Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 393/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 393/2017

Miðvikudaginn 7. febrúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 23. október 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 31. júlí 2017 þar sem fyrra örorkumat var látið standa óbreytt.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Fyrsta örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins vegna umsóknar kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er dagsett 14. júní 2016. Samkvæmt því var kæranda synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en örorkustyrkur samþykktur varanlega frá 1. mars 2016. Með umsókn, dags. 19. september 2016, sótti kærandi um örorkulífeyri og tengdar greiðslur á nýjan leik og gekkst að nýju undir mat samkvæmt örorkustaðli. Samkvæmt örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. nóvember 2016, voru læknisfræðileg skilyrði um hæsta örorkustig ekki talin uppfyllt og urðu því ekki breytingar á fyrra mati. Með umsókn 13. desember 2016 sótti kærandi um örorkulífeyri og tengdar greiðslur að nýju og gekkst undir mat samkvæmt örorkustaðli. Með örorkumati stofnunarinnar, dags. 8. mars 2017, var niðurstaðan óbreytt frá fyrri mötum. Þá framkvæmdi stofnunin nýtt örorkumat, dags. 31. júlí 2017, með hliðsjón af nýjum gögnum sem kærandi lagði fram og var niðurstaðan óbreytt frá fyrri mötum.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. október 2017. Með bréfi, dags. 2. nóvember 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 11. desember 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. desember 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að hún fái framfærslu.

Í kæru segir að vísað sé til fyrri vottorða varðandi umsóknir um örorku og niðurstöðu starfsgetumats hjá VIRK, en niðurstöður starfsgetumats taki fram að ekki sé talið að starfsendurhæfing geti bætt færni kæranda. Það séu mannréttindabrot að fá ekki framfærslu. Enginn geti lifað á X kr. á mánuði. Kærandi fái ekki hærri lífeyri en X kr. frá lífeyrissjóði sínum og X kr. frá Tryggingastofnun ríkisins. Hún geti ekki lifað á X kr. á mánuði. Hún sé búin að vera óvinnufær í […] ár. Hún geti ekkert gert að því að heilsa hennar fari versnandi með ári hverju. Hún geti ekkert að því gert að bakteríur hafi herjað á líkama hennar í nokkur ár. Hún voni þó að hún fái bata svo að hún geti einhvern tímann unnið eitthvað. Vottorðin segi að hún sé óvinnufær með öllu eins og staðan sé í dag.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Stofnunin meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur.

Við matið sé stuðst við staðal stofnunarinnar sem skiptist í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðlinum þurfi umsækjandi að fá 15 stig í líkamlega hlutanum eða 10 stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái 6 stig í hvorum hluta fyrir sig.

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Kærandi hafi í fjögur skipti sótt um örorkumat á síðustu tveimur árum og skoðun vegna örorkumats farið fram í þrjú skipti.

Í læknisvottorðum séu eftirfarandi sjúkdómsgreiningar tilgreindar: Höfuðverkur, langvinn skúta- og magabólga og þunglyndi. Í eldri vottorðum séu einnig tilgreindar streituröskun eftir áfall, eyrnasuð, minnistruflun og rifbrot.

Kæranda hafi verið synjað um endurhæfingarlífeyri 29. júní 2015 á grundvelli þess að greiðslum áunnins réttar frá sjúkrasjóði stéttarfélags væri ekki lokið en það sé skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris. Eftir það hafi borist læknisvottorð B vegna umsókna um endurhæfingarlífeyri, dags. 3. nóvember 2015 og 25. janúar 2016, ásamt starfendurhæfingaráætlun VIRK, dags. 25. febrúar 2016. Ekki hafi borist umsókn frá kæranda.

Við örorkumat lífeyristrygginga 14. júní 2016 hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 22. febrúar 2016, umsókn og spurningalisti móttekin 29. febrúar 2016, yfirlit yfir ferli hjá VIRK, dags. 1. mars 2016, sérhæft mat VIRK, dags. 21. júlí 2015, og skýrsla skoðunarlæknis, dags. 17. maí 2016.

Kærandi hafi þá fengið 7 stig í andlega hluta staðalsins en ekkert í þeim líkamlega. Stigin hafi verið veitt þar sem kærandi geti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt en það gefi 1 stig. Einnig vegna þess að geðrænt ástand komi í veg fyrir að hún sinnti áhugamálum sem hún hafi áður notið. Það gefi 1 stig, en í rökstuðningi segi að verri höfuðverkir hafi valdið því að hún geti ekki verið á […]. Einbeitingarskortur valdi því að kærandi taki ekki eftir eða gleymi hættu sem geti stafað af heimilistækjum eða öðru í umhverfinu en það gefi 1 stig. Geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins en það gefi 1 stig. Svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf. Það gefi 1 stig, en í rökstuðningi segi: Verri höfuðverkur vegna lélegs svefns. Andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf. Það gefi 2 stig, en í rökstuðningi segi að höfuðverkir, sem metnir séu á andlega sviðinu, hafi valdið því að hún treysti sér ekki lengur í vinnu. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Það gefi 1 stig, en í rökstuðningi segi að hún sé hrædd um að verkir versni. Örorkustyrkur hafi verið samþykktur varanlega frá 1. mars 2016.

Tekið skuli fram að stofnunin telji ekki að höfuðverkur eins og hér sé um að ræða eigi að hafa í för með sér stigagjöf í andlega hluta staðalsins eins og gert hafi verið í þessari skoðunarskýrslu.

Við örorkumat lífeyristrygginga 3. nóvember 2016 hafi legið fyrir læknabréf B, dags. 15. ágúst 2017, umsókn og spurningalisti, dags. 19. september 2017, og skýrsla skoðunarlæknis, dags. 14. október 2016.

Kærandi hafi þá fengið 12 stig í líkamlega hlutanum og 2 stig í þeim andlega. Stigin í líkamlega hlutanum hafi verið gefin fyrir ósjálfráðan meðvitundarmissi eða breytingu á meðvitund að minnsta kosti tvisvar sinnum undanfarið hálft ár. Það gefi 12 stig, en í rökstuðningi segi að hún hafi alltaf verið yfirliðagjörn og því lýst að það væri að aukast að það slökknaði á henni. Það hafi gerst fjórum sinnum á meðan hún hafi [...] verið í útlöndum í […] og þar á undan hafi þetta gerst þrisvar sinnum undanfarið hálft ár. Ekki séu upplýsingar um neitt slíkt í læknisvottorði og þetta komi ekki fram í öðrum málsgögnum. Stigin í andlega hlutanum hafi verið gefin fyrir að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf. Það gefi 1 stig en í rökstuðningi segi: Margtruflaður svefn margoft, en hún hafi reyndar alltaf verið svefnstygg. Einnig voru gefin stig fyrir að kærandi kviði því að sjúkleiki hennar versnaði færi hún aftur að vinna. Það gefi 1 stig, en í rökstuðningi segi að hún hafi alltaf verið dugleg að vinna en höfuðverkur trufli allt. Henni finnist gaman að vinna, hafi alltaf verið í [...] en þoli ekki lengur áreiti. Ekki hafi verið talið tilefni til breytinga á fyrra mati.

Við örorkumat lífeyristrygginga 8. mars 2017 hafi legið fyrir læknisvottorð C, dags. 28. september 2016 og 2. desember 2016, umsókn, dags. 13. desember 2016, spurningalisti, dags. 16. desember 2016, og skýrsla skoðunarlæknis, dags. 28. febrúar 2017.

Kærandi hafi fengið 2 stig í andlega hlutanum en ekkert í þeim líkamlega. Stigin hafi verið gefin fyrir að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Það gefi 1 stig, en í rökstuðningi komi fram að þetta sé á köflum. Einnig hafi kærandi fengið stig fyrir að hún kvíði því að sjúkleiki hennar versni, fari hún aftur að vinna. Það gefi 1 stig, en í rökstuðningi segi að kærandi hafi sagt að hún treysti sér ekki í vinnu. Ekki hafi verið talið tilefni til breytinga á fyrra mati.

Við örorkumat lífeyristrygginga 31. júlí 2017 hafi legið fyrir læknisvottorð C, dags. 15. maí 2017, umsókn, dags. 15. júní 2017, og mat VIRK á raunhæfi starfsendurhæfingar, dags. 25. apríl 2017.

Við skoðun málsins hafi ekki þótt rök fyrir að breyta fyrra mati frá 8. mars 2017 þar sem nýjar upplýsingar hafi ekki gefið tilefni til breytinga.

Kærandi hafi ekki verið talin uppfylla skilyrði staðals um hæsta örorkustig en skilyrði til örorkustyrks hafi verið talin uppfyllt og hann því veittur.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 31. júlí 2017 þar sem fyrri ákvarðanir stofnunarinnar um synjun á örorkulífeyri og tengdum greiðslum voru látnar standa óbreyttar, en skilyrði til varanlegs örorkustyrks talin uppfyllt og hann því veittur. Ágreiningur snýst um það hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá stofnuninni samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Samkvæmt fylgiskjalinu fjallar fyrri hluti örorkustaðalsins um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá 15 stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni. Þar leggjast öll stig saman og þarf umsækjandi að fá 10 stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann 6 stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Fyrir liggur að á síðustu tveimur árum hefur kærandi þrisvar sinnum gengist undir skoðun hjá skoðunarlækni í tengslum við umsókn um örorkulífeyri. Í málinu liggja meðal annars fyrir læknisvottorð vegna umsókna um endurhæfingarlífeyri, vottorð vegna umsókna um örorkulífeyri, spurningalistar með svörum kæranda vegna færniskerðingar, skýrslur frá skoðunarlæknum og gögn frá VIRK starfsendurhæfingarsjóði.

Samkvæmt læknisvottorði C, dags. 12. desember 2016, eru sjúkdómgreiningar kæranda eftirfarandi: Höfuðverkur, langvinn magabólga, ótilgreind, langvinn skútabólga og geðlægðarlota, ótilgreind. Í vottorðinu segir meðal annars um sjúkrasögu kæranda:

„Hún hefur verið að berjast við króníska sinusita síðustu fimm ár. Verið hjá D HNE lækni núna síðustu árin. Var í aðgerð þar sem var opnað inn á sinusa fyrir circa X árum síðan. Var hjá honum núna X.16. en þá greinist graftarsull í sphenoidal sinus og bólga í vinstri sphenoidal sinus á TS. Hún hefur á þessu tímabili verið á stöðugum og endurteknum sýklalyfjakúrum en ekkert virðist hafa hjálpað. Hún hefur samfara þessu og einnig haft versnandi einkenni af þunglyndi enda eðlilegt. Hún hefur fundist hún vera gjörsamlega óstarfhæf, með stöðugan höfuðverk og óþægindi út af þessum sýkingum. Hún hefur reynt þunglyndislyfjameðferð en það hefur ekki gefið neina hjálp enda hefur hún haft sín líkamlegu einkenni alla tíð. Hún er allt önnur manneskja heldur en hún var. Hún er úthaldslaus, þreytt, áhugalaus, framtakslaus, sefur illa vegna verkja. Hún skorar 16 stig á Beck´s þunglyndisskalanum en það er lagt skor. Hún sveiflast mikið. Það er ekki í hennar persónu að kvarta og gerir þá frekar minna út hlutunum en er. Grætur hér undir samtalinu. Sé því ástæðu til að ítreka umsókn um örorku til Tryggingastofnunar.“

Í læknisvottorði sama læknis, dags. 15. maí 2017, er jafnframt getið um eftirfarandi sjúkdómsgreiningu: Önnur einkenni og teikn sem taka til vitsmunastarfsemi og vitundar. Þá segir meðal annars svo um fyrra heilsufar kæranda:

„Kvartar um óþægindi aðallega vinstra megin í höfði, suð í höfði, dofa, höfuðverkur nær alla daga. Finnst verkirnir verri og þegar hún fær verki missir hún einbeitingu. Verkjaleiðni stundum aftur í hnakka. Kveðst eiga erfitt með að meðtaka og muna nýja hluti. Hefur miklar áhyggjur af bakteríum í höfði og maga og telur þær sé lykil atriði af hennar vanlíðan. Verið á endurteknum sýklalyfjakúrum og er nú á verkjalyfjum. Einnig með kalkanir í kransæðum og í eftirliti hjartalæknis. Hefur þróað með sér þunglyndi og orðið fyrir […] og verið á […]. Verið að léttast töluvert undanfarin ár. Hún er úthaldslaus, þreytt og áhugalaus og sefur illa.“

Í sérhæfðu mati VIRK, dags. 21. júlí 2015, segir meðal annars svo í klínísku mati sálfræðings:

„Tel að það sé kannski ekki mikið hægt að gera fyrir A út frá sálfræðilegum viðtölum. Hún er töluvert óskipulögð í frásögn og gríðarlega erfitt að halda henni í ákveðnum ramma. Aðspurð um hvað hún þyrfti að vinna með sagðist hún ekki almennilega vita það annað en að spjalla og sættast við þá erfiðleika sem hún hefur gengið í gegnum vegna [...].

Samkvæmt greiningarviðmiðum MINI uppfyllir A EKKI skilmerki fyrir geðröskun: Hún var orðin slæm af verkjum í vetur/vor en telur sig ekki hafa verið með dæmigerð þunglyndiseinkenni. Segist ekki finna fyrir kvíða en upplifir það fremur sem streitu sem tengist aðstæðum og líkamlegum veikindum. ADHD skimun kom ekki afgerandi út þrátt fyrir vísbendingar um athyglisbrest. Sjálfsmatskvarði fyrir minnisvanda kom einnig út innan eðlilegra marka sem er athyglisvert í ljósi þess að A kvartar undan erfiðleikum með minni.

Að mati sálfræðings er andleg staða A ekki fyrirstaða fyrir endurkomu til vinnu. A hefur átt ágæta vinnuspretti í gegnum tíðina og engin ástæða til að ætla annað en að hún ráði við það enn ef og þegar líkamleg heilsa er orðin betri. Samkvæmt upplýsingum úr viðtali upplifir hún jákvæðar breytingar á sér eftir að hún fór á flogaveikislyf og því er líklegt að hægt sé að stefna að útskrift í haust frá VIRK yfir í atvinnuleit. A er töluvert stefnulaus og fljótandi og því spurning hvort markþjálfun eða sambærilegt úrræði gæti hentað við að koma á stefnu í hennar málum.“

Í spurningalista með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 16. desember 2016, nefnir kærandi að hún hafi verið með endalausar sýkingar og sveppi í höfði í fjögur ár. Hún búi við höfuðverk, dofa, suð á hverjum degi í þrjú ár, minnisleysi, og heleco bakteríur í maga eftir eitt ár á pensilíni. Hún þurfi að fara í magaspeglun aftur. Einnig nefnir hún mjólkurofnæmi og kransæðasjúkdóm. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa svarar hún þannig að hún fái mikinn þrýsting í höfuðið. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að hún verði verri í höfðinu við áreynslu og mikla hreyfingu, enda nýbúin að vera með vonda bakteríu lengst upp í höfðinu í litlum skúta sem var opnað í aðgerð. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með sjón svarar hún þannig að hún sé búin að fara í laser […] og þurfi lestrargleraugu. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með heyrn neitandi en nefnir að hún sé með smá missi á öðru eyra. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum vegna meðvitundarmissis svarar hún þannig að það líði yfir hana í sársauka og þegar hún […], en það hafi minnkað með árunum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með stjórn á hægðum neitandi en nefnir að hún sé búin að fara í þrengingu við endaþarm og milli legs og endaþarms. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með stjórn á þvaglátum svarar hún neitandi en nefnir að hún sé farin að vakna og þurfi að passa að það leki ekki. Að lokum svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríðandi játandi og nefnir að ástand hennar hafi haft niðurdrepandi áhrif mjög lengi, allavega í tvö ár, og einnig nefnir hún mikið þrekleysi.

Samkvæmt skýrslu E skoðunarlæknis, sem átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins 28. febrúar 2017, telur skoðunarlæknir að líkamleg færniskerðing kæranda samkvæmt örorkustaðli sé sú að hún missi þvag stöku sinnum. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu samkvæmt örorkustaðli. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi og hún kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu samkvæmt örorkustaðli.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda með eftirfarandi hætti í skýrslu sinni:

„X ára kona, útlit svarar til aldurs, litarháttur er eðlilegur. Hún er X cm, X kg, BMI 24. Göngulag er eðlilegt. Hreyfigeta og kraftar eru eðlileg. Fer með hendur í gólf í frambeygju með bein hné. Það er engin líkamleg færniskerðing skv. staðli TR, nema þvagleki stöku sinnum við áreynslu. Hún virðist ekki kvefuð í dag.“

Um geðheilsu kæranda segir í skýrslunni:

„Saga um vægt þunglyndi, kvíða og svefntruflanir, sem hún er með lyfjameðferð við. Er orðin langþreytt á krónískum sýkingum í sinusum, meðferðum við og aðgerðum, og finnst hún ekki treysta sér í vinnu. Kvartar um byrjandi minnistruflanir, og að hún haldi ekki þræði við lestur. Hún er hrædd við, að hún sé að fá […], því móðir hennar var greind með það frá X ára aldri. Í viðtali er hún í andlegu jafnvægi, gefur góðan kontakt og góða sögu, og ég verð ekki vör við minnistruflanir. Hún kemur vel fyrir. Geðslag virðist eðlilegt. Engar ranghugmyndir.“

Í athugasemdum skýrslunnar segir:

„X ára fráskilin, einstæð kona, sem hefur ekki [...], og hefur starfað við ýmis [...] störf, en lítið verið á vinnumarkaði s.l. ca. 3 ár. Hún hefur verið að glíma við þráláta sinusita s.l. 5 ár, með endurteknum sýkingum af ýmsu tagi, og farið í nokkrar útskolanir og í aðgerðir til að opna upp og bæta frárennsli og verið mikið á ýmsum fúkkalyfjum. Hún er með vægt þunglyndi og kvíða og er á lyfjum við. Hún kvartar um minnistruflanir. Hún er með nánast enga líkamlega færniskerðingu skv. staðli TR, og litla andlega. Hún er greind með ýmis ofnæmi, en ekki þurft lyf við seinni árin. Hún hefur verið greind með kransæðaþrengingar, og hækkun á kólesteróli, og tekur t. Hjartamagnýl, og er í eftirliti hjá hjartalækni.“

Í málinu liggja einnig fyrir tvær eldri skoðunarskýrslur. Samkvæmt skýrslu F skoðunarlæknis, sem átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins 14. október 2016, telur skoðunarlæknir að líkamleg færniskerðing kæranda samkvæmt örorkustaðli sé ósjálfræður meðvitundarmissir eða breyting á meðvitund að minnsta kosti tvisvar undanfarið hálft ár. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu samkvæmt örorkustaðli. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að einbeitingarskortur valdi því að kærandi taki ekki eftir eða gleymi hættu sem geti stafað af heimilistækjum eða öðru í umhverfinu. Þá telur skoðunarlæknir að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf og að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu samkvæmt örorkustaðli.

Samkvæmt skýrslu G skoðunarlæknis, sem átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar 17. maí 2016, telur skoðunarlæknir að líkamleg færniskerðing kæranda samkvæmt örorkustaðli sé engin. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún naut áður. Einbeitingarskortur valdi því að kærandi taki ekki eftir eða gleymi hættu sem geti stafað af heimilistækjum eða öðru í umhverfinu. Geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf. Andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Þá kvíði kærandi því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu E matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skýrslu skoðunarlæknis gefur líkamleg færniskerðing kæranda samkvæmt örorkustaðli ekki stig. Að mati skoðunarlæknis er andleg færniskerðing kæranda sú að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt staðli. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt staðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til 2 stiga.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Fyrir liggur samkvæmt gögnum þessa máls að fjögur örorkumöt hafa verið framkvæmd hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna umsókna kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Þar af hefur kærandi í þrjú skipti gengist undir mat hjá skoðunarlækni. Fyrsta matið var framkvæmt 14. júní 2016 og hið síðasta 31. júlí 2017. Samkvæmt þeim öllum uppfyllir kærandi ekki skilyrði staðals um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við skýrslu E skoðunarlæknis og leggur hana til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndar að þar sem kærandi fékk engin stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og 2 stig úr þeim hluta staðals sem varðar andlega færni, þá uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta