Nr. 1269/2024 Úrskurður
Hinn 18. desember 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 1269/2024
í stjórnsýslumálum nr. KNU24070078
Kæra [...]
á ákvörðun Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 8. júlí 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. júní 2024, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í fjögur ár.
Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að endurkomubann hans verði markaður skemmri tími.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, ásamt síðari breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt samantekt úr dagbók lögreglu, dags. 10. desember 2024, hafði lögregla afskipti af kæranda á Keflavíkurflugvelli þegar hann var á ferð um ytri landamæri Schengen-svæðisins við komu til landsins 31. mars 2024 frá [...], Bretlandi. Aðspurður kvaðst kærandi ætla að dvelja á Íslandi til 5. apríl 2024 og sýndi lögreglu farmiða til Vínarborgar og gistibókun á tilgreindu gistiheimili í Reykjavík frá 31. mars til 5. apríl 2024. Þá hafi hann greint frá því að hafa samtals [...] evrur á tveimur greiðslukortum. Um ferðaáætlun hafi kærandi haft hug á því að heimsækja miðbæ Reykjavíkur, njóta matar og drykkjar og mögulega stunda ferðamennsku. Eftir að lögregla hafði gengið úr skugga um bókanir kæranda fyrir flugi og gistingu hafi honum verið heimiluð landganga. Samkvæmt samantektinni hafi lögregla fengið upplýsingar 11. apríl 2024 þess efnis að kærandi hafi ekki mætt í bókað flug sitt til Vínarborgar 5. apríl 2024.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum átti kærandi bókaðan farmiða, dags. 23. júní 2024 til Manchester, Bretlandi, en flugi hans hafi verið aflýst. Sama dag hafi kærandi verið handtekinn vegna gruns um sölu og dreifingu fíkniefna ásamt peningaþvætti og hann boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu 24. júní 2024. Í skýrslutöku hafi kærandi jafnframt verið spurður út í dvöl sína á Íslandi en á þeim tímapunkti hafi fyrirhuguð sex daga dvöl verið orðin 85 daga dvöl. Sama dag hafi tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann verið birt fyrir kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og kæranda veittur þriggja daga frestur til þess að leggja fram andmæli. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, dags. 24. júní 2024, var kæranda gert að sæta gæsluvarðhaldi, þó ekki lengur en til mánudagsins 8. júlí 2024, sbr. g-lið 1. mgr. 115. gr. laga um útlendinga. Með úrskurði Landsréttar nr. 527/2024, dags. 27. júní 2024, var fyrrgreindur úrskurður Héraðsdóms Reykjaness verið staðfestur.
Með hliðsjón af áðurnefndum fresti til andmæla lagði kærandi fram greinargerð hjá Útlendingastofnun 27. júní 2024 þar sem því var hafnað að skilyrði brottvísunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga væru uppfyllt. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. júní 2024, var kæranda gert að sæta brottvísun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, og endurkomubanni til fjögurra ára, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Þá var kæranda ekki veittur frestur til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. e-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Fram kom í hinni kærðu ákvörðun að Útlendingastofnun taldi kæranda hafa af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar þegar lögregla hafði afskipti af honum 31. mars 2024. Þá hafi síðari afskipti lögreglu leitt í ljós að kærandi hafi varið tíma sínum á Íslandi við meinta dreifingu fíkniefna og peningaþvætti. Í því samhengi hafi hann m.a. neitað að sýna fram á hvernig framfærslu hans hafi verið háttað á dvalartímanum auk þess sem hann hafi ekki viljað upplýsa um uppruna fjármagns og úttektir í hraðbanka. Við skoðun lögreglu á farsíma hafi kærandi samtals millifært um [...] krónur frá Íslandi en við afskiptin 23. júní 2024 hafi kærandi haft meðferðis [...] sterlingspund, [...] evrur, [...] krónur og [...] albanskar lerur, en þegar hann kom til landsins hafði hann um 1.500 evrur á tveimur greiðslukortum. Hafi skoðun á farsíma kæranda einnig leitt í ljós að kærandi hafi mælt sér mót við aðila vegna kaupa á allt að [...] af meintum fíkniefnum.
Ekki liggur fyrir með ótvíræðum hætti hvenær ákvörðun var birt fyrir kæranda en í birtingarvottorði kemur fram að birting hafi farið fram 26. júní 2024. Í greinagerð tilgreinir kærandi að birting hafi farið fram 28. júní 2024 en í málaskrá Útlendingastofnunar kemur fram að birting hafi farið fram 29. júní 2024. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 8. júlí 2024 og verður því lagt til grundvallar að kæra hafi í öllu falli verið lögð fram innan kærufrests. Hinn 16. júlí 2024 lagði kærandi fram greinargerð og frekari fylgigögn vegna málsins. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 26. nóvember 2024, óskaði nefndin eftir skýringum og gögnum af hálfu kæranda sem varpa gætu betra ljósi á dvöl hans frá 5. apríl 2024 til 23. júní 2024. Fyrirspurn kærunefndar laut að þremur atriðum, í fyrsta lagi skýringum á breyttum áfangastað vegna flugs frá landinu, í öðru lagi óskaði nefndin eftir gögnum á borð við millifærsluyfirlit vegna framfærslu kæranda hér á landi, og í þriðja lagi óskaði nefndin eftir gögnum og upplýsingum um gistingu kæranda frá 5. apríl til 23. júní 2024, t.a.m. staðfestingu á gistibókunum. Kærandi lagði fram frekari skýringar með tölvubréfi, dags. 6. desember 2024.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til fyrirliggjandi ákvörðunar Útlendingastofnunar og kröfugerðar hans. Kærandi vísar til afskipta lögreglu, sem hafi spurst fyrir um tilgang dvalar hans, ferðaáætlun og framfærslu. Kærandi hafi svarað lögreglu skilmerkilega og greint frá flugbókun til Austurríkis, 5. apríl 2024. Kærandi hafi síðar tekið ákvörðun um að dvelja lengur hér á landi til þess að skoða landið betur og bókaði hann flug til Bretlands 23. júní 2024, þar sem hann hefur dvalar- og atvinnuleyfi í gildi. Flugi hans hafi aftur á móti verið aflýst og kærandi í kjölfarið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Kærandi vísar til upplýsinga sem fram koma í skýrslutöku hjá lögreglu varðandi dvöl sína og framfærslu. Hann kveðst hafa viljað stunda atvinnu á Íslandi en áttað sig á því að hann gæti það ekki án tilskilinna leyfa. Hafi hann þá ákveðið að yfirgefa landið, en gætt að lögbundinni hámarksdvöl og kveðst hafa fengið þær upplýsingar frá landamæravörðum að honum væri heimilt að dvelja á Íslandi í allt að 90 daga án dvalarleyfis.
Til stuðnings aðalkröfu sinni vísar kærandi til lagaskilyrða fyrir brottvísun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til afskipta við landamæraeftirlit 31. mars 2024 og kveðst hafa veitt nægjanlegar upplýsingar og þar af leiðandi verið heimiluð landganga. Hann kveðst oft og ítrekað hafa spurt lögregluþjóna um hversu lengi honum væri heimilt að dvelja að hámarki og hafi honum verið tjáð að hann gæti dvalið í allt að 90 daga. Kærandi kveðst hafa ákveðið í skyndi að hætta við brottför 5. apríl og þess í stað bókað sér flug til Bretlands 23. júní 2024. Hann hafi haft brottfararspjald undir höndum en vegna þess að fluginu hafi verið aflýst hafi tilviljun ein ráðið því að kærandi hefði verið handtekinn. Kærandi vísar til þess að honum hafi láðst að greina lögreglu frá því við afskipti á Keflavíkurflugvelli að ferðaáætlun hans gæti breyst en það gæti ekki talist til stórkostlegs gáleysis eða jafnvel ásetnings. Kærandi kveðst ekki hafa ætlað að afvegaleiða lögreglu með farmiðabókun sinni til Austurríkis, dags. 5. apríl 2024, heldur hafi það verið raunveruleg áætlun hans að fara úr landi þann dag. Þótt upplýsingar kæranda hafi verið misvísandi og mögulega efnislega rangar, hafi þær þó ekki verið augljóslega villandi, líkt og ákvæði b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga áskilur.
Kærandi vísar einnig til þess að hafa haft takmarkað magn reiðufjár við komu til landsins en við síðari afskipti lögreglu hafi hann haft talsvert meira magn reiðufjár meðferðis sem hann kvaðst hafa fengið með launagreiðslum. Þá kveðst kærandi hafa fengið aðstoð ættingja sinna, auk þess sem hann hafi nýtt sér sparifé sitt til framfærslu. Þá hafi kærandi ekki viljað sýna lögreglu samstarfsvilja þegar lögregla hafði afskipti af honum og vísar til þeirrar skýringar um launagreiðslu á þá leið að sparifé hans eigi uppruna að rekja til atvinnu í Albaníu og Bretlandi. Kærandi kveður misvísandi upplýsingagjöf sína við lögreglu hafa verið almennt gáleysi, en tekur fyrir að í því felist stórkostlegt gáleysi eða ásetningur hafi staðið til þess að villa um fyrir stjórnvöldum. Hann hafi t.d. aldrei ætlað sér að dvelja lengur en sem nemur lögbundnu hámarki og því bókað flug frá landinu sem tók mið af 85 daga dvöl. Telur kærandi að meta eigi ranga upplýsingagjöf honum í hag í ljósi aðstæðna þar sem hann hafi ekki haft ásetning um að afvegaleiða lögreglu eða stjórnvöld. Jafnframt verði að játa ferðamönnum svigrúm til þess að gera breytingar á ferðaáætlunum, en þó innan marka lögmætrar dvalar.
Framangreindu til viðbótar telur kærandi að líta verði á brot hans með hliðsjón af 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga en hann telji þau ekki alvarleg og að það væri ósanngjörn ráðstöfun gagnvart honum að gera honum að sæta brottvísun og endurkomubanni. Kærandi kveðst t.a.m. hafa fengið þær upplýsingar frá lögreglu að rannsókn á meintu fíkniefnabroti færi ekki lengra en þegar hefur verið gert, og telur hann miklar líkur á að rannsókn málsins verði hætt. Þá sé ekki annað en skilaboð í síma hans sem styðji grun lögreglu. Kærandi bendir á að Útlendingastofnun hafi borið að líta hjá slíkri rannsókn við ákvörðun sína og nálgast málið eingöngu út frá framburði kæranda við afskipti á Keflavíkurflugvelli. Kærandi telur stofnunina á hinn bóginn hafa látið þær aðstæður sem kærandi hafi fundið sig í stjórnað ákvarðanatökunni. Hefði meint fíkniefnabrot verið grundvöllur brottvísunar þá bæri Útlendingastofnun að taka ákvörðun á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Eins og þegar hefur komið fram geti einfalt gáleysi kæranda að upplýsa lögreglu ekki um mögulegar breytingar á ferðaáætlun ekki leitt til brottvísunar enda nái það ekki því alvarleikastigi sem b-liður 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga áskilur. Loks bendir kærandi á að ákvörðun um brottvísun sé íþyngjandi og hafi Útlendingastofnun borið að gæta meðalhófs.
Til vara krefst kærandi þess að endurkomubanni hans verði markaður skemmri tími. Því til stuðnings vísar hann til þess að hafa átt bókaðan farmiða úr landi 23. júní 2024, og hafði þá dvalið í 85 daga, en honum hafi verið heimilt að dvelja í allt að 90 daga. Þá vísar kærandi til aðstæðna sem hann hafði ekki stjórn á vegna flugsins sem hafi verið aflýst. Þá komi ekki fram rökstuðningur fyrir fjögurra ára endurkomubanni kæranda, að undanskilinni tilvísun til alvarleika brota hans. Í því samhengi vísar kærandi til þess að brot hans hafi ekki náð þeim alvarleikaþröskuldi að heimilt sé að brottvísa honum. Kærandi vísar til lagaskilyrða fyrir endurkomubanni þar sem áskilið er að það taki mið af einstaklingsbundnum aðstæðum hverju sinni. Fram kemur í 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga að endurkomubönn skuli að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, en ekki lengur en fimm ár. Kærandi telur það verulega úr hófi að endurkomubann hans sé nálægt almennu hámarki. Í því samhengi lítur kærandi til ákveðinnar stigmögnunar í brottvísunarheimildum, sbr. a-f-liðir 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að brot sitt felist í einföldu gáleysi varðandi upplýsingagjöf við komu til landsins og í því ljósi sé fjögurra ára endurkomubann úr hófi en kærandi telur tveggja ára endurkomubann nær meðalhófi með hliðsjón af einstaklingsbundnum aðstæðum.
Með tölvubréfi kæranda, dags. 6. desember 2024, voru færðar fram skýringar vegna fyrirspurna kærunefndar, sbr. tölvubréf nefndarinnar dags. 26. nóvember 2024, sem vísað er til í málsatvikalýsingu. Í tölvubréfinu eru aðeins áréttuð þau atriði sem komu fram í greinargerð kæranda enda hafði talsmaður ekki fengið svör frá kæranda og var honum því ómögulegt að leggja fram frekari skýringar eða gögn.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna, hefur af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögunum eða kemur sér hjá því að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að í b-lið felist heimild til að vísa útlendingi brott ef hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna. Hér undir myndu sem fyrr geta fallið fleiri en eitt brot gegn lögunum sem hvert fyrir sig teldist ekki alvarlegt.
Í málinu reynir á hvort kærandi hafi af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum um útlendinga, en ekkert í gögnum málsins bendir til þess að hann hafi komið sér hjá því að hlíta ákvörðun um að yfirgefa landið, né brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna. Af atvikum málsins er ljóst að kæranda bar að gefa sig fram á landamærastöð við komu til landsins og sæta landamæraeftirliti enda um að ræða för yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um landamæri. Til þess að vera heimiluð landganga hafi kærandi jafnframt þurft að uppfylla skilyrði 106. gr. laga um útlendinga, ásamt 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri. Þá byggir heimild til ítarlegs eftirlits útlendings, sem hvorki er EES- né EFTA-borgari á 8. gr. reglugerðar um för yfir landamæri. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er ljóst að landamæraeftirlit gagnvart kæranda laut einkum að c-, og d-liðum 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri. Um það vísast til gagna er varða gistingu á Íslandi, farmiða úr landi, framfærslugagna, og einhvers konar vísis að ferðaáætlun.
Fyrir liggur að dvöl kæranda tók umtalsverðum breytingum eftir komu til landsins en ekki er um það deilt að kærandi dvaldi lengur í landinu en hann greindi frá við komuna. Kærandi hefur þó borið fyrir sig heimild til dvalar í allt að 90 daga og heimildar til þess að gera breytingar á ferðaáætlun sinni, innan lagalegra marka. Kærandi hefur jafnframt borið fyrir sig að um einfalt gáleysi sé að ræða sem nái ekki slíku alvarleikastigi að réttlæta brottvísun. Þá hafi hann haft ásetning til að yfirgefa landið, sbr. brottfararspjald til Manchester, dags. 23. júní 2024, og lýsir aðstæðum þar sem hann var sakaður um fíkniefnabrot og peningaþvætti sem íþyngjandi og erfiðum. Af gögnum málsins má ráða að málsmeðferð Útlendingastofnunar, með hliðsjón af undirbúningi lögreglu, miðaði að því að upplýsa málið og gera kæranda kleift að greina frá aðstæðum sínum og málsatvikum. Þá hafi skýrslutaka lögreglu, dags. 24. júní 2024, sem fram fór að viðstöddum túlki og tilnefndum verjanda, m.a. lotið að ferðatíma kæranda á Íslandi, atvinnu, framfærslu, og peningasendingum úr landi. Bera gögn málsins hvorki með sér að kærandi hafi verið ákærður né sakfelldur fyrir meint fíkniefnabrot sem rannsókn lögreglu fjallaði m.a. um, en almennt fer um brottvísun vegna refsiverðrar háttsemi samkvæmt d-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga.
Kærandi hafði heimild til dvalar í allt að 90 daga hér á landi, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 8. gr. reglugerðar um útlendinga. Samhliða því verður að játa honum svigrúm til breytinga á ferðahögum í samræmi við almennar ferðavenjur. Þrátt fyrir það er ljóst að kærandi framlengdi ferð sína ekki um nokkra daga vegna afmarkaðs tilgangs eða heimsókna á tiltekna ferðamannastaði heldur fjölgaði ferðadögum kæranda fjórtánfalt. Í samræmi við það hafi fullyrðingar og fylgigögn kæranda, sem lögð voru fram við landamæraeftirlit, byggst á forsendum sem ekki stóðust, enda tóku gögnin mið af fyrirhugaðri sex daga dvöl.
Þá var með skýrslutöku hjá lögreglu reynt að skýra betur tilgang fyrir dvöl kæranda. Í skýrslutökunni kom m.a. fram að kærandi væri grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna auk peningaþvættis. Aðspurður um dvöl sína hér á landi kvaðst kærandi ekki hafa stundað atvinnu en hafi þó reynt að finna sér vinnu sem hafi ekki tekist. Þá var kærandi tvísaga um atvinnustöðu sína í Bretlandi en í fyrstu kvaðst hann vinna þar sem sendibílstjóri, en aðspurður um frí frá vinnu til þriggja mánaða breytti kærandi framburði sínum og vísaði til vandamála með ökuskírteini sitt sem hafi leitt til þess að hann hafi ekki getað unnið. Þá bar lögregla saman fjármuni kæranda sem hann hafði undir höndum 23. júní 2024 í samanburði við 31. mars 2024. Aðspurður kvaðst kærandi ekki hafa tekið fjármuni út af greiðslukortum sem hann hafi framvísað 31. mars 2024 en þess í stað þegið fjármuni í gegnum peningasendingarfyrirtækið [...]. Í skýrslutökunni var kærandi spurður út í tvær peningasendingar samtals að verðmæti [...] króna frá Íslandi í gegnum greiðslumiðlunarfyrirtækin [...] og [...] en kærandi vildi ekki greina frá uppruna fjármunanna. Hann breytti þó síðar framburði sínum og kvaðst hafa fengið fjármuni senda frá Englandi sem hann hafi síðan sent fjölskyldu sinni í Albaníu. Við afskipti lögreglu 31. mars 2024 greindi kærandi frá fjármunum á greiðslukortum sem hafi verið í evrum en við afskipti 23. júní 2024 var kærandi allt að einu með undir höndum evrur, sterlingspund, íslenskar krónur, og albönsk lek. Gjaldmiðillinn albönsk lek fæst ekki hjá íslenskum fjármálastofnunum auk þess sem Seðlabanki Íslands skráir ekki opinbert viðmiðunargengi hans. Um gistingu kvaðst kærandi hafa gist á heimilum fólks og borgað lágar upphæðir í hvert skipti en að hann hafi verið sendur þangað af mönnum sem hann þekkti á Íslandi. Þá greindi kærandi frá því að hafa tekið við fíkniefnum af hálfu tveggja til þriggja aðila, í nokkur skipti á kaffihúsi í miðbænum, og dreift til annarra aðila en hafnaði því að hafa fengið greitt fyrir það. Þá heimilaði kærandi lögreglu ekki frekari gagnaöflun af hálfu fjarskiptafyrirtækja, fjármálastofnana, né afritun farsímagagna.
Samkvæmt framansögðu er ljóst að fjármál kæranda voru nokkuð óreiðukennd og lagði kærunefnd fyrir kæranda að leggja fram gögn sem varpað gætu skýrara ljósi á framfærslu hans hérlendis. Enn fremur eru skýringar kæranda á gistingu nokkuð óljósar en samkvæmt framburði hjá lögreglu hafi aðilarnir sem útveguðu honum fíkniefnin verið þeir sömu og útveguðu honum gistingu á meðan á dvöl hans stóð. Ekki er rökrétt framhald á gistingu hans miðað við upplýsingar sem kærandi gaf við landamæraeftirlit, og því lagði kærunefnd fyrir kæranda að leggja fram upplýsingar og gögn sem sýndu fram á gistingu hans frá 5. apríl til 23. júní 2024. Kærandi lagði ekki fram frekari skýringar eða gögn til stuðnings málatilbúnaði sínum.
Með vísan til framangreinds er ljóst að kærandi færði fram efnislega rangar skýringar og upplýsingar sem reyndust villandi þegar lögregla hafði afskipti af honum við landamæraeftirlit, en um skyldu kæranda til upplýsingagjafar vísast m.a. til 106. gr. laga um útlendinga, 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri, með hliðsjón af 2. mgr. 9. gr. laga um landamæri. Framburður kæranda á síðari stigum, m.a. í skýrslutöku hjá lögreglu og greinargerð hjá kærunefnd, er verulega misvísandi miðað við fyrri upplýsingar. Þá fékk kærandi jafnframt tækifæri til þess að leggja fram gögn sem stutt gætu málatilbúnað hans sem hann brást ekki við. Verður því lagt til grundvallar að málatilbúnaður kæranda á kærustigi, með hliðsjón af atvikum málsins, sé ótrúverðugur í meginatriðum. Í skýrslutöku hjá lögreglu kemur m.a. fram að kærandi hafi dreift fíkniefnum fyrir nokkra aðila, en hafnar því þó að hafa fengið greitt fyrir það, en sömu aðilar höfðu jafnframt milligöngu um að útvega kæranda gistingu hér á landi. Samkvæmt framansögðu hafa orðið umtalsverðar breytingar á ferðahögum kæranda miðað við upplýsingar sem hann gaf við landamæraeftirlit og má leiða að því líkum að kæranda hefði ekki verið heimiluð landganga og honum frávísað frá landinu, t.a.m. á grundvelli c-, d-, eða e-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga hefði hann greint satt og rétt frá fyrirhugaðri dvöl sinni þegar honum bar að gera það.
Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að kærandi hafi, af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum um útlendinga, og eru skilyrði til brottvísunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga uppfyllt.
Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Ekkert í gögnum málsins eða málatilbúnaði kæranda bendir til þess að 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga standi í vegi fyrir brottvísun kæranda.
Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Í ákvæðinu kemur fram að endurkomubann skuli að jafnaði ekki vara lengur en fimm ár og eigi skemur en tvö ár. Þó geti endurkomubann varað lengur en fimm ár þegar útlendingur telst ógn við öryggi ríkisins, almannaöryggi eða allsherjarreglu. Við ákvörðun um lengd endurkomubanns skuli litið til einstaklingsbundinna aðstæðna hverju sinni. Í hinni kærðu ákvörðun var kæranda gert að sæta endurkomubanni til fjögurra ára en varakrafa kæranda lýtur að styttingu endurkomubannsins. Að teknu tilliti til atvika málsins, og úrskurðarframkvæmdar kærunefndar í málum vegna b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga telur nefndin hæfilegt að kærandi sæti endurkomubanni til tveggja ára.
Samkvæmt 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga skal að jafnaði veita útlendingi frest í 7-30 daga til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Samkvæmt e-lið ákvæðisins er m.a. heimilt að veita styttri frest eða fella hann niður í tilvikum þegar útlendingi er vísað úr landi á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Að teknu tilliti til málsatvika telur nefndin rétt að fella frest kæranda til sjálfviljugrar heimfarar niður með vísan til e-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Þá lítur kærunefnd einnig til þess að endurkomubanni er m.a. bæði ætlað að hafa almenn og sérstök varnaðaráhrif gagnvart brotum á ákvæðum laga um útlendinga.
Að teknu tilliti til 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga hefst endurkomubann til landsins þann dag sem útlendingur er færður úr landi. Athygli kæranda er jafnframt vakin á því að samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga er heimilt, samkvæmt umsókn þar um, að fella endurkomubann úr gildi hafi aðstæður breyst frá því ákvörðun um brottvísun var tekin.
Samantekt
Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun hvað varðar brottvísun kærenda frá landinu á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og niðurfellingu frests til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur staðfest. Endurkomubann kæranda skal vera tvö ár.
Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest hvað varðar brottvísun kæranda. Endurkomubann kæranda er ákveðið tvö ár.
The decision of the Directorate of Immigration regarding the appellant‘s expulsion is affirmed. The appellant‘s entry ban shall be two years.
Valgerður María Sigurðardóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares