með maka sínum og sofi í sama rúmi og hún, eðlilega séu rafræn samskipti því minni. Að mati kærunefndar leiðir sú staðreynd að kærandi kunni að eiga í ástarsambandi með annarri konu ein og sér ekki til þess að hægt sé að líta svo á að hjónaband hans hér á landi sé til málamynda.

Kærunefnd telur að fallast megi á með Útlendingastofnun að framangreind atriði hafi gefið tilefni til þess að stofnunin kannaði frekar hvort að til hjúskapar kæranda og eiginkonu hans hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Aftur á móti er það mat kærunefndar að þau atriði sem vísað er til í hinni kærðu ákvörðun leiði ekki ein og sér til þess að litið verði svo á að rökstuddur grunur sé fyrir hendi í skilningi síðastnefnds ákvæðis. Í því sambandi horfir kærunefnd til þess að við meðferð málsins hefur kærandi lagt fram myndir af sér og maka við ýmis tilefni, samskipti þeirra á milli auk þess sem að á sameiginlegu lögheimili þeirra hafi verið föt og munir í beggja eigu. Þá verður að mati kærunefndar ekki horft fram hjá því að Útlendingastofnun aflaði ekki upplýsinga, svo sem með viðtölum sem varpað hefðu getað frekara ljósi á samband kæranda og maka hans.

Að mati kærunefndar kunna þessir annmarkar á rannsókn málsins hjá Útlendingastofnun að hafa haft áhrif á niðurstöðu málsins og eru þeir slíks eðlis að ekki verður bætt úr þeim á æðra stjórnsýslustigi. Með vísan til þess er óhjákvæmilegt að fella ákvörðunina úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                    Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta