Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 62/2003

Þriðjudaginn, 17. ágúst 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 11. september 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 8. september 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 20. ágúst 2003 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. ágúst sl., var synjað umsókn minni um fæðingarorlof. Þar sem synjun þessi er byggð á forsendum sem ekki fá staðist kæri ég ákvörðun þessa hér með og geri kröfu um að niðurstöðunni verði hnekkt og réttur minn til fæðingarorlofs á Íslandi verði viðurkenndur. Í synjun Tryggingastofnunar er á því byggt að ég hafi ekki verið á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag. Þetta er ekki rétt, þar sem ég var kennari við B-háskóla, sbr. hjálagða staðfestingu B-háskólans þar að lútandi. Um var að ræða svonefnda fjarkennslu, þar sem kennslan fer fram í tölvu yfir internet. Nemendur mínir eru á Íslandi (þó það sé í sjálfu sér ekki nauðsynlegt) og námið er við skóla á Íslandi. Kennslan fer fram í nafni B-háskólans og staðsetning mín sem starfsmanns B-háskólans breytir ekki þeirri staðreynd að kennslan er á Íslandi þó ég hafi verið staðsett í D-landi. Netið sem miðill gerir vinnumarkaðinn þannig sveigjanlegan, en líta verður svo á að innlendur vinnumarkaður sé þar sem starfsemin er og skólinn og nemendurnir sem kennslan fer fram við er í sveitarfélaginu E. Skólinn, B-háskólinn, er launagreiðandi minn greiðir skatta og skyldur af launagreiðslum til mín, sbr. hjálagt bréf RSK til B-háskólans. Ef frekari staðfestingar er þörf á því vísa ég til RSK. Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins er komist að þeirri niðurstöðu að starf mitt fullnægi ekki skilyrðum laganna og er vísað til staðgreiðsluskrár ríkisskattstjóra auk þess sem er vísað til þess að ég sé ekki skattskyld á Íslandi. Hér virðist fyrir að fara fákunnáttu starfsmanna Tryggingastofnunar. Fyrir það fyrsta er ég skattskyld á Íslandi samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Íslenska ríkið hefur gefið þennan skattlagningarétt eftir til D-lands í tvísköttunarsamningi sem gerður var á milli ríkjanna skv. 119. gr. sömu laga. Hvergi er í lögum kveðið á um að fæðingarorlof sé bundið því skilyrði maður greiði tekjuskatt til íslenska ríkisins. Aftur á móti er fæðingarorlofssjóður fjármagnaður af tryggingagjaldi og tryggingagjaldi ber launagreiðanda mínum að skila í ríkissjóð, sbr. hjálagt afrit af bréfi RSK til B-háskólans. Starfsmaður Tryggingastofnunar virðist ganga út frá því að hann geti séð í staðgreiðslukerfi ríkisskattstjóra hvort tryggingagjaldi hafi verið skilað af launum mínum. Þetta er misskilningur því samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra heldur það kerfi einungis utan um sundurliðanir á launþega hvað varðar staðgreiðslu opinberra gjalda. Staðgreiðsla af tryggingagjaldi er ekki sundurliðuð á launamenn og því það kerfi engin vísbending um það hvort tryggingagjaldi hafi verið skilað af launum. Eins og kemur fram í bréfi RSK til B-háskólans fer ekki saman staðgreiðsluskylda opinberra gjalda og tryggingagjalds þegar um er að ræða laun manna sem búsettir eru erlendis en starfa á íslenskum vinnumarkaði þar sem tvísköttunarsamningur kveður á um skattlagningarétt hins erlenda ríkis. Þetta er því beinlínis rangt í synjunarbréfi Tryggingastofnunar ríkisins.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er þess krafist að hnekkt verði niðurstöðu Tryggingastofnunar í máli þessu. Ef kærunefnd telur þess þörf að sannreyndar verði fullyrðingar mínar um tryggingagjald, kennslustörf mín í hinu íslenska menntakerfi eða annað það sem að framan er rakið vísa ég annars vegar til B-háskólans eða til RSK varðandi frekari upplýsingar.“

 

Með bréfi, dags. 15. október 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 27. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dags. 20. júní 2003 sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í 3 mánuði frá september 2003 vegna væntanlegrar fæðingar 24. september 2003. Með umsókninni fylgdu tilkynning um fæðingarorlof dags. 20. júní og 4. júlí 2003 þar sem tímabil fæðingarorlofs var tilgreint 1. september 2003 - 28. febrúar 2004 en ekki var tilgreint starfhlutfall síðustu 6 mánaða, staðfesting á því að hún hefði lokið doktorsnámi við háskólann í F-borg 27. nóvember 2001, bréf frá kæranda, ráðningarsamningur vegna starfs hennar við B-háskóla þar sem starfshlutfall var tilgreint 34%, launaseðill frá B-háskólanum fyrir desember 2000, D-lenskir launaseðlar og afrit af skattkorti þar sem staðfest var að hún væri ekki skattskyld af launatekjum hérlendis.

Í bréfi kæranda kom fram að hún hefði búið í F-borg í D-landi síðan 1997, fyrst vegna PhD náms við háskólann í F-borg sem hefði lokið í desember 2001. Hún væri í 34% stöðu við B-háskólann sem skv. meðfylgjandi ráðningarsamningi skiptist skv. kjarasamningi í 65% kennslu og 35% rannsóknum en til viðbótar ynni hún sem verkefnastjóri við Evrópuverkefnið G og sem afleysingakennari í hlutastöðu sem greidd sé af H-sjóði sem sé í vörslu fræðsluskrifstofu F-borgar. Sem verkefnastjóri væri hún í 33% stöðu sem greidd væri í gegnum háskólann í F-borg síðan 1. mars 2003.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 20. ágúst 2003 var kæranda synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að af gögnum sem hún hafi lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK sjáist að hún uppfylli ekki það skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) fyrir rétti til þeirra greiðslna að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns). Þar sem hún sé með lögheimili í D-landi og starfi þar teljist hún ekki vera á innlendum vinnumarkaði. Samkvæmt skattkorti RSK sé hún ekki skattskyld á Íslandi.

Samkvæmt upplýsingum í kæru felst starf kæranda hjá B-háskólanum í því að hún kenni við fjarkennslu þar sem kennslan fer fram í tölvu yfir internet. Þessi vinna hennar á sér þannig stað í D-landi þar sem hún er búsett.

Í greinargerð með frumvarpi til ffl. kemur fram í athugasemdum við 1. gr. að í stað þess að kveðið sé á um að foreldrar sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi eigi rétt á fæðingarorlofi eins og var í eldri lögum sé fallið frá búsetuskilyrðinu og gert nægilegt að viðkomandi starfi á íslenskum vinnumarkaði. Þetta sé einkum gert með tilliti til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði.

Í reglugerð Evrópusambandsins (ESB) nr 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja er í II. bálki kveðið á um að einstaklingur skuli að jafnaði einungis heyra undir löggjöf eins aðildarríkis hverju sinni. Fram kemur í 13.gr. 2.a) áðurnefndar rg. að einstaklingur sem ráðinn er til starfa í einu aðildarríki skuli að heyra undir löggjöf þess ríkis. þ.e. að þá eigi einstaklingurinn að falla undir löggjöf vinnulandsins, í þessu tilviki D-lands.

Kærandi er með lögheimili í D-landi og samkvæmt þeim upplýsingum sem hún hefur lagt fram er hún á D-lenskum vinnumarkaði þar sem vinna hennar fer að öllu leyti þar fram, hún fær greidd laun þar og hún er skattskyld þar. Samkvæmt reglugerð ESB nr. 1408/71 á hún að heyra undir löggjöf D-lands. Hún fullnægir þannig ekki því skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. að hafa verið á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns) og á ekki rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 3. febrúar 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi mótt. 12. mars 2004, þar segir m.a.:

„Í greinargerð Tryggingastofnunar dagsett 27. febrúar 2004 koma fram rangfærslur sem ég vil leiðrétta hér með.

1.                  Aðdragandi málsins, skattskylda

Ég útskrifaðist frá háskólanum í F-borg í desember 2001. Með því lauk aðstæðum mínum sem nemandi búsettum í D-landi gagnvart íslenskum lögum um búsetu og skattskyldu. Mér var boðin staða hjá B-háskólanum frá febrúar 2002 í 34% stöðuhlutfall sem J, sem ég samþykkti og hóf störf. Ég sótti um nýtt skattkort þá þar sem ég þurfti að endurnýja það gamla og gaf þá Ríkisskattstjóri út fullt skattkort á mig sem íslenskan borgara sem ég skilaði inn til B-háskólans. Samkvæmt því borgaði ég fullan skatt af launum mínum hjá B-háskólanum í rúmt ár eða þar til að Ríkisskattstjóri gerði sér grein fyrir þeirri villu sem átt hafi sér stað og gaf út 0% skattkort á mig frá og með maí 2003. Þetta var gert með ráðleggingum skattstjóra að ég myndi enn borga tryggingargjald til íslenska ríkisins þannig að ég myndi ekki missa réttindi mín til fæðingarorlofs þó svo að ég myndi frá þeim tíma borga skatta mína til D-lands þar sem ég bý núna. Samkvæmt þeim skilningi sem mér var kynntur á meðan að þessu skattamáli stóð var mér lofað að þessar aðgerðir myndu ekki skerða rétt minn til fæðingarorlofs samkvæmt íslenskum lögum um rétt til fæðingarorlofs. Ég væri í 34% starfi hjá íslenskum vinnuveitenda og borgaði tryggingargjald.

2.                  Skýringar á skattamálum, störfum og launum

Ég geri mér fulla grein fyrir því að aðstæður mínar í starfsmálum eru flóknar. Þess vegna vill ég reyna að útskýra þær hér.

Ég er eins og áður segir í 34% starfi hjá B-háskólanum sem skiptist í 65% kennslu og 35% rannsóknir. Fyrir þetta starf fæ ég greitt inn á launareikning minn á Íslandi. Ég greiði af þessu í íslenskan lífeyrissjóð og borga inn á íslenskan orlofsreikning. Fram að maí 2003 greiddi ég fullan skatt líka af þessum launum til íslenska ríkisins en greiði núna af þessum launum til D-lenska ríkisins.

Fram að maí 2003 var mér einnig greitt inn á sama reikning í gegnum B-háskólann laun sem ég þigg sem verkefnastjóri G-verkefnisins, sem er rekið í gegnum B-háskólann en með styrk frá K. Þetta eru önnur 34% sem leggjast á starf mitt. Vegna breytinga á skattskyldu minni og einnig vegna aðstæðna innan G-verkefnisins þá var ákveðið að laun mín vegna þessa verkefnis myndu frá og með maí fara í gegnum háskólann í F-borg sem er aðili að G-verkefninu og þar sem ég er starfandi sem I. Af þessum launum greiddi ég til íslenska ríkisins fram að maí 2003 en þar eftir til D-lenska ríkisins.

Í ofanálag hef ég einnig verið að vinna fyrir fræðsluskrifstofuna í F-borg, sem greiðir mér laun sem stundakennari og hef alltaf greitt af þeim launum til D-lenska ríkisins.

Samkvæmt þessu er ljóst að ég hef greitt íslenska skatta fram að maí 2003 í meira en ár, eða frá febrúar 2002 til maí 2003 í 68% starfi. En þetta gefur einnig til kynna að ég hef ekki unnið mér inn réttindi til fæðingarorlofs hjá D-lenska ríkinu þar sem ég hef ekki greitt nægilega mikil iðgjöld til að eiga rétt til þess, þar sem meirihluti af laununum mínum fór í gegnum íslenska ríkið fram að maí 2003...“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Með samfelldu starfi er átt við að foreldri þurfi að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 1. gr. ffl. segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem séu starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Samkvæmt lögunum er það ekki gert að skilyrði fyrir greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði að foreldri hafi átt lögheimili á Íslandi á viðmiðunartímabilinu. Ágreiningur í máli þessu varðar því það álitaefni hvort kærandi uppfylli skilyrði um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Kærandi ól barn 24. september 2003. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 24. mars 2003 til fæðingardags barns. Kærandi hefur búið í D-landi síðan 1997, en hún lauk þaðan námi við háskóla í F-borg í desember 2001. Hún hefur verið starfsmaður B-háskóla frá 1. febrúar 2002 í 34% starfi. Tímabundinn ráðningasamningur hennar við B-háskólann gildir til 31. janúar 2004. Einnig þáði hún laun sem verkefnastjóri G-verkefnis, sem rekið er af B-háskólanum en með styrk frá K. Af launum sínum hefur kærandi greitt skatta til íslenska ríkisins fram til maí 2003, en eftir þann tíma til D-lenska ríkisins. Hún hafði einnig unnið hjá fræðsluskrifstofunni í F-borg og greiddi skatta af þeim launum til D-lenska ríkisins.

Í gögnum málsins er staðfesting frá Ríkisskattstjóra, dags. 13. júní 2003 um að kærandi sé ekki skattskyld af launatekjum sínum á Íslandi. Af því tilefni sendi Ríkisskattstjóri B-háskólanum bréf dags. 13. júní 2003 þar sem fram kemur að frískattkortið hafi verið gefið út og samkvæmt því sé skólanum heimilt að greiða kæranda laun án þess að halda eftir staðgreiðslu opinberra gjalda. Ríkisskattstjóri bendir jafnframt á að þrátt fyrir það að laun hennar séu ekki skattlögð á Íslandi, myndi þau stofn til tryggingagjalds sbr. 6. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald. B-háskólanum beri því að greiða tryggingagjald hér á landi af launum kæranda.

Með hliðsjón af því sem fram er komið um störf kæranda og launatekjur frá B-háskólanum sem greitt hefur verið tryggingagjald af uppfyllir kærandi að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála það skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. að hafa verið í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Greiða ber kæranda greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði með hliðsjón af 2. mgr. 13. gr. ffl.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Greiða ber kæranda greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði með hliðsjón af 2. mgr. 13. gr. ffl.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta